Fimmtudagur 09.04.2009 - 20:39 - 16 ummæli

Tölum hreint út

Fréttir af mjög háum styrkum tveggja fyrirtækja til Sjálfstæðisflokksins eru vondar fyrir okkur öll. Þess vegna var mikilvægt að forysta flokksins tók strax ákvörðun um að endurgreiða þessa styrki sem eru óeðlilega háir. Fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins hefur lýst yfir ábyrgð á þessu máli.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur talað um að ganga hreint til verks. Það er flokknum og þjóðinni nauðsynlegt við þessar aðstæður. Við verðum að tala hreint út og þeir sem þessu máli tengjast og geta upplýst það betur verða að gera það.

Það er ekki óeðlilegt að upp komi vangaveltur um að þessi háu styrkir tengist pólitískum ákvörðunum sem varða okkar orkuauðlindir. Munum í því samhengi að það voru borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks sem stöðvuðu atburðarásina í REI málinu svokallaða. Og það var gagnrýnt af hálfu FL þegar Glitnir var að falla að ríkisstjórnin þáverandi sem var undir forsæti Sjálfstæðisflokksins skyldi ekki fallast á þeirra aðferð frekar en að yfirtaka bankann eins og stóð til áður en allt hrundi svo.

Með þessu er ég ekki að verja að tekið skyldi við þessum háu styrkjum. Það er ekki verjandi og þessu vegna verður að tala hreint út og hreinsa til í kringum þetta mál í Sjálfstæðisflokknum. Þar reynir verulega á okkar nýja formann.

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (16)

  • Óskar Elvar

    Sé ekki hvað er vont við þessa frétt um stóru styrkina til xD. Það hlýtur alltaf að vera fagnaðarefni þegar loki er lyft af ormagryfju. Ekki viljum við láta myrkraverkin grassera áfram, eða hvað.

  • Skarphéðinn Gunnarsson

    Hvers vegna þurfið þið Sjálfstæðismenn alltaf að tala um að það sem sé gott fyrir flokkinn sé líka gott fyrir þjóðina. Hér vísa ég í þessa setningu þína „Það er flokknum og þjóðinni nauðsynlegt…“
    Veistu, að mér er bara alveg nákvæmlega sama hvað er gott fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Ég tel alls ekki rétt að það sem sé gott fyrir Sjálfstæðisflokkinn sé gott fyrir þjóðina eins og einhver ykkar sagði (sjálfsagt mismælt sig, en hugsað þetta).
    Þið eruð svo ótrúlega sjálfhverf og ætli það sé ekki ykkar vandamál. Þjóðin hefur bara engan sérstakan áhuga á ykkur en þið skiljið það ekki.

  • Halldór,
    Hver er munur á styrkjum og mútum?

  • Árni Þór Sigurðsson

    Ágæti félagi. Það er bersýnilegt að Sjálfstæðisflokkurinn er að reyna að koma þeirri söguskýringu á framfæri að það hafi verið borgarfulltrúar flokksins sem stöðvuðu REI vitleysuna. Ég hygg að þú verðir að staldra aðeins við og rifja upp með varaformanni þínum í Sambandi ísl. sveitarfélaga, Svandísi Svavarsdóttur borgarfulltrúa Vinstri grænna, hvernig atburðarrásin var raunverulega. Líklega átti enginn einn einstaklingur eins mikinn þátt í að REI vitleysan var stöðvuð og einmitt hún.

  • Sé ekki að það skipti nokkru hvort styrknum sé skilað úr því sem komið er. Hvorugt fyrirtækið er til lengur og við kjósendur getum einfaldlega litið svo á að múturnar hafi virkað. Með öðrum orðum flokknum var greitt fyrir ákv. þjónustu, t.d. að styðja eitthvað sem þessi fyrirtæki voru að bralla eða láta eitthvað óátalið. Í tilfelli Landsbankans gæti það til dæmis hafi verið sístækkandi Icesave ævintýrið sem nú hefur reynst okkur dýrkeypt!

  • Í ljósi alls þess sem á undan er gengið fæ ég ekki séð að nokkur ærleg manneskja kjósi þennann FLokk spillingar og græðgi. Ef ég væri í SjálfstæðisFLokknum, segði ég mig úr honum eins og skot. Ef ég gengdi trúnaðarstörfum fyrir FLokkinn myndi ég biðjast afsökunar og hætta hið snarasta. Ísland má ekki við því að glæpasamtök séu við völd.

  • Friðþjófur Lýðsson

    Á sínum tíma bað Geir Hilmar Haarde F-okkinn afsökunar en ekki þjóðina. Það bendir til þess að ekki sé endilega samasem merki milli FL-okksins og þjóðarinnar.

    Það er sérkennileg árátta ykkar FL-okksmanna að tala sífellt um FL-okkinn og þjóðina sem eina heild þrátt fyrir að ykkar ástsæli fyrrverandi formmaður, sem nú hefur dæmt sig sem gjöspilltann, hafi gert þar skýran greinarmun á.

    Lengi vel var það svo að FL-okkurinn var dágóður hluti þjóðarinnar. Nú eru þeir tímar á enda og lítils að sakna. Því skuluð þið leggja af þennan talsmáta. Hann er skrípamynd af raunveruleikanum kæru FL-okksmenn.

  • Jón Einarsson

    HVAÐ MEÐ PRÓFKJÖRIN?
    Við Sjálfstæðismenn höfum ákveðið að hætta að taka við háum framlögum (í einu), í staðinn hefur verið settur splunkunýr útbúnaður á hvern þingmann. Þettar er þáttur í beinu lýðræði, svona í staðinn fyrir stefnu. Setjið pening í raufina á okkur og veljið svo það sem þið viljið fá út…. Já margt smátt gerir eitt stórt. Sjálfsali nr. 17.

  • Halldór! Þú ert minni maður fyrir það að reyna að eigna Sjálfstæðismönnum stöðvun Rei-hneysklisins. Þar ætluðu Bingi og Villi að taka við kaleiknum frá Guðlaugi Þór og allir Sjálfstæðismennirnir, auk Binga og Samfylkingarkonunni studdu málið. Þá sagði Svandís: Hey, bíðum aðeins við! Við tók opinber flenging í boði Svandísar, ekki einhverra sexmenninga í Sjálfstæðisflokknum, sem drulluðust þó til að styðja Svandísi, þegar lýðum var orðið ljóst hvað var á seyði, enda Svandís vel mælt á íslenska tungu og skýrði málin svikalaust. Reyndu aldrei aftur að stela heiðrinum af Svandísi Svavarsdóttur í þessu máli, jafnvel þótt verri menn í flokki þínum hafi látið það boð út ganga, að þannig skuli sagan verða. Víktu af flokkslínunni í þessu máli og vertu sannleikans megin. Það er affarasælast þegar til lengdar lætur, því upp komast svik um síðir.

  • Hörður Tómasson

    Sæll Halldór.
    Þjófur sem samþykkir að skila aftur ránsfeng sínum eftir að upp hefur komist um glæp hans er ekkert minni þjófur fyrir vikið. Þótt að þið skilið aftur þessum styrkjum, eftir að það hefur komist upp um ykkur, þa eruð þið ekkert minna spillt fyrir vikið.

  • PEÐERSEN

    ÞIð ættuð að reyna að skammast ykkar en það er kannski tl of mikil mælst af ykkur. Og að reyna að halda því fram að það hafi verið sjálfstæðismenn sem stoppuðu REI málið sýnir bara hvað þið í þessum blessuðu hagsmunasamtökum auðmanna eruð óforskömmuð.

  • Það trúir því enginn maður að hver einn og einasti Sjalli hafi ekki vitað af þessu og fundist þetta fínt. Það eina sem hryggir ykkur er að þetta hafi svipt af ykkur hulunni.

  • Halldór Halldórsson

    Vegna athugasemda við færslu mína um óeðlilega háa styrki frá einstökum fyrirtækjum þá vil ég ítreka að ég sagði það ekki verjandi.

    Með því að benda á þátt sexmenninga í REI málinu og máli Glitnis banka er ég að benda á að ef tengja á þessa styrki einhverjum mútum þá hefur það ekki virkað fyrir FL.

    Mér datt ekki í hug að draga mína góðu samstarfskonu Svandísi Svavarsdóttur inn í þá umræðu. Við vitum fyrir hvað hún stendur og hver hennar þáttur í þessu umrædda máli var. Hún er að mínu mati ákaflega vönduð manneskja og hefur reynst mér vel í öllu samstarfi.

    En það var ekki efni míns pistils heldur að benda á ákveðnar staðreyndir og lýsa því yfir að mér finnst svona háir styrkir frá einstökum fyrirtækjum ekki verjandi.

    Takk fyrir umræðuna hér í athugasemdum.

  • Verður mútuféð endurgreitt á núvirði?

  • Kristján Kristinsson

    Ef þetta eru styrkir, eins og þú tönnlast í sífellu á, þá spyr ég skiptir einhverju máli hversu háir þeir eru? Styrkir, stórir eða smáir, hljóta að vera góðir, ekki satt? En hvað þýðir „óeðlilega háir styrkir“? Þýðir það ekki á mannamáli mútur?

    En það skiptir ekki máli hvernig Flokkurinn leysir úr þessum vanda og það kemur mér ekki við því ég mun aldrei kjósa hann. Ég bara vona að alþýðan í þessu landi fari nú að átta sig á innra eðli Sjálfsstæðisflokkins.

  • Mögnuð umræða. Hár styrkur eða lágur, skiptir það máli? Ég hef hvergi í umræðunni séð að þessir styrkir hafi verið skilyrðum háðir.

    Sennilega hefur atburðarásin verið einhvern vegin svona.

    Guðlaugur Þór hringir tvö símtöl af sjúkrabeði til tveggja félaga og flokksbræðra til margra ára og biður þá um að reyna að afla styrkja til flokksins vegna bágrar fjárhagsstöðu. Á þessum tíma hafði flokkurinn ráðist í gagngerar viðgerðir á Valhöll og rándýr kosningabarátta var að baki og fjárhagurinn bágur.

    Þessir tveir menn gerðu það að sjálfsögðu og töluðu við sína menn innan þeirra fyrirtækja sem þeir störfuðu fyrir á þeim tíma.
    Fyrirtækin voru sjálfsagt beðin um fjárstyrk eins háan og þau töldu sig geta séð af, sem og þau gerðu vegna þeirra manna sem báðu um styrkina og þeirra aðstæðna sem flokkurinn var í. Þessir tveir menn hafa klárlega ekki getað lofað neinu í staðinn fyrir styrkina vegna þess að þeir höfðu hvorki umboð né getu til að lofa neinu. Styrkirnir voru greiddir út og formanni tilkynnt um þá væntanlega. Formaður hefur örugglega tekið við þeim með glöðu geði þar sem ekkert ólöglegt var við það. Lögin um fjáröflun flokkana var ekki komin til framkvæmda og þar með allt löglegt.

    Þessi tilbúna en líklega atburðarás er sennilega staðreynd, en hvort siðferðilegar skyldur formanns að þiggja slíkar upphæðir hafi verið brotnar, er spurning sem hver verður að svara fyrir sig. Samt, þessar upphæðir bankans og FL hafa verið smávægilegar miðað við þær upphæðir sem þeir hafa verið með í höndunum daglega. Það undrar mig mest að þær hafi ekki verið hærri.

    Að lokum, ég er næstum viss um að ef beiðni um „neyðarstyrki“ hefði borist þessum fyrirtækjum frá öðrum flokkum þá hefðu þau brugðist við á sama hátt, án skilyrða.

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur