Ríkisstjórnin hefur nú sóknarfæri til að breyta sjálfri sér úr hálfgerðri minnihlutastjórn með flöktandi stuðningi eigin liðsmanna í öfluga ríkisstjórn sem hefur alla burði til að takast á við þau brýnu verkefni sem framundan eru. Ekki síst vegna þess að IceSave málið mun verða úr sögunni helgina sem Framsóknarflokkurinn heldur flokksþing.
Brotthvarf Lilju Mósesdóttur og Atla Gíslasonar úr þingflokki VG gefur ríkisstjórninni svigrúm í huga kjósenda til að endurskipuleggja sig, leita liðsinnis Framsóknarflokksins og vinna nýjan stjórnarsáttmála. Niðurstaða verður þá komin í IceSave málið og áframhald þess máls einungis framkvæmdaratriði. Það mun því ekki trufla Framsókn lengur.
Ríkisstjórnin veit að hún verður að gera ákveðnar breytingar á stjórnarsáttmálanum og breytingar á vinnubrögðum sínum til að geta tekist á við framtíðina. Að sumu leiti er einfaldara að gera slíka breytingu með því að taka nýjan aðila inn í ríkisstjórnina. Það gefur núverandi stjórnarflokkum „afsökun“ til að gefa eftir í einhverjum stefnumálum sínum.
Breyting á stjórnarsáttmála gerir Framsóknarflokknum einnig kleift að ganga til liðs við ríkisstjórnina án þess að ganga gegn eigin orðum. Framsóknarmenn geta talað um nýja stjórn á nýjum grunni – núverandi stjórnarflokkar endurnýjaða vinstri stjórn með breyttum áherslum í takt við þróun þjóðmála.
Nú er það einungis spurningin hvort Jóhanna og Steingrímur J. hafa styrk, þor og vilja til að nýta sér þetta sóknarfæri.
Ég er viss um að Framsókn er til í að skoða málið að nokkrum atriðum uppfylltum – enda IceSave ekki lengur að flækjast fyrir!