Mánudagur 04.10.2010 - 21:20 - FB ummæli ()

Hlutverk banka….

Í umræðunni um bankahrunið og afleiðingar þess eru skiptar skoðanir. Hluti þjóðarinnar telur að ástæðan séu jeppar og önnur eyðsla. Þess vegna ber okkur að axla byrðarnar án þess að kvarta. Einnig að þetta sé þrautaganga með fórnum sem við eigum meira eða minna skilið.

Sú hugmyndafræði að almenningur sé skyldugur til að taka á sig mikla þrautagöngu til að komast til fyrirheitna landsins er röng. Þegar Móses lagði af stað yfir eyðimörkina voru allir jafnsettir en í okkar tilfelli er hluti sem  sleppur. Það er engan veginn hægt að leyfa sér að horfa fram hjá þessari staðreynd í umfjöllun um hrunið og afleiðingar þess. Sú nálgun er blind og siðlaus.

Nauðsynlegt er að horfa í gegnum hugtök eins og „auðmenn“ eða „ fjármagnseigendur“ og reyna að skilja hvers vegna staðan er eins og hún er í dag. Lítill hluti samfélagsins lánar okkur hinum peninga til að við getum verslað. Þegar við skrifum undir lánaskilmálana lofum við að endurgreiða lánið með vöxtum eða tapa eigum okkar að öðrum kosti.

Bankar lifa á vöxtunum en hvernig verður varan til sem þeir framleiða þ.e. peningarnir.

Bankar hafa einkaleyfi á því að framleiða peninga. Bankar geta ekki búið til pening nema einhver taki lán hjá bankanum. Lánin geta verið í ýmsu formi en aðalatriðið er að enginn peningur er búinn til nema einhver taki lán. Peningar eru þess vegna skuld. Þegar skuldin er greidd hverfur peningurinn úr umferð. Ef allir í heiminum myndu borga allar sínar skuldir væri enginn peningur til og við gætum ekki einu sinni keypt okkur eina bæjarins bestu.

Sameiginleg reynsla okkar er sú að þegar banki lánar peninga minnkar ekki upphæðin á bankabókunum okkar hinna. Enda starfa bankar ekki þannig heldur býr bankinn til nýjan pening þegar einhver kemur og tekur lán. En hvar fær þá bankinn þá peningana fyrir nýja láninu, hann býr þá til eins og ég sagði, úr engu, bara stimplar þá inn í tölvuna.

Að framleiða heilan helling úr engu og fá vexti í þokkabót skýrir ríkidæmi banka og völd þeirra. Kjörnir fulltrúar okkar mega ekki búa til peningana okkar og eru því valdalausir eins og við höfum upplifað upp á síðkastið. Steingrímur getur bara búið til pening með því að taka lán hjá bönkunum í formi ríkisskuldabréfa.

Það skiptir því sennilega litlu máli hverjir sitja í ráðherrastólunum.

Er ekki full þörf á því að endurskoða hvernig við stöndum að peningamyndun hjá okkur. Er eðlilegt að lítill hópur einstaklinga hafi einkaleyfi á peningamyndun? Hvað kennir sagan okkur í þessum efnum?  Ef hið opinbera sæi um peningamyndunina færi þá ekki hagnaðurinn til almennings og gæti hugsanlega komið í stað skatta í núverandi mynd?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur