Sunnudagur 22.03.2009 - 21:21 - Rita ummæli

Norðvesturkjördæmi

Nú er prófkjöri Sjálfstæðismanna í því víðfeðma Norðvesturkjördæmi lokið. Þátttaka sýnist mér betri en í flestum öðrum prófkjörum. Niðurstaðan varð sú að Ásbjörn Óttarsson frá Snæfellsbæ náði fyrsta sæti en Einar K. í öðru, Eyrún í þriðja og Birna í fjórða. Vestfirðingar í 2.-4. sæti og nýr maður oddviti listans. Öflugur sveitarstjórnarmaður sem nú gefur í fyrsta skipti kost á sér í landsmálin.
Það hefur verið klár endurnýjunarkrafa í Sjálfstæðisflokknum, meiri en í öðrum flokkum finnst mér, að Framsóknarflokknum e.t.v. undanskildum. Svo verður að athuga að Einar K. var ekki í fyrsta sætinu, hann var í öðru sæti en gerði tilraun til að ná fyrsta sæti í prófkjörinu. Þar vann endurnýjunarkrafan gegn þessum góða manni sem að mínu mati hefur ávallt lagt sig fram um að vinna vel fyrir kjördæmi sitt og þjóðfélagið.
Mér líst vel á þennan lista, það er mikil endurnýjun og reynslumikið fólk sem raðar sér í efstu sætin. Íbúar á Norðurlandi vestra hafa kannski áhyggjur af því að enginn af þeirra svæði er í efstu sætum en sú staðreynd leggur enn meiri kröfur á forystufólkið að hafa heildarsýn yfir þetta landfræðilega stóra kjördæmi. Fyrir mestu er að vera með öflugt og vinnusamt fólk.
Reyndar voru frambjóðendur upp til hópa í þessu prófkjöri mjög frambærilegt fólk og finnst mér það mikill styrkleiki fyrir kjördæmið að hafa svona mikið úrval.
Framundan eru kosningar, of snemma að mínu mati því ný framboð hafa haft of lítinn tíma til undirbúnings. Krafa þjóðarinnar er um endurnýjun og endurmat í þeirri von að við upplifum ekki óhófs- og græðgisvæðingu að nýju. Sjálfstæðisflokkurinn er að ganga í gegnum mikla endurnýjun á framboðslistum og endurskoðun og endurmat á sinni stefnu. Framboðslistinn í Norðvesturkjördæmi er skipaður fólki sem veit hvað það er að takast á við erfiðleika ár eftir ár í landsbyggðarsveitarfélögum. Þannig fólk mun taka til hendinni í þjóðmálunum fái það tækifæri til þess.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Efnisorð:

«
»

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur