Föstudagur 27.03.2009 - 20:35 - 2 ummæli

Evrópusambandið

Í dag samþykkti landsfundur Sjálfstæðisflokksins ályktun um Evrópumál. Þessa ályktun má lesa hér fyrir neðan.

Ég heyri að sumir telja þessa ályktun vera moðsuðu vegna þess að þarna er talað um tvöfalda atkvæðagreiðslu. Að mínu mati er þetta niðurstaða í Sjálfstæðisflokknum um mál sem er mjög umdeilt innan flokksins. Ég held að óhætt sé að fullyrða að töluverður meirihluti hefði verið fyrir því að fella algjörlega ályktun um Evrópumál. Það kaus meirihlutinn ekki að gera heldur samþykkti ályktun sem opnar á málið þannig að þjóðin geti ákveðið hvort farið verður í aðildarviðræður eða ekki.

Ég hefði viljað samþykkja aðildarviðræður og síðan þjóðaratkvæðagreiðslu en þetta er niðurstaða sem ég sætti mig við. Aðildarviðræðum er ekki hafnað og það er eftirtektarvert að tillögur um slíkt voru felldar á landsfundinum.

Svona er ályktunin:
Ályktun um Evrópumál

Sjálfstæðisflokkurinn hefur talið að aðild að Evrópusambandinu þjóni ekki hagsmunum íslensku þjóðarinnar en jafnframt talið mikilvægt að sífellt sé í skoðun hvernig hagsmunum Íslands verði best borgið í samstarfi Evrópuríkja.

Endurnýjað hagsmunamat hefur ekki leitt til grundvallarbreytinga á afstöðu Sjálfstæðisflokksins. Kostir aðildar tengjast helst gjaldmiðilsmálum og ljóst að ýmis álitamál verða aðeins skýrð í viðræðum, hvort sem þær snúast um gjaldmiðilinn eða aðild. Sterk lýðræðisleg rök mæla engu að síður með því að þjóðin fái að skera úr um svo stórt og umdeilt mál og að það sé ekki eingöngu á forræði stjórnmálaflokkanna.

Landsfundurinn undirstrikar þá eindregnu stefnu Sjálfstæðisflokksins að ekki verði gefin eftir til annarra þjóða eða samtaka þeirra yfirráð yfir auðlindum Íslands og að standa beri vörð um innlenda matvælaframleiðslu.

Landsfundur telur að setja skuli ákvæði í almenn lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna og þær lágmarkskröfur sem gera á um stuðning við mál á Alþingi og við þjóðaratkvæðagreiðslu.

Komist Alþingi eða ríkisstjórn að þeirri niðurstöðu að sækja beri um aðild að Evrópusambandinu er það krafa Sjálfstæðisflokksins að fara skuli fram þjóðaratkvæðagreiðsla um þá ákvörðun á grundvelli skilgreindra markmiða og samningskrafna.

Sjálfstæðisflokkurinn ítrekar þá afstöðu sina að hugsanleg niðurstaða úr samningsviðræðum um aðild Íslands að Evrópusambandinu verði ávallt borin undir þjóðaratkvæði.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Efnisorð: ,

«
»

Ummæli (2)

  • Jóhannes

    Þetta er moðsuða til að friða ESB fylgjendur meðal kjósenda flokksins og „halda honum saman“. Það dugar mér ekki enda er ég orðinn fyrrverandi sjálfstæðismaður með þessu. Það er fráleitt að hafa atkvæðagreiðslu um að fara í aðildarviðræður þegar ekkert er vitað hvað yrði kosið um í síðari þjóðaratkvæðagreiðslunni.

    Það sem verra er, með því að hafna ESB og tengingu við Evru hlýtur Sjálfstæðisflokkurinn að bjóða upp á lausn við stjórn gjaldmiðils- og peningamála sem tryggir landsmönnum trausta krónu, lága verðbólgu, lága vexti, stöðugleika, og frjáls gjaldeyrisviðskipti við alla helstu gjaldmiðla.

    Ég og aðrir (fyrrverandi) sjálfstæðismenn bíða eftir tillögum landsfundar þess efnis.

  • Skítlegt eðli

    Þverskurður af þjóðinni kýs sinn Flokk hvort sem menn eru sammála stefnu hans eða ekki og hvort sem hann hefur rænt hann aleigunni eða ekki.
    Ef höfundur þessarar síðu væri ekki „slíkur þverskurður“ myndi hann kjósa flokk sem stefnir á EBE.

    Svona þjóð veldur ekki lýðræðisfyrirkomulagi.

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur