Miðvikudagur 13.10.2010 - 19:30 - FB ummæli ()

Saga skuldarinnar

Sökum þess að afskriftir á skuldum heimilanna virðast valda mörgum áhyggjum er ágætt að rifja upp sögu skuldarinnar.

Saga skuldarinnar og þrælsins eiga sér sama upphaf og samtvinnast síðast liðin 5000 ár.

Í Mesopótamíu gerðu menn sér grein fyrir að skuldir hefðu tilhneigingu til að vaxa hraðar en uppskeran sem stóð undir þeim. Af þeim sökum settu menn fljótlega reglur. Sú hugmynd að markaðurinn sjálfur myndi aðlaga sig að skuldunum var ekki til á þeim tíma. Sú hugmynd fæddist miklu síðar.

Vextir komu fram um 3 öldum fyrir Krist og  þegar bændur komust í vanskil vegna uppskerubrests voru lagðir á þá vanskilavextir. Það leiddi til þess að þeir misstu búfénað eða réttinn til ræktunar. Af þeim sökum voru þeir í verri stöðu til að endurgreiða skuldina. Því var fljótlega farið að fella niður skuldir þegar uppskerubrestur var orsökin fyrir vangreiðslu. Þessi barátta milli þeirra sem vildu safna vöxtum sér til handa og hinna sem vildu reka þjóðfélag  þar sem jafnræði ríkti milli lánadrottna og skuldara hefur staðið æ síðan. Til að halda þjóðfélögum saman og í jafnvægi, komst sá siður á að konungar aflýstu öllum óbærilegum skuldum við upphaf valdatímabils  síns. Á þann hátt héldust samfélögin saman. Skuldabyrðin varð viðráðanleg. Yfirvaldið gat framkvæmt þetta sökum möguleika á valdbeitingu. Vegna þess að yfirvöld höfðu einkaleyfa á valdbeytingu og lánadrottnarnir urðu að sætta sig við ákvörðun þeirra.

Í Rómaveldi breyttist þetta þannig að lánadrottnar gátu sópað til sín jörðum bænda upp í skuldir. Jarðir og auður safnaðist á fáar hendur og í krafti þess tókst þeim að losna undan skattgreiðslum til ríkisins. Í kjölfarið varð fjárskortur í Rómaveldi og það leið undir lok.

Lánastarfsemi banka tengist oft ekki neinni nýframleiðslu. Lánaðar hafa verið stórar fjárhæðir til stríðsreksturs.  Lán til viðskipta og flutninga á vörum þegar framleiddum. Lán til fasteignakaupa er ekki nýframleiðsla heldur lán til hluta sem eru til staðar. Því hafa sumir viljað beina lánum til framleiðslu í meira mæli. Frjálshyggjan hefur verið talin ráða ríkjum undanfarna áratugi. Það er rangt. Sú hagfræði sem stunduð hefur verið síðustu áratugi er pilsfaldakapitalismi. Í frjálshyggju hafa menn frelsi til athafna. Niðurstaða athafna þeirra verður hlutskipti þeirra og engra annarra. Ef vel gengur fá þeir aur í vasann en ef illa gengur eiga þeir tapið óáreittir. Adam Smith hefur verið talinn faðir frjálshyggjunnar. Honum hugnast frelsi, sérstaklega þeirra sem framleiða og skapa þannig hagvöxt. Aftur á móti undanskilur hann einn hóp frá þessari meginreglu.  Það eru þeir sem lána öðru fólki peninga. Hann bendir á að vextir á lán dragi úr hagvexti því þeir leggja ekkert til framleiðslunnar annað en kostnað. Auk þess nefnir hann að þessum hópi sé mjög hætt við að smyrja á kostnaðinn á lánunum, græðgi, geti komið til og því eigi að hafa sérstakt og vandað eftirlit með lánendum. Þetta sagði karlinn 1776.

Nú er svo komið að stjórnvöld hafa ekkert vald eða styrk til að segja lánadrottnum fyrir verkum. Stjórnvöld virðast því ekki hafa einkaleyfi á valdbeitingu eins og var í Mesapótamíu. Það virðist vera mun líklegra að lánastofnanir hafi öðlast það vald sem kóngar höfðu áður fyrr. Þar að auki eru lánastofnanir í dag með ríkisábyrgð og geta því hagað rekstrinum að vild áhyggjulaust. Einnig hefur hugsunin breyst frá því að nauðsynlegt sé að afskrifa skuldir svo þjóðfélög séu starfhæf yfir í það að allar skuldur skuli greiða án tillits til afleiðinga fyrir lántakendur.

Sú bankakreppa sem við erum að ganga í gegnum núna er gott dæmi um vald skuldarinnar yfir þjóðfélögunum. Bankar urðu gjaldþrota vegna þess að þeir gátu ekki staðið í skilum með afborganir á skuldum sínum á gjalddaga. Í raun eins ómerkilegt og hugsast getur, hrein og klár vanhæfni í rekstri. Við hin vorum á fullu að veiða fisk, bræða ál og mjólka beljur. Mættum í vinnuna og gerðum skyldu okkar. Þrátt fyrir það er skuldasöfnun ríkissjóðs nánast öll tilkomin vegna bankanna.

Hannes og Davíð hefðu betur lesið Adam Smith

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur