Mánudagur 21.9.2015 - 09:54 - FB ummæli ()

Inntaka nemenda í framhaldsskóla – frumskógur og ótræði

Lög um Menntamálastofnun voru samþykkt á Alþingi í sumar og hafa þegar tekið gildi og stofnunin þegar tekið til starfa. Þótt binda verði vonir við starf stofnunarinnar eru litlar líkur til að hún geti hjálparlaust ratað gengum þann frumskóg og ótræði sem einkunnagjöf í grunnskólum og inntaka í framhaldsskóla er komin í. 

Stjórnsýslustofnun

Stofnunin er stjórnsýslustofnun, eins og segir í lögum, og skal stuðla að auknum gæðum í skólastarfi. Forstjóri hefur til ráðuneytis sjö manna ráðgjafarnefnd sem ráðherra skipar til fjögurra ára. Forstjóri setur á fót fagráð helstu verksviða, skipuð sérfróðum aðilum, til ráðgjafar en ráðherra setur reglugerð um starf fagráða.

Meginverkefni Menntamálastofnunar er að stuðla að umbótum í skólastarfi, safna upplýsingum og hafa eftirlit með – og meta árangur skólastarfs, veita upplýsingar og leiðbeiningar, sinna framkvæmd laga, reglugerða og annarra stjórnvaldsfyrirmæla og veita ráðherra ráðgjöf. Hér er því um að ræða aukna miðstýringu í skjóli skrifræðis.

Hæfnismat

Framhaldsskólar fá ekki að nýta sér niðurstöður samræmdra prófa grunnskóla við inntöku nemenda, þar sem einkunnir gefnar í bókstöfum. Menntamálstofnun stefnir hins vegar að því að bjóða nýtt hæfnismat, sem framhaldsskólar geta notað við inntöku. Ekki hefur þó verið ákveðið hvernig fyrirkomulag hæfnisprófa verður, en þeim verður stýrt af nýrri Menntamálastofnun.

Skólaþing

Margt í stefnu Menntamálastofnunar – Menntamálaráðuneytis – vekur undrun og tortryggni. Huglægt hæfnismat verður í höndum Menntamálastofnunar og framhaldsskólar fá ekki að nota niðurstöður samræmdra prófa grunnskóla. Með þessu er verið að gera framhaldsskóla ósjálfstæða og ómynduga. Það er ekki góð stefna.

Til þess að rata gengum frumskóg og ótræði, sem einkunnagjöf í grunnskólum og inntaka nemenda í framhaldsskóla er komin í, væri skynsamlegt að efna þegar til skólaþings þar sem fulltrúar kennara, nemenda og skólastjórnenda grunnskóla og framhaldsskóla ræða um færar leiðir í einkunnagjöf og inntöku í framhaldsskóla.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 19.9.2015 - 00:00 - FB ummæli ()

Kalda stríðið IN MEMORIAM

Robert O. Work, varavarnarmálaráðherra Bandaríkjanna, skoðaði mannvirki á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli og fullvissaði sig um að þau gætu nýst nýjustu kafbátaleitarvélum Bandaríkjanna, Boeing P-8 þotum sem eru að grunni af gerðinni Boeing 737-800. Stélið á P-8 þotunum, sem bandaríski flotinn tók formlega í notkun í nóvember 2013, er 1 m hærra en á P-3 Orion skrúfuvélum sem komu til sögunnar 1959 og settu svip sinn á starfsemi varnarliðsins í Keflavíkurstöðinni fram á miðjan tíðunda áratuginn.

Þannig kemst fremsti formælandi kalda stríðsins á Íslandi, Björn Bjarnason, að orði í opnugrein í Morgunblaðinu 18. september 2015. Og Björn Bjarnason heldur áfram:

Forvitnilegt er að fylgjast með hvernig áhugi á öryggi á norðurslóðum vaknar að nýju innan bandaríska stjórnkerfisins.

Fremsti formælandi kalda stríðsins á Íslandi klikkir síðan út með því að segja:

Á suðurvæng Evrópu og varnarsvæðis NATO blasir við upplausn og úrræðaleysi vegna flótta hundruð þúsunda manna frá ófriði í Mið-Austurlöndum. Á norðurvængnum ráða menn ráðum sínum um auknar öryggisráðstafanir. Þetta eru tvísýnir tímar og full ástæða til mikillar varkárni.

Gott er að vita að vara-varnarmálaráðherra Bandaríkjanna hefur fullvissað sig um að mannvirki á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli geta nýst nýjustu kafbátaleitarvélum Bandaríkjanna þótt stélið á þeim sé einum metra hærra en á P-3 Orion skrúfuvélum sem komu til sögunnar 1959 og settu svip sinn á starfsemi varnarliðsins í Keflavíkurstöðinni fram á miðjan tíðunda áratuginn.

Verra er að Björn Bjarnason skuli enn ekki gera sér grein fyrir að upplausn og úrræðaleysi vegna flótta hundruð þúsunda manna undan ófriði í Mið-Austurlöndum – og víðar í heiminum – á rætur að rekja til hernaðarhyggju Bandaríkjanna og Bretlands – og annarra stórvelda – sem byggist á ofurvaldi vopnaframleiðsluauðvaldsins. Full ástæða er til mikillar varkárni, eins og Björn Bjarnason segir. En það er vegna þess að heimsbyggðinni stendur enn sem áður mest ógn af stríðsleik stórveldanna sem leikinn er í skjóli gróðavonar hernaðarauðvaldsins. Því verða hernaðarátökin að kontínúerast. Það er mergurinn málsins. Ef tíunda hluta þess fjármagns, sem eytt er í hernað, mætti reisa við fátækar þjóðir og gera þeim kleift að búa í eigin landi.

Mættu orð Björns Bjarnasonar verða andlátsorð kaldastríðsins.

Flokkar: Stjónmál

Miðvikudagur 9.9.2015 - 21:11 - FB ummæli ()

Vi alene vide

Ofangreind orð – Vér einir vitum – er að finna í yfirlýsingu Friðriks sjötta Danakonungs [1768-1839] sem dagsett er 26. febrúar 1835, en yfirlýsingin var svar konungs við áskorun 600 manna um að hefta ekki prentfrelsi í Danmörku. Í yfirlýsingu konungs segir:

Ligesom Vor landsfaderlige Opmærksomhed stedse har været henvendt paa at bidrage Alt, hvad det stod i Vor kongelige Magt, til at virke for Statens og Folkets Vel, saaledes kan heller Ingen uden Vi alene være i Stand til at bedømme, hvad der er til Begges sande Gavn og Bedste. 

Í íslenskri þýðingu hljóðar þetta þannig – í nafni forseta Íslands:

Eins og landföðurleg umhyggja vor hefur ávallt beinst að því að leggja allt það af mörkum sem í konunglegu valdi voru stendur til að vinna að velferð ríkisins og þjóðarinnar, þannig getur enginn nema vér einir færir um að dæma hvað er gagnlegast og best báðum til handa

Orð Friðriks konungs sjötta eru talin bera vitni um yfirlæti hins einvalda konunga gagnvart þegnum sínum, en konungur sat á valdastól meira en hálfa öld.

Þessi orð Friðriks konungs sjötta komu í huga mér þegar ég hlustaði á ræðu Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands í nær tvo áratugi við setningu Alþingis.

Enda þótt haldinn hafi verið þúsund manna þjóðfundur og Alþingi hafi skipað stjórnlagaráð – eftir að Hæstiréttur ógilti kosningar til stjórnlagaþings á röngum forsendum og af annarlegum ástæðum – og meiri hluti þjóðarinnar hafi samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu að setja nýja stjórnarskrá í samræmi við breytta heimsmynd, nýja hugsun og nýjar hugmyndir um lýðræði og þjóð segir Ólafur Ragnar Grímsson fimmti í ræðu sinni:

Um þessar mundir er hins vegar boðað í nafni nefndar, sem ræðir stjórnarskrána, að hið nýja þing þurfi á næstu vikum að breyta þessum hornsteini íslenskrar stjórnskipunar; tíminn sé naumur því nýta þurfi vegna sparsemi og hagræðis forsetakosningar á næsta vori.

Og Ólafur Ragnar Grímsson – forseti í upphafi 21. aldar – klikkir út með því að segja:

Því ítreka ég nú hin sömu varnaðarorð og við þingsetningu fyrir fjórum árum: að Alþingi tryggi að þjóðin viti með vissu hver staða forsetans sé í stjórnskipun landsins þegar hún gengur að kjörborðinu; annars gætu forsetakosningar orðið efni í óvissuferð.

… að þjóðin viti með vissu hver staða forsetans sé í stjórnskipun landsins. Vi alene vide.

Herra forseti. Þjóðin veit og skilur með aukinni menntun sinni, yfirsýn yfir sögu þjóðarinnar undir dönskum einvaldskonungum sex aldir og ekki síst vegna skilnings þjóðarinnar hvað lýðræði merkir.

Lýðræði er ekki Alþingi – og ekki forseti sem heldur at han alene vide.

 

Flokkar: Stjónmál

Þriðjudagur 23.6.2015 - 19:06 - FB ummæli ()

„Fjölgun aldraðra áhyggjuefni“

Í Fréttablaðinu í dag er fyrirsögn á forsíðu sem hljóðar þannig í drottins nafni: Fjölgun aldraðra áhyggjuefni. Í fréttinni er að vísu talað um að fjölgun aldraðra í Garðabæ sé áhyggjuefni, en þessi orð vöktu einkennilegar kenndir hjá mér, öldruðum manninum.

Egill Thorarensen, kaupfélagsstjóri á Selfossi, sagði lengi að það ætti að drepa alla kalla og kellingar sem yrðu sextug. Svo varð hann sextugur sjálfur hinn 7. janúar 1957 og hélt hann upp á það með glæsibrag, eins og hans var von og vísa. Daginn eftir sagði hann við flokksbróður sinn og vin að það ætti að drepa alla kalla og kellingar sem yrðu sjötug. Egill Thorarensen lifði það ekki að verða sjötugur en dó í janúar 1961, aðeins sextíu og fjögurra ára gamall. Annars hefði hann sagt sjötugur: „Það ætti að drepa alla kalla og kellingar sem verða sjötug.”

Hins vegar sagði Oscar Wilde á sínum tíma: ”Nú á dögum getur maður lifað allt af nema dauðann.” Þannig er það enn og dauðinn er í raun hluti af lífinu og ef við viljum ekki drepa alla kalla og kellingar – eða láta gamalt fólk ganga fyrir ætternisstapa, eins og gert var í miðölum, verðum við að búa sæmilega að öldruðu fólki sem skilað hefur löngu dagsverki og gert Íslands að því góða landi sem það er – burtséð frá Alþingi.

Flokkar: Stjónmál

Þriðjudagur 26.5.2015 - 19:29 - FB ummæli ()

Stóriðja er náttúruspjöll

Dapurlegt er að lesa grein Jóns Gunnarssonar, formanns atvinnuveganefndar Alþingis, í Morgunblaðinu í dag. Í upphafi vitnar hann í Jónas Hallgrímsson sem barðist fyrir endurreisn íslensku þjóðarinnar undir kjörorðunum nytsemi, fegurð og sannleikur. Væri betur að formaður atvinnuvegnanefndar Alþingis gerði þessi orð að kjörorðum sínum og áttaði sig á því hvernig háttað er arðsemi af þeirri stóðiðjustefnu sem hann berst fyrir og telur að ekki þurfi „að fjölyrða um mikilvægi þess að uppbygging orkufreks iðnaðar haldi áfram.“

Í grein Indriða H. Þorlákssonar, sem hann nefnir Er Skrokkalda kjarabót og birtist á heimasíðu hans 20. þ.m., segir:

Ein dapurlegasta tilraun til að réttlæta náttúruofbeldi stóriðjusinna kom fram í vikunni þegar fullyrt var að frekari virkjanir væru forsenda þess að bæta megi kjör almennings. Þetta er dapurlegt af þeirri ástæðu að það sýnir veruleikafirringu stjórnvalda og virðingarleysi fyrir rökum og staðreyndum. Áttatíu prósent raforkuframleiðslu í landinu, sem er um 13.000 gígawattstundir, eru seldar til stóriðju. Sú sala skilar Landsvirkjun litlu ef nokkru meira en fjármagnskostnaði. Söluverðmæti áls mun vera nokkuð yfir 200 milljörðum króna. Þegar greiddur hefur verið hráefnakostnaður og annar rekstrarkostnaður en laun og fjármagnskostnaður standa eftir um 60 milljarðar króna. Um 17 milljarðar fara í laun og launatengd gjöld. Afgangurinn fer í fjármagnskostnað og hagnað eigenda sem laumað er óskattlögðum úr landi. Þessir 17 milljarðar (og einhver smáviðbót vegna svokallaðra afleiddra starfa) eru eina hlutdeild landsins í þeim verðmætum sem stóriðjan skapar. Það er um 1% þjóðartekna.

Og Indriði spyr:

Hvað þarf margar Skrokkölduvirkjanir til að auka þjóðartekjur og bæta hag almennings með nýjum stóriðjuverum? Væri ekki ráðlegt að svara því áður en náttúruverðmætum er fórnað erlendum auðhringjum?

Þetta er mergurinn málsins. Ný stóriðjuver bæta ekki hag almennings né heldur hag þjóðarinnar. Til þess eru aðrar leiðir færar á grundvelli nytsemifegurðar og sannleika. Hins vegar má taka undir orð Jóns Gunnarssonar, formanns atvinnumálanefndar Alþingis, að við “eigum að gera kröfur um að íslenskt samfélag standist samanburð við það besta sem við þekkjum í nágrannalöndunum.” En við gerum það ekki með því að selja náttúruauðlindir landsins erlendum auðhringum sem maka krókinn – græða milljarða meðan við tínum molana af allsnægtarborðum þeirra.

Flokkar: Stjónmál
Efnisorð: ,

Fimmtudagur 21.5.2015 - 21:36 - FB ummæli ()

Íslenskir stjórnmálamenn og hugræn atferlismeðferð

Það er sorgleg reynsla fyrir mig, gamlan organista að norðan, að hlusta á EuroVision lögin, sem í mínum eyrum eru öll eins og minna að því leyti á orðræður íslenskra alþingismanna sem allir syngja sama lagið, að vísu í dúr þegar þeir eru í stjórn, en í moll þegar þeir eru í stjórnarandstöðu, enda sagði gamall sjómaður að austan, að sami rassinn væri undir öllum íslenskum stjórnmálamönnum, þeir væru eins og slitin hljómplata, spiluðu A hliðina í stjórnarandstöðu og B hliðina í stjórn.

En að þessum dæmisögum slepptu, vekur það mér ekki síður undrun heldur ugg og kvíða, hvernig stjórnmál og stjórnmálaumræða er orðin Íslandi þar sem aldrei ætlar að vora. Ekki svo að skilja að úr háum söðli sé að detta, því að aumt var þetta – en aumara er það orðið. Margir hugsandi menn – karlar og konur – hafa spurt sig hvað veldur þessari heimsku og skammsýni, en enginn hefur fundið viðhlítandi svar. Einn talar um fámennið, aðrir um að þjóðin sé orðin svo rík á fáum árum, búi yfir svo miklum auæfum að hún hafi misst sjónar á því sem máli skiptir, og enn aðrir fara aftur á landnámsöld og víkingatímann, eins og aumingja gamli forsetinn gerði fyrir hrunið, og talar um víkingsinseðlið og gáfur fólksins sem ekki vildi una harðræði Harald konungs hárfagra og flutti með sér bókmenntarf sem engin þjóð önnur eigi.

Þetta er allt hugsanlegt – en ólíklegt. Hins vegar er í sálarfræði talað um afneitun þeirra sem gera sér ekki grein fyrir því, hvernig þeim líður, hvað skiptir máli í lífinu og yfirfæra neikvæð einkenni sín og afstöðu yfir á aðra og eiga erfitt með að viðurkenna mistök sín og finnst þeir vera betri en aðrir og hafa enga samúð og tilfinningar fyrir öðru fólki.

Í meðferðarsálarfræði – hugrænni atferlismeðferð – er reynt að fá þessa einstaklinga í afneitun til að verða hluti af heild, samfélagi, og þróa með sér virðingu, skilning, heiðarleika, traust og jafnvel kærleika til annarra. Ef til vill er eingin önnur leið í íslenskum stjórnmálum en senda allt heila liðið á Alþingi í hugræna atferlismeðferð.

Flokkar: Stjónmál

Föstudagur 1.5.2015 - 21:33 - FB ummæli ()

Misskipting launa – auðvald heimsins

Tekjuskipting á Íslandi hefur breyst til aukinnar misskiptingar undanfarin ár. Samkvæmt þjóðhagsreikningum Hagstofu Ísland hefur hlutfall launa annars vegar og fjármagnstekna hins vegar breyst verulega. Hlutfall launa árin fyrir 2006 var um 63% en er nú um 60%. Þetta þýðir, að laun eru nú þrjú til fjórum prósentum lægri en þau voru fyrir 10 árum. Með öðrum orðum eru 50 til 70 milljarðar króna minna til skiptanna til þeirra sem byggja framfæri sitt á launatekjum – en verið hefði að óbreyttu hlutfalli.

Fjármagnstekjur, sem orðnar eru stærri hluti tekna í þjóðfélaginu, renna til stöðugt minni hluta þjóðarinnar, auk þess sem misskipting launa hefur aukist. Að auki hafa stjórnvöld stóraukið áhrif þessarar launaþróunar með stefnu sinni í skattamálum.

Breytingar á lögum um skatta undanfarinna ára hafa – allar – verið til hagsbóta hóps, sem – fyrir einhverjar sakir hefur sífellt öðlast stærri hluta þjóðartekna. Nema þessar skattalækkanir tugum milljarða króna. Þá eru veiðigjöld 20 til 30 milljörðum króna lægri en þau hefðu verið að óbreyttum lögum – þessarar ríkisstjórnar – og afnám auðlegðarskatts lækkaði skattgreiðslur forréttandahópsins um 10 til 15 milljarða króna, auk lækkunar tekjuskatts á sjálfstætt starfandi aðila. Öllu þessu til viðbótar hafa skattar á orkusölu til stóriðju verið felldir niður og stjórnvöld hafa horft aðgerðarlaus á að hagnaður af raforkuvinnslu er fluttur úr landi. Þetta er óskiljanlegt venjulegu fólki eins og mér – sveitadreng austan af landi.

Ástæður þessara óskapa eru margar, bæði hagfræðilegar, stjórnmálalegar – og hugmyndafræðilegar, en hugmyndir um lífið, tilveruna og réttlæti – vega án nokkurs vafa þyngst. Í fyrsta lagi má nefna, að íslensk stjórnvöld vinna ekki í þágu almennings, heldur í þágu þeirra sem meira mega sín – hinna ríku og þeirra sem hafa völd. Í öðru lagi hefur hið alþjóðlega auðvald um árabil gert kröfu um 15 til 25% arð af fjármagni sínu, sem ógerningur er að ná – nema því aðeins að skerða hlut almennings – launþega, enda hefur auðvaldið haslað sér völl meðal fátækra þjóða heims sem berjast fyrir lífi sínu og hafa framleitt þar vöru sína og náð á þann hátt auknum arði af fjármagni. Á þetta að nokkru við um álframleiðslu á Íslandi.

Í þriðja lagi eru málsvarar launþegasamtaka á Íslandi veikir og sjálfum sér sundurþykkir. Ráðið gegn þessari sundurþykkju launþegasamtaka er hugsanlega að launþegahópar semji hver á sínum vinnustað, eins og nú hillir undir.

Í fjórða lagi eru stjórnmálaflokkar á Íslandi, sem áður börðust fyrir samvinnu og jafnrétti, annaðhvort gegnir á máli hjá auðvaldinu eða forystulausir, sundraðir og veikir. Í fimmta lagi eru sjálfstæðir, hlutlægir fjölmiðlar, sem gætu haft bolmagn til þess að greina á hlutlægan hátt stöðu mála fáir og fátækir – auk þess sem Fréttastofa Ríkisútvarpsins, sem lengi hefur verið öflugasta fréttastofnun landsins, í spennutreyju auðvaldsins.

Er þá eina leiðin virkilega bylting öreiganna á Íslandi, hugmynd sem er hundrað ára gömlu, en við Íslendingar erum að vísu hundrað árum á eftir nágrannaþjóðunum í umræðum um lýðræði og réttlæti.

Að kvöldi 1. maí 2015

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 7.4.2015 - 01:17 - FB ummæli ()

Beint lýðræði – aukið traust

Skömmu fyrir páska horfði ég á beina útsendingu frá Alþingi. Það var sorgleg sjón og raunalegt á að heyra. Ráðherrann, sem sat fyrir svörum, grúfði sig yfir smátölvu og leit sjaldan upp en kallaði fram í fyrir ræðumönnum sem þuldu yfir honum skammir og kröfðu hann sagna, en fengu ekkert svar og ekkert var um málefnalegar umræður. 

Clement Attlee, forsætisráðherra Breta á árunum eftir seinna stríð, sagði að lýðræði væri stjórnarform sem reist væri á umræðu. Jawaharlal Nehru, forsætisráðherra Indlands til 1964, sagði að lýðræði væri leið að marki, ekki markmiðið sjálft. Þorbjörn Broddason prófessor lét svo um mælt í umræðuþætti í RÚV 1997, að lýðræði án upplýsingar væri verra en ekkert lýðræði.

Á hinu kalda Roklandi er lýðræðisleg – málefnaleg umræða af skornum skammti. Ráðandi stjórnmálamenn virðast ekki gera sér grein fyrir, að lýðræði er leið að marki – ekki markmiðið sjálft – og að upplýsingar um mikilsverð mál eru grundvallaratriði. Forsætisráðherra virðist leitast við að sundra þjóðinni með aðgerðum sínum og ummælum og fjármálaráðherra svarar aðfinnslum stjórnarandstöðunnar með því að benda á, að núverandi stjórnarflokkar hafi meirihluta á Alþingi – og ráði því málum. Þetta ber ekki vitni um lýðræðislegan skilning og lýðræðisleg viðhorf.

Þjóðfundur var haldinn í Reykjavík í nóvember 2010 um nýja stjórnarskrá. Fundinn sátu nær eitt þúsund manns á aldinum frá 19 ára til níræðs af landinu öllu þar sem kynjaskipting var nánast jöfn. Fundurinn komst að niðurstöðum, sem vonir stóðu til að nýtast mundu stjórnlagaþingi við vinnu að nýrri stjórnarskrá, sem enn hefur ekki orðið – en verða mun eftir næstu alþingiskosningar.

Grundvallaratriði í niðurstöðum Þjóðfundarins var, að almenningur fengi aukna aðkomu að þjóðmálum með lögum um þjóðaratkvæðagreiðslur, þar sem rafræn tækni yrði notuð, en rafræn tækni á eftir að knýja fram lýðræðislegar umbætur og stuðla að beinu lýðræði, leysa af hólmi úrelt viðhorf og úrelt vinnubrögð og auka, gagnsæi lýðræði og traust.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 17.1.2015 - 18:17 - FB ummæli ()

Ofstæki, ofbeldi og mannfyrirlitning

Ástæða er til að fordæma morð og ofbeldi íslamista hvar sem er í heiminum, svo og allt annað ofbeldi, ofstæki og mannfyrirlitningu. Miskunnarleysi íslamskra ofstækismanna gagnvart börnum og konum og öðru saklausu fólki er óskiljanleg mannvonska og mannfyrirlitning og þyngri en tárum taki. Sorglegt er að horfa upp á að “alþjóðasamfélagið” er vanmáttugt gagnvart þessu ofbeldi – eins og mörgu öðru ofbeldi.

Enda þótt miskunnarleysi, mannvonska og ofbeldi séu ekki ný af nálinni og hafi fylgt manninum frá því sögur hófust og mörg tímabil mannkynssögunnar séu drifin morðblóði, virðist samtíminn ekki ætla að reynast betri en önnur blóðug tímabil sögunnar, þrátt fyrir aukna menntun, sem svo er kölluð, aukna víðsýni, sem talað er um, og aukið alþjóðlegt samstarf. Vegna aukins alþjóðlegs samstarfs eru ýmsir farnir að tala um jörðina sem “heimsþorpið”, sem er algert öfugmæli.

Í “þorpinu” þekkja allir alla, skilningur og samhjálp eru þar fyrir hendi og góðvild. Þetta þekki ég úr þorpinu þar sem ég ólst upp, þótt ýmislegt mætti þar betur fara. Í “heimsþorpinu” er skipulega ýtt undir mismunun og misrétti og æðsta markmið margra valdhafa virðist vera aukin völd, aukinn aður af fjármagni og aukin hagsæld fárra – ekki frelsi allra, jafnrétti allra, bræðralag allra og vesæld allra.

Mistök hins vestræna heims – lýðræðisríkjanna, sem svo nefna sig – eru mikil og margvísleg, að mínum dómi. Eftir morð íslamskra ofbeldismanna á starfsfólki skopmyndablaðsins CHARLIE HEBDO á dögunum, sameinuðust margir þjóðarleiðtogar – og allur almenningur á Vesturlöndum að fordæma þessi ódæði. En hvers vegna heggur blaðið CHARLIE HEBDO áfram í sama knérunn – heldur áfram skopi sínu og háðsglósum um spámann Múhameðstrúarmanna? Það er mér óskiljanlegt.

Hvað liggur hér að baki? Er ekki ástæða til þess að hugsa sitt ráð – hugsa sig tvisvar um, læra af reynslunni? Það virðist hið gamla blað mitt Jyllandsposten hafa gert. Eru líka ekki önnur svið mannlífsins og samfélags mann sem mætti fjalla um á skoplegan hátt til þess að fá fólk til þess að hugsa – eða er þetta skop ef til vill eitthvað annað en skop? Hvað svo sem því líður, er þetta er ekki leiðin til sátta og aukins skilnings í „heimsþorpinu“ – ef menn vilja þá leita sátta.

Framkoma af þessu tagi er ekki í anda leiðtoga kristinna manna sem boðaði kærleika, sátt, umburðarlyndi og fyrirgefningu sem margar vestrænar lýðræðisþjóðir telja sig fylgja. En skopmyndablaðið CHARLIE HEBDO mun ekki vera að útbreiða kristinn boðskap um sátt og fyrirgefningu heldur segist blaðið vera að standa vörð um tjáningarfrelsið, sem svo er kallað, en tjáningarfrelsi felst ekki í því að sverta annað fólk, skoðanir þess eða trú.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 12.7.2014 - 19:43 - FB ummæli ()

Á Glæsivöllum

Samdóma álit flestra sem kynnst hafa stjórnmálaumræðu á Norðurlöndum, að umræðuhefð á Íslandi sé afar frumstæð.  Þegar við frumstæða umræðuhefð bætist, að fjölmiðlar eru vanmegnugir – og sumir hlutdrægir – er ekki við því að búast að stjórnvöldum sé veitt það aðhald sem nauðsynlegt er, enda helst íslenskum stjórnmálamönnum uppi málróf og blekkingar sem líðast ekki í nágrannalöndunum. Þarf naumast að nefna dæmi – svo mörg sem þau eru frá umliðnum dögum.

Nokkrir pistlahöfundar dagblaðanna skera sig þó nokkuð úr, ekki síst Styrmir Gunnarsson, reyndasti blaðamaður á Íslandi.  Í dag – laugardag – skrifar hann grein í Morgunblaðið sem öllu hugsandi fólki er vert að lesa.  Greinina nefnir hann Af Glæsivöllum samtímans. Vitnar hann í kvæði Gríms Thomsen Á Glæsivöllum, kvæði sem eigi ekki síður við nú en þegar það var ort. Í kvæðinu segir m.a.

 

Á Glæsivöllum aldrei

með ýtum er fátt,

allt er kátt og dátt,

en bróðernið er flátt mjög og gamanið er grátt,

í góðsemi vegur þar hver annan.

Í upphafi greinarinnar segir Styrmir:

Í kjölfar hrunsins töldu margir að sá atburður mundi hafa grundvallaráhrif til breytingar á hugarfari fólksins í landinu, verðmætamat okkar og afstöðu til þess hvað skiptir máli í lífinu. Það var ekki fráleitt að ætla að það gæti gerzt. Örlagaríkis atburðir í lífi einstaklinga hafa slík áhrif eins og margir þekkja af sjálfum sér. Ótímabær andlát og alvarleg veikindi breyta afstöðu fólks til umhverfis síns.

Náttúruhamfarir geta haft sömu áhrif. Eldgosið í Vestmannaeyjum hefur haft varanleg áhrif á líf fólksins sem þar bjó og varð að yfirgefa heimili sín í flýti þá nótt og mun marka líf fólks sem þar býr nú og eftirkomenda þeirra um langa framtíð. Hið sama má segja um snjóflóðin á Flateyri og í Súðavík.

Tvær heimsstyrjaldir á 20. öldinni hafa haft varanleg áhrif á sálarlíf Þjóðverja. Þeir fara fram af varkárni og eru tregir til þátttöku í hernaðaraðgerðum og leita enn svara við þeirri spurningu, hvernig hæamenntuð menningarþjóð gat komið fram við gyðinga á þann veg, sem gert var.

Kannski er oft snemmt að staðhæfa nokkuð hvor og þá hvaða áhrif hrunið hefur haft á sálarlíf okkar Íslendinga. Það er ljóst að við sem þjóð misstum sjálfstraustið um skeið, það sjálfstraust sem, sem veitti okkur kjark til að stofna eigið lýðveldi og vilja til að standa á eigin fótum. Sumir töldu ráðlegt að hlaupa í skjól Evrópusambandsins. Kannski verður tímabært að gera þetta upp á 10 ára afmæli hrunsins 2018, þegar við höldum up á 100 ára afmælis fullveldisins, sem við fögnum 1. desember 2018.

En getur það verið að það sjáist vísbendingar um að við séum að ganga of hratt um gleðinnar dyr á nýjan leik?

Í lok greinar sinnar segir Styrmir Gunnarsson:

Það er hægt að bregðast við hruninu haustið 2008 með því að vinna markvisst að því að endurreisa það samfélag sem hér var orðið til 2007, byggja hvert stórhýsið á fætur öðru, selja allt sem hægt er að selja og hylla stórfyrirtækin, sem birta gífurlegar hagnaðartölur, sem lítil innistæða reynist að vísu að vera fyrir, þegar upp var staðið.

En það er líka hægt að læra af reynslu annarra þjóða, sem hafa orðið fyrir miklum áföllum og dregið rétta lærdóma af þeim.

Þessi orð Styrmis Gunnarssonar eru umhugsunarverð. Stóra spurningin er því: Á að endurtaka Hrunadansinn frá 2007 – eða á að reisa nýtt Ísland.

 

           

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Tryggvi Gíslason
Akureyringur, fæddur á Norðfirði 1938, stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1958, magister í íslensku frá Háskóla Íslands 1968 með málfræði sem sérgrein, fréttamaður við Ríkisútvarpið, lektor við Universitetet i Bergen 1968-1972, deildarstjóri í skóla- og menningarmáladeild Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn 1986-1990, skólameistari Menntaskólans á Akureyri 1972-1986/1990-2003. Starfa sem fræðimaður og þýðandi.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar