Laugardagur 04.04.2009 - 18:28 - 3 ummæli

Grundvallarlög íslensks lýðveldis

Enn er tekist á um breytingar á stjórnarskrá á Alþingi. Ríkisstjórnin ætlar að keyra í gegn breytingar á stjórnarskránni fyrir kosningar og segir að þjóðin vilji breytingar á stjórnarskránni.

Ég tel það alveg skýrt að þjóðin vilji breytingar á stjórnarskránni. Ég vil sjá ákveðnar breytingar á grundvallarlögum okkar Íslendinga. En ég vil sjá þær gerðar í sátt og tel algjört lágmark að umsagnir um þær breytingar sem nú stendur til að gera séu jákvæðari en þær eru.

Umsagnir sem ég hef séð eru ekki jákvæðar gagnvart vinnubrögðum á Alþingi. Þar er varað við að tíminn sé of stuttur og ýmislegt ekki ígrundað nógu vel.

Af hverju lætur Alþingi sér ekki nægja að ákveða endurskoðun á stjórnarskránni og svo fer sú vinna af stað? Hvers vegna að ætla sér að keyra í gegn vanhugsaðar breytingar og í raun vera búin að breyta stjórnarskránni að hluta áður en sérstakt stjórnlagaþing eða eitthvað annað vinnulag tekur til við að undirbúa breytingar?

Pólitískur leikur með stjórnarskrána má ekki eiga sér stað. Hún er grundvallarlög okkar og á að vera hafin yfir flokkspólitískar deilur á Alþingi.

Samþykkið aðferð við endurskoðun stjórnarskrárinnar og drífið svo í að samþykkja sem mest af lagabreytingum sem verða til þess að snúa hjólum atvinnulífsins og heimilanna af stað.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • lydur arnason

    Sæll, Halldór. Stjórnarskrárnefnd hefur í mörg ár haft stjórnarskrána í skoðun. Raunverulegur vilji sjálfstæðismanna til breytinga hefur enginn verið og vafaatriði varðandi þjóðareign auðlinda í þeirra hugum best óútkljáð. Minnihlutastjórnin nú mun verða meirihlutastjórn næsta kjörtímabils og yfirlýst ætlunarverk að standsetja stjórnarskrána svo hægt sé að hrinda af stað nauðsynlegum breytingum í sjávarútvegi. Sem æðstistrumpur landsbyggðarinnar ættir þú að fagna öllum slíkum umleitunum.
    Kær kveðja,

  • „Við skulum ræða það“ – Hvaða „vanhugsaðar breytingar“ áttu nákvæmlega við? Er það eitthvað tengt minni réttindum til handa sveitarstjórnastigi eða landsbyggð? Er nóg fyrir þig að blogga og blogga en svara öngvu?

  • stefán benediktsson

    það er rétt hjá Lýði, Halldór, að þingmenn hafa stundað „pólitískan leik“ með stjórnarskrána í 60 ár og því hefur hún ekkert breyst í grunninn. Burtséð frá stjórnmálaskoðun eru þingmenn vanhæfir til að fjalla um starfslýsingu sína, svo einfalt er það. Vinnuveitendurnir, valdhafarnir, fólkið verður að semja grunnlögin, „starfssamninginn“, milli þjóðar og stofnana valdsins.

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur