Fimmtudagur 14.7.2011 - 21:19 - FB ummæli ()

Hliðið í Brekkukoti

Suma dreymir um að koma fjórflokknum frá völdum og endurreisa lýðveldið okkar á Íslandi. All marga dreymir  um ekki neitt nema Kringluna og Smáralind.

Samkvæmt fréttum RÚV í kvöld þá er ekki hægt að breyta kvótakerfinu því þá skaðast bankarnir. Það er að segja, þá skiptir ekki máli þó að sjávarútvegsfyrirtæki landsins fengju nýtt kvótakerfi sem þau væru ánægð með, því það dugar ekki. Ástæðan er sú að fiskveiðistjórnunarkerfi Íslands þarf að skila eins miklum hagnaði inn í bankana og nokkur kostur er. Því er það ljóst að Sægreifarnir eru bara peð, þeir eru skuldum vafðir og þess vegna verða þeir að sæta afarkostum lánadrottna sinna, þ.e. bankanna.

Styrmr Gunnarsson skrifar um óeðlileg samskipti stjórnmálamanna og bankavaldsins í Evrópu. Þeir sem hafa fylgst með fréttum frá Grikklandi, Írlandi, Portúgal og núna frá Ítalíu skilja hvað hann er að velta fyrir sér. Það virðist ekki skipta máli hvaða flokka eða stefnur almenningur kýs til að stjórna fyrir sig því alltaf er beitt sömu uppskriftinni í öllum tilfellum. Afrakstur þeirrar uppskriftar er að almenningur tekur á sig tap bankanna með auknum sköttum og niðurskurði. Þar sem bankarnir hagnast á öllum hugsanlegum ríkisstjórnum, hvort sem þær eru vinstri-miðja eða hægri, þá er það nokkuð augljóst að bankarnir stjórna en ekki almenningur. Myndum við sætta okkur við það að dekkjaverkstæði landsins veltu öllum sínum taprekstri yfir á almenning?

Því ætti það að vera nokkuð ljóst að bankar stjórna hvernig fiskveiðistjórnunarkerfi verður hannað á Íslandi og hitt að bankar stjórna Evrópusambandinu hvað svo sem líður lengd eða formi agúrka á meginlandinu.

Á meðan almenningur og stjórnmálamenn á Íslandi átta sig ekki á þessu mun fjórflokkurinn halda völdum. Á meðan fjórflokkurinn fylgir fjármálavaldinu er honum óhætt og mörgum stjórnmálamanninum er hætt við að leita skjóls hjá honum. Dæmin sýna að einmanna stjórnmálamenn eða litlir flokkar hafa mikla tilhneigingu til að dragast inn í skjól fjórflokksins, hvað svo sem skoðunum þeirra á fjármálaauðvaldinu líður. Þeir sem þráast þó við og halda skoðunum sínum til streitu er mjög hætt við að komast hvorki lönd né strönd sökum fjárskorts. Á þann hátt beinir fjármálavaldið til valda einstaklingum og flokkum sem eru þeim hliðholl.

Til að kóróna hjálparleysi þess hluta almennings sem vill þó sameinast gegn fjórflokknum þá  sér innbyrðist sundurþykki og sjálfhverfni til þess að ekkert afl myndast sem hefur roð í valdastétt landsins. Á meðan þetta ástand varir mun fjármálavaldið með aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Evrópusambandsins og núverandi ríkisstjórn stilla af verksmiðjuna Ísland þannig að hún skili hámarks afköstum og sem mestum hagnaði til bankakerfisins.

Það er bylting í gangi hjá almenningi í Evrópu gegn bankavaldinu. Ef þeir straumar komast um hliðið í Brekkukoti, þá á Ísland einhverja von.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 24.6.2011 - 17:21 - FB ummæli ()

Euro Plus Pact—they will not force us!

Euro Pact plus er venjulega kallaður Euro Pact og á að verða sáttmáli innan ESB. Í stuttu máli gengur hann út á það að setja skorður á störf kjörinna fulltrúa í viðkomandi þjóðlöndum í þeim tilgangi að koma hugmyndum í framkvæmd sem hugnast þeim sem stjórna Evrópusambandinu í dag.

Var í upphafi kallaður Competitiveness Pact eða sáttmálinn um samkeppnishæfni. Sá sem er samkeppnishæfur er sá sem allir vilja kaupa af. Við Vesturlandabúar höfum nýtt okkur þessar hugmyndir ríkulega þegar við kaupum vörur frá fátækum löndum og verksmiðjum sem stundum eru kallaðar Sweatshops(Sweat factory). Við höfum keypt þessar ódýru vörur sem eru ódýrar vegna þess að þeir sem framleiða þær fá lítil laun, hafa engin réttindi, engan lífeyri og vinna 12-15 tíma á dag, 7 daga vikunnar og eru barðir ef þeir slá slöku við. Síðan förum við í penar mótmælagöngur eða bloggum í þeim tilgangi að bjarga heiminum.

Samkeppnissáttmáli Evrópusambandsins gengur út á eftirfarandi:

  1. Afnema vístöluhækkun launa=launalækkun.
  2. Minnka kostnað vegna  vinnuafls=launalækkun.
  3. Auka framleiðni vinnuafls með því að minnka reglurverk iðnaðarins=þrælahald.
  4. Auka sveigjanleika vinnumarkaðarins=hægt að segja fólki upp strax.
  5. Minnka skatta á vinnuafli=auka tekjur einkaaðila á kostnað ríkissins.
  6. Auka verktöku=skúringakonan verður verktaki án réttinda stéttarfélaga.
  7. Hækka eftirlaunaaldur=vinna þangað til við dettum í kistuna.
  8. Samhæfa skatt á fyrirtækjum= til að lækka hann síðan.
  9. „Schuldenbremse“ Skuldabremsa. Þá er löndum ekki leyft að skulda meira en ákveðna prósentu af þjóðarframleiðslu. Mælt er með því að þau lönd sem gangast undir Euro Pact setji reglur hans í stjórnarksrá eða í lög. Síðan verða viðkomandi þjóðríki að fylgja þessum reglum undantekningarlaust.

Skuldabremsan er talin mikilvægasti hluti Euro Pactsins. Mörgum finnst hann algjör snilld því þá fá þeir útrás fyrir hatur sitt á hinu opinbera og miðstýringu. Margir segja að þarna sé komin lausnin á óábyrgum þingmönnum sem ausa bara peningum til hægri og vinstri. Nú sé loksins komin fram ábyrg fjármálastjórn sem hemur þessa sócíal demókrata í sínum miðstýrðu eyðslunefndarfylleríum-amen.

Stuðningsmennirnir virðast ekki gera sér neina grein fyrir því að hér er um algjöra miðstýringu að ræða. Framkvæmdavald ESB hefur með Euro Pactinum náð völdum yfir fjármálastjórn viðkomandi þjóðríkja. Fjármálaráðherrar þjóðríkjanna verða ekki sjálfstæðir gagnvart ESB. Þeir verða að fara eftir reglum sem hentar ekki viðkomandi þjóðríkjum heldur markmiðum um ódýrt vinnuafl. Til að fullnægja reglum um skuldastöðu verður að koma til niðurskurður og launalækkanir innan viðkomadi ríkis. Það er það sem er átt við með samkeppnishæfni. Það er hinn raunverulegi tilgangur að breyta Evrópu í láglaunasvæði sem framleiðr mikið fyrir lítið. Þar með er síðasta vígi verkamannsins fallið í hendur auðstéttarinnar-í boði ESB.

Er skrítið að Evrópubúar mótmæla. Um síðustu helgi mótmætu Grikkir í tugum borga. Spánverjar mótmæltu þessum Euro Pact sáttmála sérstaklega um síðustu helgi. Það söfnuðust um 3-400 hundruð þúsund manns víðsvegar um Spán og mótmæltu. Opinberir aðilar mátu fjöldann minnst 250 þúsund og eru þeir venjulaga í neðri mörkunum eins og við þekkjum sjálf frá Austurvelli. Það hafa ekki verið jafn fjölmenn mótmæli á Spáni í mjög langan tíma. Sagði RUV okkur frá þessu-varð ekki var við það.

„The streets are ours – we will not pay for their crisis“

Vinstri þingmenn á spánska þinginu voru svo „vilhallir“ mótmælendum að þeir þökkuðu lögreglunni meira að segja fyrir að leyfa mótmælendum að mótmæla. Lögreglan barði mótmælendur og setti útsendara sína á meðal þeirra. Útsendara sem köstuðu grjóti í lögreglubíla. Þar sem allir eru að taka myndir alls staðar þá mynduðust útsendararnir að skipta um föt meðal lögreglumanna og að síðan að kasta grjóti. Grjótkastararnir gáfu stjórnvöldum tækifæri til að kalla mótmælendur „terrorista“.

Ekki nema von að Spánverjar segja; „It is not a surprise that for many of the people in the movement all parties are regarded as being the same! One of the most popular slogans of the movement says it clearly „they do not represent us“.

Mótmæli Evrópubúa hafa verið að þróast að undanförnu. Í upphafi var verið að mótmæla ákveðnum ráðstöfunum ríkisstjórna í boði ESB og ósk um hugsanlegar leiðréttingar á afmörkuðum sviðum. Í dag er almenningur að upplifa algjöran klofning á milli sín og valdhafa. Kjörnir fulltrúar almennings eru strengjabrrúður fjármálavaldsins og eru því ekki fulltrúar almennings. Almenningur er að gera sér grein fyrir því að kerfið er ónýtt, kerfið vinnur gegn hagsmunum almennings.

Spánverjar eru að vakna og sjá Grikkland sem fordæmi. Krafan um alsherjarverkfall verður allt háværari, alsherjarverkfall, ekki til að krefjast launahækkana heldur til að endurheimta lýðræðsileg réttindi sem Brussel valdið hefur tekið frá þeim. Verkalýðsfélög Spánar eru líka að rumska. Spánverja beina gagnrýni sinni mjög að Brussel og fjármálavaldinu og sjá ekki mikinn mun á þessu tvennu.

Spurningin verður allt meir knýjandi hvers vegna við Íslendingar erum að reyna að komast inn í þennan þjáningaklúbb sem æ fleiri eru að berjast gegn.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 23.6.2011 - 00:30 - FB ummæli ()

Er EXCEL góð beita

Það er ekki hagstætt fyrir lækna að sinna öllum sjúklingum strax, betra er að geyma þá til seinni tíma. Ef það er ekki hagstætt fyrir lækna þá er það að sjálfsögðu ekki hagstætt fyrir þjóðina, ekki satt?  Það þarf að gæta að því að því að sjúklingar eru í útrýmignarhættu ef þeim er sinnt jafnóðum. Auk þess er það nauðsynlegt að setja sjúklinga í kvóta og selja kvótann til hópa af læknum. Það mun örugglega vera mjög hagfræðilega hagkvæmt, reyndar eru vissar læknisfræðilegar bollaleggingar um að þetta standist ekki viðteknar venjur innan læklnisfræðinnar, but who cares! Sumir kverúlantar hafa bent á að viss hætta sé á því að sjúklingakvótinn verði keyptur til Þórshafnar og þar með verði Landspítalinn tómur. Ef það er blessað af excel nördum Háksóla Íslands sem hagfræðilega hagkvæmt fyrir þjóðarbúið þá er því kokgleypt af Alþingi. Að Læknafélag Íslands standi straum að þessum hagfræðilegu matsgerðum skiptir engu máli því þeir sem gerðu matið hafa metið að það sé vel gert.

Fyrirgefið, finnst ykkur skrítið að mér finnist kvótaumræðan í sjávarútvegi okkar Íslendinga svolítið geggjuð.

Ráðherrar, alþingismenn og aðrir virðulegir fírar innan íslensk samfélags ræða málin síðan eins og um eitthvert alvöru mál sé að ræða.

Málið er einfalt og algjör óþarfi að flækja það. Sjávarauðlindin okkar er einokuð af fáum og aðrir hafa skertan aðgang að henni. Það hefur verið dæmt sem mannréttindarbrot. Að stór hópur keppist við að viðhalda því ástandi er ofbeldi. Hálf heimsbyggðin er að reyna að sprengja Gaddafí í tætlur vegna sömu afbrota þannig að ekki er hægt að tala um að mannréttindabrot séu eitthvað grín. Reyndar er það talið hagfræðilega hagkvæmt af hagfræðingum við Háskóla Íslands, kostaðir af Landsambandi íslenskra útvegsmanna, að viðhalda mannréttindabrotum fyrir þá en gegn okkur. Er markmið Háskóla Íslands að skapa og viðhalda kvótamafíu? Hver er afstaða háskólasamfélagsins til mannréttindabrota, eru hópnauðganir á konum einhver tíman hagfræðilega réttlætanlegar og því ekki mannréttindabrot?

Sú hugmynd að spara sjúklinga eða fiska til seinni tíma er svo geggjuð að það þarf töluverð heilabrot og andlega áreynslu til að skilja hana. Eiga fiskar og sjúklingar ekkert líf utan excel skjala hagfræðinnar? Hvers vegna í ósköpunum dettur náttúrunni í hug að fæða barn um miðja nótt þó það sé ekki þjóðhagslega hagkvæmt? Ef fullt af fiski deyr sökum þess að þeir eru étnir eða hafa ekkert að éta, hvaða gagn er í því að geyma fiskana við þessar tvísýnu aðstæður?

Halda menn að við séum fífl, eða kannski hefur þeim tekist með heilaþvætti að gera þjóðina að fíflum?

Heilbrigðiskerfið afkastar stöðugt meira og oft með minni kostnaði en áður. Fiskihagfræðingarnir og fiskiráðgjafarnir skapa með vinnu sinni stöðugt minni afla miðað við það sem áður var. Með algjörri tærri snilld, sem fiskihagfræðingarnir mættu stæra sig meira af um víða veröld, þá er atvinnugreinin skuldsett upp í rjáfur. Í raun á bankakerfið útveginn okkar. Allur afgangurinn, þ.e. arður, rennur til bankanna í formi vaxtagreiðslna og afborgana.

Það hvarlar að manni að stúdentsprófið hafi verið ógæfuspor og háskólagráðan slys fyrir alþjóð í rekstri sjávarútvegsins. Í raun snýst hann um að veiða fisk og selja.

Flækjustig í tilverunni er oftast hannað fyrir þá sem ætla að fá mikið fyrir lítið og það sannast eina ferðina enn í kvótaumræðunni. Er ekki mál að linni?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 20.6.2011 - 23:25 - FB ummæli ()

Hvort endurreisa Grikkir Agora eða evruna

Grundvallaratriðið í sambandi við þann efnahagsvanda sem steðjar að Grikkjum og heiminum öllum er að það er ekki hægt að gera við núverandi kerfi því það er ekki bilað, það er ónýtt. Því fyrr sem við gerum okkur grein fyrir þessu verða meiri líkur á því að við förum rétta leið.

Núverandi kerfi byggist á skuld og sívaxandi skuld sem eykst með veldisaukningu getur því ekki haldið áfram endalaust. Lánastarfsemi til verkefna sem geta endurgreitt lánin er forsendan fyrir því að þetta kerfi gangi upp. Þegar farið er að lána til hluta sem geta ekki endurgreitt skuldina hleðst upp skuldafjall sem síðan þarf að hreinsa burt með jöfnu millibili. Hugmyndin er að ef slíkt er ekki gert þá sé ekki hægt að byrja að nýju með nokkurn veginn hreint borð. Til að lánastarfsemi til þeirra sem geta endurgreitt geti hafist að nýju þarf að núlla þær skuldir hjá þeim sem lánuðu til  þeirra sem augljóslega gátu aldrei endurgreitt. Þetta eru grunnforsendurnar fyrir því að menn geti haldið áfram að lifa í endalausum bólum og kreppum-ef menn kjósa það endilega.

Þar sem peningakerfi okkar krefst stöðugt meiri peninga, það dugar ekki bein lína sem halllar upp heldur verður aukningin að vera í veldishlutfalli þá leiðir skortur á peningum strax til vandræða. Þar sem peningar eru búnir til sem lán er hægt að nota orðin peningar og lán sem jafngild orð.

Hvaðan koma skuldir Grikkja?  Stóru bankarnir í Evrópu lánuðu til Grikklands í bólunni. Ef þeir hefðu eingöngu lánað til starfsemi sem ber ávöxt og getur greitt skuldir væri vandræðai stóru bankanna ekki mikil. Þar sem þeir lánuðu óskynsamlega og oft á tíðum settu fé í fjárhættuspil með hlutabréf og gjaldeyri eiga þeir útistandandi mikið af ógreiddum skuldum í Grikklandi. Vandinn hefur dreift sér því að fyrir rúmu ári fór Evrópski Seðlabankinn að kaupa grísk ríkisskuldabréf til að halda Grikklandi á floti og hjálpa einkabönkunum. Þar með seinkaði raunverulegum aðgerðum og vandinn jókst. Einnig er Seðlabanki Evrópu orðinn hræddur við gjaldþrot Grikkja því hugsanlegt er að Seðlabankinn verði gjaldþrota ef Grikkir borga ekki skuldir sínar við hann. Í stað þess að Seðlabankinn sé hlutlaus aðili sem hjálpar þá stendur hann núna með einkabönkunum við að innheimta skuldir þeirra sem að hluta til eru líka orðnar skuldir hans. Þar með hefur ESB ríkisvætt tap einkageirans án nokkurrar umræðu né aðkomu kjörinna fulltrúa í Evrópusambandinu.

Þegar almenningur hugsar um skuldir þá eru það oftast skuldir við fjárfestingu á heimili eða í fyrirtækjum. Í báðum tilfellum reikna menn sig til reiðumanna, þ.e. almenningur gerir ekki ráð fyrir öðru en að standa í skilum. Slík lánastarfsemi borgar sig. Stærstu bankar veraldarinnar bjuggu til verðlausa pappírsvafninga af ýmsum tegundum og sköpuðu þannig stórt fjall af skuldum. Um er að ræða „ópróduktífa“ starfsemi sem er mun frekar fjárhættuspil en bankastarfsemi.

Eftir hrun hafa stóru og seku bankarnir verið að troða þessum mistökum sínum ofan í kokið á almenningi með hjálp spilltra stjórnmálamanna sem syngja kórinn fyrir bankana „ að sjálfsögðu borgar maður alltaf skuldir sínar“. Þar sem almenningur er vanur að standa í skilum hleypur hann til án þess að gera sér grein fyrir því að hann er að borga fjárhættuspilaskuld stóru bankanna. Hingað til hefur sú aðferð reynst illa við spilafíkn.

Þegar kemur að Grikkjum og skuldavanda þeirra þá er mikilvægt að greina þá stöðu sem þeir eru í núna vegna þess að þeir eru fremstir í langri biðröð sem við öll stöndum í.  Í bólunni hagaði grískur almenningur sér alveg eins og íslenskur almenningur. Báðar þjóðir höguðu sér eins og unglingur með platínu kreditkort sem hann hélt að væri óendanlegt. Í dag vilja sumir meina að réttlætanlegt sé að beita aðferðum mafíunnar við að innheimta skuldirnar. Þá eru menn að tala um hornaboltakylfu og þess háttar til að liðka fyrir greiðsluvilja. Stundum er í raun hægt að setja orðin niggari eða júði í stað orðsins Grikki og þá erum við öll komin á viðeigandi stað í þeirri úrkynjun sem blaðamennskan í dag stundar.

Það er sagt að Grikkir séu latir en þeir vinna lang mest í Evrópu samkvæmt OECD, bara Kóreu menn vinna meira. Grikkir vinna 15% meira en Íslendingar á ári og eiga mun styttra sumarfrí en margar Evrópuþjóðir. Frásagnir um að Grikkir fari snemma á eftirlaun eru ósannar, þeir geta reyndar hætt snemma en fá ekki full eftirlaun fyrrr en við 62 ára aldur og þeim aldursmörkum hefur nú verið lyft sem hluta af niðurskurðarpökkum þríeykisins(AGS,ESB,SE).

Einnig er tönglast á því að hagkerfi Grikkja sé veikt og óburðugt og þeir hafi fengið evruna upp á náð og miskunn. Ef Grikkir stóðust ekki inntökuskilyrðin fyrir evrunni vil ég bara minna á að það voru stóru bankarnir(JP Morgan) sem fölsuð skýrslurnar fyrir Grikki. En Grikkland er enginn aukvisi. Þeir hafa verið mun lengur í ESB en margur annar og þjóðarframleiðsla er með því hæsta í heiminum. Samkvæmt rannsóknum á framleiðni Grikkja m.t.t. vinnumanns eða vinnustunda er hún mjög há og alveg á pari við Þjóðverja og Frakka.

Þegar fyrsti björgunarpakki ESB var réttur Grikkjum þá var hann ekki handa grískum almenningi. Grikkir voru neyddir til að kaupa hertæki af Frökkum og Þjóðverjum fyrir milljarða evra.

Sá björgunapakki sem núna er til umræðu er til að bjarga evrunni, ekki grískum almenningi frá skuldum. Það er verið að bjarga misheppnuðu fjárhættuspili banka í bólunni, mistökum sem hafa verið ríkisvædd, mistökum sem hafa verið sett á axlir almennra skattgreienda. Og það sem réttlætir handrukkunarstíl þríeykisins eru þau afglöp grísku þjóðarinnar að hún keypti sér flatskjá. Við könnumst nú við þessa hundalógík hér á Íslandi.

Það sem er þó hættulegast er sú staðreynd að bankaelíta Evrópu er að lána Grikkjum peninga sem allir vita að þeir geta ekki endurgreitt. Slík lánastarfsemi er heimska. Megnið af björgunarpakka 2 fer í vaxtagreiðslur, hernaðaskuldbindingar og að greiða fyrir fjárhættuspil stóru bankanna í Grikklandi. Stóru bankarnir  í Þýskalandi og Frakklandi eru að láta ríku þjóðirnar í Evrópu borga fyrir mistök sín og þeir gera það með því að láta Grikki fá peninga frá ríku löndunum sem enda síðan í hirslum stóru bankanna. Það sem er einkar hættulegt er að á þann hátt draga lánin til Grikkja máttinn úr Þjóðverjum og Frökkum. Ef Grikkir geta ekki staðið í skilum með pakka tvö þá þarf pakka 3 og þar með tæmast sjóðir Þjóðverja og Frakka enn frekar. Eftir situr Evrópa yfirskuldsett og lánadrottnarnir eru stóru einkabankarnir. Þar með hefur valdið til að stjórna Evrópu flust frá kjörnum fulltrúum til bankastjóra sem eru ekki kjörnir né hafa ekki neina samfélagslega ábyrgð, þeirra eina hlutverk í vinnunni er að hámarka gróða bankans.

Þar að auki eru Ítalir, Írar, Portúgalir, Spánverjar og síðan Bretar að bíða í biðröðinni eftir að Grikkir  séu búnir í „meðíferðinni“.

Grikkir hafa þurft að taka á sig gríðalegar skerðingar og verðlag og verðbólga hefur rokið upp. Atvinnuleysi og minnkuð þjóðarframleiðsla gerir ástandið enn verra. Eldri einstaklingar sem hafa greitt skatta og gjöld samviskulega í meira en hálfa öld geta akki lifað á eftirlaununum. Unga fólkið hefur enga trú á valdastéttinni og flýr Aþenu og reynir að koma sér fyrir á landsbyggðinni. Það er talið að í dag lifi þriðjungur Grikkja undir fátækramörkum.

Ef eitthvert vit væri í efnahagsráðgjöfum þá myndu Grikkir hætta við að kaupa öll hergögn, þeir bankar sem stunduðu fjárhættuspil með hlutabréf og gjaldeyri færu einfaldlega á hausinn og menn myndu einbeita sér að endurreisa fyrirtæki sem skapa verðmæti og atvinnu. Því miður dugar það ekki til að tryggja gróða stóru bankanna heldur er það vænlegra fyrir þá að ríkisvæða vitleysuna og láta skattgreiðendur borga brúsann.

Það er öllum þenkjandi mönnum ljóst að tilraunin með evruna mistókst, eða hvað? Ef hugmyndin var að búa til gjaldmiðil sem væri forsenda fyrir stöðugleika, hagvexti og góðu lífi fyrir hinn almenna borgara á evrusvæðinu þá hefur það mistekist. Það er nokkuð merkilegt ef því er velt fyrir sér að mjög margir spekingar skipulögðu evruna af ítrustu nákvæmni af mikilli þekkingu en allt kom fyrir ekki. Það er í raun ótrúlegt að allur þessi her manna skyldi klúðra þessu. Það er enn merkilegra að ég hef lesið greinargerðir sem sendar voru inn í aðdraganda evrunnar sem sögðu allt þetta fyrir og ef menn hefðu tekið mið af þeim athugsemdum þá hefði verið hægt að forða mönnum frá ýmsum hörmungum sem menn upplifa í dag.

Þeir sem hagnast á evrunni í dag eru bankar og fjármagnseigendur í lúxus flokknum. Þeir bjuggu evruna til fyrir sig, það ætti að vera nokkuð ljóst í dag. Evran og Seðlabanki Evrópu hafa hrifsað til sín völdin í Evrópu, „þökk“ sé bankakreppunni.

Evran er byggð á sama grunni og aðrir peningar, sem skuld. Til að hægt sé að búa til evru þarf að taka hana að láni, það sama gildir um aðra gjaldmiðla. Þess vegna eykst skuldsetningin eftir því sem peningar aukast. Ef viðskipti þurfa meiri peninga til að blómstra verður skuldsetningin líka að aukast. Þess vegna verður raunhagkerfið að ganga virkilega vel til að geta staðið undir þessu vitlausa peningamyndunarkerfi. Þess vegna verður raunhagkerfið háð peningamynduninni. Þess vegna gat evran aldrei virkað fyrir raunhagkerfið. Aftur á móti þá virkar evran vel fyrir bankana því þeir búa hana til og lána öðru fólki hana með vöxtum.

Venjulega eru skuldir afskrifaðar í kreppum en í dag ætlar bankaelítan að sýna hörku og ekki afskrifa neitt. Afleiðingin verður að allur arður samfélagsins rennur inn í bankana og til að minnka kostnaðinn við sköpun þjóðarauðsins þá skipa bankarnir almenningi að skera niður allan kostnað.

Þessi lyfseðill sem drepur sjúklinginn er okkur öllum ætlaður fyrr eða síðar. Þess vegna skiptir miklu máli að grísku þjóðinni takist að stöðva framrás bankaelítu heimsins. Um er að ræða lýðræðisbaráttu því með sama áframhaldi mun fjármálaelítan stjórna heiminum en ekki lýðræðsilega kjörnir fulltrúar almennings. Vonandi endurfæðist Agora á ný í Aþenu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 17.6.2011 - 22:13 - FB ummæli ()

17. júní og Samfylkingin

Grikkir eru í miklum vanda þessa dagana og þurfa að taka svipaða ákvörðun og Jón Sigurðsson bræddi með sér skömmu áður en hann stóð upp úr stólnum og sagði, „vér mótmælum allir“. Á ég að standa upp, hugsaði sjálfsagt Jón, og gera mig að fífli fyrir framan establismangið og standa frekar á rétti þjóðar minnar.

Á sínum tíma skildi herforingjastjórn Grikkja eftir sig skuldabagga. Seinni tíma stjórnvöld í Grikklandi þurftu að berjast við þann skuldabagga en í stað þess að skattleggja yfirstéttina juku þau á halla ríkisins. Yfirstéttin hafði notið forréttinda í tíð herforingja og skattleysið bar vott um áframhaldandi forréttindi fram yfir almenning.

Þýskir og franskir bankar dældu inn lánum til Grikklands í bólunni, lánum sem þeir hefðu átt að vita að yrði erfitt að endurgreiða, og núna krefjast þeir fullra endurgreiðslna af            lánunum. Ekki frá þeim aðilum sem þeir lánuðu á sínum tíma því þeir eru gjaldþrota eða geta ekki endurgreitt lánin í dag.

Þess vegna hefur stór hluti skulda einkaaðila í Grikklandi verið þjóðnýttur og ESB hefur fóðrað ríkissjóð Grikkja með lánum til að halda honum á floti vegna mikils halla. Halla sem er tilkominn vegna skulda einkaaðila. Lánin koma frá frönskum og þýskum einkabönkum. Þess vegna fer fjármagnið í hringi í ESB undir handleiðslu Seðlabanka ESB. Skuldir banka og annarra einkaaðila í Grikklandi eru teknar yfir af gríska ríkinu og til að geta staðið í skilum tekur gríski ríkissjóðurinn lán hjá sömu bönkum og töpuðu skuldum sínum hjá einkaaðilum í Grikklandi. Stóru bankarnir hafa bara útvegað sér betri skuldara, þ.e. grísku þjóðina.

Mikið hefði það verið óskandi að Grikkir hefðu verið latari við að skuldsetja sig.

Fjármagnseigendur í Evrópu og Seðlabankis ESB starfa sem tvíburar að því að fullnýta þetta góða tækifæri sem gefst til að sópa til sín eignum gríska ríkissins upp í skuldir.

Þegar Trichet Seðlabankastjóri ESB fjallar um þessa erfiðleika grísku þjóðarinnar þá segir hann að Grikkir verði að standa í skilum. Þar sem Seðlabanki ESB má ekki fjármagna halla ríkissjóða þá verða Grikkir að fá lán hjá einkabönkum Evrópu. Trichet segir að til að geta staðið í skilum verði Grikkir að verða meira samkeppnishæfir. Það merkir að ef afgangur af þjóðarframleiðslu dugir ekki fyrir skuldum verður að auka afgang af þjóðarframleiðslu. Til að auka afganginn þarf að minnka kostnað og hann er eftirfarandi:

  1. Laun,
  2. Félagslegir styrkir og bætur,
  3. Örorka,
  4. Sjúkradagpeningar,
  5. Eftirlaun,
  6. Heilbrigðiskerfið,

Ef minnkun á kostnaði dugir ekki þarf að auka tekjur ríkissjóðs með;

  1. Hækkun á launaskatti,
  2. Auknum óbeinum sköttum,

Ef þetta dugir ekki verða Grikkir að selja eigur sínar:

  1. Land og eyjar,
  2. Ferðamannastaði,
  3. Vatnsveitur,
  4. Rafmagnsveitur,
  5. Samgöngur,
  6. Símafyrirtæki,
  7. Ofl sem Grikkir kunna að eiga.

Þegar öllu þessu er lokið hvað er þá eftir af grísku þjóðinni?

Þetta er krafa Seðlabanka ESB og þeir fylgja þessum kröfum sínum eftir af fyllstu hörku. Seðlabanki ESB vinnur fyrir hagsmuni stóru einkabankanna í Þýskalandi og Frakklandi. Það er að minnsta kosti ekki hagsmunir almennings í Grikklandi sem hafðir eru í huga. Það eru skuldir einkaaðila sem eru ríkisvæddar í Grikklandi til að stóru bankarnir missi ekki spón úr aski sínum.

Það eru runnar tvær grímur á Grikki og þeir hika.

Aðferðir bankakerfisins, við að skuldsetja þjóðir og afnema árangur stéttabáráttu liðinna áratuga og auk þess í leiðinni til að hrifsa til sín eigur almennings í þeim tilgangi að hámarka gróða sinn, hafa engin tengsl við hefðbundna hagfræði né eðlileg viðskipti manna á milli.

Það er ekki nema von að venjulegu fólki blöskri þessi útgáfa af evrópsku samstarfi.

Tricher hefur séð það fyrir og hefur plan í bakhöndinni. Hans hugmynd er að stjaka lýðræðislega kjörnum fulltrúm almennings í burtu og setja í staðinn bankatækna. Bankatæknarnir munu ákvarða hvernig þjóðir Evrópu skulu standa í skilum við einkabankana. Bankatæknar, framkvæmdavald ESB og Seðlabanki ESB munu fá vald til að ákvarða fjármál þjóðríkja í ESB. Þetta vald á að nota til að neyða sjálfstæðar þjóðir til að endurgreiða einkabönkum án tillits til hversu miklar fórnir þær þurfa að færa.

Það er ekki minnst einu orði á Evrópuþingið eða löggjafasamkundur viðkomandi þjóða, stofnanir sem almenningur hefur falið vald sitt tímabundið til að sinna stjórnun fyrir sig. Fjármálaelítan ætlar að frátengja lýðræðið í Evrópu og notar til þess Evrópusambandið. Litið er á hina kjörnu fulltrúa sem þránd í götu góðrar efnahagsstjórnunar og aga í ríkisfjármálum sem allt miðar að því að fóðra einkabanka með öllum hugsanlegum afgangi af þjóðarframleiðslu viðkomandi ríkja.

Ef Grikkir hika þá fá þeir ekki aur og bankakerfi þeirra hrynur. Ef þeir segja nei þá verður þeim hent út úr evrunni og fá drökmuna sína aftur, svo til verðlausa. Þegar nýjar reglur Trichets og Evrópusambandsins verða að raunveruleika munu bankatæknar taka þessar ákvarðanir fyrir Grikki og þing Grikkja mun ekki hafa neina aðkomu að þeim ákvörðunum.

Samfylkingin á Íslandi vill ólm troða íslenskri þjóð inn í einræði bankakerfis Evrópu. Þá munu bankatæknar Trichets ákvarða hvort við borgum Icesave og aðrar skuldir einkabanka. Þar með mun Samfylkingin geta gefið Alþingi Íslendinga, Forseta lýðveldisins og íslenskri þjóð langt nef undir handajaðri Trichets og bankaelítu Evrópu. Þá munu einkabankar Evrópu með ESB sem sitt verkfæri mata krókinn en almenningur mun þurfa að þræla til að halda í sér lífinu.

Það heitir á fínu máli að „auka hagvöxt“.

Þar með eru allar forsendur til staðar til þess að Jón Sigurðsson rísi upp og endurtaki orð sín, „vér mótmælum allir“. Þar sem formaður Samfylkingarinnar stendur yfir moldum hans í dag verða sennilega aðrir að taka að sér og sýna sama hugrekki og Jón forðum og berjast fyrir fullveldi Íslands.

Skuldsettar evrópskar þjóðir berjast nú fyrir tilveru sinni, berjast fyrir fullveldi sínu. Grikkir heyja hetjulega baráttu á götum og torgum Grikklands. Hvort verður sterkara vilji 85% grísku þjóðarinnar eða jarm establismangsins með blinda fjölmiðla, kvíslinga og aðra álitsgjafa af sama gæðaflokki, allt hórur fjármagnselítu Evrópu.

Við stóðum upp í Icesave málinu og núna er röðin komin að Grikkjum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 5.6.2011 - 20:46 - FB ummæli ()

Ræða á Austurvelli 5 júní 2011.

Við erum venjulegt fólk með margvíslegar pólitískar skoðanir en erum þó öll að nálgast sameiginlega niðurstöðu. Sú niðurstaða hefur leyst úr læðingi þann kraft að þúsundir manna mótmæla víðsvegar um Evrópu og setjast að á torgum borga sinna. Við á Íslandi tökum þátt með því að safnast hér saman á Austurvelli í dag. Við erum torg-töku-menn Íslands.

Hver er ástæðan fyrir því að allar þessar þúsundir manna tjalda á torgum Evrópu. Ástæðan er sú sannfæring að bankar og stjórnmálamenn einoki valdið í samfélagi okkar og að við almenningur séum svift því valdi sem lýðræðisskipunin segir að sé okkar.

Demókratía merkir vald fólksins en þrátt fyrir það heyrist ekki rödd okkar, það er ekki hlustað á okkur og hagsmunir okkar ekki virtir viðlits.

Það hefur orðið einkar áberandi í Evrópu á síðustu árum að það skiptir ekki miklu máli hverjum almenningur hefur treyst fyrir valdi sínu. Þrátt fyrir stjórnarskipti hér og þar í Evrópu breytist lítið. Sama uppskriftin er notuð eftir sem áður.

Stjórnmálamennirnir ljúga að okkur fyrir og eftir kosningar og fara svo í einu og öllu eftir því sem bankakerfið segir þeim að gera. Við erum þó ekki alveg hunsuð því við erum látin bera ábyrgðina á því hvernig er komið fyrir heiminum og skulum borga fyrir vitleysuna.

Þessi upplifun að við höfum verið rænd valdinu okkar og því sé komið fyrir í hirslum bankakerfisins hefur sameinað almenning frá öllu litrófi stjórnmálanna. Um er að ræða slíkt grundvallarmál og mikið óréttlæti að almenningur hendir af sér óhreinum skikkjum hinna pólitísku flokka og sameinast í kröfunni um að endurheimta lýðræðið.

Við erum aftur komin á tíma einveldis, bankarnir eru kóngarnir eða einvaldið og við erum aftur komin á byrjunarreit.

Venjulegt fólk gerir sér þá grein fyrir því að þá þarf að sameinast.

Það ætti flestum að vera ljóst að lýðræði okkar samanstendur af fjórum valdaþáttum. Löggjafarvaldi, framkvæmdarvaldi, dómsvaldi og bankavaldi. Ég nefni ekki fjölmiðlana sem vald í lýðræði okkar því að bankavaldið keypti þá fyrir lifandis löngu. Núna erum við að gera okkur grein fyrir því að bankavaldið er líka búið að kaupa framkvæmdavaldið og nægjanlega stóran hluta af löggjafarvaldinu til að ná sínu fram.

Þess vegna er bankavaldið sterkasta valdið í þjóðfélagi okkar þrátt fyrir að dómsvaldið maldi aðeins í móinn stöku sinnum.

Þess vegna eigum að sniðganga strengjabrúður bankavaldsins og einhenda okkur í að skilja hvers vegna bankakerfið hefur þessi völd. Að því loknu eigum við að umstafla valdinu til almennings þar sem valdið á heima.

Vald bankanna stafar af því að þeir hafa einkaleyfi á því að búa til peningana okkar. Þeir búa til peningana fyrir almenning, fyrir fyrirtæki og fyrir ríkið. Þeir stjórna magni peninga í umferð. Peningur eru búnir til sem skuld því að allir aðilar í samfélaginu verða að fá þá að láni hjá bönkunum, þ.e.a.s. sem skuld.

Ef þú átt peninga á bankabókinni þinni þá eru þeir peningar til vegna þess að einhver annar setti sig í skuld til að hægt væri að búa til þá peninga.

Ef við reyndum að borga skuldirnar og tækjum alla peningana í heiminum og borguðum með þeim skuldirnar væru samt ekki allar skuldirnar greiddar. Aftur á móti þá yrði enginn peningur eftir og við yrðum aftur að fá peniga að láni hjá bönkunum, sem skuld.

Þess vegna aukast alltaf skuldirnar eftir því sem við búum til meiri peninga því allur peningur sem búinn er til, er búinn til sem skuld, skuldirnar okkar. Þess vegna skulda jarðarbúar alltaf meira og meira.

Þess vegna skiptir ekki máli hvað skuldin heitir, krónur, evrur eða dollarar. Því á meðan við viðurkennum skuldina verðum við að borga hana. Meðan við erum sátt við að einkabankar búa til peningana okkar sem skuld erum við í skuldafangelsi og þar inni ríkir ekkert frelsi okkur til handa þó að við fáum kannski að velja nafnið á hlekkina.

Að peningar séu búnir til sem skuld gerir það að verkum að annað hvort er hægt að minnka skuldirnar eða að auka vöxt hagkerfisins. EN það er ekki hægt að gera hvoru tveggja samtímis. Með vextinum er meira búið til af peningum. Með meiri peningum aukast skuldirnar.  Meðan við skiljum ekki þessa svikamyllu bankanna þá sitjum við í skuldafangelsinu.

Þetta þarf ekki að vera svona því það væri mun hagstæðara fyrir almenning að valdið til að búa til peningana okkar sé hjá okkur. Við gætum búið til peninga án skuldsetningar.

Auk þess gætum við kosið okkur fulltrúa til að sinna þessu valdi fyrir okkur eins og við kjósum okkur fulltrúa til að sinna löggjafarvaldinu. Þá hefðum við eitthvað um peningamál að segja. Bankar eru einkafyrirtæki og við höfum ekkert yfir þeim að segja og þess vegna hafa þeir einokun á fjórða valdinu okkar í lýðræðinu okkar og nota valdið okkar sér og sínum til framdráttar.

Einkabankar eru ekki samfélagslega ábyrgir.

Það er þessi grundvallarskilningur sem endurspeglast í núverandi mótmælum víðsvegar um Evrópu. Fyrst verður almenningur að endurheimta vald sitt til að við getum kallað okkur lýðræðisríki. Valdið situr hjá bönkunum og þangað verðum við að sækja það. Þar sem kosningar hafa ekki áhrif á bankana munu fleiri kosningar ekki hnika valdinu frá bönkunum.

Þegar valdið hefur verið endurheimt og við getum síðan endurreist lýðveldið, þá getum við farið að leika okkur með verkfæri lýðræðisins eins og að skilgreina okkur sem rauð gul græn bleik eða blá og takast á um hvernig við ráðstöfum peningunum okkar. Meðan bankarnir hafa einokun á peningunum okkar er út í hött að við séum að rífast um peninga sem við ráðum ekkert yfir.

Sennilega er það þetta sem almenningur í Evrópu er núna að skilja.

Sameinumst nú sem einn maður um að endurheimta lýðræðið okkar.

Það ætti að vera okkur öllum tilhlökkunarefni að fá raunverulegt tækifæri til að rífast svolítið um ráðstöfun peninga, raunverulegt tækifæri til að stunda pólitík. Raunverulegt tækifæri til að vera byltingasinni, umhverfisvænn, frjálshyggjumaður, krati eða framsóknarmaður.

Meðan bankarnir búa til peningana okkar þá er ekki möguleiki að koma pólitískum draumum sínum á koppinn nema að maður selji bönkunum sálu sína.

Evrópa kallar, raunverulegt Evrópusamband er í uppsiglingu,

Íbúar Evrópu, vaknið!
Sköpum betra líf.
Tjáum okkur.
Komum saman.
Breytum öllu.
Látum verða af því!

Berjumst fyrir raunverulegu lýðræði!
Berjumst fyrir fólkið okkar.

Berjumst fyrir börnin okkar,
Berjumst fyrir friði.
Berjumst fyrir framtíð okkar.
Berjumst fyrir uppfyllingu drauma okkar.
Berjumst fyrir betra lífi fyrir heimsbyggðina alla!

og

Ég er vonsvikinn, reiður og bý með uppgefinn þjóð,

Ég tel að hægt sé að breyta ástandinu,

Ég tel að ég geti komið að liði,

Ég tel að við séum sérstök og okkur sé eitthvað annað ætlað en að sitja í skuldafangelsi

Ég trúi því að önnur heimsmynd sé möguleg,

OG, OG ,

Ég veit að ef við stöndum saman þá getum við það!

TÖKUM VÖLDIN ÚR HÖNDUM LÁNASTOFNANA OG FÆRUM ÞAU Í HENDUR FÓLKSINS.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 28.5.2011 - 23:22 - FB ummæli ()

Tveir heimar

Það er blásið til mótmæla um alla Evrópu á morgun, 29 maí. Krafan er aukið lýðræði og frekari aðkomu að ákvörðunum sem hafa með Evrópubúa að gera. Það er nokkuð ljóst að heimasíða Evrópusambandsins dugar ekki.

Það er verið að mótmæla því að tap einkageirans og sér í lagi bankakerfisins sé lagt á herðar almennings. Spillingin sem er svo augljós í samspili stjórnmálamannanna og fjármálaaflanna er auk þess þyrnir í augum almennings. Almenningi finnst ótækt að kjósa fulltrúa sem þeir treysta og síðan kaupa fjármálaöflin þjónustu sömu aðila fyrir sig.

Því er í raun um tvo heima að ræða. Það erum við almenningur annars vegar og hins vegar svonefnd bankaelíta. Bankakerfið hefur tögl og haldirnar á kjörnum fulltrúum okkar.

Allt þetta eru kunnulegir farsar og þetta þekkjum við frá öðrum heimshlutum. Við Vesturlandabúar höfum horft upp á alþjóðlegt fjármagn rústa svonefndum þriðja heims löndum. Þær þjóðir hafa verið skuldsettar út yfir gröf og dauða. Til að standa í skilum hafa þær þurft að afneita sér um öll venjuleg lifsins gæði og auðlindir sínar. Við höfum starað á kassann þar sem okkur hefur verið sagt að spilltir stjórnendur réðu ríkjum og þeir færu illa með þegna sína sem voru að mótmæla einhverju. Slík framkoma gegn almenningi var gerð í þágu hins alþjóðlega fjármagns.

Núna er röðin komin að okkur Vesturlandabúum.

Það er búið eða er verið að fullgera það að skuldsetja Vesturlandabúa út yfir gröf og dauða. Niðurskurður og afnám lýðræðisréttinda er í farvegi hins alþjóðlega fjármagns í gegnum strengjabrúður þeirra, fulltrúanna okkar. Þar sem fyrrnefnt arðrán hefur verið framkvæmt marg sinnis áður er bankaelítan öllu vön og er reiðubúin að takast á við mótmæli á Vesturlöndum. Eftirlit, njósnir og óeirðalögregla hefur verið byggð upp í skjóli hryðjuverkalaga. Fréttir eru þegar farnar að berast af óblíðum aðgerðum lögreglu gegn friðsömum mótmælendum í Evrópu. Stóru fréttastofurnar segja okkur bara frá vondu köllunum í Jemen en lítið sem ekkert er sagt frá barsmíðum í Grikklandi eða á Spáni. Skýringin er sú að bankaelítan á stóru miðlana. Frakklandsforseti og Obama hafa rætt um nauðsyn þess að koma einhverri stjórn á netið enda er það að þvælast fyrir þeim með opinni umræðu almennings.

Ef mótmælin í Evrópu verða öflug mun bankaelítan bakka og semja um minnstu hugsanlegu tilslakanir til að halda friðinn en koma þó flestum af sínum málum í framkvæmd.

Til að stöðva þessa farsótt skuldsetningar með sínum hand- og fótjárnum verður almenningur að skilja samhengi hlutanna og krefjast réttlætis. Sú krafa verður að vera ófrávíkjanleg og henni verður ekki náð nema með byltingu sem gengur alla leið. Mikilvægasta skrefið í þeirri byltingu er að ná valdinu til að búa til lögeyri sinn sjálfur, þ.e. að einkabankar búi ekki til peninginn okkar. Á meðan svo er eru allir háðir einkabönkum og því valdalausir. Ef almenningur nær aftur valdinu til sín þá munu bankar breytast úr valdastofnunum í venjuleg fyrirtæki.

Mótmæli á Austurvelli 29 maí kl 18:00

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 28.5.2011 - 00:10 - FB ummæli ()

Læknadóp og viðhorf

Landlæknir var í kastljósinu í fyrrakvöld. Þar sem ég er starfsbróðir hans læt ég nægja að segja að hann hefði getað staðið sig betur. Mér er ekki fyllilega ljóst eftir þáttinn hvort fylgst er með okkur í rauntíma eða eftir á. Sjálfsagt get ég hringt í embættið og komist að því. Hitt veit ég að apótekin sjá ekki hvort annað í tölvunni og að mismunandi heilsugæslustöðvar sjá ekki hvor aðra heldur.

Ef fíkill fer í hjartastopp vegna ofskammts sterkra verkjalyfja fer í gang kerfi sem virkar mjög vel. Allar aðgerðir eru samræmdar úr Skógarhlíð-112 og allir aðilar eru að tala saman. Þá eru ekki neinir lagabókstafir persónuverndar að þvælast fyrir aðgerðum. Er hugsanlegt að það sé vegna þess að viðkomandi er þá látinn. Eins og Laxness nefndi í sögunni um NN þá skiptir það sköpum fyrir verðleika manns að vera látinn.

Það er eitthvað mikið að, það er augljóst. Um er að ræða sjúkdóm sem fellir fjölda manns á ári og oftar en ekki er fólk undir miðjum aldri. Ungt fólk með bráðdrepandi sjúkdóm, orsakir vel þekktar, mismunagreining ekki vandamál, meingerðin líka vel rannsökuð, meðferð er til, horfur þekktar en þrátt fyrir það erum við ekki að ná árangri. Þar sem efnahagskreppur valda aukningu á þessum sjúkdómi hefðum við átt að vera á varðbergi.

Ég tel að að við verðum að koma upp læknadóps gagnagrunni í rauntíma sem er tengdur öllum tölvum landsins sem sinna ávísun og afgreiðslu slíkra lyfja. Þannig gætum við minnkað læknadóp á markaðnum.

Umræðan undanfarið í Kastljósinu hefur snúist um einn flokk fíkniefna og sölumenn þess. Hætt er við að fíkill leiti annað ef tækist að uppræta læknadóp. Sú staðreynd kallar á fleiri lausnir.

Það er eitthvað mikið að, það er augljóst. Hvernig stendur á því ef að barn ánetjast fíkniefnum og hvers vegna er ekki hægt að tilkynna það til 112 og fá sjúkrabílinn á vettvang. Hvað er það í hugsun okkar sem gerir það að verkum að ef einhver dettur og gæti hugsanlega verið í lífshættu að öllum finnst sjálfsagt að hringja í 112. Hvers vegna er það óeðlilegt að hringja í 112 og tilkynna að einhver hafi ánetjast fíkniefnum og sé hugsanlega í lífshættu, jafnvel meiri lífshættu en sá sem dettur.

Ef öllum, lærðum sem leikmönnum, fyndist allt of nærgöngult að beita hjartahnoði eða þá að tilkynna opinberum aðilum að viðkomandi sé í hjartastoppi þá væri árangur endurlífgunar lítill. Að taka þá meðvituðu ákvörðun að endurlífga einhvern á morgun en ekki í dag er ávísun á slæman árangur. Ef við vitum og kunnum að meðhöndla fíkla sem eru í mikilli lífshættu, hvers vegna gerum við það þá ekki?

Það er svo margt sem við þurfum að hugsa upp á nýtt og vonandi mun umfjöllun Kastljóss verða þess valdandi að við komumst eitthvað áleiðis.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 22.5.2011 - 20:04 - FB ummæli ()

Demókratíó, sólitaríó… ertu með

Lýðræði er augljóslega að þvælast fyrir þeim erfiðu og þungbæru ákvörðunum sem stjórnmálaelítan þarf að taka fyrir hönd bankaelítunnar um víða veröld. Það er einnig augljóst að mikil togstreita er á milli almennings sem vill hafa meiri völd og elítunnar sem vill stjórna öllu með fámennum fundum handvalinna.

Hugmyndin er að hafa valdið þrískipt, dómsvald, framkvæmdavald og löggjafarvald. Þar sem löggjafinn þarf langan tíma til að ræða hlutina þegar lög eru samin og dómarar þurfa oft langan tíma til að átta sig á samhengi hlutanna í lagalegum skilningi eru þau seinvirk. Framkvæmdavaldið er aftur fljótt að taka ákvarðanir og framkvæma þær. Reyndar á framkvæmdavaldið bara að framkvæma það sem löggjafinn ákveður en í reynd virkar það ekki þannig.

Löggjafinn og dómsvaldið eru lengi að komast að niðurstöðu vegna þess að þau vilja taka tillit til margra sjónarmiða og forðast að troða einhverjum um tær. Framkvæmdavaldið á ekki við nein slík vandamál að stríða.

Eftir bankahrunið 2008 hefur það orðið ljóst fyrir vesturlandabúum að framkvæmdavaldið fer í einu og öllu eftir vilja og óskum fjármálastofnana og banka. Í raun eru margar frásagnir af hátt settum bankamönnum á fundum með háttsettum ráðherrum að taka ákvarðanir fyrir þjóðir og heilar álfur. Af þeim sökum má draga þá ályktun að þetta þriðja vald lýðræðisins sé samansett úr tveimur hlutum. Annar hlutinn er framkvæmdavaldið sem er kosið á einhvern hátt og því talið löglegt. Hinn hlutinn er efsta lag bankakerfisins sem er ekki kosið heldur eru það fulltrúar stærstu einkabanka veraldarinnar. Þar sem bankahlutinn er mun valdameiri þarf að einbeita sér að eðli og umfangi þess ef menn vilja ná fram breytingum. Það hefur sýnt sig að það skiptir ekki höfuðmáli hvaða tegund af pólitík er rekin af þinginu heldur virðist afurðin alltaf henta bönkum þegar henni er skilað fullunninni frá framkvæmdavaldinu.

Þar sem framkvæmdavaldið á eðli málsins samkvæmt að þjóna almenningi en fer í einu og öllu að vilja bankakerfisins er ljóst að bankakefið er þriðja valdið í lýðræðisþjóðfélögum dagsins í dag. Það hefur aldrei verið kosið af almenningi til þess að sinna þessu hlutverki, almenningur hefur aldrei afhent bankakerfinu með neinum formlegum hætti vald sitt. Bankakerfið hefur náð þessu valdi frá almenningi með því að taka til sín valdið til að búa til peningana okkar. Þannig er ástandið um allan heim, stjórnvöld í Bandaríkjunum, Evrópu og Asíu fara að vilja bankavaldsins.

Bankar hafa einkaleyfi á því að búa til peninga og þess vegna eru allar ríkisstjórnir háðar bönkunum og fara því að vilja þeirra. Þess vegna þarf að gera peningamyndun að fjórða valdinu í lýðræðinu. Peningamyndun á að vera á forsendum þjóðarinnar og undir stjórn hennar en alls ekki einkafyrirtækis, banka. Meðan bankar hafa einokun á peningamyndun munu allir sitja og standa eins og þeim þóknast. Við getum kosið hvað okkur sýnist, bullandi róttæklinga á alla kanta en þeir munu allir fara sömu leið og hinir, beint oní kampavínsglasið. Reynsla okkar Íslendinga er ólygnust hvað það merkir að fá að kjósa meira af því sama aftur og aftur.

Þess vegna er það augljóst að ef fólk vill breytingar þá þarf það fyrst að ná valdinu til að búa til peninga aftur til þjóðarinnar þar sem það á heima. Til þess að svo megi verða þarf fólk að fræðast um hvað eru peningar, eðli þeirra og uppruna. Þegar fólk hefur skilið það þá mun það verða öllum augljóst og sjálfsagt að framkvæma þær breytingar sem þarf.

Robert H. Hemphill, Credit Manager of the Federal Reserve Bank of Atlanta, said:

„If all the bank loans were paid, no one could have a bank deposit, and there would not be a dollar of coin or currency in circulation. This is a staggering thought. We are completely dependent on the commercial Banks. Someone has to borrow every dollar we have in circulation, cash or credit. If the Banks create ample synthetic money we are prosperous; if not, we starve. We are absolutely without a permanent money system. When one gets a complete grasp of the picture, the tragic absurdity of our hopeless position is almost incredible, but there it is. It is the most important subject intelligent persons can investigate and reflect upon. It is so important that our present civilization may collapse unless it becomes widely understood and the defects remedied very soon“.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 20.5.2011 - 21:11 - FB ummæli ()

Hnífurinn er fundinn

Umræðan um skýrslu fjármálaráðuneytisins er mjög sorgleg og þungbær. Eftir því sem merking  upplýsinganna sekkur dýpra í sálina þá gerir maður sér betur grein fyrir svikunum. Ekki það að maður hafi ekki haft sínar grunsemdir. Upplifun flestra hefur verið að bankar hafi fengið að ganga fram af fullri hörku án afskipta stjórnvalda. Núna er skýringin komin, ríkisstjórn Íslands samdi við bankakerfið um að það mætti hagnast á innheimtu  á skuldum  almennings,  skuldum sem voru seldar nýju bönkunum með miklum afslætti. Hægt er að lesa greinagóð blogg Marinós og Ólafs Pressupenna um skýrsluna auk þess sem Lilja Mósesdóttir hefur komið fram í viðtölum um sama efni,  og hér.

Samtímis og ríkisstjórnin sagðist vera að slá skjaldborg um heimilin og fyrirtækin þá var gerður samningur við bankana sem kom í veg fyrir að lántakendur hefðu einhverja möguleika á því að komast upp úr skuldasúpunni.

Þar sem bankarnir munu hagnast á því að innheimta allar skuldir með sem mestri hörku mun viðkomandi innheimtuástand halda áfram þangað til að fleiri fórnarlömb eru ekki finnanleg.

Að fyrsta vinstri ríkisstjórn Íslands hafi tekið við hnífnum úr hendi bankakerfisins og rekið hann í bakið á okkur án þess að blikka auga er nánast óskiljanlegt. Skýringin sem finnst í viðkomandi skýrslu fjármálaráðuneytisins virðist vera að við verðum líklegri bólfélagar Evrópusambandsins með þessari ráðstöfun. Sennilega finnst Samfylkingarfólki og ESB sinnum í Vg að tilgangurinn helgi meðalið.

Að sjálfsögðu ætti þjóðin að krefjast réttlætis. Lítil hætta virðist þó vera á því vegna þess að þeir sem skulda lítið munu halda sér til hlés svo þeim verði ekki hent í gettóið líka. Síðan er það hópurinn sem trúir á ESB og mun ekki gera neitt sem hugsanlega minnkar líkurnar á því að samlandar þeirra hrekjist inn í bandalag bankaelítunnar. Síðan hópurinn sem flytur í burt og að lokum hópur einstaklinga sem vill halda völdum.

Þar sem við erum sundruð og sjáum ekki heildarmyndina munum við standa okkur sjálfum næst. Þeir sem fluttu út til bráðabirgða koma ekki heim, þeir sem hafa verið í biðstöðu fara út. Afgangurinn af almenningi á Íslandi mun taka að sér með eins litlum tilkostnaði og nokkur kostur er að fita fjármálakerfið um mörg ókomin ár.

Að sjálfsögðu á þjóðin val. Hún gæti kynnt sér sögu annarra þjóða sem hafa lent í svipuðum hremmingum. Þannig gæti hún stytt sér leið í stað þess að rífast um allt milli himins og jarðar. Betra væri að átta sig á því hvers vegna fjármálakerfið stjórnar öllum ríkisstjórnum alls staðar án tillts til hvað þær kalla sig.

Allar ráðstafnir víðs vegar um heim miðast við þarfir banka og annarra fjármálastofnana. Fyrir því er löng hefð og þær stofnanir kunna þá tækni að koma mistökum sínum yfir á almenning. Meðan almenningur er að rífast um stefnur, isma og prinsipp sitja bankar á friðarstóli og hafa okkur að fíflum. Þar sem bankar hafa einkaleyfi á því að búa til peningana okkar hafa þeir völdin í heiminum og ef það vald yrði frá þeim tekið gæti almenningur átt möguleika á leiðréttingu sinna kjara. Meðan ekki er tekið á þessu vandamáli með almennri umræðu og aðgerðum mun öll umfram fita skorin af almenningi og færð bankakerfinu á silfurfati um ókomna tíð.

Fólkið í landinu mun sjálfsagt ekki bregðast neitt við vegna þess að þjóðin sefur. Það er komin tími til þess að fólkið átti sig á því að það er þjóðin.

Flokkar: ESB · Peningar · Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur