Miðvikudagur 22.2.2012 - 17:08 - FB ummæli ()

Gömlu góðu prinsipin

Það læðist að manni sá grunur að Grikkjum verði hent út úr evrusvæðinu á næstu árum. Þegar gluggað er í viðtöl hagfræðinga og bankamanna í Evrópu virðist sem halda eigi Grikkjum á floti um einhvern óákveðinn tíma. Það er eins og menn séu að bíða eftir einhverju. Þetta eitthvað hlýtur að vera eitthvað stórt. Það fer víða núna að bandarískir bankar hafi veðjað á að Grikklandi færi ekki í gjaldþrot. Ef það gengur ekki eftir verða þeir bandarísku fyrir svo miklu tjóni fara þeir á hausinn. Sennilega er verið að kippa þessum veðmálum í liðinn og á meðan má Grikkland ekki fara á hausinn.

Bankamenn sjá vandamálið sem ógreiddar skuldir og ríkisstjórnir verði að hlaupa undir bagga, ekkert sé sjálfsagðara. Almenningur verður síðan að herða sultarólina. Bankamenn eru að sjálfsögðu að gæta hagsmuna sinna en að þeim takist að fá alla stjórnmálamenn inn á þessa línu ásamt flest öllum fréttamönnum er harla sérkennilegt þegar haft er í huga að bankar eru einkafyrirtæki.

Það er nokkuð ljóst að bankar sem einkafyrirtæki hafa með óábyrgri lánastarfsemi keyrt sig í þrot. Það væri því eðlilegt að þeir færu þá í gjaldþrot. Í stað þess hafa bankarnir krafist þess að ríkisjóðir viðkomandi landa gangi í ábyrgð og dæli inn peningum til bæta þeim upp tapið vegna glannalegs reksturs þeirra. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Evrrópusambandið mæta venjulega á staðinn til að tryggja það að þeir sem lánuðu viðkomandi bönkum missi ekki spón úr aski sínum.

Írar hafa reynt að róta í haugnum. Með þeim gögnum sem tiltæk eru venjulegum hagfræðingum. Virðist sem megnið af skuldum Íra sé tilkomið vegna illa rekinna banka sem fóru glannalega í lánastarfsemi sinni. Minnihluti skulda Íra hefur eitthvað með rekstur samfélagsins að gera s.s. velferðarkerfið og slíkt. Sagan bendir til að þetta eigi við rök að styðjast eins og dæmið með Ekvador kennir okkur. Skuldirnar eru því oft ólögmætar. Auk þess hefur almenningur ekki hugmynd hverjum hann er að greiða alla þessa peninga. Til viðbótar koma ómennskar kröfur um niðurskurð á velferðarkerfinu og skattahækkanir á almening.

Þessi lyfseðill eða aðferðafræði er vel þekkt frá starfi AGS í þriðja heiminum. Núna hefur ESB tileinkað sér þessa stefnu líka og til að sannfæra meistarann gengur sveinninn heldur harðar fram en AGS ef eitthvað er. Það sem er svo merkilegt er að margir af þeim hugsunatönkum sem töldu sig vera örlítið til vinstri og hafa gagnrýnt AGS í gegnum tíðina eru núna í klappliðunu á Íslandi. Áróður um spillt stjórnvöld og lata svertingja var áður fyrr flokkað af viðkomandi sem argasta lygi og rasismi af hálfu AGS. Þegar ESB segir aftur á móti að Grikkir séu spilltir og latir þá er því trúað eins og nýju neti þrátt fyrir að menn fara bara eftir gamalli forskrift AGS og hamfarakapítalistanna. Þeir sem áður fordæmdu illa meðferð kapitalistanna frá Bandaríkjunum á Afríkubúum jóðla núna í takt með AGS/ESB eins og söfnuður sem er yfirfullur af heilögum anda.

Prinsipin eru eins og segl sem hagað er eftir vindi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 18.2.2012 - 21:26 - FB ummæli ()

Við erum öll Grikkir í dag

Við héldum samstöðufund með Grikkjum í dag í Grasrótarmiðstöðinni. Þar lásum við upp yfirlýsingu frá Greek Debt Audit Campaign sem er að finna á heimasíðu attac Island,

 

 

 

 

 

Ég flutti þar ræðu sem ég birti hér(örlítið stytta).

Við erum komin hér saman í dag til að sýna grísku þjóðinni samstöðu. Við viljum senda henni þau skilaboð að hún er ekki ein í baráttu sinni. Auk þess skynjum við að við erum öll líka Grikkir í dag.

Það sem er verið er gera í Grikklandi í dag er það að grískur almenningur er neyddur til að greiða gríðarlegar upphæðir. Upphæðirnar eru svo hrikalegar að samfélagið verður mergsogið af öllum verðmætum og kostum.

Viðhorf lánadrottna og reyndar sumra annarra til Grikkja er að gríska vandamálið sé eins og hvert annað graftarkýli, stakt kýli á annars fagurri ásjónu evrusamstarfsins. Það eina sem þurfi að gera er að kreista og tæma kýlið og þá sé málið dautt.

Aftur á móti þegar við hin horfum á þetta andlit þá blasir við okkur andlit alsett kýlum. Það glittir varla í heila húð. Þess vegna ætti það að vera öllum augljóst að einhver alvarlegur grunnsjúkdómur sé til staðar. Kýlin eru bara birtingamynd undirliggjandi sjúkdóms, sem líkist krabbameini í eðli sínu.

Ég nefni krabbamein vegna þess að hegðun fjármálaaflanna er keimlík hegðun krabbameins. Ekkert tillit er tekið til umhverfisins og eigingirnin er slík að ekkert innsæi er á afleiðingar gjörða þess. Þetta krabbamein dreifir sér frá þjóð til þjóðar. Þetta krabbamein á sér líka fortíð. Þess vegna þekkjum við og allir geta kynnt sér sögu þess.

Hönnun og eignarhald fjármálaaflanna er hið stóra vandamál. Þeim stofnunum sem tryggja eiga almenningi kjör og réttlæti eru undir hælum þessa kerfis og hugmyndafræði þess. Það má kalla hugmyndafræði þess ýmsum nöfnum en kjarni hennar er eigingirni, heimtufrekja, sjálfselska og algjört tillitsleysi til meðbræðra sinna.

Þeir sem þekkja söguna vita að kreppur í fjármálaheiminum eru mjög algengar og eru frekar reglan en hitt. Einnig vitum við að í öllum kreppum verða þeir ríku ríkari og hinir fátækari. Við vitum að með hverri kreppu aukast völd fjármálakerfisins.

Þeir sem þekkja söguna vita að þær skuldir sem þjóðir eru látnar bera eru að stórum hluta ólögmætar. Þar eru á ferðinni skuldir einkabanka að stórum hluta. Það er verið að ríkissvæða tap einkafyrirtækja eftir misheppnaða þátttöku þess í spilavítinu.

Þeir sem þekkja söguna vita að fjármálaöflin hafa farið land úr landi. Við munum Afríku, S-Ameríku, Asíu kreppuna, Rússland og austur blokkina. Núna er röðin komin að Evrópu.Núna skal hún lögð að velli. Þar skal öllum rétindum almennings eytt til að stórfyrirtæki og bankar geti lifað góðu lífi á kostnað okkar hinna.

Fjármálavaldinu fannst það góð hugmynd að byrja á Lettum og brutu þá niður og hentu þjóðfélagi þeirra aftur um áratugi. Árið 2008 vorum við í Evrópu í losti og sjálfsvorkun og studdum ekki bræður og systur okkar í Lettlandi. Í dag er Grikkland í tilraunarglasinu. Núna skal öllum hugsanlegum kröfum fjármálavaldsins fullnægt, án tillits til hversu galnar þær kunna að vera.

Við sem þekkjum söguna vitum að hér á sér stað mikill afleikur.

Við vitum að Grikkland verður aldrei brotið niður, Grikkland er ósigrandi vígi. Þeim mun aldrei takast áætlunarverk sitt í Grikklandi. Bæði munu Grikkir bíta frá sér en það sem skiptir öllu máli er að þeir straumar sem flæða um Evrópu í dag, til styrktar Grikklandi, eru einfaldlega of sterkir.

Ég held að fjármálavaldið hafi bara ætlað að ráðast á Grikkland.

Ást okkar á lýðræðinu er bundin órjúfanlegum böndum við Grikkland. Árás á Grikkland er um leið árás á okkur öll. Við finnum fyrir sársauka þó að við áttum okkur ekki fyllilega á því hvers vegna. Það er sennilega vegna þess að líkami lýðræðsins nær frá Aþenu til mín og þess vegna finn ég til.

Þess vegna eru ekki 11 milljónir Grikkja í Evrópu.

Sennilega eru við mun frekar 500 milljónir í Evrópu.

Þegar allir þessir grísku „letingjar“ um alla Evrópu munu rísa upp er sigurinn okkar.

Okkur sem þekkjum söguna er farið að renna í grun hver verða eftirmæli innrásar fjármálavaldsins gegn 500 milljónum Grikkja víðsvegar um alla Evrópu,

A bridge too far.

 

 

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 16.2.2012 - 23:25 - FB ummæli ()

Grikkland og dýrbítarnir

Mörg grísk börn mæta svöng í skólann og eru svöng allan daginn. Nýlega er hafið starf við skólamáltíðir handa þeim. Tugþúsundir lítilla fyrirtækja hafa farið á hausinn. Þar fór strit og draumar þúsundir fjölskyldna fyrir lítið. Þúsundir ríkisstarfsmanna hafa misst vinnuna. Strax á að segja upp 15.000 manns og til viðbótar 150. 000 fram til 2015. Ríkisstarfsmenn hafa nú þegar þurft að sætta sig verulegar kauplækkanir og fyrirhugað er að lækka laun enn frekar um 22% á næstunni. Eftirlaun sem nú þegar hafa glatað 50% af kaupmætti sínum á einnig að lækka núna um 23%. Starfmenn eru sviftir áunnum réttindum og starfsöryggi sem áunnist hafa með áralangri kjarabaráttu. Starfsmenn eru líka sviftir réttinum til að semja um kaup og kjör. Skattar og gjöld hafa aukist þannig að margir ná ekki endum saman. Velferðakerfi Grikkja var lítið miðað við aðrar Evrópuþjóðir og alvanalegt að foreldrar styrktu börn sín og aldraða foreldra sína. Núna á að skera enn meira niður í mennta-og heilbrigðiskerfinu. Þegar velferðakerfið og efnahagur fjölskyldna er lagður í rúst á hinn almenni Grikki hvergi höfði sínu að halla þegar út af bregður.

Nú þegar hafa 500. 000 þúsund störf farið forgörðum í Grikklandi síðan 2008. Nær annar hver af yngri kynslóðinni er atvinnuleus. Það stefnir í 30% almennt atvinnuleysi. Í lok næsta árs er gert ráð fyrir því að þjóðarframleiðsla Grikkja hafi minnkað um 20%. Í kreppunni miklu minnkaði þjóðarframleiðsla í Bandaríkjunum um 29%.

Það sem nánast enginn skilur er hvernig þjóð í þessum aðstæðum á að vinna sig út úr kreppunni. Fjölmiðlar telja okkur trú um að þjóð sem á varla til hnífs og skeiðar sé líkleg til að vinna sig út úr kreppu. Að þjóð sem er neydd til að selja fyrirtæki sín á brunaútsölu, fyrirtæki sem gefa tekjur til ríkis og einstaklinga. Allar nýjar skuldbindingar grísku ríkisstjórnarinnar skulu meðhöndlaðar af breskum dómstólum, ekki grískum. Þvílík niðurlæging fyrir fullvalda þjóð. Þar með er loku fyrir það skotið að Grikkir geti losnað við ólögmætar skuldir.

Fullyrðingar og áróður fjölmiðla um aðferðir ESB/AGS gagnvart Grikkjum standast ekki nánari skoðun. Þrátt fyrir það eru ýmsir fjólmiðlar og starfsmenn þeirra tilbúnir að segja okkur að þetta sé aðferðin sem beita eigi og eina aðferðin fyrir Grikki. Auk þess telja fyrrnefndir aðilar að Grikkir eigi ekkert betra skilið.

Aðferðir ESB/AGS munu valda gríðarlegum hörmungum, eru ómennskar, brjóta lög, mannréttindi og stjórnarskrá Grikklands.

Sök Grikkja felst í því að hafa þegið boðið í veislu bankanna.

Um 90% af afrakstrinum af öllum þessum aðgerðum ESB/AGS mun verða notaður til þess að greiða eigendum ríkisskuldabréfa. Þeir eru upp til hópa einkabankar. Einhvern afslátt ætla þeir að veita en í staðin fá þeir ný ríkisskuldabréf frá Grikkjum sem skattgreiðendur í Evrópusambandinu munu ábyrgjast. Þar með hefur eðlileg áhætta við kaup á skuldabréfum verið þurrkuð út. Evrópskir bankar geta ekki látið Grikkland falla því þeir hafa keypt tryggingar fyrir tapi sínu hjá bandarískum bönkum. Bandarísku bankarnir hafa veðjað á að Grikkland lafi. Ef Grikkland fellur og evrópskir bankar sækja sitt tryggingafé til bandarískra banka þá falla þeir bandarísku. Þess vegna heimsótti Geithner Evrópu um daginn. Díllinn gengur út á það að láta Grikki lafa nógu lengi meðan hreinsað er til í óreiðunni.

 

Á tíunda áratugnum var S-Kórea í helgreipum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Kosningar voru væntanlegar og AGS neyddi forystumenn stærstu stjórnmálaflokkanna til að skrifa undir loforð um að þeir myndu ekki breyta samstarfinu við AGS eftir kosningar. Almenningur gat því ekki beitt lýðræðinu til að hafa áhrif á framtíð sína.

Evrópusambandið beitir sömu aðferðum í dag á Grikklandi. Kosningar verða sennilega í apríl. Þessa dagana er ESB að þvinga gríska stjórnmálaleiðtoga til að lofa því fyrirfram að engin breyting verði á helstefnu sambandsins eftir kosningarnar í Grikklandi. Nú þegar hefur Antonis Samaras(New Democracy) skrifað upp á. “if New Democracy wins the next election in Greece, we will remain committed to the program’s objectives, targets and key policies”.  Þar með er verið að svifta Grikki þeim lýðræðislegu réttindum að geta með þátttöku sinni í kosningum haft áhrif á framtíð Grikklands.

Þetta segir okkur að ESB telur eins og AGS að lýðræðið sé eingöngu fyrir útvalda. Þessi þáttur í kjarnastefnu ESB/AGS á uppruna sinn í þeim öflum sem ráða lögum og lofum innan þessara stofnana. Þessi öfl eru fjármálaöflin. Þegar kemur að hag fjármálaaflanna þá er lýðræðinu ýtt út af borðinu. Ekki bara lýðræðinu heldur velferð og hamingju heillar þjóðar. Ef fjármálaöflin fá sitt er ESB sama þó að Grikkir eigi ekki fyrir mat, geti ekki kynnt híbýli sín, búi á götunni og að öll uppbygging þjóðfélagsins hverfi ofaní svart gímald bankakerfisins.

Þegar fjármálaöflin eru orðin sátt við tilraun sína á Grikkjum munu þau færa sig til. Ítalía, Spánn og Portúgal eru næst á dagskrá. Síðan munu þau færa sig norður á bóginn, Frakkland og Þýskaland verða þá orðin veikluð og skuldum vafin eftir alla björgunarpakkana. Eftirleikurinn verður því auðveldur.

Öllum með meðalgreind ætti að vera ljóst að fjármálaöflin hafa rænt evrópska draumnum. Til að sá draumur verði einhvern tíman að gagni fyrir almenning í Evrópu þurfum við að brjótast undan oki fjármálaaflanna sem stjórna öllu í Brussel.

Að kalla þessa dýrbíta fasista eða nýfrjálshyggju gaura flokkast undir skreytni. Á venjulegri íslensku kallast þetta bara djöfulsins mannvonska og er framkvæmd af bankavaldinu og Evrópusambandinu í sameiningu og slefan lekur ekki á milli þessara aðila. Almennilegir Íslendingar ættu að vita hvernig umgangast skal dýrbíta.

 

Það verða samstöðumótmæli um alla Evrópu á laugardaginn; http://www.facebook.com/events/300173683376937/

Á Íslandi verða samstöðumótmæli á laugardaginn kl 1530 í Grasrótarmiðstöðinni,

Brautarholti 4.

http://www.facebook.com/events/110020119126970/

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 16.2.2012 - 01:10 - FB ummæli ()

„Ekki eins og Frjálslyndi flokkurinn“……

Siggi stormur sagði í Silfri Egils þann 12. febrúar 2012 að Samstaða vildi innkalla kvótann en ekki breyta kvótakerfinu „eins og Frjálslyndi flokkurinn ætlar að gera“. Auk þess notar hann orðalagið „ á morgun“. Að gera þjóðinni upp þá heimsku að hún trúi því að eitthvert stjórnmálaafl ætli að breyta slíku kerfi eins og kvótakerfinu á örfáum klukkustundum er vanvirðing við skynsemi þjóðarinnar.

Núverandi fyrirkomulag við útdeilingu á kvóta brýtur mannréttindi á Íslendingum á Íslandi samkvæmt áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá 24. október 2007. Mannréttindarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að íslensk stjórnvöld brjóti eigin lög um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, lög nr.10 frá 1979. Sennilega er þetta eina mannréttindarbrot okkar Íslendinga sem Sameinuðu þjóðirnar hafa slegið föstu að við framkvæmum. Nefndin óskaði eftir viðbrögðum innan 180 daga en við höfum ekki bætt ráð okkar frekar en Sýrlandsforseti.

Frjálslyndi flokkurinn vill breyta kvótakerfinu þannig að það brjóti ekki mannréttindi en hinir virðast ekki reiðubúnir til þess. Samkvæmt skoðanakönnunum vill þjóðin breyta kvótakerfinu eins og Frjálslyndi flokkurinn. Það sem virðist sætta menn við mannréttindarbrot á Íslandi er annaðhvort óttinn eða samsömun við stóru kapítalistana innan LÍÚ.

Allt tal um kollsteypur ber skort um vanþekkingu á málflutningi Frjáslynda flokksins. Flokkurinn gerir ráð fyrir að hluti auðlindagjalds fari til greiðslu skulda útgerða, skulda sem komu sannanlega til vegna kaupa á kvóta. Einkaþyrlur eru og verða einkamál.

Munurinn felst ekki í innkölluninni á kvóta. Munurinn felst í nýrri úthlutun. Frjálslyndi flokkurinn krefst jafnréttis við úthlutun á kvóta. Þannig mun manréttindarbrotum linna á Íslandi. Hann vill að nýir aðilar geti skapað sér framtíð í grundvallariðngrein Íslendinga. Frjálslyndi flokkurinn hafnar mismunun og krefst jafnréttis. Flokkurinn telur að slík mannréttindarbrot séu ekki verslunarvara.

Mannréttindarbarátta hefur oft þurft að lúta í lægra haldi fyrir miklum einkahagsmunum. Það er sárt þegar baráttu Frjálslynda flokksins fyrir jöfnum rétti og þar með mannréttindum er afgreidd með jafn óábyrgum hætti. Í hverra þágu er það?

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 15.2.2012 - 00:01 - FB ummæli ()

Bjarni fann sig í vissu uppnámi

Bjarni Ben formaður Sjálfstæðisflokksins telur að hann og félagar hans hafi gripið inn í þegar staðan var komin í „vist uppnám“. Því er augljóst að lögfræðingurinn Bjarni Ben var með hlutina á hreinu um hvað snéri upp eða niður. Lögfræðingar lúslesa venjulega alla samninga, velta fyrir sér málfari og hvort eitthvað geti orkað tvímælis. Þannig vinna lögfræðingar, eiga að vinna þannig og eru menntaðir til þess. Að skrifa undir samning með rangri dagssetningu er æði sérkennilegt. Það virðist vera frekar brask en vönduð vinnubrögð.
Sérkennilegt að tala um bankakerfi sem er komið í þrot að það sé komið í „vist uppnám“.
Þetta „vist uppnám“ varð þess valdandi að feðgarnir seldu öll hlutabréf  sín fyrir hundruði milljóna. Þeir vissu eins og góð skipsrotta að hin hinsta för var í aðsigi. Það eina sem skorti á þessi „eðlilegu“ viðskipti var að þeir hefðu mátt bjóða fleirum með sér niður landfestarnar, t.d. þjóð sinni.
Er ekki kóngurinn í Valhöll kominn í „vist uppnám“.
Hvað sem er rétt eða rangt í þessu máli þá vona ég svo innilega að Bjarni Ben haldi stöðu sinni sem formaður Sjálfstæðisflokksins. Bæði munu andstæðingar flokksins  hafa höggstað á honum en það sem er þó mikilvægara að hugsanlegt er að umbótaröfl innan Sjálfstæðisflokksins munu hreinsa til í flokknum. Sennilega borin von en samt…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 12.2.2012 - 20:29 - FB ummæli ()

Nafnlausi flokkurinn

Dagurinn í dag var merkilegur fyrir hóp einstaklinga. Hópurinn hóf ferli sem á að enda með stofnun stjórnmálaflokks. Undirbúningshópur sem var samansettur m.a. af meðlimum Borgarahreyfingarinnar, Hreyfingarinnar, Frjálslynda flokksins, fulltrúum Fullveldissinna og ýmissa annarra. Undirbúningshópurinn lagði fram drög að lögum og kjarnastefnu.

Væntanlega í mars mun framhaldsstofnfundur ljúka lagagerð og kjarnastefnu.
Lög þessa nýja nafnlausa afls taka mikið mið af tillögum Lýðræðisfélagsins Öldunnar. Þar er lögð mikil áhersla á lýðræðisleg vinnubrögð og að leita sátta. Fundurinn í dag var prófsteinn á meinta lýðræðisást framboðsins. Að mínu mati stóðst hópurinn prófið með ágætum. Einstaklingar fengu að viðra skoðanir sínar að vild, umræðan var málefnaleg og sterk tilhneiging til að leita sátta. Sú sterka skynjun að oft var þörf en nú sé nauðsyn sameinaði menn og nauðsynlegt sé að fá alla vopnfæra menn upp á dekk.
Stofnaðir voru margir málefnahópar og var mikill áhugi hjá fundarmönnum að skrá sig í þá. Það lofar strax góðu. Verkefni málefnahópanna verður að vinna áfram með drögin og fjölmargar tillögur sem fram komu á fundinum. Afstaða verður svo tekin til málefna og laganna á framhaldsstofnfundinum.

Ég tel að króinn hafi fæðst með nokkuð eðlilegum hætti í dag, án tangar eða keisara. Þar sem þetta framboð hefur markað sér þá stefnu að vera lýðræðislegt í vinnubrögðum mun myndun þess taka tíma. Jafnvel þarf að nema staðar, hlusta, íhuga og framkvæma svo. Lýðræðið er vandasamt form sem krefst vinnu og aga. Við erum þó öll sammála um að það er það form sem við teljum henta samskiptum manna einna best.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 10.2.2012 - 23:49 - FB ummæli ()

Það er þetta með þorskhausana

Allt þetta kjörtímabil hafa sjávarútvegsmálin verið mikið í umræðunni og ekki síst vegna endurtekinna umræðu um þau mál á vettvangi Alþingis. Sú stefna sem hefur verið rekin undanfarin ár kemur til af fylgi Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins við slíka stefnu. Reyndar studdu ýmsir af forkólfum núverandi ríkisstjórnarflokka núverandi stefnu í sjávarútvegsmálum á sínum tíma. Þegar almenningur hefur verið spurður álits í könnunum um kvótamálið hefur hann verið að móti því með miklum meirihluta.

Það er því munur á fylgi almennings við kvótakerfið og valdastéttarinnar.

Kvótakerfið, framsalið og önnur hönnun í sjávarútvegsmálum hefur valdið samþjöppun auðs og valds til minni hluta þjóðarinnar. Aðrir þegnar hafa ekki átt sömu möguleika á því að stunda útgerð og raun verið meinaður aðgangur. Mannréttindanefnd Sameinuð Þjóðanna telur núverandi fyrirkomulag í sjávarútvegsmálum Íslendinga vera mannréttindarbrot. Því er það öllum viti bornum einstaklingum með snefil af sómatilfinningu orðið augljóst að brotið hefur verið á jafnrétti. Þar sem við teljum jafnrétti einn mikilvægasta hornsteininn í mannlegum samskiptum, og teljum það til mannréttindabrota sé brotið á jafnrétti, þá er er það forgangsmál að leiðrétta þetta mannréttindarbrot. Það hæfir ekki að gagnrýna flísina í auga nágrannans þegar bjálkinn stendur út úr okkar eigin augntóft.

Þar sem stór hluti almennings og ýmsir forystumenn í íslenskum stjórnmálum telja það forgangsmál að ný stjórnaskrá okkar komist til framkvæmda sem allra fyrst er góð von til þess að sjómenn þurfi ekki lengur að bíða eftir því að mannréttindarbrotum á þeim linni. Í nýju stjórnarskránni grein níu stendur eftirfarandi „ yfirvöldum ber ætíð að vernda borgarana fyrir mannréttindarbrotum, hvort heldur sem brotin eru af völdum handhafa ríkisvalds eða annarra“.

Vandamálið við það að uppfylla full mannréttindi til allra, án viðeigandi tengsla inn í musteri sérhagsmunaaðila, hefur verið að við uppfyllingu fallegra hugsjóna, hefur viljað brenna við að eigin hagsmunir eða vina valdhafanna hafa á endanum ráðið úrslitum, mannréttindum í óhag.

Því er ekki víst að ást á nýrri stjórnarskrá dugi heldur mun það ráða úrslitum að á Alþingi Íslendinga veljist fólk sem þekkir til hvað mannréttindi eru og geri sér því fulla grein fyrir að þau eru ekki samningsvara.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 3.2.2012 - 22:53 - FB ummæli ()

Dýr flatskjár

Það hófst bankakreppa árið 2007 og stendur enn, hún er verri núna en þá. Það sem hefur gerst í aðalatriðum er að dælt hefur verið gríðarlega miklu fjármagni inn í gjaldþrota banka og þessir fjármunir verða að skuldum almennings. Á Íslandi voru þrír einkabankar endurreistir að kröfu AGS. Það kostaði okkur 64% af einni þjóðarframleiðslu. Einkabankar sem hefðu átt að fara á hausinn samkvæmt kokkabókum frjálshyggjunnar.
Svokallaður pilsfaldakapitalismi.
Almenningur hefur þurft að sætta sig við að eiga enga aðkomu að þessum ákvörðunum. Hann hefur þurft að sætta sig við miklar skuldir á ríkissjóði sem koma til vegna björgunar gjaldþrota bankakerfis. Bankakerfi sem hagaði sér glæpsamlega. Auk þess þarf almenningur að taka; miklum skattahækkunum, fasteignalán hækka, atvinnuleysi, kaupmáttur fellur, niðurskurði í velferð og miklum öðrum skaða s.s. lífeyrissjóðakerfi okkar Íslendinga.
Það ríkir í raun óöld. Það eru mótmæli víðs vegar um Evrópu og Bandaríkin. Sem andsvar reyna valdhafarnir að innsigla völd sín með öllum ráðum. Í Bandaríkjunum eru komin lög sem heimila hernum að handtaka hvern sem er, hvenær sem er, hvar sem er, á grunsemdunum einum saman. Ekki er þörf á dómsúrskurði og fanginn á ekki rétt á að vera leiddur fyrir dómara. Bandaríkin eru því í raun í andyri fasismans. Í ESB er verið að koma á miðstýrðu fjármálaráðuneyti sem mun ákveða fjárlög ríkjanna innan ESB. Þar með mun almenningur ekki eiga neina lýðræðislega möguleika á að hafa áhrif á fjármál ríkja sinna né ESB.
Afleiðingar frjálshyggjunnar eru þær að þurrka út frelsi einstaklingsins.
Bankarnir eru þó frjálsir ferða sinna og geta fyllt hirslur sínar að vild úr sameiginlegum sjóðum þjóðríkjanna. Framleiðsla þeirra í ýmsu formi, skulda, afleiða o.fl. teygir anga sína út um allt hagkerfið og ef þeir fara um koll verður mikil keðjuverkun sem enginn sér fyrir. Óttinn við hið óþekkta heldur stjórnmálamönnum í spennitreyju um víða veröld.
Auk þess hafa bankar einkaleyfi á því að búa til peninga. Ríkissjóðir gefa út ríkisskuldabréf. Bankar taka við slíkum bréfum(„kaupa þau“) og búa til peninga miðað við hvað ríkissjóður hefur sett stóra upphæð á bréfið. Þannig fá ríkissjóðir peninga til að reka þjóðfélögin, þegar skatttekjur duga ekki fyrir útgjöldum. Síðan þarf ríkissjóður að endurgreiða bönkunum peningana sem þeir bjuggu til úr engu. Ef matsfyrirtæki bankanna lækka lánshæfismat viðkomandi ríkis þá þurfa ríkissjóðir að endurgreiða bönkunum ríkisskuldabréfin með hærri vöxtum. Matsfyrirtækin stilla því af vaxtabyrði ríkja eða stilla af gróða bankanna. Í dæmum Portúgals og Grikklands þá er þetta samspil að setja heilu þjóðlöndin á hausinn.
Þrátt fyrir allt ofanritað þá verður niðurstaða valdhafanna alltaf sú að einhver keypti sér flatskjá.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 2.2.2012 - 00:11 - FB ummæli ()

Afnám lýðræðis í Evrópusambandinu

30. janúar voru leiðtogar ESB að samþykkja reglur um fjármálastjórn ESB og væntanlegan sjóð til styrktar skuldsettum þjóðum innan ESB. Kynnum okkur aðeins nánar reglurnar um ríkisfjármálin.

TREATY ON STABILITY, COORDINATION AND GOVERNANCE
IN THE ECONOMIC AND MONETARY UNION
http://www.european-council.europa.eu/media/579087/treaty.pdf

Megin hugsunin í þessum nýja samningi milli evru þóða er að skuldir verði greiddar án sérstakrar aðkomu kjörinna fulltrúa í hverju ríki fyrir sig. Engin umræða á að geta átt sér stað meðal kjörinna fulltrúa viðkomandi þjóðríkja hvort viðkomandi skuld sé lögmæt. Hvort skuldin sé til komin vegna byggingar sjúkrahúss eða mistaka banakakerfisins í fjárhættuspili sínu. Könnum þetta aðeins nánar:

„The Contracting Parties shall ensure rapid convergence towards their respective medium-term objective. The time frame for such convergence will be proposed by the Commission taking into consideration country-specific sustainability risks“.
Þau ríki sem samþykkja þennan samning verða að fylgja reglum hans. Það sem ræður hvernig þau ríki fylgja honum fer eftir ákvörðunum framkvæmdavalds ESB(Commission).

„In the event of significant observed deviations from the medium-term objective or the adjustment path towards it, a correction mechanism shall be triggered automatically. The mechanism shall include the obligation of the Contracting Party concerned to implement measures to correct the deviations over a defined period of time“.
Hugmyndin er að ef brugðið er út af reglum samþykktarinnar eða þegar fyrirmælum hennar er ekki fylgt eftir muni sjálvirkt kerfi fara í gang. Þ.e.a.s. það mun ekki verða nein þörf á umræðu heldur mun einhverskonar bankaforrit sjá um niðurskuð og aðlögun að kröfum ESB. Þar með er sú spurning áleitin hvað eiga þjóðþingin eða Evrópuþingið að taka afstöðu til þegar tölvuforrit sér um fjármálin.

“The rules mentioned under paragraph 1 shall take effect in the national law of the Contracting Parties at the latest one year after the entry into force of this Treaty through provisions of binding force and permanent character, preferably constitutional, or otherwise guaranteed to be fully respected and adhered to throughout the national budgetary processes”.
“The Contracting Parties shall put in place at national level the correction mechanism mentioned in paragraph 1.e) on the basis of common principles to be proposed by the European Commission”,
Reglum samningsins á að vera breytt í lög viðkomandi ríkja þannig að ekki sé hægt að komast hjá að fylgja honum. Mjög skiljanlegt ef hann á að virka. Krafa Þjóðverja og sumra annarra var að reglur samningsins væru settar inn í stjórnarkrá viðkomandi ríkja. Horfið var frá því vegna þess að þá hefði orðið þörf fyrir þjóðaratkvæðagreiðslur. Þess vegna snérist orðalagið mikið um að forðast álit almennings.

„The Contracting Parties that are subject to an excessive deficit procedure under the European Union Treaties shall put in place a budgetary and economic partnership programme including a detailed description of the structural reforms which must be put in place and implemented to ensure an effective and durable correction of their excessive deficits. The content and format of these programmes shall be defined in European Union law. Their submission to the European Commission and the Council for endorsement and their monitoring will take place within the context of the existing surveillance procedures of the Stability and Growth Pact“.
„The implementation of the programme, and the yearly budgetary plans consistent with it, will be monitored by the Commission and by the Council“.
Þarna er greinilega gefið til kynna að þjóðríki verði að fylgja reglunum og skera niður útgjöld sín. Auk þess verður framkvæmdavald ESB að samþykkja áætlun hvers þjóðríkis fyrir sig og getur fylgst með framkvæmd hennar.

„With a view to better coordinating the planning of their national debt issuance, the Contracting Parties shall report ex-ante on their public debt issuance plans to the European Commission and to the Council“.
Hér er tekið fram að þjóðríkin verði að gera grein fyrir áætlunum sínum í fjármálum til framtíðar hvað viðkemur skuldastöðu. Það segir okkur að viðkomandi þjóðríki verði að leita samþykkis fyrir sínum áætlunum fyrirfram. Þar með er sjálfstæði viðkomandi þjóðríkja mjög takmarkað.

„In both cases, the judgment of the Court of Justice shall be binding on the parties in the procedure, which shall take the necessary measures to comply with the judgment within a period to be decided by the Court“. Framkvæmdavald ESB getur ákært þjóðríki fyrir vanefndir á samningnum og er niðurstaða réttarins bindandi fyrir þjóðríkin. Síðan getur framkvæmdavald ESB eða önnur ríki ESB klagað ríki fyrir réttinum ef þau fara ekki að niðurstöðu hans. Þá getur rétturinn dæmt viðkomandi lönd í bætur í allt að 0,1% af þjóðarframleiðslu viðkomandi ríkis.
„With a view to benchmarking best practices and working towards a more closely coordinated economic policy, the Contracting Parties ensure that all major economic policy reforms that they plan to undertake will be discussed ex-ante and, where appropriate, coordinated among themselves. This coordination shall involve the institutions of the European Union as required by European Union law“.  Hér er endurtekið að allar hugmyndir þjóðríkja um eigin fjármálastjórn eða hvernig þjóðríki hyggist stjórna sínum fjármálum skulu kynntar og ræddar í Brussel fyrirfram.

Til að vinna að þessum málum og greina vandamálin á að stofna svokallað „Euro Summit“ samsett af forystumönnum þjóðríkjanna sem hafa evru. Seðlabankastjóri Evrópu skal mæta en forseta Evrópuþingsins eru ætluð önnur örlög;  „The President of the European Parliament may be invited to be heard“.

Það er augljóst við lestur þessa samnings að vald er flutt frá þjóðríkjunum til Brussel. Þjóðkjörnir fulltrúar sem hafa vald sitt frá almenningi sem hefur kosið þá vegna ákveðinnar pólitískrar stefnu munu hafa mun minni völd. Það má draga þá ályktun að þegar kemur að fjármálum þjóðríkja muni ólík pólitísk sjónarmið, vinstri eða hægri, ekki hafa neitt með það að gera hvernig viðkomandi þjóðríki stjórna sínum fjármálum. Þar sem fjármál eru afgerandi hvernig pólitískri stefnu er framfylgt er um mikið valdafsal að ræða. Ef ég fæ full yfirráð yfir veskinu þínu þá er ekki mikið sem þú ákveður sjálfur. Stefna ESB er að fjármálum einstakra þjóðríkja sé stjórnað frá Brussel, þ.e. fjármálastjórnunin sé miðstýrð. Þar sem stefna ESB hefur hingað til gengið út á það að dæla peningum í vonlaust bankakerfi er ekki von á öðru í framtíðinni. Því munu þjóðríki þurfa, að kröfu ESB,  setja mun meiri fjármuni í svart gímald bankakerfisins af raunframleiðslu sinni án þess að geta mótmælt því á lýðræðislegan hátt.
Það sem vakti athygli mína var að algjört skilyrði Svía fyrir því að styðja viðkomandi samning var að þeir væru algjörlega undanþegnir allri stjórn Brussel yfir sínum fjármálum og engin hætta væri á því að þeir þyrftu að taka upp evruna, sem þeir vilja ekki sjá.
Um langt árabil hafa margir einstaklingar og stjórnmálaöfl mótmælt því hástöfum að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi gengið fram með offorsi gagnvart fátækum þjóðum heimsins. Þar hefur verið gagnrýnt að þjóðir hafi verið knúnar í mikla fátækt til að hámarka gróða einkafyrirtækja og banka.
Við Íslendingar fengum að kynnast þessu þegar tap þriggja einkabanka var gert að skuld skattgreiðenda á Íslandi. Þessu kom AGS í kring með samningi sínum við stjórnvöld á Íslandi. Framkvæmdavald Íslands gerði slíkan samning fyrir hönd íslensku þjóðarinnar. Þar kemur fram og í flest öllum öðrum samingum sem AGS gerir við þjóðir, sjá eftirfarandi;

„We stand ready to take any further measures that may become
appropriate for this purpose. We will consult with the Fund on the adoption of any such
measures and in advance of revisions to the policies contained in this letter, in accordancewith the Fund’s policies on such consultation“.

Með þessari grein í samningum afhendir framkvæmdavaldið á Íslandi, og aðrar þjóðir sem gera viðlíka samning, fullveldi sitt til AGS. Núna er búið að koma á svipuðu kerfi innan ESB. Fullvalda þjóðir innan ESB eru komnar undir stjórn og eftirlit miðstýrðs valds í Brussel þegar kemur að fjármálum þjóða.

Þegar horft er til þess að almenningur í Evrópu eru; vitleysingar og keyptu sér flatskjá, flutu áfram á bólunni og tóku fullt af lánum, samþykktu þar með hugmyndafræði peningaaflanna, gerðu sér ekki grein fyrir því að það sem fer upp fer einnig niður, að það kæmi að skuldadögum. Slíkt fólk á ekkert gott skilið og því síður einhvern snefil af lýðræði til að leysa sín vandamál. Þess vegna styðja allr, sem vilja að draumurinn um Evrópu lifi, þessar hugmyndir sem fram koma í þessum samningi sem var samþykktur á mánudaginn.

Spurningin er áleitin hvers vegna svipuð kúgun á fátækum þjóðum er fordæmd en sama aðferðafræði er samþykkt ef ESB rekur slíka stefnu. Er hugsanlegt að ódýr skinka sé svona mikils virði?

Þar sem flest allar ráðstafanir AGS og ESB hingað til snúast um hag banka, þar sem flest allar ráðstafanir AGS og ESB í tengslum við bankakreppuna valda almenningi og fyrirtækjum búsifjum eða gjaldþroti er það augljóst að þeir sem vilja að draumurinn um Evrópu lifi styðja velgegni banka fram yfir hag almennings og lýðræðisins. Það sýnir sig hvar hjartað slær hjá forystumönnum ESB í þessari frétt FT. Þar kemur fram í vinnuskjali forystumanna ESB að skuldir Grikklands skulu ganga fyrir nauðþurftum Grikkja, þ.e. velferð. Þar kemur fram að greiðsla skulda skuli sett í grísk lög þannig að Grikkir geti ekki lýst sig gjaldþrota og sloppið þannig við að greiða skuldir sínar né hótað í samningum við lánadrottna að lýsa sig gjaldþrota.

Þess vegna er það nokkuð ljóst að  ESB-sinnar eru líka Banka-sinnar.

Staðreyndin er nefnilega sú að evrópska draumnum var rænt frá almenningi af fjármálaöflunum. Í dag er ESB verkfæri stóru bankanna. Það virkar innan Evrópu á sama hátt og AGS virkaði á Íslandi. Við höfum notað 64% af þjóðarframleiðslu okkar til að endurreisa bankakerfið sem hagaði sér glæpsamlega í aðdraganda hrunsins. Í dag mergsýgur bankakerfið okkur sem við endurreistum. Þar að auki sýnir það mikinn hagnað sér og sínum til hagsbóta, en ekki okkur. Ef einhver er í vafa þá unnu ESB og AGS saman í Írlandi og Grikklandi og uppskriftin er alltaf sú sama.

Næsta skref innan ESB er að stofna nýjan neyðasjóð. Þegar áhrifum lýðræðislegra kjörinna fulltrúa í þjóðríkjum innan ESB hefur verið ýtt til hliðar mun fjármunum ESB verða stjórnað af fámennum hópi manna. Þar sem stærsti hluti skulda er vegna fjárhættuspils banka mun raunhagkerfi Evrópu dæla peningum þangað án þess að nokkur lýðræðisleg umræða fari fram.

Það sem gerir ESB og Evrópu sérstaka er sú staðreynd að Evrópa er eitt af síðustu stóru svæðunum þar sem einhver vottur af jöfnuði hefur verið. Þar sem velferðarkerfi hefur verið til staðar. Núna er verið að leggja slíkt í rúst í Evrópu. Þegar því hefur verið lokið þá munu velferðarríki vera sem einstaka eyjar á jarðarkringlunni. Það er þetta sem baráttan snýst um, eiga 99% að ráða eða 1% sem öllu vill ráða?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 27.1.2012 - 23:39 - FB ummæli ()

I Want To Breake Free…

Seinni heimstyrjöldin er mjög lærdómsríkur kafli í mannkynssögunni fyrir okkur í dag. Bæði er að ekki er langt síðan hún gerðist og heimildir eru margar, þökk sé skráningaráráttu Þjóðverja. Hún kennir okkur margt um mannlegt eðli og viðbrögð almennings við ógnum.
Nazistar hnepptu milljónir í þrælkunarbúðir sem unnu myrkranna á milli fyrir Þriðja ríkið. Þeir sem urðu veikir eða þoldu ekki álagið dóu drottni sínum. Manneskjan var nýtt sem ódýrt vinnuafl í þágu hagsmuna fárra. Vonir, draumar eða framtíðaráætlanir fjölskyldna enduðu í hungri eða gasklefum. Með valdi naut valdastéttin þeirra mannréttinda að fylgjast með börnum sínum vaxa úr grasi og taka við keflinu en svifta hina því.
Fangaverðirnir voru miklu færri en fangarnir. Þess vegna hefðu fangarnir sennilega sigrað ef þeir hefðu staðið saman. Þess í stað taldi hver einstaklingur að ef hann væri duglegur og hlýðinn þá myndi hann frekar lifa af. Þess vegna var friður í fangabúðunum. Gyðingagettóið í Warsjá var skipulega tæmt af fólki í útrýmingabúðirnar. Þegar þeir sem eftir voru áttuðu sig á því að Nazistarnir ætluðu að eyða þeim öllum þá gerðu þeir uppreisn.
Hinir Pólverjarnir sem ekki voru gyðingar hjálpuðu ekki gyðingunum sérstaklega mikið því þeir hugsuðu líka að ef ég er hlýðinn og góður þá slepp ég kannski. Ef þeir hefðu staðið með gyðingunum þá hefði baráttan orðið Þjóðverjum mun erfiðari. Síðan gerðu Pólverjarnir uppreisn seinna en þá voru allir gyðingarnir dánir og andstaðan veikari.
Okkur finnst sjálfsagt í dag fáranlegt að kúgararnir geti komið inn slíkum fordómum hjá þeim kúguðu og þannig komið í veg fyrir að þeir geti unnið saman. Í þá daga gátu ekki allir samþykkt að vinna með gyðingum vegna þess að þeir voru gyðingar. Þrátt fyrir það sátu allir í sömu súpunni og hefðu átt að standa saman sem Pólverjar.
Í dag, 27 janúar, er dagurinn þegar Rússar frelsuðu síðustu fangana úr Auschwitz og Treblinka. Þá var það allt of seint fyrir allar þær milljónir sem þjáðust og dóu.
Í raun hefur lítið breyst nema að umbúðirnar eru svolítið öðruvísi. Fólk er hneppt í skudlafangelsi og vinnur myrkranna á milli. Þeir sem þola ekki álagið fá nánast að deyja drottni sínum því velferðarkerfið er skorði niður skipulega. Ódýrt vinnuafl verður til og ódýrar fasteignir fyrir bankana .
Enn í dag erum við miklu fleiri en fangaverðirnir. Ef við stæðum saman væri valdið okkar. Við hneykslumst á lang afa og ömmu að þau skyldu ekki brjóta hlekki valdsins af sér með sameiginlegu átaki. Okkur er eins farið. Því við trúum því hvert og eitt að ef við erum hlýðin og góð þá sleppum við, kannski. Við horfum á eftir vinum og kunningum í gjaldþrot. Við vitum að bankinn munn svifta þau öllum eigum þeirra. Ræna af þeim öllum ævisparnaði þeirra, öllu stritinu. Við vitum að bankinn mun kljúfa fjölskyldur.
Við vitum að vonir, draumar og framtíðaráætlanir fjölskyldna munu enda á báli kreppunnar. Við vitum að með valdi mun valdstéttin einoka þau mannréttindi að fylgjast með börnum sínum vaxa úr grasi án skorts og taka við keflinu.
Ætlum við ekkert að læra af sögunni, þurfum við alltaf að finna upp hjólið. Ef við gætum sameinast. Bara tímabundið. Þó við séum ekki öll nákvæmlega eins. Þó við túlkum ekki tilveruna nákvæmlega eins. Þó við séum ekki ákkúrat á réttum stað á hinum pólitíska kvarða, upp á millimeter. Þó við séum gyðingar eða með bólu á nefinu. Allt þetta hefur valdastéttin troðið inn í höfðið á okkur svo að við stöndum ekki saman. Það er ömurlegt að horfa upp á árangur hennar.
I want to breake free from the financial system… en þá verðum við að standa saman og þá er valdið okkar. Við verðum að hætta að dæma samherjana eftir gæðastaðli valdastéttarinnar.
Er það hámark eigingirninnar að vilja eyða dögum líf síns í öryggi hlekkjanna í stað þess að brjótast undan þeim í þágu barnanna okkar. Kannski er það heimska að hugleysi. Það er að minnsta kosti manninum eðlislægt að bregðast of seint við kúgun.
Við verðum að gera okkur fulla grein fyrir því að við erum með tilveruna að láni hjá börnunum okkar og ber að skila henni í jafn góðu ásikomulagi til þeirra. Í raun höfum við ekki neina undankomu því fyrsti gráturinn var undirskrift okkar.
I want to breake free from the financial system…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur