Föstudagur 08.10.2010 - 21:57 - FB ummæli ()

Reiknistokkarnir í ráðuneytinu…

Það er orðið greipt í þjóðarsálina að við verðum að spara. Oft verið talið sem dyggð og merki um ráðdeildarsemi en getur verið tvíeggja sverð þegar heildræn áhrif eru könnuð.

Í kreppu er ekki talið skynsamlegt að spara. Það er aðgerð sem er kreppudýpkandi og skýrsla sérfræðinga um slíkt hefur verið birt þar sem niðurstaðan var sú að ráðstafanir AGS hefðu greinilega verið kreppudýpkandi(http://www.cepr.net/documents/publications/imf-2009-10.pdf). Þar var gangrýndur sérstaklega hastarlegur niðurskurður og óraunhæfar væntingar um hagvöxt. Auk þess kemur fram í skýrslunni að AGS hafði slakað á klónni í nokkrum löndum þar sem mótmæli voru kröftug.

Mjög mikill niðurskurður er nú boðaður á sjúkrastofnunum hringinn í kringum landið. Þessi niðurskurður mun verða mjög skaðlegur. Eins og fyrr segir er hann kreppudýpkandi og mun alls ekki hjálpa okkur við það að komast úr kreppunni. Í annan stað munu skaðleg áhrif hans verða mun meiri á landsbyggðinni því efnahagur hinna dreifðu byggða er svo miklu viðkvæmari en þéttbýlisins. Rætt er um að hundruðir manna muni missa vinnuna með þessum niðurskurði. Ruðningsáhrif munu koma fram í því að grundvöllur fyrir rekstri heimila á viðkomandi stöðum á landinu brestur. Af þeim sökum munu mun fleiri flytja á brott og áhrifin á tekjur viðkomandi sveitarfélaga verða margföld miðað við upphaflega fjöldann sem sagt verður upp. Hætt er við að Reykjavík verði millilending viðkomandi fjölskyldna á leið sinni til útlanda.

Sökum fyrri stefnu stjórnvalda hafa viðkomandi sjúkrastofnanir verið að byggja sig upp á liðnum árum. Þar sem þekking er kjarninn í sjúkrastofnunum hafa stjórnendur kappkostað að fá ungt vel menntað starfsfólk heim í hérað. Að snúa núna stefnunni í 180 gráður er glórulaus sóun.

Í þriðja lagi þá er verið að skerða þá þjónustu sem hingað til hefur verið boðið upp á. Þeir landsmenn sem búa úti á landi hafa haft verri aðgang að sérfræðiþjónustu en þeir sem búa við stærstu þéttbýlisstaðina. Að höggva núna með 40-50% niðurskurði eftir mörg mögur niðurskurðarár er hrein og klár aftaka. Reiknistokkarnir í ráðuneytinu geta sjálfsagt reiknað sig niður á hvaða niðurstöðu sem er en það segir mér enginn að það að senda alla sjúklinga suður á kostnað ríkisins til að leggjast í dýrustu kojur lansdsins sé hagkvæmt.

Að umbylta kjörum almennings í kjölfar hamfara eða kreppu heitir katastrófu kapitalismi og hefur hingað til verið aðalsmerki Milton Freedmans og strákanna frá Chicago. Að núverandi ríkisstjórn skuli gera slíka stefnu að sinni er enn ein sönnun þess að hugsunarháttur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins mengar huga ráðherranna okkar.

Ef stjórnvöld vilja endurskipuleggs sjúkrastofnanir á landsbyggðinni er mun betra að gera það í næsta góðæri þegar allir geta útvegað sér nýja vinnu án vandræða. Til að stytta biðina eftir næsta góðæri skal alls ekki skera niður sjúkrastofnanir núna, það er kreppudýpkandi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur