Nokkur umræða hefur orðið um tillögu til hagræðingar í rekstri sem Akureyrarbær hefur sett fram. Þar er miðað við að sem flestir starfsmenn sveitarfélaga geti tekið á sig allt að 5% skerðingu á launum en á móti taki þeir frí sem nemur einum degi í mánuði eða 10 dögum á ári.
Ég hef tekið undir mikilvægi þess að ræða þessa tillögu sem mér finnst að mörgu leyti góð. Skrif mín hér fyrr bera vitni um að mér finnst sú aðferð að lækka laun sumra starfsmanna en ekki annarra vera ranglát. Samt erum við að framkvæma þá leið vegna þess að hún er fær.
Ef við getum farið leiðina sem Akureyrarbær leggur til þá geta margir starfsmenn tekið á sig byrðar sem skila miklu meiri hagræðingu en möguleg er ennþá. Vitanlega hafa allir orðið fyrir skerðingu vegna þess að allt kostar meira o.s.frv. en ég held að flestir viti hvað ég meina með þessu.
Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga bókaði eftirfarandi á stjórnarfundi í síðustu viku:
,,Vegna fyrirséðs samdráttar í tekjum sveitarfélaga hafa sveitarfélög um land allt lagt áherslu á að ná fram hagræðingu í rekstri og starfsmannahaldi. Stjórn sambandsins telur mikilvægt að haft verði samráð við stéttarfélög um slíkar aðgerðir. Stjórnin áréttar að í lengstu lög verði staðið vörð um störfin hjá sveitarfélögunum, uppsagnir starfsmanna verði takmarkaðar eins og frekast er unnt og að þær aðgerðir sem ráðast þarf í verði sem minnst íþyngjandi fyrir starfsmenn.
Stjórnin leggur áherslu á að niðurstaða liggi fyrir sem allra fyrst, annars vegar í viðræðum við KÍ um að endurskoða launakostnað vegna kennara og skólastjórnenda og hins vegar tillögugerð skólamálanefndar um hagræðingaraðgerðir á sviði fræðslumála svo að sveitarfélög nái að skipuleggja skólahald í tæka tíð fyrir næsta skólaár.“
Ég tel að laun bæjarstjóra vítt og breitt um landið undanfarin ár hafi ekki verið í neinum takti við laun annarra bæjarstarfsmanna. þeir hafa skamtað sér laun að eigin geðþótta. Á meðan þessi stefna hefur ríkt hafa grunnskólar landsins mátt búa við mikinn skort á faglærðu fólki og oft hefur maður haft það á tilfinningunni að engu skipti hvers konar fólk ræðst í skólana. Ætli það geti verið að laun kennara hafi spilað þar inn í? það er að sjálfsögðu ódýrara að ráða á undanþágu ófaglærða starfsmenn. Nú er uppi sú hugmynd hjá Akureyrarbæ að þeir 10 dagar sem kennarar seldu frá sér í skiptum fyrir nokkrar krónur í launahækkun fyrir u.þ.b. 8 árum skuli frá þeim teknar. Grunur minn er sá að bruðl og óráðssía í rekstri margra sveitastjórna mætti skoða betur. A sama tíma og ekki hefur fengist faglært fólk í skólana eru fréttir uppfullar af því að skólar á Íslandi komi svo illa út í námskönnunum í samanburði við önnur lönd. það skyldi þó ekki vera að áherslur á innra starf skólanna hafi liðið fyrir ytri umbúðir þeirra? Förum varlega í niðurskurð á starfsemi innan veggja grunnskólanna. Þeir hafa fengið nægan skamt af niðurlægingu og illri meðferð. Engin stétt á Íslandi hefur þurft að berjast jafn hatramlega fyrir bættum kjörum eins og grunnskólakennarar mörg undanfarin ár. Síðasta verkfallsbarátta mun seint líða kennurum úr minni. Skömm sé ykkur sveitastjórnarmönnum og þar fóru fremstir í flokki Kristján Þór og Gunnar Birgirsson.
Flýtið ykkur hægt í öllum niðurskurði til grunnskóla landsins.
Ekki er fyriryggjan að þvælast fyrir ykkur sveitarstjórnarmönnum. Hálft ár liðið frá hruninu og þið núna fyrst að átta ykkur á að þið þurfið að skera niður fjárhagsáætlanir.
Bara til að upplýsa lesendur (og blogghöfund) þá eru skólastjórnendur nú þegar búnir að skipuleggja starfið næsta vetur m.t.t kennsludagafjölda. Auk þess eru 180 skóladagar bundnir í lög og hvorki sveitarstjórnarmenn né menntamálaráðherra fá því breytt. Eina leiðin er að breyta lögum og það gerist á Alþingi.
Ef sveitarstjórnarmenn hefðu sýnt fyrirhyggju þá hefðu þeir átt að setjast niður með KÍ um síðustu áramót og leggja spilin á borðið. Við í forystusveit kennara vorum til þá að ræða framtíðina og getum staðfest það með bréfaskriftum. Þá hefði verið að hægt að komast að niðurstöðu í sátt við alla aðila og breyta lögum í tíma ef þyrfti. En þið höfnuðuð öllum viðræðum á þeim forsendum að þá væri ekki rétti tíminn.
Nú spyr ég þig Halldór. Heldur þú að hægt sé að keyra frumvarp um fækkun skóladaga nemenda í gegnum Alþingi fyrir kosningar?
Þú getur etv. svarað eftirfarandi gagnrýni:
1. Hjá Akureyrarbæ starfa launþegar úr ýmsum stéttarfélögum og mismunandi kjarasamninga. Þó allir yfirmenn/stjórnendur bæjarins séu kallaðir saman og þeir beðnir að spyrja starfsmenn sína, persónulega hvort þeir séu tilbúnir að taka á sig 5% kjaraskerðingu þá gegnur það ekki. Í fyrsta lagi er óeðlilegt að setja þær byrðar á stjórnendur og í öðru lagi er hver og einn launþegi ekki með samningsréttinn. Er þetta ekki rétt?
2. Kjarasamningar eru lámarkssamningar þar sem heimilt er að greiða meir en samningur segir en óheimilt að semja um skert kjör. Er það ekki rétt?
3. Svona samningur eða sáttmáli er fordæmisgefandi og opnar á þann kost að þetta verði gert oftar og vísað í fordæmið. Það er að mínu mati að opna vafasamt Pandorubox. Helduru það ekki?
4. Launtengd gjöld eru hluti lífeyrisréttinda og orlofs. Þó einn virkur dagur sé tekinn launalaust (1/20) eða 5% vinnudaga þá fylgja því skerðingar annarra réttinda til framtíðar. Þetta þekkja menn þegar réttindi skerðast t.d. verkfall. Rétt ekki satt?
5. Er flöt skerðing 5% er ásættanleg þar sem í raun kjör láglaunafólks skerðast meir í því ljósi að stærra hlutfall launa fer í mat og nauðsynjar. Skárra væri að setja mörkin ákveðnar tekjur og skerða þannig hlutfallslega meir laun þeirra sem eru t.d. yfir 400 þúsund. Raunar er fréttin ansi fróðleg vegna þess að skv. henni eru meðaltalslaun bæjarins kr. 250 þúsund?
6. Er ekki verið að setja óbeina pressu á launþega bæjarins að samþykkja þennan kost að öðrum kosti eigi þeir von á því að verða í hópi þeirra sem sagt er upp?
7. Menntamálayfirvöld er að mínum skilningi menntamálaráðuneytið. Það er misskilningur hjá bæjarstjóra að ráðuneytið hafi lögbreytingarvald. Lög um lengd skólaársins eru bundin í lög. Er það ekki rétt?
–
Þú svarar nú þessu enda málefnalegur maður.