Miðvikudagur 06.10.2010 - 14:37 - FB ummæli ()

Getur Alþingi sett lög

Það er ekki auðvelt að átta sig á hvert við erum að fara. Nokkuð ljóst er að skuldavandi heimilanna er kominn í sviðsljósið og er það vel. Margir aðilar hafa margrætt vandamálið og lausnir á því. Hagsmunasamtök heimilanna hafa unnið þar ótrúlega gott starf. Þrátt fyrir það hélt ríkisstjórnin að hún hefði leyst málin en svo komu mótmælin sem settu strik í reikninginn. Í viljayfirlýsingu stjórnvalda til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eru vandamál heimilanna rædd. Þegar stjórnvöld hafa útlistað í henni hvað þau eru búin að framkvæma kemur þessi setning:

With the framework now finalized, our focus will be on encouraging greater participation by households.

Úrræði stjórnvalda er núna „finalized“ þ.e.a.s. lokið. Þetta skrifa þau undir 13. september s.l.. Verkefnið framundan er að hvetja heimilin til meiri þátttöku. Þegar rætt er um þátttöku heimilanna er átt við að heimilin gangi frá skuldamálum sínum eftir þeim kjörum sem eru í boði. Eins og mótmælin bera með sér eru þau kjör ekki að skila þeim árangri sem skuldugir einstaklingar áttu von á. Stjórnvöld lofa í viljayfirlýsingunni að afnema frestanir á uppboðum því frestanir hafi þau óæskilegu áhrif að einstaklingar séu ófúsir til að gera upp sín mál;

like the moratorium on home foreclosures—the continuance of which represent a barrier to debtor participation.

Við lestur viljayfirlýsingarinnar og skýrslu AGS er það ljóst að bæði stjórnvöld og sjóðurinn töldu nóg að gert í skuldavanda heimilanna. Auk þess er þeim kappsmál að gengið sé frá þessum málum. Excel skjölin hjá AGS kalla á fastar stærðir en ekki einhverja mannlega óvissu. AGS segir í skýrslu sinni að ef farið verði í kostnaðarsamar aðgerðir vegna skuldugra heimila þá muni stjórnvöld þurfa að skera enn meira niður og hækka skatta enn meira.

Þess vegna veit ég ekki hvaða ráðrúm er til staðar núna hjá stjórnvöldum. Það virðist nokkuð ljóst að AGS vill ekki frekari aðstoð til handa heimilunum og telur ríkissjóð ekki geta staðið undir því. Ég tel það ekki líklegt til árangurs að skipta um ríkisstjórn og senda Bjarna Ben að ræða við AGS. Þar sem nauðungaruppboðin eru að eiga sér stað núna verður að gera eitthvað núna. Þess vegna verða allir þingmenn sem einn að semja lög núna sem stöðva nauðungaruppboðin strax, meðan lausn er fundin.

Stóra spurningin er, getur Alþingi sett slík lög í andstöðu við AGS?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur