Mánudagur 30.6.2014 - 09:34 - FB ummæli ()

Einokunarverslun ríkisins.

Einokunarverslun ríkisins ÁTVR skilaði nýverið af sér 96 blaðsíðna ársskýrslu sem hlýtur að vera eitthvert veglegasta plagg sinnar tegundar sem gefið er út hér á landi. Aðkeypt vinna við gerð skýrslunar nam kr. 4,2 milljónum, aðallega vegna grafískrar vinnu en vinnuframlag starfsmanna stofnunarinnar er ekki reiknað þar með.

Í skýrslunni sem forstjóra ber að útskýra fyrir fjármálaráðherra, þar sem engin stjórn er yfir stofnuninni, kennir ýmissa grasa og margt sem kemur undarlega fyrir sjónir. Grunnstefið er þó alltaf froðuhugtakið um ,,samfélagslega ábyrgð” (og er þá vitaskuld átt við samfélag starfsmanna).

Eins og áður sagði er margt illskiljanlegt og annað þversagnarkennt í ársskýrslunni. Má þar nefna að ÁTVR telur sig ,,stuðla að lýðheilsu” og leggur áherslu á ,,fræðslu til viðskiptavina” en þó eru allar vörukynningar, bæklingar eða annað markaðsstarf stranglega bannað í verslunum.

Hvernig ÁTVR ,,notar auðlindir af ábyrgð” skal ósagt látið en í hverri viku allt árið um kring fer einn starfsmaður til útlanda sem kann að þykja undarlegt fyrir stofnun sem ekki flytur inn neinar vörur en samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni eru allar ferðir kolefnisjafnaðar.  

Eins og kemur fram í fréttatilkynningu með ársreikningnum gekk reksturinn ljómandi vel og því líklega full ástæða til að þakka starfsmönnum að viðskiptavinir hafi ekki leitað annað. Taldi forstjóri einokunarstofnunarinnar að skattgreiðendur stæðu í slíkri þakkaskuld við starfsmenn að réttlætanlegt væri að verja 13,7 milljónum af almannafé í útivistarbúnað fyrir starfsfólkið sem kaupauka (sem stjórnendur sjá reyndar ekki ástæðu til að reikna til skattskyldra hlunninda)

Öllum hugsandi einstaklingum er vitaskuld full ljóst að einokunarrekstur getur aldrei verið til hagsbóta fyrir neytendur.  Sá misskilningur er einnig til staðar að með ríkisrekstri náist hið margrómaða markmið um að ,,arðurinn renni til þjóðarinnar” sem vitaskuld er alger firra enda enginn arður af eiginlegri smásölu ÁTVR ekki frekar en að arður sé af rekstri Tollstjóraembættisins.

Í skýrslu McKinzey um samkeppnishæfni þjóðarinnar er einmitt bent á að hér á landi séu allt of margir fermetrar undir verslun. Að leggja niður rekstur ÁTVR myndi augljóslega lagfæra það óhagræði um tugþúsundir fermetra auk þess sem sala á dýru verslunuarplássi um land allt myndi renna í ríkissjóð. Að auki myndi vínsala í almennum verslunum augljóslega styrkja verslunarrekstur á landsbyggðinni sem sumstaðar stendur höllum fæti.

ÁTVR heldur hinsvegar áfram að þenja út ríkisbáknið í umboði fjármálaráðherra og opnaði nýverið ,,nýtt og stærra húsnæði” í hveragerði, væntalega sem lið í ,,skertu aðgengi” eins og getið er um í lögum um stofnunina.

Screenshot_063014_092451_AM

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 24.6.2014 - 13:35 - FB ummæli ()

,,Erlendur“

Eins og kjósendur Samfylkingarinnar vita best þá kemur fegurðin að utan, skoðun sem virðist vera að skjóta rótum hjá núverandi stjórnvöldum ef marka má nýjustu fréttir af afléttingu hafta.  Eins og áður fylgja slíkum fréttum nýjar vendingar í herðingu haftanna, nú síðast um að erlendur gjaldeyrissparnaður sé lögbrot.

Nú vita allir að til að taka höftin af þarf í fyrsta lagi áætlun, sem búið er að gera af s.k. sér-fræðingum, þ.e. einstaklingum sem hafa djúpa þekkingu á mismunandi sviðum.  Í annan stað þarf ákvarðanatöku sem er allt annað en sérfræði, nánar tiltekið samþætting sérfræðiálita.

Erlendur sérfræðingur sem fengin er til ráðgjafar, óskar eftir gögnum frá kollega sínum, Innlendur sérfræðingur sem síðan er raðað saman í skýrslu með áliti á borð við að best sé að aflétta höftum sem fyrst.  Þegar svo spurt er hvernig, er auðvitað fátt um svör því Erlendur sérfræðingur hefur í fyrsta lagi ekki þekkingu á Íslandi,  í öðru lagi reynslu af höftum og í þriðja lagi enga reynslu í afléttingu hafta.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 19.6.2014 - 14:59 - FB ummæli ()

Umbun og áhætta

http://www.bloomberg.com/news/2014-06-19/iraqi-bond-only-for-the-brave-as-yield-surges-amid-chaos.html

Írak er við það að liðast í sundur og nánast öruggt að hvorki ríki né ríkisstjórn muni verða til staðar á gjalddaga þeirra skuldabréfa sem gefin hafa verið út.  Eðli málsins samkvæmt hefur ávöxtunarkrafa rokið upp og stendur nú í 7% eða lægri en krafa á íslenskum ríkisskuldabréfum.

Talið er að útilokað sé að aflétta höftum hér á landi vegna þess að hlutfall ávöxtunar og áhættu er ekki nógu hagstætt fyrir erlenda sem innlenda fjárfesta.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 17.6.2014 - 12:16 - FB ummæli ()

„Stjórntæki“

Framsókn er að sögn ekki ,,stjórntækur“ flokkur í borgarstjórn öfugt við Sjálfstæðisflokkinn með vinstri meirihlutanum.

Oddviti Sjálfstæðismanna er á launum hjá Samtökum Sveitarstjórna, hvar stærsta sveitarfélagið hlýtur að ráð talsverðu, ef ekki lögum og lofum.

Er sú staða það sem gerir flokkinn ,,stjórntækann“ í ráðum og nefndum með vinstri mönnum í borgarstjórn?

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 11.6.2014 - 10:55 - FB ummæli ()

Dögunarsnilld

Líklega er fátt betra til að komast í góð tengsl við fáfræði en að horfa á umræðuþátt í sjónvarpi með frambjóðendum til borgarstjórnar.  Þó svo að Dagur vinni að öllu jöfnu flesta titla í keppninni um innihaldslausustu frasana, hlýtur frambjóðandi Dögunar að teljast sigurvegari kvöldsins með tillöguinni um að borgin stofni banka og láni sér peninga á 0% vöxtum.  

Nú vill svo til að þessi hugmynd er alls ekki ný af nálinni. Stjórnmálamenn hér á landi hafa í raun útfært hugmyndina og það miklu víðtækara en frambjóðandi Dögunar leggur til.  Stjórnmálamenn eiga þannig stærsta banka landsins, Landsbankann og geta lánað sér eins mikið af peningum og þeir vilja.   Stjórnmálamenn ákveða líka verðið á peningunum, þ.e. vextina og það ekki bara til eigin nota heldur líka fyrir alla aðra.  Stjórnmálamenn ekki bara prenta peningana heldur banna öðrum að gera slíkt hið sama og bíta svo höfuðið af skömminni með því að meina fólki að skipta þeim yfir í aðra sem gjaldgengir eru annarstaðar.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 10.6.2014 - 11:19 - FB ummæli ()

Mótkvæði

Mönnum er tíðrætt um áhugaleysi almennings á kosningunum og sitt sýnist hverjum. Talsvert hefur verið um ákall um eitthvað nýtt, hip og cool osfrv. Sjálfstæðisflokkurinn spilaði út Halldóri frá Ísafirði, BF útrunnum brandara og Samfylking bauð góðan Dag. Framsókn skar sig úr og bauð fram eitthvað alveg nýtt en ekki cool.

Án þess að undirritaður hafi lagst í leikjafræðilega útreikninga á hugmyndinni, en hvernig væri að glæða kosningaáhuga með ,,mótkvæðum“ í stað atkvæða? Margir af þeim sem ekki geta hugsað sér að greiða neinum flokki atkvæði, gætu haft skoðun á hver sé allra versti kosturinn og viljað þannig núlla út eitt atkvæði með einu mótkvæði.

Til að forðast pólitískann skotgrafahernað mætti alveg gleyma nýliðnum kosningum en segjum sem svo að ný framboð myndu spretta upp sem hefðu að markmiði að berjast fyrir dauðarefsingum eða að sharia lög væru tekin upp svo dæmi séu tekin af handahófi. Væri ekki lýðræðislegt ef kjósendur gætu sýnt hug sinn í verki og hafnað slíkum framboðum alfarið?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 10.6.2014 - 09:10 - FB ummæli ()

Halló heimur!

Velkomin á blog.pressan.is. Þetta er fyrsta færslan.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Arnar Sigurðsson
Talsmaður einstaklingsfrelsis
RSS straumur: RSS straumur