Þriðjudagur 12.10.2010 - 21:20 - FB ummæli ()

Klofnar þjóðin

Það er greinilega tekist á um skuldavanda heimilanna á bak við tjöldin. Í kjölfar mótmælanna fór Ögmundur af stað til að finna raunverulega lausn á skuldavandanum. Eitthvað sækist honum það seint og um leið hefst grátkór lífeyrissjóða og annarra lánadrottna. Þögn verkalýðsforustunnar vegna gjaldþrota heimila landsmanna er æpandi. Við vitum að Steingrímur er á móti almennum aðgerðum og er sammála AGS um sértæka skuldaaðlögun. Þess vegna má búast við að þessi tvö sjónarmið takist á núna. Steingrímur fer ekki mikinn í fjölmiðlum núna og er það í samræmi við fyrri reynslu því hann virðist rífast mest yfir orðnum hlut.

Spunakóngarnir sjá eflaust eftir því að hafa tekið Ögmund um borð en hvernig gátu þeir reiknað út mótmælin þar sem smákökur drottningarinnar áttu að duga pöplinum.

Þessi ósérhlífna ósvífni lánadrottna gagnvart lántakendum er farin að segja til sín. Hún kemur fram í þeim afarkostum sem lántakendur verða að sæta. Þegar haft er í huga að nýju bankarnir fengu húsnæðislánin með afslætti frá þeim gömlu er þetta óskiljanalegt. Það er til fé til afskrifta. Þegar við bætist ruglið með Magma málið, brjálæðislegur niðurskurður í heilbrigðismálum og biðraðir eftir matargjöfum er ekki von á mikilli samúð almennings.

Uppistaðan af mótmælum hefur verið í formi eggja og hávaða. Það hefur aldrei verið styttra í valdbeitingu, það er eins og almenningur sé að gefa stjórnvöldum smá ráðrúm til að bæta ráð sitt.  Síendurtekin vonbrigði almennings hafa áhrif á réttlætistilfinningu fólks. Á einhverjum tímapunkti finnst réttlæting fyrir því að beita ofbeldi. Eftir mótmælin um daginn vöknuðu vonir en ef þær verða að engu þá má búast við mjög kröftugu andsvari almennings. Sennilega skásti kosturinn þó hann sé ekki góður.

Samtímis flytur Steingrímur mál sitt fyrir alþjóðlegum lánadrottnum í Goldman Sachs bankanum í Washington. Það getur vel verið að Steingrími hugnist að vera spaði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi en það er ekki líklegt til að hagnast almenningi í skuldavanda á Íslandi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur