Þriðjudagur 22.3.2011 - 08:02 - 8 ummæli

Sóknartækifæri ríkisstjórnarinnar

Ríkisstjórnin hefur nú sóknarfæri til að breyta sjálfri sér úr hálfgerðri minnihlutastjórn með flöktandi stuðningi eigin liðsmanna í öfluga ríkisstjórn sem hefur alla burði til að takast á við þau brýnu verkefni sem framundan eru.  Ekki síst vegna þess að IceSave málið mun verða úr sögunni helgina sem Framsóknarflokkurinn heldur flokksþing.

Brotthvarf Lilju Mósesdóttur og Atla Gíslasonar úr þingflokki VG gefur ríkisstjórninni svigrúm í huga kjósenda til að endurskipuleggja sig, leita liðsinnis Framsóknarflokksins og vinna nýjan stjórnarsáttmála. Niðurstaða verður þá komin í IceSave málið og áframhald þess máls einungis framkvæmdaratriði.  Það mun því ekki trufla Framsókn lengur.

Ríkisstjórnin veit að hún verður að gera ákveðnar breytingar á stjórnarsáttmálanum og breytingar á vinnubrögðum sínum til að geta tekist á við framtíðina. Að sumu leiti er einfaldara að gera slíka breytingu með því að taka nýjan aðila inn í ríkisstjórnina. Það gefur núverandi stjórnarflokkum „afsökun“ til að gefa eftir í einhverjum stefnumálum sínum.

Breyting á stjórnarsáttmála gerir Framsóknarflokknum einnig kleift að ganga til liðs við ríkisstjórnina án þess að ganga gegn eigin orðum.  Framsóknarmenn geta talað um nýja stjórn á nýjum grunni – núverandi stjórnarflokkar endurnýjaða vinstri stjórn með breyttum áherslum í takt við þróun þjóðmála.

Nú er það einungis spurningin hvort Jóhanna og Steingrímur J. hafa styrk, þor og vilja til að nýta sér þetta sóknarfæri.

Ég er viss um að Framsókn er til í að skoða málið að nokkrum atriðum uppfylltum – enda IceSave ekki lengur að flækjast fyrir!

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 20.3.2011 - 23:59 - 8 ummæli

Bullið í Villa Bjarna!

Fréttamenn sækja í Vilhjálm Bjarnason háskólakennara eins og mý í mykjuskán þegar þeir þurfa krassandi, en lítt rökstuddar fyrirsagnir á æsifréttir sínar. Þá skiptir engu hvort eitthvert samhengi er í hlutunum eða ekki – Villi klikkar ekki með krassandi staðhæfingar – sem fréttamenn passa sig á að sannreyna ekki.

Þetta á ekki síst við ef fjallað er um Íbúðalánasjóð – en eins og alþjóð veit firrtist Vilhjálmur Bjarnason allnokkuð þegar síðasta stjórn Íbúðalánasjóðs treysti sér ekki til að ráða hann sem framkvæmdastjóra sjóðsins – heldur réð ungan, vel menntaðan og efnilegan bankamann í starfið.

Enn einu sinni fékk Vilhjálmur Bjarnason háskólakennari sviðið sem honum líkar svo vel í fréttatíma RÚV. Enn einu sinni bullaði hann tóma vitleysu – vitleysu sem reyndar er oftar en einu sinni og oftar en tvisvar búið að hrekja.

Ég veit ekki hvort ég á að hlægja eða gráta yfir þessari áráttu fréttamanna – en ég skil þá sossum vel – gamall blaðamaðurinn. Ef þeir þurfa krassandi fyrirsögn – þá tala þeir bara við Villa!

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 19.3.2011 - 16:08 - Rita ummæli

Ef snjóar í júlí …

Ef snjóar í júlí þá þarf ég KANNSKE að moka útitröppurnar. Þetta er sambærileg röksemdarfærsla og nú er komin á kreik um MÖGULEGT framlag ríkisins til Íbúðalánasjóðs vegna HUGSANLEGRA afskrifta á næstu árum.

Íbúðalánasjóður hefur reiknað út hverjar HÁMARKSAFSKRIFTIR gætu HUGSANLEGA orðið ef ALLIR þeir sem MÖGULEGA geta nýtt sér afskriftir íbúðalána í 110% fái slíkar afskriftir miðað við að markaðsverð sé það sama og fasteignamat – einnig að ÖLL leigufélög sem reka leiguhúsnæði fara á hausinn – og að FJÖLDAGJALDROT fjölskyldna í landinu nái mögulegu hámarki.

Einnig að EKKERT  af eignum sem sjóðurinn mun eignast í fjöldagjaldþrotum og gjaldþrotum leigufélaga – seljist á hærra verði en krafa Íbúðalánajóðs og geti þannig staðið undir áhvílandi lánum Íbúðalánasjóðs á viðkomandi eign í endursölu til lengri tíma.

Vissulega er fræðilegur möguleiki á að þetta geti allt farið svona til andskotans – en er það ábyrgt að halda því fram í fjölmiðlum að þessi allra versta mögulega staða SÉ RAUNSTAÐA og því líklega AFSKRIFTARÞÖRF sjóðsins?

Og er ástæða á sama tím að halda eigin fé Íbúðalánasjóðs í 5 CAD – sem ekki er lögboðið – og engin nauðsyn til?

Ég skil að ágætir nýir stjórnendur Íbúðalánasjóðs vilji hafa vaðið fyrir neðan sig. Þess vegna láta þeir reikna VERSTU MÖGULEGU STÖÐU!  Eðlilega. Það hefði ég líka gert. … en að það sé líklega staða – það efast ég um.

Ég held því fram að það sé líklegra að ég þurfi að moka útidyratröppurna af kafsnjó í júlí en að ofangreind staða komi upp.

Ég er líka nokkuð viss um að ég geti lagt snjóskóflunni ekki síðar en um miðjan júní.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 18.3.2011 - 21:31 - 3 ummæli

Ömurlegar ósanngirnisbætur

Ósanngirnisbætur hafa verið ákvarðaðar. Ræði það ekki meir en bendi á eftirfarandi tengla:

Enn barið á Breiðavíkurdrengjum?

Breiðavíkurdrengir bíða bóta

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 17.3.2011 - 17:17 - 4 ummæli

Stórbrotin japönsk fórnfýsi

Fórnfýsi virðist Japönum í blóð borin. Nú berjast japanskir starfsmenn kjarnorkuversins í Fukushima við að koma í veg fyrir enn alvarlegra kjarnorkuslys en orðið er. Þeir eru að hætta lífi sínu í baráttunni – og vita það fullvel.  Þetta virðist sama elementið og hjá kamikaze flugmönnunum í síðari heimsstyrjöldinn sem fórnuði lífi sínu skipulega til að verja föðurlandið.

Það tekur á að lesa viðbrögð aðstandenda þessara starfsmanna sem eru að fórna heilsu sinni og jafnvel lífi.  Starfsmanna sem eru af þeirri einu þjóð sem upplifað hefur kjarnorkuvopnaárás.

Eftirfarandi er af vef DV.is:

Þó að nöfn starfsmannanna hafi ekki verið gefin upp þá hafa birst viðtöl við ættingja þeirra í fjölmiðlum í Japan. Ung kona sagði í viðtali að faðir hennar hefði tekið örlögum sínum sem dauðadómi.

 Önnur kona sagðist vita til þess að eiginmaður hennar hefði haldið áfram að störfum þrátt fyrir að vita að hann yrði fyrir mikilli geislun. Hann sendi henni tölvupóst sem í stóð: „Þið verðið að gera það fyrir mig að halda áfram að lifa hamingjusömu lífi, ég kem ekki heim alveg strax.“

Þá birti japönsk stúlka færslu á Twitter í sem í stóð: „Pabbi minn fór til vinnu í kjarnorkuverinu, ég hef aldrei séð mömmu gráta svona mikið. Fólkið í kjarnorkuverinu er að berjast og fórna sér til að vernda ykkur. Gerðu það pabbi komdu aftur heim á lífi.“

Viðbót:

Þetta eru hetjur:

Verkfræðingar í japanska kjarnorkuverinu í Fukushima hafa náð að tengja rafmagnskapal við kjarnaofn tvö sem gerir það að verkum að þeir geta endurræst pumpur sem dæla vatni í ofninn. Alls eru ofnarnir fjórir en kælikerfið var bilað í þeim öllum.

Sá áfangi er afar mikilvægur en starfsmenn hafa kappkostað við að kæla ofnana með vatni og sjó svo þeir bræði ekki úr sér og valdi meiriháttar kjarnorkuslysi. Meðal annars hafa þyrlur hellt tonnum af vatni ofan í ofnana.

Váin er þó hvergi lokið og enn er fólki ráðlagt að halda sig í 20 kílómetra fjarlægð frá verinu. Sum þjóðríki hafa mælt með því við þegna sína að halda sig í minnsta kosti 50 kílómetra fjarlægð frá kjarnorkuverinu.

Kjarnorkuverið laskaðist verulega eftir jarðskjálftann á föstudaginn síðasta með þeim afleiðingum að ekki var unnt að kæla kjarnaofnana.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 16.3.2011 - 20:53 - 4 ummæli

Skógræktarátak með ESB

Íslenskir bændur og íbúar hinna dreifðu byggða á Íslandi eiga mikil sóknarfæri í sameiginlegu skógræktarátaki Íslendinga og Evrópusambandsins. 

Samninganefnd Íslands á að sjálfsögðu að leggja ríka áherslu á mikilvægi öflugs skógræktarátaks á Íslandi – átaks sem vinnur gegn losun koltvísýring í andrúmslofti og styður við jákvæða byggðaþróun á Íslandi.

Slíkt skógræktarátak á Íslandi á því að vera samstarfsverkefni á Evrópuvísu unnið af Íslendingum með öflugu fjárframlagi frá Evrópusambandinu og íslenska ríkinu – því kolefnabindingin er ekki einungis hagur Íslands heldur einnig hagur Evrópusambandsríkja og heimsins alls!

Slíkt skógræktarátak getur rennt tryggum stoðum undir rekstur hefðbundins íslensks landbúnaðar – sem því miður getur oft á tíðum ekki einn og sér staðið undir framfærslu hefðbundinna fjölskyldubúa. Þokkaleg vinna við skógrækt samhliða til dæmis sauðfjárrækt getur gert gæfumuninn fyrir íslenskar bændafjölskyldur. 

Ný atvinnutækifæri vegna skógræktar gerir það einnig að verkum að unnt er að stækka sauðfjárbú og auka hagkvæmni í sauðfjárrækt með fækkun og stækkun sauðfjárbúa – án þess að þær bændafjölskyldur sem bregða sauðfjárbúi þurfi að hverfa á brott úr byggðunum. Atvinna við skógrækt – og túnrækt til að anna stærri sauðfjárbúum – getur gert það að verkum að byggðirnar styrkjast frá því nú er – og tekjur aukast.

Þegar frá líður og dregur úr fjárstuðningi vegna skógræktarátaks á Íslandi – þá koma inn nýjar tekjur vegna skógarnytja. Byggðirnar verða sjálfbærar.

Skógræktarátak stutt með fjárframlögum frá með Evrópusambandinu steinliggur. Slíkt átak getur fallið undir skilgreind verkefni Evrópusambandsins á þremur sviðum. Undir umhverfismál, undir byggðaþróunarmál og undir landbúnaðarmál.

Skógræktarátak er eitt af stóru málunum í viðræðum við Evrópusambandið.

En snillingarnir í bændahöllinni hafa bara ekki fattað það – og vinna því gegn aðildarviðræðum við Evrópusambandið – og þannig gegn hagsmunum bænda og byggðanna í landinu.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 15.3.2011 - 22:02 - 9 ummæli

Skyr í Evrópusambandinu

Íslenska skyrið er að slá í gegn austan hafs og vestan. Enda einstök afurð unnin úr einstakri mjólk. Það þarf að tryggja í viðræðum við Evrópusambandið að heitið Skyr nái einungis yfir íslenskt skyr unnið úr íslenskri mjólk. Svona eins og Feta ostur getur einungis verið grískur.

Skyr mun slá í gegn í Evrópu. Ég efast ekki um það!

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 15.3.2011 - 10:06 - 6 ummæli

Molar úr stefnu bakhjarls Bezta

Rakst á kosningastefnuskrá Samfylkingarinnar fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar.  Ákvað að birta nokkur stefnuatriði þessa öfluga bakhjarls Beztaflokksins í Reykjavík – svona af handahófi.

Fróðlegt að bera loforðin saman við framkvæmdina!

  • Samráð í skipulags-, umhverfis- og skólamálum á að gera markvissara og styrkja aðkomu íbúa og foreldra að lykilákvörðunum.
  • Forgangsraðað verði í þágu þjónustu við íbúa.
  • Stuðla að starfsánægju starfsfólks og styðja það í störfum þeirra.
  • Auka fjármagn til hreinsunar borgarlandsins, stígagerðar og uppbyggingar grænna svæða til að skapa fleiri sumarstörf fyrir námsmenn og ungt fólk.
  • gera strætó að raunverulegum valkosti við einkabílinn en til þess þarf að auka tíðni á álagstímum, tryggja að strætó gangi alla daga ársins og að leiðarkerfið nýtist börnum til að komast til og frá frístundum.
  • Fjölga á beinum atkvæðagreiðslum um meginmál og setja um framkvæmd þeirra skýrari ramma.
  • Undirbúningur fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar verði stokkuð upp og stefnumótun einstakra málaflokka gefið aukið vægi og aðkoma íbúa og hagsmunaaðila gerð gegnsærri.
  • · Útfærðar verði tillögur í samráði við íbúa og starfsfólk með það markmið að draga úr miðstýringu og auka sjálfstæði hverfa með eflingu hverfaráða, hverfatengdrar þjónustu og forgangsröðun í rekstri innan hverfisins.
  • gera borgarbúum auðveldara að flokka sorp og koma því til skila. Reykjavíkurborg á að tryggja gæði sorphirðunnar en nýta sér þá samkeppni sem fyrir hendi er um frágang og nýtingu á þeim verðmætum sem vel flokkað sorp skilar.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 14.3.2011 - 21:49 - 1 ummæli

Quis custodiet ipsos custodes?

Quis custodiet ipsos custodes?  Skilanefndir hafa verið skipaðar sem verðir þrotabúa. En það hefur enginn gætt þessara varða. Líkur á að verðirnir hafi misnotað stöðu sína. Allt of margar rökstuddar vísbendingar um slíkt.

Quis custodiet ipsos custodes?

Árni Páll Árnason efnahagsráðherra hefur nú tekið af skarið og sagt að það vanti verði til að gæta varðanna.

Tími til kominn.

Gott framtak hjá Árna Páli. Eftirlits er þörf með skilanefndum sem hafa makað krókinn í kjölfar hrunsins!

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 13.3.2011 - 15:57 - 14 ummæli

Bændaforystan helsta ógn bænda

Íslenska bændaforystan er helsta ógn íslenskra bænda –  ekki aðildarviðræður við Evrópusambandið.

Sjálfsbyrgingslegur málflutningur bændaforystunnar gegn aðildarviðræðum að Evrópusambandinu dregur athygli íslenskra kjósenda að þeim gífurlegu fjármunum sem íslenskri skattgreiðendur leggja bændum til í formi niðurgreiðslna.

Ofan í kaupið er sjálhverfni bændaforystunnar slík að í svokölluðum „varnarlínum“ gegn Evrópusambandinu gengur bændaforystan út frá því að engar breytingar verði gerðar á niðurgreiðslu til bænda – hvorki í formi né fjárhæðum. Eftir því er tekið meðal almennings.

Nú á tímum mikils niðurskurðar hjá ríki og sveitarfélögum þar sem heilbrigðisþjónustan er skorin niður í hættumörk og dregið úr skólastarfi og  menntun barnanna okkar er hverri krónu velt tvisvar.  Í því umhverfi verða milljarðarnir sem renna til bænda sem niðurgreiðslur og til reksturs bændaforystunnar ekki lengur heilög kýr sem ekki má slátra.

Varnarbarátta bændaforystunnar mun því væntanlega verða við íslensk stjórnvöld sem undir þrýstingi íslenskra kjósenda vilja veita mjólkurpeningunum sem bændur nú fá frekar inn í heilbrigðiskerfið og menntakerfið  

Evrópusambandið er því ekki helsta ógn íslenskra bænda eins og bændaforystan vill vera láta. Evrópusambandið er að líkindum miklu frekar tækifæri gegn þeirri ógn sem íslenskir bændur standa frammi fyrir. Framtíðarhag íslenskra bænda kann einmitt að vera betur borgið innan Evrópusambandið en utan þess.

Bændaforystan ætti því að taka þátt í aðildarviðræðum við Evrópusambandið með opnum hug og leita þar tækifæra og nýrra leiða – frekar en að dreifa mykjunni yfir þá sem vilja sem bestan aðildarsamning við Evrópusambandið – ekki hvað síst fyrir hönd íslensks landbúnaðar.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur