Föstudagur 18.1.2013 - 10:23 - FB ummæli ()

Landflótta snúið við

Í gær birtist tímamótafrétt frá Hagstofunni. Um 630 fleiri fluttu til landsins en frá því á síðasta ársfjórðungi 2012. Landflótta hrunáranna hefur verið snúið við!

Það blés ekki byrleg við fyrir íslensku þjóðinni í kjölfar hrunsins. Fjármálakerfið var hrunið til grunna. Við blasti skuldamartröð, hrun lífskjara og djúp efnahagskreppa til lengri tíma.

Margir spáðu okkur illa. Mér varð hugsað til Færeyja sem sukku djúpt í kreppu um 1990 og töpuðu 10-12% íbúanna til Danmerkur. Yrði samsvarandi landflótti héðan, þar sem unga kynslóðin gæfist upp á Íslandi?

Eftir athugun á sambandi brottflutnings við kjaraskerðingar og atvinnuleysi á liðnum áratugum komst ég að þeirri niðurstöðu að miðað við spár AGS um samdrátt efnahagslífsins mætti búast við að um 3-4% þjóðarinnar myndi tapast frá landinu á næstu árum (brottfluttir umfram aðflutta). Ég nefndi 3% í viðtali við Fréttablaðið en færði rök fyrir allt að 4% tapi í fyrirlestrum hér heima og erlendis.

Það er auðvitað stór biti að tapa 3-4% íbúafjölda vegna kreppu.

Nú liggur niðurstaðan fyrir, landflóttinn virðist stöðvaður og hægt að gera upp tapdæmið.

Niðurstaðan er sú, að Ísland tapaði 2,6% íbúa sinna frá 2009 til 2011. Það er minna en ætla mátti út frá stærð hrunsins, kjararýrnun vegna gengisfalls krónunnar, aukinni skuldabyrði og atvinnuleysi.

Í hausum talið er þetta mesta tap Íslands á lýðveldistímanum og einnig sem hlutfall íbúa. En það er athyglisvert að skoða tap íslenskra ríkisborgara sérstaklega.

Íslenskir ríkisborgarar sem töpuðust voru um tveir þriðju heildartapsins, eða um 1,7% þjóðarinnar. Það er hins vegar litlu meira en tapaðist eftir hrun síldarstofnsins 1967-8. Tapið þá var um 1,5% íbúa (frá 1968 til 1971).

Við sleppum furðu vel frá hruninu hvað þetta snertir, þó vissulega sé tapið mikið og alvarlegt.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 16.1.2013 - 22:30 - FB ummæli ()

Kaupmátturinn batnar of rólega

Fyrir hrun voru laun frekar lág á Íslandi, miðað við ríkidæmi þjóðarinnar. Launakostnaður í heild var nálægt meðaltali ESB ríkja árið 2008 þó hagsældarstigið hér væri um 12% hærra en meðaltalið (sjá hér).

Í hruninu lækkaði kaupmáttur launa samtals um nálægt 12% og kaupmáttur ráðstöfunartekna um nálægt 20% að meðaltali (þar bætast við áhrif af minni vinnu). Hrun kaupmáttar ráðstöfunartekna varð meira hér en annars staðar í Evrópu (sjá hér).

Við getum sennilega ekki vænst þess að fara upp á eðlilegt launastig nema með því að stytta vinnutíma og auka framleiðni í leiðinni. Það á að vera langtímamarkmið.

En skammtímamarkmið okkar á að vera að ná kaupmætti launa upp á svipað stig og var fyrir hrun, t.d. á árunum 2005-6. Kaupmáttur vinnandi fólks var hvort eð er ekki sérlega hár þá.

Algert lágmark til skemmri tíma á að vera að kaupmáttur launa fylgi vexti þjóðarframleiðslunnar upp úr kreppunni. Annars festumst við á launabotni kreppunnar.

Kaupmátturinn hækkaði þokkalega í júní 2010 (2,6%) og aftur í júní 2011 (3,4%), en á árinu 2012 varð lítil sem engin kaupmáttaraukning (sjá myndina hér að neðan).

Frá nóvember 2011 til nóvember 2012 jókst kaupmáttur launavísitölunnar um 0,4%. Á síðustu mánuðum hefur árangurinn sem náðist 2010 og 2011 verið að étast upp með verðhækkunum. Það er afleit þróun.

Þetta er allt of hægur gangur í kaupmáttaraukningunni. Atvinnurekendur verða að skila sínu, það hefur jú verið hagvöxtur bæði 2011 og 2012 og verður áfram svipaður á árinu 2013.

Er launþegahreyfingin ekki örugglega að vinna í þessu núna, með endurskoðunarákvæðinu? Varla ætla þeir að semja um froðu í stað kauphækkana! Varla vilja þeir festa þjóðina í þessari stöðu út árið 2013 líka…

Hagvöxturinn á að skila sér betur í launaumslagið.

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 16.1.2013 - 08:24 - FB ummæli ()

Málsvari myrkrahöfðingja ræðst á Egil

Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður og stjórnarmaður í Glitni fram að hruni, vill ekki að vafasamar gerðir fjármálamanna fyrir og í hruni séu rannsakaðar.

Hann gerði ítrekaðar atlögur að Gunnari Andersen forstöðumanni Fjármálaeftirlitsins og tókst á endanum að hrekja hann úr starfi, með hæpnum málatilbúnaði. Gunnar Andersen þótti ganga of vasklega fram í rannsóknum á orsökum hrunsins og vísa of mörgum málum til sérstaks saksóknara.

Sigurður hefur hamast gegn Evu Joly og finnur farsælu ráðgjafarhlutverki hennar allt til foráttu. Kennir Agli Helga um komu hennar hingað.

Hann hefur hamast gegn sérstökum saksóknara og vill augljóslega koma böndum á starfsemi hans.

Þá hefur Sigurður andskotast í DV sem hefur staðið upplýsingavaktina frá hruni og birt ítarlegar og mikilvægar upplýsingar um framferði einstakra fjárglæframanna sem léku þjóðina grátt.

Sigurður er málsvari myrkraaflanna sem sugu blóðið úr þjóðarbúinu og settu Ísland á hliðina.

Í gær réðst hann á ósmekklegan hátt á Egil Helgason. Hann vill líka þagga niður í honum.

Þöggun var ein af stóru ástæðunum fyrir því hversu langt var hægt að leiða Ísland afvega á áratugnum fyrir hrun.

Þöggunaröflin eru enn í fullu fjöri.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 15.1.2013 - 12:44 - FB ummæli ()

Svíþjóð afsannar frjálshyggjuna

Hægri menn hafa lengi haft horn í síðu Svíþjóðar og norrænu velferðarríkjanna almennt.

Þeir elska markaðinn en hata velferðarríkið og lýðræðið.

Til að réttlæta þessa afstöðu hafa frjálshyggjumenn nokkrar kenningar. Grundvöllurinn er þó alltaf sá, að ríkið megi ekkert gera. Allt sem ríkið geri sé slæmt, en allt sem einkageirinn geri sé gott. Það er þeirra kredda (sem nú er í kreppu).

Samt er ríkisrekna heilbrigðiskerfið á Norðurlöndum bæði ódýrara og árangursríkara en einkarekna heilbrigðiskerfið í Bandaríkjunum. Munurinn er mikill.

Skoðum nokkrar tilgátur frjálshyggjumanna með hliðsjón af árangri Svíþjóðar til lengri tíma:

  • Frjálshyggjumenn segja að þeim mun stærra sem ríkið sé þeim mun minni verði hagsældin.
  • Staðeyndin: Svíar eru í dag með eitt stærsta ríkisvald Vesturlanda en samt með ágætan hagsæld almennings (ríka fólkið í Svíþjóð er að vísu ekki eins ríkt og þeir ríku í USA; kjör þeirra fátæku eru mun betri í Svíþjóð). Þannig hefur það verið í áratugi.
  • Frjálshyggjumenn segja að háir skattar letji fólk frá vinnu og breyti samfélaginu í letigarð.
  • Staðreyndin: Svíar eru með næst hæstu skattbyrðina í OECD-löndunum og jafnframt með einna mestu atvinnuþátttökuna, mun meiri atvinnuþátttöku en t.d. USA og Bretland, sem hafa mun lægra skattstig. Þannig hefur það verið í áratugi.
  • Frjálshyggjumenn vilja óheftan fjármálamarkað, lausan við ríkisafskipti.
  • Staðreyndin: Traustu opinberu regluverki og eftirliti er þakkað að Svíþjóð finnur nú lítið fyrir fjármálakreppunni. Afreglun og aukið frelsi á fjármálamarkaði 1980-90 leiddi hins vegar til fjármálakreppunnar er hófst í Svíþjóð 1990 (sjá t.d. Reinhardt og Rogoff 2009).
  • Frjálshyggjumenn vilja ekki jafna tekjuskiptinguna sem markaðurinn skilar, segja það hamla efnahagsframförum. Þeir vilja frekar ójöfnuð.
  • Staðreyndin: Svíþjóð er nú með einna jöfnustu tekjuskiptinguna í OECD-ríkjunum en samt er verið að hæla þeim fyrir góðan efnahagsárangur og ágæta hagsæld. Jöfnuður og efnahagsframfarir hafa lengi farið farsællega saman í Svíþjóð – og gera enn.

Svíþjóð er sem sagt alger andstæða þess þjóðmálalíkans sem frjálshyggjumenn boða. Þeir hafa hingað til sótt mest í hugmyndir um óheftann kapítalisma og lágmarksríki, sem eiga meira upp á pallborðið hjá róttækustu hægri mönnum í Bandaríkjunum.

Stórt, lýræðislegt og öflugt ríkisvald, öflugt opinbert velferðarkerfi, háir skattar og mikill jöfnuður. Allt er þetta dauðadómur samkvæmt rétttrúnaðarkenningum frjálshyggjunnar.

Leiðin til ánauðar og fátæktar, eins og Hayek sagði!

Samt eru þetta einkenni Svíþjóðar í dag og hafa verið lengi. Og frjálshyggjumenn viðurkenna nú loks að Svíum hefur vegnað vel.

Svíþjóð hefur náð góðum árangri um áratuga skeið, bæði í hagsæld og velferðarmálum almennings – þrátt fyrir allt.

Það er spurning hvort frjálshyggjumenn séu að búa sig undir að afneita kenningum sínum fyrst þeir eru farnir að mæla með “nýju sænsku leiðinni”, sem er að stærstum hluta eins og “gamla sænska leiðin”?

Ég hef áður bent á hvernig ungir frjálshyggjumenn eru farnir að horfa til hippahreyfingarinnar og ævintýra Thorbjörns Egner í leit að nýjum ímyndum og hugmyndum (sjá “Hipparnir í Hálsaskógi”).

Ef Ísland ætti að fara þessa “nýju sænsku leið” þyrfti að auka hér velferðarútgjöld verulega, stækka opinberu stjórnsýsluna, efla opinbert eftirlit, hækka skatta stórlega – og jafnvel hækka kaupið.

Jóhanna Sigurðardóttir yrði að sitja eitt kjörtímabil í viðbót!

Ætla frjálshyggjumenn virkilega að mæla með því að Ísland fylgi nýju sænsku leiðinni?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 14.1.2013 - 20:45 - FB ummæli ()

Frjálshyggjumenn vilja sænskar kjötbollur!

Í hádeginu hlustaði ég á frjálshyggjumann frá Svíþjóð tala um það sem hann kallar “nýju sænsku leiðina”. Það var bráðskemmtilegt.

Í erindinu og umræðunum kom fram að flest það sem hann talaði um er í senn gamla og nýja sænska leiðin. Sama súpan!

Svíþjóð er enn þann dag í dag eitt mesta jafnaðarríkið á Vesturlöndum, með velferðarútgjöld í hæstu hæðum og skattbyrði meiri en flest önnur OECD-ríki. Einnig með ágæta hagsæld og eina hæstu atvinnuþátttöku í heiminum.

Þannig var það líka árin 2008, 2000, 1988, 1980 og 1970 – og flest árin á milli.

Svíþjóð lenti að vísu í djúpri fjármálakreppu upp úr 1990, eftir að fjármálageiri þeirra hafði verið afreglaður og frelsi aukið upp úr 1980. Þeir fóru afvega vegna of mikilla frjálshyggjuáhrifa í fjármálageiranum. Af því varð mikið bóluhagkerfi sem sprakk um 1990. Þá fór allt úr skorðum í nokkur ár, rétt eins og við höfum reynt í okkar fjármálakreppu frá 2008.

En svo snéri allt meira og minna í sama farið eftir 1995. Jú, skattkerfinu hefur verið breytt aðeins, lífeyriskerfinu líka, hærri tekjur hafa hækkað aðeins meira en áður og ójöfnuður aukist eins og víða annars staðar. Þetta eru þó bara smá fínessur, eins og sænsk stjórnvöld hafa alla tíð verið opin fyrir. Varla fréttnæmt. Helsta fréttin er hversu litlu borgaralegu flokkarnir hafa breytt í velferðarmálunum. Þeir eru bara furðu líkir krötunum!

Svíar hafa alltaf viljað hafa þróttmikinn markað og hagkvæmni við hliðina á öflugu velferðarkerfi og jöfnuði í skiptingu lífskjaranna. Þannig er það enn.

Það skemmtilegasta við fyrirlesturinn var þó það, að hann var í boði hugveitu Hannesar Hólmsteins og frjálshyggjukóna hans. Þeir vilja nýju sænsku leiðina!

Ef Ísland færi hana þyrfti að hækka velferðarútgjöld hér á landi úr um 22% af VLF í um 28%. Skattbyrðin þyrfti að hækka úr um 35% af VLF í um 45%. Álagning á hæstu tekjur einstaklinga þyrfti að hækka úr um 46% í um 56% og álagning á fjármagnstekjur og fyrirtæki þyrfti að hækka stórlega. Annað er eftir þessu. Svíar eru okkur fremri í mörgum velferðarmálum.

Hannes Hólmsteinn er alla jafna mjög öflugur í áróðursbaráttunni. En í dag skaut hann sig í fótinn!

Mig grunar að allt tal frjálshyggjumanna um nýju sænsku leiðina breytist undurfljótt í tal um gamlar og góðar sænskar kjötbollur!

Pólitík frjálshyggjumanna verði áfram sótt til Texas og Cato Institute í Bandaríkjunum. Peningamennirnir í Sjálfstæðisflokknum vilja það miklu frekar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 14.1.2013 - 11:26 - FB ummæli ()

Sjálfstæðismenn – Einkavæðing orkulindanna?

Einkavæðing hefur ekki fært íslensku þjóðinni gæfu hingað til. Öðru nær.

Einkavæðing bankanna misheppnaðist svo herfilega að hún leiddi þjóðarbúið næstum í gjaldþrot – á örfáum árum. Margir einkaaðilar græddu þó gríðarlega á því ævintýri.

Einkavæðing Landssímans misheppnaðist einnig algerlega. Viðskiptavinir Símans borga kaupverðið smám saman fyrir “eigendurna”. Kaupendur og braskarar græddu einnig mikið á því ævintýri, en þjóðin tapaði. Dæmin eru fleiri.

Einkavæðing á Íslandi hefur ítrekað breyst í einkavinavæðingu, þar sem gróði sérhagsmunaaðila hefur ráðið för – á kostnað almannahagsmuna.

Nú boðar formaður Sjálfstæðisflokksins einkavæðingu Landsvirkjunar. Að þessu sinni til lífeyrissjóðanna. Þingmaður flokksins vill selja helming fyrirtækisins í byrjun.

Sala til lífeyrissjóðanna er augljóslega hugsuð sem millileikur að því að koma Landsvirkjun og orkulindunum sem hún nýtir í hendur einkaaðila, auðmanna flokksins. Innvígður og innmúraður Eimreiðarmaður er nú forstjóri Framtakssjóðs lífeyrissjóðanna. Hann yrði væntanlega í lykilhlutverki í þessu máli. Hann tengdist líka hinni misheppnuðu einkavæðingu Landssímans.

Lífeyrissjóðirnir geta þó varla keypt í Landsvirkjun nema hafa útgönguleið til að selja fyrirtækið áfram á hlutabréfamarkaði. Þar með væri leiðin vörðuð að því að afhenda auðmönnum orkulindir þjóðarinnar, beint eða óbeint. HS Orka og REI málin sýna hug og gerðir Sjálfstæðismanna í þessum efnum. Ekkert hefur breyst hjá þeim.

Auðmenn flokksins ágirnast orkulindirnar.

Það er raunar ævintýralegt að slíkt skuli geta komið á dagskrá eftir það sem á undan er gengið. Og svo skjótt!

Þetta sýnir mikilvægi þess að koma nýju stjórnarskránni í höfn. Að minnsta kosti nýja auðlindaákvæðinu og rýmri heimildum til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslum.

Þjóðin þarf að verja eignir sínar gegn ágangi gráðugra úlfa.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 12.1.2013 - 10:56 - FB ummæli ()

Birgir Þór Runólfsson svarar engu!

Frjálshyggjumaðurinn Birgir Þór Runólfsson hefur skrifað marga pistla um meint samband frjálshyggjuvísitölu Fraser áróðursveitunnar og lífskjara þjóða. Boðskapurinn er alltaf sá, að í löndum þar sem frjálshyggjuvísitalan er hærri þar séu lífskjör allra betri. Líka lágtekjufólks.

Þær niðurstöður fást með samanburði þróaðra landa og vanþróuðustu landa þriðja heimsins. Þau vanþróuðu fá almennt lága einkunn á alla mælikvarða, líka þá sem eru í frjálshyggjuvísitölunni.

Ég hef sýnt með gögnum að útkoman er önnur ef menn bera saman hagsælu þjóðirnar innbyrðis. Fátækt er ekki minnst í vestrænum hagsældarríkjum þar sem frjálshyggjuvísitalan er hæst. Öðru nær.

Í raun segir frjálshyggjuvísitalan lítið annað en það, að lífskjör þróuðu þjóðanna eru betri en lífskjör vanþróuðu landanna. Það virðast frjálshyggjumenn telja mikil tíðindi!

Svo bæta þeir við að þróuðu löndin séu þróuð vegna þess að þar hafi fjárfestar meira frelsi, kalla það “atvinnufrelsi”. Það er boðskapur frjálshyggjuvísitölunnar.

Aðrir sjá samband milli aukins frelsis á fjármálamarkaði og aukinnar hættu á fjármálakreppum, með auknum ójöfnuði og fátækt, eins og gerst hefur eftir um 1980 og magnast stórlega í núverandi kreppu.

Það voru til dæmis ofurfrjálsir fjármálamenn og braskarar sem settu Ísland á hausinn, svo nærtækt dæmi um nytsemd frjálshyggjunnar sé rifjað upp

Hrunið varð einmitt í kjölfar þess að frjálshyggjuvísitala Fraser veitunnar fyrir Ísland hafði hækkað mikið, eins og guðfaðir íslensku frjálshyggjutilraunarinnar benti á og þakkaði fyrir (sjá hér og hér)!

Þeir voru að byggja hér frjálsa alþjóðlega fjármálamiðstöð og skattaparadís fyrir auðmenn!

Birgir Þór Runólfsson þekkir vel hvernig fjármálafrelsið lék heimabyggð hans, Reykjanesbæ. Einn öflugasti sparisjóður landsins, SpKef, var þar rekinn í þrot af ofurfrjálsum bröskurum. Atvinnuleysið náði met hæðum. Birgir Þór sat í stjórn sparisjóðsins. Hann þekkir þetta innanfrá. Hann ætti að segja okkur í smáatriðum hvernig frelsi þeirra sem þar réðu för gagnaðist samfélaginu í Keflavík – og raunar skattborgurum Íslands öllum.

Birgir Þór Runólfsson sat líka í bankaráði Seðlabankans fram að hruni. Sá banki var einnig rekinn í þrot. Birgir Þór ætti að segja okkur í smáatriðum hvernig frjálshyggjufrelsið sem hann boðar gagnaðist þjóðinni á liðnum árum, eins og það blasti við úr Seðlabankanum. Slík innsýn úr brunarústum hrunsins væri vel þegin.

Er ekki rétt að menn svari slíku áður en þeir bjóða íslensku þjóðinni upp á enn stærri skammt af frjálshyggjufrelsi?

Ég hef bent á þetta í pistlum mínum:

  • Samanburður þróuðu landanna innbyrðis segir allt aðra sögu en þessi samanburður þróaðra og vanþróaðra landa sem frjálshyggjumenn byggja mikið á.
  • Frjálshyggjuvísitalan er almennt ekki hærri þar sem fátækt er minni í hagsælli ríkjunum. Hún hefur í reynd enga fylgni við fátækt innan hóps hagsælli ríkjanna í OECD-samtökunum.
  • Frjálshyggjuvísitalan gengur út frá því að velferðarríkið sé til marks um ófrelsi, þó það frelsi mikinn fjölda fólks úr fátækt.
  • Sum OECD-ríkjanna sem eru með hærri rauntekjur lágtekjufólks og minni fátækt en Bandaríkin komast ekki einu sinni í efsta fjórðung frjálshyggjuvísitölunnar. Holland, sem er með ein bestu lífskjör almennings í heiminum, er t.d. með frekar lága frjálshyggjuvísitölu. Einnig Svíþjóð og Lúxemborg.
  • Þá hef ég einnig bent á að samanburður þjóðarframleiðslu á mann sé villandi sem altækur mælikvarði á lífskjör, vegna þess að mjög misjafnt er hvernig þjóðarframleiðslan skiptist milli þjóðfélagshópa.
  • Afleit kjör lágtekjufólks í Bandaríkjunum er skýrasta dæmið um hversu vafasamt er að lesa of mikið í tölur um þjóðarframleiðslu á mann einar sér, ef ekki er tekið tillit til þess hvernig hún skiptist milli þegnanna.
  • Meira frjálshyggjufrelsi er nátengt auknum ójöfnuði og aukinni skuldasöfnun á Vesturlöndum eftir um 1980.

Birgir Þór segist vera að svara mér. En hann svarar engu af þessu sem hér er nefnt.

Raunar segir hann að ekki sé hægt að véfengja þær tölur sem ég birti nýlega um afkomu lágtekjufólks. Það er þó rétt hjá honum. En hvernig væri þá að meðtaka það sem þær segja?

Í staðinn segist hann frekar vilja bera saman Vesturlönd og Kongó í Afríku og þakka frjálshyggjunni einni fyrir hagsæld vestrænu þjóðanna. Hann endurtekur í sífellu frjálshyggjuþuluna.

Lýðræðið, menntunin, tæknin, siðferðið og velferðarríkið skiptu engu máli fyrir nútímavæðinguna og framfarir í þessari furðusögu frjálshyggjunnar. Ekkert af þessu er inni í frjálshyggjuvísitölunni.

Það væri skemmtilegra ef frjálshyggjumenn væru ekki að hengja hugsun sína um of á áróðursvísitölur amerískra auðjöfra, eins og þessi vísitala Fraser veitunnar er (vísitalan er í boði Koch bræðra, bakhjarla Teboðshreyfingarinnar).

Frjálshyggjumenn ættu frekar að bjóða heilbrigðri skynsemi í hús sín. Þá yrðu framfarir.

Birgir Þór Runólfsson svarar engu því sem ég hef sett fram.

Ég spái því að hann svari heldur engu um það, hvernig aukið frjálshyggjufrelsi fjármálamanna gagnast íslensku þjóðinni almennt eða Keflvíkingum sérstaklega.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 10.1.2013 - 20:59 - FB ummæli ()

Fátæk börn í ríkum löndum

Það er að mörgu leyti dapurlegt að í ríku löndum heimsins skuli enn vera umtalsverður hluti barna sem býr við fátækt.

Það er enn dapurlegra að fátækum börnum hefur fjölgað í sumum ríku löndunum eftir um 1980 (sjá hér). Sú fjölgun virðist tengjast stefnubreytingu hjá mörgum vestrænum stjórnvöldum, einkum þeim sem færðu sig í átt til aukinnar frjálshyggju.

Þannig jókst fátækt verulega í Bretlandi á tíma frjálshyggjuleiðtogans Margrétar Thatcher (sjá hér). Einnig í Bandaríkjunum á tíma Reagans.

Þetta gildir þó ekki um öll OECD-ríkin, til dæmis norrænu velferðarríkin og sum ríkin á meginlandi Evrópu. Í núverandi kreppu bætist sums staðar enn í fátæktina.

Þetta er dapurlegt vegna þess að hagsælu ríkin hafa full efni á því að lyfta öllum barnafjölskyldum upp fyrir fátæktarmörk, þrátt fyrir kreppuna. Þetta er einfaldlega spurning um breytta skiptingu þjóðarkökunnar. Spurning um stefnu.

En hversu mikil var fátækt barna í OECD-ríkjunum árið 2007? Það má sjá á myndinni hér að neðan.

Umfang barnafátæktar (% barna í viðkomandi landi sem búa í fjölskyldu með minna en 50% af miðtekjum á mann), árið 2007. (Heimild: OECD relative poverty rates).

 

Hér er sérstaklega athyglisvert að norrænu löndin raða sér í efstu sætin, með minnsta fátækt meðal barna, ásamt Slóveníu. Skammt undan eru svo Austurríki, Ungverjaland, Þýskaland, Tékkland og Frakkland.

Ísland var fyrir hrun í hópi þeirra þjóða sem minnsta barnafátækt höfðu (svipað og í Svíþjóð en meira en í Danmörku, Finnlandi og Noregi). Þessi staða hefur haldist í gegnum kreppuna, vegna þess að lægstu tekjuhópum var hlíft að hluta, þó svo að fjárhagsþrengingar allra heimila hafi aukist við hrunið. Á þessu ári verða barnabætur hækkaðar mikið og ætti það að draga úr þrengingum barnafjölskyldna hér á landi. Það var tímabær aðgerð.

Ríkustu þjóðir eins og Svisslendingar, Hollendingar, Lúxemborgarar og Bandaríkjamenn eru ekki í hópi þeirra þjóða sem minnsta barnafátækt hafa.

Raunar eru Bandaríkin með afar mikla sérstöðu, því þau eru með fjórðu mestu barnafátæktina, þrátt fyrir mikla hagsæld þjóðarinnar. Rúmlega eitt af hverjum fimm börnum í Bandaríkjunum býr í fjölskyldu sem er með tekjur undir fátæktarmörkum árið 2007.

Þarna eru Bandaríkin í hópi með þjóðum sem eru sannarlega fátækar. Það eru þjóðir eins og Mexíkóar, Chílebúar, Tyrkir og Portúgalir.

Lágt hagsældarstig þessara fátæku þjóða gæti verið afsökun fyrir þær, en Bandaríkjamenn geta ekki sagt það sama. Þeir eru í hópi hinna hagsælustu þjóða Vesturlanda. Í nýliðnum forsetakosningum þar í landi voru fátæktarmál ekki á dagskrá. Skattalækkanir til auðmanna voru hins vegar mikið ræddar!

Bandaríkjamenn virðist skorta vilja til að draga úr fátækt barna, eða þá að þeir fara ranga leið að því marki.

Árangurinn lætur að minnsta kosti á sér standa.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 9.1.2013 - 09:37 - FB ummæli ()

Lífskjör ríka fólksins í OECD-ríkjum

Mjög villandi getur verið að nota þjóðartekjur á mann sem vísbendingu um lífskjör þjóða. Það er vegna þess að mjög misjafnt er hvernig þjóðartekjum er skipt milli þjóðfélagshópa. Einnig er misjafnt hvernig þjóðarkökunni er varið til velferðarmála almennings.

Bandaríkin eru með einna hæstu þjóðartekjurnar á mann að meðaltali. Ríka fólkið tekur hins vegar óvenju stóran hluta þjóðarteknanna þar í landi (sjá myndina hér að neðan).

Ríka fólkið í Bandaríkjunum er ríkara en ríka fólkið í öðrum vestrænum samfélögum (svörtu súlurnar á myndinni hér að neðan). Fátæka fólkið í Bandaríkjunum er hins vegar mun fátækara (bláu súlurnar) en ætla mætti af meðaltekjum þjóðarinnar.

Raunverulegar ráðstöfunartekjur hátekjufólks (tekjuhæstu 10% íbúa) og lágtekjufólks (lægstu 10%), í US$ með kaupmáttarsamræmingu. (Gögn frá OECD)

 

Tekjur lágtekjufólks í þessu hagsæla ríki ná einungis 19. sæti í hópi OECD-ríkjanna 30. Raunar er afkoma lágtekjufólks í Bandaríkjunum talsvert verri en það, því lágtekjufólk þar nýtur lítillar velferðarþjónustu sem almennt bætir mjög hag lágtekjufólks á Norðurlöndum og í mörgum ESB-ríkjum.

Lúxemborg er með næsthæstu hátekjurnar, en ráðstöfunartekjur lágtekjufólks (lægstu 10% íbúanna) eru samt meira en tvisvar sinnum hærri þar en í Bandaríkjunum. Meira að segja Bretland er með betri afkomu lágtekjufólks en Bandaríkin.

Þetta þýðir að tölur um þjóðartekjur á mann (meðaltalið) í Bandaríkjunum segja lítið um lífskjör þess hluta þjóðarinnar sem lægri tekjurnar hefur. Þar er fólk sem oft lifir eins og íbúar fátækra þróunarlanda, mitt innan um ríkidæmið sem hátekjufólk býr við.

Bandaríska þjóðin er nú á dögum meira klofin af stéttaskiptingu en flestar aðrar vestrænar þjóðir (sjá hér og hér).

Bilið milli ríkra og fátækra er meira í Bandaríkjunum en almennt í hagsældarríkjunum. Ójöfnuðurinn er meiri þar.

Frjálshyggjumenn á Íslandi flagga oft Bandaríkjunum sem fyrirmyndarríki frjálshyggjunnar og segja það mikið hagsældarríki, vegna þess að það sé svo “frjálst”.

Það er hins vegar mjög villandi framsetning. Það er fyrst og fremst ríka fólkið sem er frjálst í Bandaríkjunum (sjá hér).

Rétt er að menn sem mikið tala um frelsi spyrji að því, hvort fátæka fólkið í Bandaríkjunum sé sérstaklega frjálst, ekki síst í samanburði við fátækt fólk í velferðarríkjum Evrópu og Norðurlanda.

Þeir sem hafa hærri ráðstöfunartekjur hafa almennt meira valfrelsi í markaðsþjóðfélaginu. Lágtekjufólk er því almennt með minnsta valfrelsið.

Lágtekjufólk Bandaríkjanna er mun ófrjálsara en lágtekjufólk á Norðurlöndum og í mörgum hagsælli ríkjunum í Evrópusambandinu. Það er vegna þess að tækifæri og afkoma fátækra í Bandaríkjunum eru verri. Hér erum við auðvitað að tala um valfrelsi á markaði.

Frjálshyggjumenn hafa hins vegar lítinn áhuga á að auka frelsi fátækra, láta sig hag þeirra yfirleitt litlu varða. Enda kennir nýjasti hugmyndafræðingur þeirra, Ayn Rand, að fátækir séu ónytjungar og afætur á breiðum bökum ríka fólksins.

Enda er boðskapur dagsins hjá frjálshyggjumönnum að lækka skatta á ríka fólkið og leggja niður velferðarríkið sem gagnast milli og lægri tekjuhópum mest.

 

Aths. Tölur OECD um tekjur hátekjufólks undanskilja hluta eignatekna (capital gains) og tekjur sem flæða í erlend skattaskjól. Því er ljóst að tekjur hátekjufólks á myndinni eru í mörgum tilvikum vantaldar sem þessum þáttum nemur, enda snerta þessir þættir ekki tekjur lægri og milli hópanna.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 7.1.2013 - 10:17 - FB ummæli ()

Lífskjör lágtekjufólks í OECD-ríkjum

Mjög villandi getur verið að draga ályktanir um lífskjör þjóða út frá þjóðarframleiðslu á mann einni saman, eins og frjálshyggjumenn gjarnan gera. Það er vegna þess að mjög misjafnt er milli þjóða hvernig þjóðarkökunni er skipt milli þegnanna.

Ef hátekjufólk tekur mjög stóran hluta þjóðarkökunnar til sín er minna eftir handa milli og lægri tekjuhópum. Þess vegna þurfa menn að skoða jöfnum höndum hagsældarstig, afkomu lágtekjuhópa og fátækt.

Bandaríkin eru til dæmis með háa þjóðarframleiðslu á mann. Þýðir það að þeir séu með bestu lífskjörin fyrir alla?

Ekki sjálfkrafa.

Skoðum til dæmis raunverulega afkomu lágtekjufólks á myndinni hér að neðan. Hún sýnir ráðstöfunartekjur þeirra 10% íbúanna sem hafa lægstu tekjurnar. Tölurnar koma frá OECD.

Mynd: Ráðstöfunartekjur á mann hjá þeim 10% íbúa sem lægstar tekjur hafa, í jafngildum Bandaríkjadölum, árið 2005.

Þarna sjáum við að Bandaríkin eru vel fyrir neðan meðallag OECD-ríkjanna, með þjóðum eins og Grikklandi og Tékklandi, sem eru miklu fátækari ef miðað er við þjóðarframleiðslu á mann.

Best er afkoma lágtekjufólks í Lúxemborg, á Norðurlöndum og í öðrum farsælum ríkjum á meginlandi Evrópu, eins og Hollandi, Austurríki, Bretlandi, Sviss, Belgíu og Frakklandi.

Þær þjóðir sem hafa hæstar ráðstöfunartekjur lágtekjufólks hafa allar öflug velferðarríki sem beina umtalsverðum tekjutilfærslum til lágtekjufólks.

Mjög hátt hagsældarstig getur líka hjálpað við að bæta afkomu lágtekjufólks, eins og í Lúxemborg – en það dugir þó ekki eitt og sér, eins og Bandaríkin sanna. Bandaríkin eru sannarlega með hátt hagsældarstig (háa þjóðarframleiðslu á mann) en þau gera afar illa við lágtekjufólk. Þar er mikil fátækt í miðju ríkidæminu.

Í evrópsku löndunum sem eru með háar ráðstöfunartekjur nýtur lágtekjufólk að auki mun meiri velferðarþjónustu en er í Bandaríkjunum. Þetta á t.d. við um sjúkratryggingar, niðurgreidda leikskóla, gjaldfrjálsa skóla, niðurgreiddar almenningssamgöngur og félagslega þjónustu.

Þegar allt þetta er tekið með í dæmið verður munurinn á Bandaríkjunum og ensku-mælandi þjóðunum annars vegar og velferðarríkjum Norðurlanda og Vestur Evrópu hins vegar enn meiri en fram kemur á myndinni, velferðarríkjunum í hag. (Bretland sker sig þó úr í hópi ensku-mælandi þjóðanna, vegna þess að þar eru umtalsverðar láglaunabætur og einnig ríkisspítalakerfi sem býður öllum ódýra heilbrigisþjónustu).

Lágtekjufólk á Íslandi er með lægri ráðstöfunartekjur en samsvarandi hópur í hinum norrænu ríkjunum. Það mætti nota sem rök fyrir því að fátækt eða fjárhagsþrengingar geti verið meiri hér á landi en hjá norrænu frændþjóðunum.

Almennt er dýrara að búa í hagsælli löndunum. Þar er verðlag allt hærra en í fátækari löndum. Þess vegna er notuð önnur mæling á fátækt, þ.e. hlutfall heimila sem eru með minna en 50% af miðtekjum á mann. Það gefur þó oftast svipaða niðurstöðu og raunverulegu ráðstöfunartekjurnar sem hér eru sýndar (fylgni er nálægt 0,7).

Ef það er rétt að lífskjör þjóða séu best mæld með því að skoða stöðu þeirra sem minnst hafa, þá er niðurstaðan á myndinni skýr.

Velferðarríkin í Vestur Evrópu og á Norðurlöndum hafa mikla yfirburði yfir frjálshyggjuþjóðirnar, eins og Bandaríkin og flestar aðrar enskumælandi-þjóðir.

En hátekjufólk í Bandaríkjunum og Bretlandi hefur afar góð lífskjör. Það skoða ég í næsta pistli.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 6.1.2013 - 09:21 - FB ummæli ()

VG – Sundurlyndið rýrir fylgið

Að stjórna Íslandi í gegnum kreppuna hefur reynt á stjórnarflokkana. Sýnu meira þó á VG en Samfylkinguna. Samfylkingin hefur leitt ríkisstjórnarsamstarfið og staðið saman en VG hafa glímt við síendurtekna sundrungu og innbyrðis átök.

Samt hafa ríkisstjórnarflokkarnir staðið sig ótrúlega vel. Náð árangri sem hælt er í öllum heimshornum.

Nú nýlega hefur fylgi VG orðið minna en fylgi hins nýja framboðs Bjartrar framtíðar. Kannanir sýna að fylgi hefur m.a. tapast frá VG til Bjartrar framtíðar. Það eru laun sundurlyndisins! Tapið er ekki vegna ESB-málsins, eins og Jón Bjarnason fullyrðir, því BF er hlynt aðildarviðræðum.

Raunar hefur sundurlyndi VG manna, villikattanna svokölluðu, ekki einungis skemmt fyrir VG. Það hefur einnig skemmt fyrir ríkisstjórninni í heild. Almenningur spyr sig, hvers vegna skyldi maður styðja ríkisstjórn sem ekki styður sig sjálf?

Eiga sundurlyndir VG-menn svar við því?

Og hver er svo uppskera sundurlyndisins? Hvað vannst með þessu öllu?

Lilja Mósesdóttir sigldi stjórnmálaferli sínum í öngstræti. Atli Gíslason sömuleiðis. Ásmundur Einar Daðason reynir að framlengja feril sinn á lekum fleka Framsóknar. Ögmundur er búinn að rýra bakland sitt og situr eftir veikari innan flokksins.

Vann Ögmundur einhverja sigra sem voru átakanna virði? Ég held ekki. Hefði hann unnið með Steingrími og liði hans hefði hann orðið sjálfkjörinn og sterkur leiðtogi VG í fyllingu tímans.

Standa almennt einhverjir málefnasigrar eftir sem voru sundrungarinnar virði? Ég held ekki. Meira að segja Icesave málið sýnir sig að hafa verið hæpinn leikur, þegar gætt er að því hversu stóran hluta kostnaðarins hinn fallni banki greiðir. Það lá fyrir strax eftir annan samninginn (sjá hér).

Er ekki tímabært að vinstri menn læri þá lexíu að samstaða út á við er lykilatriði fyrir líf ríkisstjórna? Traust almennings á stjórnvöldum rofnar ella. Leysa á ágreining innandyra.

Menn vinna sumt og tapa öðru í samstarfi – en standa svo saman út á við, allir sem einn gegn andstæðingum, sem sitja á svikráðum. Það er forskriftin að farsælum stjórnarháttum – auk skynsamlegrar stefnu.

Þetta hefðu allir vinstri menn átt að vera búnir að læra fyrir mörgum áratugum. En sumir þeirra virðast enn eiga erfitt með að læra af stjórnmálasögunni! Sundurlyndi vinstri manna hefur tryggt Sjálfstæðisflokknum, atvinnurekendum og fjármálamönnum ofurvald á Íslandi til lengri tíma.

Ég tel þó að bæði VG og Samfylkingin muni fá meira fylgi í kosningum í vor en í núverandi könnunum. Árangur ríkisstjórnarinnar er einfaldlega það góður að vandað fólk sér það og veitir viðurkenningu þegar á hólminn er komið.

Vinstri flokkar fá líka oftast meira fylgi í kosningum en könnunum. Ekki sama fylgi og síðast, en þokkalegt fylgi engu að síður.

Áframhaldandi sundrung væri þó leið til að gera slíka spá að engu…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 4.1.2013 - 13:06 - FB ummæli ()

Þjóðin þarf kauphækkun – núna

Hagstofa Íslands birti í desember sl. nýja könnun á launum fyrir árið 2010 með samanburði við þjóðir Evrópusambandsins.

Samanburðurinn miðast við jafnvirðisgildi, þ.e. tekið er tillit til mismunandi verðlags í löndunum. Þetta er því samanburður á raunlaunum.

Niðurstaðan er sú, að árslaun á Íslandi voru um 95% af meðaltali ESB-ríkja árið 2010, en ef við skoðum raunverulegt tímakaup þá var Ísland með um 82% af meðaltali ESB-ríkjanna. Árslaunin eru nær meðaltalinu í Evrópu en tímakaupið, vegna þess að Íslendingar vinna mun lengri vinnutíma en Evrópumenn almennt gera.

Tímakaupið er eðlilegasti mælikvarðinn á kjör vinnandi fólks. Tímakaup á Íslandi er óeðlilega lágt og hefur lengi verið svo. Það sjáum við með samanburði tímakaupsins og þjóðarframleiðslu á mann.

Hvernig var þjóðarkakan á Íslandi í samanburði við Evrópuríkin á sama ári? Þjóðarframleiðsla á mann, að teknu tilliti til mismunandi verðlags, sýnir hversu mikið er til skiptanna fyrir vinnandi fólk.

Tölur Eurostat (Evrópsku Hagstofunnar) sýna að þjóðarframleiðslan á mann var 12% hærri á Íslandi en að meðaltali í ESB-ríkjum á árinu 2010. Þetta er sýnt á myndinni hér að neðan, í samanburði við tímakaupið.

Mynd 1: Landsframleiðsla á mann og tímakaup: Ísland og ESB samanborin (Heimild: Hagstofa Íslands 2012)

Tímakaupið á Íslandi var sem sagt 82% af meðaltali ESB-ríkja árið 2010 en landsframleiðsla okkar var þá 12% hærri en meðaltalið. Tímakaupið var því óeðlilega lágt hér á landi.

Svona var þetta einnig fyrir hrun (sjá hér). Tímakaup var of lágt miðað við ríkidæmi þjóðarinnar, eins og það mælist í landsframleiðslu á mann. Ráðstöfunartekjurnar lækkuðu svo helmingi meira í hruninu en þjóðarframleiðslan.

Kjaraskerðingin á Íslandi varð meiri en í öðrum Evrópuríkjum í kreppunni (sjá hér). Árið 2010 náðum við botni kreppunnar, en kaupmátturinn hefur hækkað aftur, einkum á árinu 2011 – en ekki nærri nóg. Verðlagið veður upp.

Nú er hagvöxtur annað árið í röð og spár fyrir 2013 eru ágætar. Kaupmáttur launa hefur hins vegar hækkað of rólega það sem af er.

Þess vegna þarf þjóðin meiri kauphækkun núna.

Hér að neðan má svo sjá röðun þjóðanna í Evrópu, annars vegar eftir kaupmætti landsframleiðslu á mann en hins vegar eftir kaupmætti tímakaupsins.

Íslendingar hafa raunkaup á svipuðu róli og Spánverjar, Möltubúar og Slóvenar, þjóðir sem eru mun fátækari en Íslendingar.

Samanburður á röðun Evrópuþjóða með tilliti til landsframleiðslu á mann og tímakaups. Tölur einstakra landa eru hlutfall af meðaltali ESB-ríkjanna. Heimild: Eurostat 2012.

Kaupið á Íslandi er þannig talsvert of lágt miðað við ríkidæmi þjóðarinnar.

ASÍ forystan hefur því verk að vinna. Kaupið þarf að hækka í fleiri og stærri skrefum en verið hefur, um leið og harðasta aðhaldi gegn verðhækkunum er beitt.

Kauphækkun eykur einkaneysluna sem skapar fyrirtækjunum meiri sölufæri, fleiri störf verða þá til og skatttekjur hins opinbera hækka, sem gerir aftur mögulega hækkun lífeyris og launa opinberra starfsmanna, í sama takti.

Hagvöxturinn verður einnig meiri með þeirri örvun sem launahækkunin veitir.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 3.1.2013 - 12:30 - FB ummæli ()

Fátækt á Íslandi 1991 til 2011

Algengt hefur verið að meta fátækt á Íslandi með tekjugögnum og mæla svokallaða afstæða fátækt, þ.e. hlutfall heimila sem eru með minna en 50% eða 60% af miðtekjum á mann.

Slík gögn sýna yfir tíma hvort lágtekjuhópurinn sé að dragast afturúr miðhópnum eða saxa á hann. Erfitt getur þó verið að túlka slík gögn sem vísbendingu um alvöru fátæktaraðstæður, því aðferðin gengur út á að meta stöðu fólks með hliðsjón af miðju tekjustigans, sem sjálf hreyfist yfir tíma.

Önnur leið til að meta fátækt er að mörgu leyti markvissari og gagnsærri. Hún er sú að telja þann fjölda fólks sem sækir um og fær fjárhagsaðstoð frá sveitarfélögum vegna eigin þrenginga. Þetta er skyldara því sem á ensku er kallað “absolute poverty”, eða algild fátækt. Það má þó einnig mæla með öðrum hætti.

Þeir sem leita þannig til sveitarfélaganna fara í skoðun hjá fagfólki félagsþjónustunnar og ef aðstæður þeirra eru sannarlega fátæktaraðstæður þá fá þeir fjárhagsaðstoð. Því má fullyrða að þeir sem fá slíka aðstoð séu sannarlega fátækir.

Hins vegar er ekki víst að allir sem eru þurfandi snúi sér til sveitarfélaga. Að því leyti má búast við að einhverjir fátækir séu vantaldir með þessari aðferð, t.d. þeir sem fá stuðning frá fjölskyldu og ættingjum eða einfaldlega þrauka í fátæktaraðstæðum sínum án aðstoðar. Fjöldi þiggjenda fjárhagsaðstoðar gefur þó mikilvægar vísbendingar um umfang fátæktar og breytingu hennar yfir tíma.

Á mynd 1 má sjá hvernig fjöldi þiggjenda fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga (sem hlutfall af fjölda heimila í landinu) hefur þróast frá 1991 til 2011.

Þróun fátæktar yfir tíma. Fjöldi þiggjenda fjárhagsaðstoðar, sem hlutfall af fjölda heimila, 1991 til 2011. Heimildir: Hagstofa Íslands og Ríkisskattstjóri.

Öll vitum við að fjárhagsþrengingar hafa aukist eftir hrunið 2008. Enda sýna þessar tölur að þiggjendur fjárhagsaðstoðar vegna fátæktar nærri tvöfölduðust, fóru úr um 1,7% heimila landsins upp í 3,0%. En fátæktarþrengingar jukust einnig áður, bæði 2002 til 2003 og 1993 til 1995.

Athyglisvert er einnig að árið 1995 var sama hlutfall þiggjenda fjárhagsaðstoðar og nú í miðri fjármálakreppunni 2011, eða um 3% heimila í bæði skiptin. Toppurinn árið 2003 var ekki mikið lægri en nú, eða um 2,8%.

Veturinn 2002 til 2003 sagði ég í útvarpsviðtali að vísbendingar væru um að fátækt væri að aukast um þær mundir. Það fór mjög fyrir brjóstið á Hannesi Hólmsteini og Davíð Oddssyni, þáverandi forsætisráðherra. Hannes hefur skrifað tugi greina um þá firru mína að nefna þetta og tók málið á dagskrá síðast í fyrradag (sjá hér). Það mátti ekki segja að fátækt fyrirfyndist á Íslandi á valdatíma Davíðs, hvað þá að fátækt væri að aukast!

En þessi ummæli mín, jafn sakleysisleg og þau voru, byggðu einmitt á tölum um fjölgun atvinnulausra. Atvinnuleysisbætur voru undir fátæktarmörkum á þeim tíma þannig að ljóst var að fjölgun atvinnulausra þýddi í reynd fjölgun fátækra.

 

Fátæktin ræðst af hagsveiflunni og velferðarstefnu stjórnvalda

Á mynd 2 má sjá samband milli atvinnuleysis og fjölda þiggjenda fjárhagsaðstoðar vegna fátæktar. Þar kemur þetta skýrlega fram.

Mynd 2: Samband fátæktar (fjölda þiggjenda fjárhagsaðstoðar) og atvinnuleysis, 1991 til 2011. Heimild: Hagstofa Íslands og Ríkisskattstjóri.

Þarna má sjá að atvinnuleysi var að aukast frá 2002 til 2003 og samhliða því fjölgaði þiggjendum fjárhagsaðstoðar vegna fátæktar. Það sama gerðist með enn skýrari hætti frá 1993 til 1995, en þá varð atvinnuleysið enn meira.

Samkvæmt þessum tölum hefur umfang fátæktar á Íslandi á síðustu 20 árum sveiflast upp og niður með hagsveiflunni, þ.e. með atvinnuleysinu. Þegar dregur saman í þjóðarbúskapnum og atvinnuleysi eykst þá fjölgar fólki í fátækt (fylgnin hagsveiflunnar og fjölda fátækra er mikil, eða um 0,7).

Ef fólk er spurt í könnunum um erfiðleika við að láta enda ná saman í heimilisrekstrinum þá kemur hið sama í ljós: fleiri eiga í fjárhagsþrengingum þegar atvinnuleysi eykst – og fleiri leita þá til sveitarfélaga eftir fjárhagsaðstoð.

Það sem er sérstaklega athyglisvert við þessa mynd er þó hvernig þessu hefur háttað í núverandi kreppu eftir 2008.

Þá rauk atvinnuleysið upp í fordæmalausar hæðir árin 2009 til 2011. Fjöldi heimila sem þáðu fjárhagsaðstoð frá sveitarfélögum vegna fátæktar jókst samhliða, en ekki nærri jafn mikið og ætla hefði mátt út frá fjölgun atvinnulausra.

Miðað við regluna í sambandi milli fjölda fátækra og fjölda atvinnulausra fyrir fjármálakreppuna þá hefði fátækum þiggjendum fjárhagsaðstoðar átt að fjölga mun meira frá 2009 til 2011 en raun varð á. Þarna gætir einmitt þess að stjórnvöld beittu mótvægisaðgerðum til að milda áhrif kreppunnar á lágtekjufólk. Lífeyrislágmark almannatrygginga, atvinnuleysisbætur og lægstu laun voru hækkuð og skattbyrði lægri tekna var lækkuð (sjá nánar um mótvægisaðgerðirnar hér).

Raunar var upphæð fjárhagsaðstoðar sveitarfélaganna líka hækkuð í kreppunni, þannig að hvati til að sækja um slíka aðstoð var aukinn. Samt varð fjölgunin 2009 til 2011 ekki meiri en verið hafði á tímabilinu 1993 til 1995.

Þetta bendir til að mótvægisaðgerðirnar hafi unnið gegn fjölgun fátækra eftir hrun með árangursríkum hætti.

 

Niðurstaða

Niðurstaðan er sem sagt sú, að umfang fátæktar á Íslandi hefur að miklu leyti fylgt hagsveiflunni. Hægt er að beita velferðaraðgerðum til að draga úr þeim áhrifum og halda aftur af fjölgun fátækra, t.d. með bættum kjörum almannatrygginga (hækkun lífeyris og bóta), hækkun atvinnuleysisbóta og lægstu launa og með lækkaðri skattbyrði lægri tekjuhópa.

Undrun vekur að fátækum skuli ekki hafa fjölgað mun meira en raun varð á í núverandi kreppu. Met í lækkun ráðstöfunartekna þjóðarbúsins, verulega aukið umfang atvinnuleysis og skuldaþrenginga gáfu tilefni til mun meiri fjölgunar fólks í fátæktarþrengingum, ef miðað er við reynslu síðustu 20 ára.

Vissulega hafa allir fundið fyrir auknum þrengingum, en að falla í fátækt er annað og stærra mál. Hlutfall fátækra samkvæmt þeirri mælingu sem hér er kynnt varð þrátt fyrir allt ekki meira en á árinu 1995 og lítillega meira en á árinu 2003. Í mörgum grannríkjanna, t.d. Írlandi, hefur fátækum fjölgað mun meira en á Íslandi í núverandi kreppu.

Það er mikilvægur árangur – þrátt fyrir allt.

Tölur um afstæða fátækt sýna hins vegar að fátækum hafi fækkað í núverandi kreppu (úr um 10% niður í 9,2%). Tölurnar sem hér eru sýndar gefa raunsærri mynd af þróuninni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 1.1.2013 - 13:35 - FB ummæli ()

Guðmundur Steingrímsson sló í gegn!

Kryddsíldin á Stöð 2 gefur gjarnan ágætt yfirlit um stöðu stjórnmálanna í árslok. Þar leiða flokksforingjarnir saman hesta sína og gera upp málin og takast svolítið á. Áhorfendur fá smá innsýn í stöðuna.

Að þessu sinni fannst mér Guðmundur Steingrímsson koma best frá atinu. Það sem einkenndi hann var hófsamur og málefnalegur málflutningur, með áherslu á skynsemi sem leiðarljós.

Guðmundur talar fyrir breyttum stjórnmálum, sem margir kalla eftir. Hans áhersla er á efnislega afstöðu og samræður, samstarf um góð mál er horfa til framfara fyrir þjóðina. Engar upphrópanir, lýðskrum eða augljós þjónkun við sérhagsmuni.

Almannahagur er hans leiðarljós.

Afstaða Guðmundar til Evrópusambandsins er ágætt dæmi um þennan málflutning. Við höfum séð hvernig andstæðingar ESB aðildar hafa lagt höfuðáherslu á forheimskun umræðunnar og valdbeitingu til að koma málinu af dagskrá.

Guðmundur leggur áherslu á að ljúka viðræðunum og fá niðurstöðu, svo þjóðin geti fengið að vita hvað myndi felast í aðild að ESB. Síðan taki þjóðin upplýsta afstöðu til málsins. Sjálfur hef ég ekki gert upp hug minn til ESB aðildar en er algerlega sammála Guðmundi um þetta.

Þetta er leið skynsemi og lýðræðis.

Flokkur Guðmundar og félaga, Björt framtíð, hefur allgóða möguleika á að fá umtalsvert fylgi í kosningunum í vor. Ástæða þess er einmitt þessi heilbrigða og hófsama aðkoma Guðmundar að stjórnmálunum. Hann er á miðjunni, ólíkt hans gamla flokki, Framsóknarflokknum, sem er of hallur undir frjálshyggju og sérhagsmuni Sjálfstæðisflokksins.

Síðan hefur Guðmunduir það einnig með sér, að hann er líkur föður sínum Steingrími Hermannssyni. Steingrímur var farsæll leiðtogi Framsóknarflokksins, sem sjálfur naut persónulegs fylgis langt umfram fylgi flokksins.

Steingrímur var maður fólksins. Guðmundur gæti hæglega vaxið upp í slíka stöðu með góðum árangri í kosningunum í vor.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 31.12.2012 - 16:45 - FB ummæli ()

Hetjan er maður ársins!

Eiríkur Ingi Jóhannsson, sjómaðurinn sem bjargaðist með ævintýralegum hætti úr sjóslysinu við Noreg, er maður ársins á Rás 2 og Pressunni – valinn af þjóðinni.

Það er óvenjulega vel valið.

Frásögn Eiríks Inga af slysinu og björguninni lét engan ósnortinn. Styrkur hans og háttvísi mun lifa með þjóðinni um ókomna tíð.

Ég óska öllum lesendum gleðilegs og farsæls nýs árs og þakka fyrir innlitið á síðuna.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar