Föstudagur 28.1.2011 - 21:31 - Rita ummæli

Þoli ekki að tapa – þarf þerapíu!

Ég þoli ekki að tapa. Enda gerði ég afar lítið af slíku í Víking í gamla daga – hvort sem var sem leikmaður eða þjálfari – og hvort sem það var með yngri flokkum í fótbolta  og handbolta – eða þessi frábæru ár í meistaraflokki í handbolta með stórkostlegum handboltahetjum.

Enda unnum við yfirleitt 🙂

Lærði hins vegar að tapa þegar ég byrjaði að spila fótbolta aftur eftir tveggja ára meiðsl á þrítugsaldri. Þá með Leikni í Breiðholti. Sem mér þykir afar vænt um.

Fattaði áðan að ég er búinn að gleyma því að hafa lært að tapa.

Ég þoli ekki að tapa. Allra síst í landsliðinu í handbolta – því ég get sagt ykkur að mér finnst ég alltaf vera að spila inn á vellinum með landsliðinu í handbolta. Þótt ég hafi bara náð að spila með unglingalandsliðinu í handbolta. 

Greinilega búinn að gleyma því að ég hafði „lært að tapa“.  Sagði ljótt. Tvisvar. Börnin mín horfðu á mig í forundran og skamma mig fyrir blótsyrðin.

Andskotinn! Helv… dómararnir – og annað álíka gáfulegt hraut af vörum mínum.

Nú eru bara tveir möguleikar í stöðunni.

Að ég læri aftur að tapa – eða íslenska landsliðið í handbolta hætti að tapa.

Hvort sem verður – þá get ég ekki annað en þakkað íslenska landsliðinu í handbolta fyrri frábæra skemmtun – og í raun frábæran árangur. Þótt þeir yrðu ekki heimsmeistarar. (öruggleg út af dómgæslunni 🙂 )

Kannske þarfég bara þerapíu!

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 27.1.2011 - 23:46 - Rita ummæli

Landbúnaður sem umhverfismál í ESB

Íslenskur landbúnaður á að skilgreinast sem umhverfismál en ekki landbúnaðarmál í aðildarsamningi Íslands við Evrópusambandið.  Í evrópskum skilningi fellur íslenskur landbúnaður miklu frekar undir mikilvægi þess að viðhalda fjölbreytilega tegunda – sem er umhverfismál – en hefðbundinn evrópskan landbúnað. 

Það eigum við að nýta okkur.  Meira um það hér.

„Landbúnaður þyrfti sérstakar lausnir við aðild að ESB“ segir í fyrirsögn Eyjunnar um niðurstöðu rýnifundi um 11. kafla samningaviðræðna við Evrópusambandið þar sem bornar voru saman reglur Íslands og ESB um landbúnað og dreifbýlisþróun. 

Eðlilega.

Niðurstöðurnar í rýnivinnunni koma ekki á óvart.

Íslenskir embættismenn hafa staðið sig afar vel í rýnifundavinnu vegna undirbúnings að aðildarviðræðum Íslands að ESB þrátt fyrir oft á tíðum óskýrar og oft á tíðum kolruglaðar pólitískar áherslur – ef þær hafa þá legið fyrir!

Nú fer að styttast í raunverulegar aðildarviðræður.

Því miður hafa Alþingismenn og aðrir stjórnmálamenn meira og minna eytt dýrmætum tíma í bull og vitleysu – karp sem unnið hefur gegn hagsmunum Íslands – í stað þess að ræða og skapa pólitískar áherslur sem halda þarf á lofti í eiginlegum aðildarviðræðum við ESB – sem eru að detta á!

Það er mánuður í alvöru viðræður – og samninganefndir og embættismenn hafa enga raunverulega pólitíska stefnumótun til að vinna eftir! 

Við þurfum því að hætta bulli um aðild eða aðild ekki – og einbeita okkur að markmiðum okkar og skilyrðum í aðildarviðræðunum. Okkur ber skylda til þess að ná sem bestum samningi. Þeir sem berjast gegn því stappa nærri landráðum. Því ekkert er verra fyrir Ísland en vondur ESB samningur sem þjóðin samþykkir.

Þjóðin tekur ákvörðun þegar niðurstöður aðildarviðræðna liggja fyrir. Okkur ber öllum skylda til þess að ná sem hagstæðustum samningi.  Annað er að vinna gegn hagsmunum þjóðarinnar.

Mikilvægur þáttur í aðildarviðræðunum eru landbúnaðarmálin. Þau á ekki að ræða einungis sem landbúnarðarmál – heldur sem umhverfismál – og að sjálfsögðu byggðamál.

Sjá nánar: „Íslenskur landbúnaður umhverfismál í ESB“

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 27.1.2011 - 10:25 - 1 ummæli

Íslenskt blóð rennur!

Þessa dagana rennur blóð Íslendinga nær daglega. Sá blóðstraumur sýnir fórnfýsi Íslendinga því þrátt fyrir allt er eitt af þjóðareinkennum Íslendinga samhyggð og fórnfýsi. Blóðið rennur í Blóðbankanum.

Blóðgjöf er lífgjöf. 

Tíuþúsund Íslendingar taka árlega þátt í slíkri lífgjöf með því að leggja sitt af mörkum og tryggja blóð til þeirra sextánþúsund blóðskammta sem Íslendingar þurfa á hverju ári.

Víða um heim þurfa heilbrigðisyfirvöld að greiða fyrir blóðgjafir. Á Íslandi er þetta gjöf gefin af sjálfboðaliðum.  Sjálfsögð þegnskylda.

Ég er stoltur af því að geta verið einn þessara tíuþúsund Íslendinga sem hafa vilja, heilsu og getu til að gefa blóð. Þrátt fyrir að hata nálar.

Ég hvet alla sem heilsu sinnar vegna geta gefið blóð að gefa blóð. Því blóðgjöf er lífgjöf.

Látum blóðið renna!

Vefsíða Blóðbankans.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 26.1.2011 - 13:55 - 14 ummæli

Stjórnlagaþing eða saumaklúbb?

Ríkisstjórnarflokkarnir og stjórnarandstöðuflokkarnir hafa í hjarta sínu alltaf verið sammála um að þjóðin fengi EKKI alvöru stjórnlagaþing eins og krafist var í búsáhaldabyltingunni. Þrátt fyrir fögur orð. Þetta er augljóst nú þegar alþingismenn rífast eins og hundar og kettir í kjölfar ógildingu Hæstaréttar á kosningum til „stjórnlagaþings“.

Einstaka þingmenn hafa haft sannfæringu fyrir alvöru stjórnlagaþingi – en ekki þingflokkarnir sjálfir.

Það hefur alltaf verið ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei viljað stjórnlagaþing í neinu formi. Enda hefur Sjálfstæðisflokkurinn alla tíð staðið af hörku gegn nauðsynlegum úrbótum á stjórnarskránni.

Samfylkingin hefur aldrei viljað alvöru stjórnlagaþing sem kjörið yrði af þjóðinni og legði niðurstöður sínar beint fyrir þjóðina. Forysta Samfylkingarinnar treystir ekki þjóðinni og vill ritskoða niðurstöðu stjórnlagaþingsins. Velja bestu molana fyrir sig – en sleppa því sem Samfylkingunni hentar ekki.

Vinstri grænir voru sammála Samfylkingu um að þjóðinni væri ekki treystandi. Stjórnlagaþing skyldi einungis vera ráðgefandi – enda Vinstri grænir svag fyrir ráðstjórn.

Ríkisstjórnarflokkarnir ákváðu því að hafa stjórn á stjórnlagaþinginu og breyta því í þjóðkjörinn, ráðgefandi saumaklúbb á vegum Alþingis – í stað alvöru stjórnlagaþings sem sæki umboð sitt einungis til þjóðarinnar og leggi niðurstöðu sína fyrir þjóðina.

Framsóknarflokkurinn hafði stjórnlagaþing sem eitt af baráttumálum sínum enda hugmyndin sprottin úr grasrót flokksins. En komið hefur í ljós að hluti þingflokksins er sammála Samfylkingunni um að ekki sé hægt að setja á fót stjórnlagaþing sem setji niðurstöðu beint í dóm þjóðarinnar.  Alþingi þurfi að ritskoða niðurstöðuna.

Málflutningurinn gjarnan verið í þá átt að það eigi að halda stjórnlagaþing í einhverri óljósri framtíð.

Hreyfingin talar um stjórnlagaþing – enda Hreyfingin sprottin úr Borgarahreyfingunni – sem reynir að eigna sér búsáhaldabyltinguna – sem reyndar var sameign þjóðarinnar. Í stað þess að setja á oddinn að sett verði á fót alvöru stjórnlagaþing – þá vill Hreyfingin bara kjósa nýtt stjórnlagaþing – en þess vegna í formi þjóðkjörins, ráðgefandi saumaklúbbs.

Það sem þjóðin vildi var alvöru vandað stjórnlagaþing sem ekki væri undir hælnum á atvinnustjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkunum. Stjórnlagaþing sem fengi ráðrúm og tíma til að vinna vandaða stjórnarskrá og leggja niðurstöðu sína í dóm þjóðarinnar.  Ekki í dóm atvinnupólitíkusanna og stjórnmálaflokkanna á Alþingi.

Nú er tækifæri til að setja á fót slíkt þjóðkjörið, sjálfstætt stjórnlagaþing. Stjórnlagaþing sem starfi 3x 2 mánuði og leggi tillögu að nýrri stjórnarskrá fyrir þjóðina í næstu Alþingiskosningum – svo fremi sem núverandi Alþingi sitji út kjörtímabilið.  

Tvo mánuði í haust, tvo mánuði fyrri part árs 2012 og tvo mánuði síðari hluta árs 2012.  Á milli vinnulota verði hugmyndir og afurðir stjórnlagaþingsins kynntar almenningi og skoðanaskipti þjóðarinnar tryggð. Tillaga að nýrri stjórnarskrá lögð fyrir þjóðina vorið 2013. Án afskipta Alþingis.

Það er rétt hjá stjórnmálamönnum sem segja að það séu mörg brýn verkefni sem Alþingi og ríkisstjórn þurfi að taka á strax og á næstu mánuðum. En það er rangt hjá þeim stjórnmálamönnum sem telja að það eigi að fresta stjórnlagaþingi vegna þess.

Hið rétt er að stjórnlagaþing á að starfa án afskipta Alþingis og ríkisstjórnar. Stjórnlagaþing á að vinna að sínu verkefni á vandaðan hátt – Alþingi og ríkisstjórn á að vinna að sínum verkefnum á vandaðan hátt. Þessi verkefni skarast ekki.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 25.1.2011 - 21:38 - 9 ummæli

Nýtt Alþingi, nýtt stjórnlagaþing

Eftir að hafa fylgst með umræðum á Alþingi í dag um ógildingu Hæstaréttar á kosningum til stjórnlagaþings er ég kominn á þá skoðun að við þurfum ekki bara að kjósa nýtt stjórnlagaþing heldur líka nýtt Alþingi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 25.1.2011 - 09:09 - 13 ummæli

„ESB“ stofnun í Skagafjörðinn

Landbúnaðarstofnun sem Evrópusambandið vill að taki við dreifingu ESB landbúnaðarstyrkja til bænda á að vera hluti af Byggðastofnun og því staðsett á Sauðárkróki.  Reyndar á að færa framkvæmd búvörusamninga og umsýslu landbúnaðarstyrkja undir Byggðastofnun óháð því hvort Ísland gengur í Evrópusambandið eða ekki.

Staðreyndin er nefnilega sú að núverandi fyrirkomulag þar sem ríkisvaldið hefur framselt umsýslu landbúnaðarstyrkja til hagsmunasamtaka bænda stenst engan veginn grundvallaratriði í vandaðri stjórnsýslu.

Enda hefur Ríkisendurskoðun gert athugasemdir við núverandi fyrirkomulag. Eðlilega.

Breyting á stjórnsýslu landbúnaðarkerfisins er því ekki ESB mál – eins og malbiksbændurnir við Hagatorg vilja vera láta – heldur spurning um eðlilega og gagnsæja stjórnsýslu. En að sjálfsögðu gerir ESB kröfu um að stjórnsýsla landbúnaðar sé í lagi ef Ísland gengur í ESB.

Íslensk stjórnvöld eiga að sjálfsögðu að nýta sér þá styrki Evrópusambandsins sem í boði eru til að fjármagna nauðsynlegar breytingar á stjórnsýslu landbúnaðarins og flytja verkefni sem nú eru unnin á stjórnsýslulega vafasaman hátt á Hagatorginu í Reykjavík yfir í Byggðastofnun sem staðsett er í hinu blómlega landbúnaðarhéraði Skagafirði. Hvort sem Ísland gengur í ESB eða ekki.

Það fer nefnilega mun betur að stjórnsýsla landbúnaðarins sé staðsett í blómlegu landbúnaðarhéraði nærri öflugum landbúnaðarháskóla en á ólífræna malbikinu við Hagatorg  – því lengra er ekki unnt að komast frá hjarta landbúnaðarins en í Vesturbæ Reykjavíkur.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 24.1.2011 - 08:11 - 7 ummæli

Pandórubox Jóhönnu læst

Það fór sem ég spáði.  Pandóruboxi Jóhönnu hefur verið læst. Velferðarráðherra ætlar ekki að birta neysluviðmið. Eðlilega. Fjandinn verður laus ef hann tekur lokið af Pandóruboxinu. Sárgrætilegt fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur sem barðist sem stjórnarandstöðuþingmaður að unnið yrði slíkt viðmið. Nú á hún mikið undir því að viðmiðið komi ekki  fram. Enda gefið skipun um að boxinu verði læst.

Já, pólitíkin er skrítin tík.

Sjá nánar:  Neysluviðmið Pandórubox Jóhönnu!

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 22.1.2011 - 20:28 - 1 ummæli

Enn barið á Breiðavíkurdrengjum?

Enn er barið á Breiðavíkurdrengjunum í boði hins opinbera ef marka má upplifun þess Breiðavíkurdrengs sem ég þekki best. Hann tjáir mér að fjórir Breiðavíkurdrengir hafi tekið sitt eigið líf frá því hryllingurinn að vestan var gerður opinber. Síðustu tveir vegna vonbrigða með „hið opinbera“ og hvernig „það“ hefur tekið á málum með síendurteknum yfirheyrslum sem rífa ofan af gömlum sárum aftur og aftur. Enn á eftir að loka málinu – andstætt því sem flestir telja!

Ég ætla ekki að tjá mig meira um feril og stöðu Breiðavíkurmálsins að sinni – vil kanna stöðuna betur og frá traustar upplýsingar til að birta á blogginu – en ætla að birta aftur blogg mitt og bréf frá þessum Breiðavíkurdreng sem ég birti á Moggablogginu 10. september 2008:

…hvað var þér nauðgað oft? Nú jæja það gerir 50,000 kall…

Einn af mínum bestu vinum hafði samband við mig í dag og bað mig að koma á framfæri hugsunum sínum sem hann hefur sett niður á blað og leitað til fjölmiðla um að birta. Þar sem fjölmiðlar kröfðust þess að greinin yrði birt undir nafni – og vinur minn vildi ekki að kona hans og börn yrði dregin í umræðuna – þá leitaði hann til mín um ráð hvernig hann gæti komið hugsunum sínum á framfæri.

Ég sé enga leið betri en að birta hugleiðingar hans – gersamlega óritskoðaðar – á bloggsíðu minni og á ábyrgð mína. Það er það minnsta sem ég get gert sem einstaklingur í þessu annars ágæta þjóðfélagi okkar til þess að segja frá hjarta mínu – og þjóðar minnar – afsakið þið allir – fyrirgefið okkur – við vissum ekki hvað við vorum að gera!

Hörmungarnar halda áfram.

Nú er mál að linni, ég er einn af þessum drengjum sem varð fyrir þeirri skelfilegu lýfsreynslu að vera vistaður á   Breiðavík  sem barn og varð fyrir óbætanlegum skaða sem aldrei verður hægt að bæta með neinum fjárgreiðslum.

Umræðan um þetta mál er komin á svo lágt stig að það setur að mér óhug, mál sem ég er búin að berjast við að þurka út úr minni mínu stendur mér nú ljóslifandi fyrir sjónum, nú eru nætur mínar svefnlausar þar sem minningin hellist yfir mann í stórum skömtum, afleiðingin  taugaveiklun – skapbrestir- kvíðaköst – svefnleisi – örvænting – öryggisleisi – meltingartruflanir  semsagt alveg skelfileg líðan.

Þegar þessi umræða fór af stað í fyrra  þá setti að mér  óhug, átti nú en einu sinni að raska viðkvæmri ró mans, og til hvers, ekki fyrir mig það veit sá sem alt veit, en ég taldi sjálfum mér trú um að kanski væri þetta samfélaginu til góðs  svo ég tali nú ekki um fyrverandi vistmönnum sem margir hverjir hefðu sennilega aldrei gert þessi mál upp þá væri nauðsyn að umræðan ætti sér stað.

Ekki hvarlaði að mér að eftirleikurinn yrði eins subbulegur  og hann er greinilega orðin, óviðkaomandi fólk er farið að munnhöggvast yfir þessu máli í bloggum og þetta er orðin kaffitíma umræða, svo að ég tali nú ekki um hátt setta embættismenn sem eru gjörsneiddir mannlegri tilfiningu, og ætla að taka á málinu með ópersónulegum og því miður þverembættislegum hætti.

  Hver ætlar að setjast niður og meta okkur? sjáum við fyrir okkur dæmi þar sem hópur embættismanna sests niðu með viðkomandi og byrjar matið—hvað var þér nauðgað oft? Nú jæja það gerir 50,000 kall, hve oft varst þú lamin  Nú jæja 25,000 kall— hve oft varst þú lokaður inni í ljóslausum ókyntum klefa með mjólkurbrúsa fyrir þarfir þínar? Nú það gerir 7.5000 kall. Flosnaðir úr skóla?, þú færð ekkert fyrir það hefði sennileg hætt hvort eð var  Fékst ekki að hafa smaband við foreldra né ættingja?, skiptir ekki máli þú varst þeim hvor sem er til óþurftar. Önnur mál?  það er svo langt  um liðið að þú hlítur að vera búinn að jafna þig, svo var þetta bara tíðarandin.

Þegar að einn æðsti maður þjóðarinnar fer í fílu og segir í viðtali fyrir alþjóð að þessir menn hefðu ekki átt að fara með tilögur hans  í fjölmiðla og bætir svo gráu ofaná svart með duldri hótun og segir þessir menn eru víst búnir að fá einhverja hjálp en það skal vera ljóst að þetta eru ekki samningaumræður, heldur er hér um að ræða táknrænar bætur.

Látum nú hér staðar numið og fellum málið niður, æðsta valdið hefur talað, það verður ekkert gert fyrir þessa aumingja þeir eru búnir að vera næg byrgði á þjóðfélaginu þegar, og ekki nokkur ástæða til að vera að gera neitt mál úr þessu þetta átti  hvort eð er bara að vera  táknrænt.

Ríkisstjórn Íslands ég kann ykkur litlar þakkir fyrir frammistöðuna.“

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 22.1.2011 - 08:30 - Rita ummæli

Þorrasnilld á Höfninni!

Það var algjör þorrasnilld á veitingahúsinu Höfninni sem staðsett er í gömlu verbúðunum skammt frá hvalbátunum í Reykjavíkurhöfn. Þorramatseðillinn uppfyllir bæði kröfur súrmats- og hákarlaæta og fínlegri bragðlauka. Snilldarlausn fyrir pör sem ekki eru sammála um þorramatinn!

Alætan ég smakkaði á öllum réttunum – sem voru í grunninn á þjóðlegum nótum – en útfærslan alþjóðleg á köflum. 

Ljúfeng bleikjan úr Skaftafelli með pipararótakremi – kraftmikla kjötsúpusmakkið – saltkjötspaté með gulri baunakássu – humarsmakk  – tvíreykt hangikjöt með melónu og furuhnetum!

Síldarréttirnir – súri hvalurinn – harðfiskurinn og hákarlinn!

Brennivínsflamberaði lambahryggvöðvinn í kúmensósu sem borinn var fram eftir fjölbreytt hlaðborðið – og snilldarsmökk – var guðdómlegur!

Að ég tali ekki um skyrréttinn í eftirréttinum!

Þið verðið bara að prófa!

www.hofnin.is

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 21.1.2011 - 09:42 - Rita ummæli

Samfélagslegt hlutverk Íbúðalánasjóðs

Íbúðalánasjóður hefur mikilvægu samfélagslegu hlutverki að gegna. Tilvist hans byggist á þessu samfélagslega hlutverki.  Lögbundið hlutverk Íbúðalánasjóðs er:

“ … að stuðla að því með lánveitingum og skipulagi húsnæðismála að landsmenn geti búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum og að fjármunum verði sérstaklega varið til þess að auka möguleika fólks til að eignast eða leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum.“

1.gr. laga um húsnæðismál  nr. 44/1998

Íbúðalánasjóður er ekki og á ekki að vera venjulegt fjármálafyrirtæki. Íbúðalánasjóður á að vera sjálfbær – en ekki rekinn í hagnaðarskyni.

Ef hugmyndafræði viðskiptabanka verður ofan á í rekstri og stjórnun Íbúðalánasjóðs – ef hugmyndafræði hagnaðar tekur við af hugmyndafræði sjálfbærni – ef hugmyndafræði fjármagnsins tekur við af hugmyndfræði samfélagslegrar ábyrgðar – þá er tilvistargrunnur Íbúðalánasjóðs fyrir bí.

Þá er rétt að leggja Íbúðalánasjóð niður og færa íbúðalánin alfarið til banka og annarra fjármálafyrirtækja.

En auðvitað eigum við að standa vörð um Íbúðalánasjóð sem sjálfbæran, samfélagslegan lánasjóð sem tryggir landsmönnum öllum – hvar sem þeir búa – „öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum“.

Þrátt fyrir að í landinu ríki hrein vinstri stjórn sem ætti að öllu jöfnu að berjast fyrir tilvist samfélagslegs Íbúðalánasjóðs, þá virðast blikur á lofti.

Í skýrslu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins eru vísbendinga um að samfélagslegt hlutverk Íbúðalánasjóðs verði í öðru sæti – en hugmyndafræði viðskiptabanka, hagnaðar og fjármagns – verði sett í fyrsta sæti.

Það er hlutverk stjórnvalda, nýrrar stjórnar Íbúðalánasjóðs og framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs að tryggja áfram samfélagslega stöðu sjóðsins.

Það er hlutverk stjórnvalda, nýrrar stjórnar Íbúðalánasjóðs og framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs að tryggja landsmönnum öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum.

Það er hlutverk okkar – þjóðarinnar – að veita stjórnvöldum, stjórn Íbúðalánasjóðs og framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs stuðning og aðhald svo samfélagslegu hlutverki Íbúðalánasjóðs verði ekki fórnað.

Það er að hefjast enn eitt stríðið um samfélagslegt hlutverk Íbúðalánasjóðs.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur