Mánudagur 06.04.2009 - 13:00 - 2 ummæli

Hver er sýn frambjóðenda á sveitarfélögin?

Það er stutt til kosninga og frekar óraunverulegt að ganga til þeirra við þessar aðstæður hjá þjóðinni. Betra hefði verið að kjósa í haust og nýta tímann til aðgerða til að bæta aðstæður atvinnulífs og heimila frekar en standa í kosningabaráttu þegar við megum engan tíma missa.

En ekki meira um það. Mig langar til að minna frambjóðendur til Alþingis á stöðu sveitarfélaganna og framtíðarsýn. Margir frambjóðendur eru sem betur fer mjög vel að sér um sveitarstjórnarmál. Dæmi um það er glæsilegur framboðslisti Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi þar sem sveitarstjórnarmenn eru í efstu sætum.

Hver er sýn frambjóðenda á sameiningu sveitarfélaga? Þau eru 78 í dag en voru um 220 árið 1990. Mikið hefur verið sameinað en samt eru enn til sveitarfélög með um 50 íbúa og allt upp í 115 þús. íbúa. Ef frambjóðandi vill sameina frekar – með hvaða hætti?

Í dag eru sveitarstjórnarlög þannig að lágmarksíbúafjöldi er 50 íbúar. Vilja frambjóðendur breyta þessu eins og núverandi ráðherra sveitarstjórnarmála sem talar um 1000 íbúa lágmark?

Ég minni á að stefna Sambands íslenskra sveitarfélaga er sú að ekki beri að lögþvinga sameiningu. Um leið er hvatt til frjálsra sameininga í þeim tilgangi að auka hagræðingu og efla sveitarfélögin sem stjórnsýslustig sem geti bætt við sig frekari verkefnum á borð við málefni fatlaðra og aldraðra sem nú er verið að ræða um flutning á til sveitarfélaga. Það hefur sýnt sig að verkefni sem kalla má nærþjónustu eiga betur heima hjá sveitarfélögum en ríkinu.

Það er mikilvægt að frambjóðendur hafi sýn á málefni sveitarfélaga og byggðanna í landinu og segi frá þeirri sýn á fundum sínum með kjósendum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Framsóknarmenn vilja stjórnlagaþing sem taki á stöðu sveitarfélagana sem annars stjórnsýslustigsins. Þegar Ísland fékk ráðherra 1904 var valdið flutt frá Kaupmannahöfn til Reykjavíkur og þar við látið sitja. Þetta þarf að laga m.a. með því að tryggja sveitarfélögunum jafnræði og sterkari stöðu í stjórnarskránni.

    Sjálfstæðiðsflokkurinn stendur á móti þessum breytingum vegna þess að að hann vill halda í völdin.

  • Spurning hvort sveitarstjórnarstigið verði aflagt með öllu? Ef farið verður að AGS-áætluninni verða allir möguleikar á borðinu.

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur