Að lokinni vel heppnaðri páskahelgi þar sem saman tvinnaðist vinna, Skíðavika og tónleikar þá renndi ég yfir vefmiðlana. Þar er samantekt á því helsta sem gerst hefur undanfarna daga í landsmálunum.
Og hvað hefur gerst? Eru komnar fram bættar hugmyndir um að bæta stöðu almennings? Eða fyrirtækjanna? Eða ríkissjóðs? Eða sveitarfélaganna?
Nei ekki varð ég var við það. En það mátti finna ýmsar fréttir og blogg um framlög FL og Landsbankans til Sjálfstæðisflokksins. Enn er tönnlast á því og reynt að finna fleiri sökudólga.
Var ekki búið að upplýsa um málið? Eða ætla öll öfl andstæð Sjálfstæðisflokknum í stjórnmálum að reyna að nýta sér þetta út í hið óendanlega?
Það liggur fyrir yfirlýsing frá formanni Sjálfstæðisflokksins um að þetta hafi verið mistök. Fyrrum formaður hefur tekið á því ábyrgð og þeir sem stóðu fyrir söfnuninni hafa upplýst um sinn hlut.
Mistök voru gerð varðandi þessa stóru styrki. Það hefur verið viðurkennt. Með því erum við að leggja grunn að endurreisn okkar flokks. Það gerðum við einnig með sérstakri endurreisnarnefnd og skýrslu hennar. Hafa aðrir flokkar gert hið sama?
Mín vegna má fólk halda áfram að hamast á þessu máli. En það bætir ekki hag landsmanna. Það eru kosningar 25. apríl og almenningur á að fá að vita hvað stjórnmálaflokkarnir ætla að gera. Stjórnmál snúast um hugmyndir og aðgerðir. Hvað aðgerða megum við vænta eftir kosningar?
Er hætt við vinstri stjórn? Það er líklegt. Hvað finnst fólki um það? Margir muna ekki stöðuna hér áður fyrr. Hún var ekki glæsileg með verðbólgu yfir 30%, stundum miklu hærri, og lífsskilyrði óralangt frá því sem við höfum kynnst undanfarin ár, jafnvel eftir bankahrun.
Ég sé að í athugasemdum og bloggi víða er talað um spilltan Sjálfstæðisflokk og að þeir sem honum tilheyra sé spillt fólk.
Athugasemdir um spillt fólk sem leggur Sjálfstæðisflokknum lið finnst mér vera dónaskapur gagnvart því harðduglega fólki sem trúir á sjálfstæðisstefnuna og hefur lagt henni lið. Það er misjafn sauður í mörgu fé, það vita allir. Það á við um alla flokka. En í Sjálfstæðisflokknum er þverskurður þjóðarinnar. Sjálfstæðisfólk sem vill vinna og hefur unnið þjóð sinni gagn.
Í næsta pistli er ég að hugsa um að skrifa um útiveru og náttúruparadísina okkar hér vestra.
Ég mun líka halda áfram að skrifa um stjórnmálin. Það hefur sennilega aldrei verið mikilvægara að standa vörð um sjálfsstæðisstefnuna og minna á hvað sú stefna hefur byggt upp góð lífsskilyrði á Íslandi. Þrátt fyrir bankahrun stöndum við ótrúlega sterk og mun sterkari en margar þjóðir sem eru enn að jafna sig eftir áratuga vinstri tilraunir.
hehehe það er nú alveg virkilega broslegt að lesa þetta blogg hjá þér… þú bara skilur ekkert í því hvað þessi spillingarummræða ætlar að dragast á langinn…hehehehehe ég get bara ekki hætt að hlægja. Þú minnist þarna á að stjórnmál snúist um hugmyndafræði og einmitt þess vegna er mjög mikilvægt að halda þessari ummræðu uppi alveg fram yfir kosningar, því að hún sýnir svart á hvítu að hugmyndafræði (ó)sjálfstæðisflokksins er auðkeypt og að heyra ykkur hvern á fætur öðrum halda því fram að um MISTÖK hafi verið að ræða er náttlega bara barnalegt, því að þetta voru engin mistök!! Heldur er augljóst að þarna var verið að borga ykkur fyrir hentuga hugmyndafræði fyrir valdamikla viðskiptamenn. Það er líka fyndið að þér finnist málið vera upplýst vegna yfirlýsinga eins manns sem hélt því hróðugur fram að botninum væri náð í mars í fyrra þrátt fyrir að hafa svo seinna meir viðurkennt að hafa lesið skýrslu í febrúar þar sem það var fullyrt af málsmetandi mönnum og sérfræðingum að bankakerfið eins og það legði sig myndi fara á hliðina innan árs. Auk þess sem það væri hægt að týna til tugi greina og viðtala þar sem Geir er í beinni þversögn við sjálfan sig. Þessi maður er nú margbúinn að sýna þjóðinni að það eina sem hann kann er að ljúga. Og svo er náttúrulega bara fyndið að þið ætlist til þess að við trúum því að Geir hafi verið eini maðurinn sem vissi af 60 millum sem fóru inn á reikning flokksins. Ja ef svo hefur verið þá er í það minnsta hægt að dæma ykkur algerlega vanhæfa til að sjá um fjármál þessarar þjóðar. Enn annars takk fyrir gott blogg, það sýnir manni svart á hvítu hversu mikið bananalýðveldi ísland er Þegar maður les svona snilldarpistla frá bæjarsjóra höfuðstaðs vestfjarða. p.s. það er reyndar alveg rétt hjá þér að það sé til fullt af heiðarlegum vinnusömum sjálfstæðismönnum en þeir komast bara ekki til valda í flokknum, heldur eru þeir bara nógu einfaldir til að kaupa þennan heilaþvott ykkar og þar af leiðandi látnir um skítverkin.
þetta er meira endemis bullið hjá þér Halldór. Þú talar um að það sé stutt í kosningar og hvað menn ætli að gera.Ertu búinn að gleyma öllu sem þú lofaðir fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar?Það var ýmislegt og flest svikið.Hvernig dettur þér í hug að einhver taki mark á því hverju t.d. Einar kristinn lofi, eða þú. Ég hef ekki heyrt mikið í formanni sambands Íslenskra sveitarfélaga kvarta mikið við yfrmenn sína í sjálfstæðisflokknum um hvernig gæðum lands er misskipt. Staðan eftir síðustu vinstri stjórn var ekki verri en staðan í dag eftir 18 ára setu í ríkisstjórn. Hvernig er staðan hjá Ísafjarðarbæ eftir langa setu. Er ekki slæm fjárhagsstaða ísafjarðarbæjar bara Flateyri að kenna. Það mætti skilja það á málflutningi ykkar síðustu mánuði.
kv sig haf.
p.s. Hvenær verður skýrsla nefndar um skólamál birt.
Andbyr sjálfstæðismanna er sjálfskapaður og sá gröftur sem nú upp vellur afrakstur rangrar greiningar. Innri átök og persónulegur metnaður hefur fært flokkinn frá viðfangsefni sínu: Þjóðarhag. Þú segir réttilega að sjálfstæðisstefnuna beri að verja en þá þarf skóflustungan að vera miklu dýpri en bara Geir og Guðlaugur. Miklu, miklu dýpri.
LÁ
Hvað hefði sjálfstæðisflokkur gert öðruvísi til að vinna á þeim erfiðleikum sem við er að glíma ef hann hefði verið í stjórn enn þá? Væru ykkar möguleikar meiri til að bæta ástandið en hinna eða eruð þið bara heppnir að komast í stjórnarandstöðu og geta gagnrýnt það sem gert er í stað þess að þurfa að finna lausnir sem virka?
Ég hef ekki mikið fylgst með stjórnmálum fyrr en í vetur og það kemur mér sífellt á óvart hvað mikið er rifist af óþörfu við þessar aðstæður. Ég hefði viljað sjá meiri áhuga á velferð þjóðarinnar og minni áhuga á hagsmunum flokkana en hjá þeim virðist mér hollusta þingmanna og ráðherra vera. Hagmunir flokkana fyrst og síðan hagsmunir þjóðarinnar.
Alveg síðan ég fékk kosningarétt hef ég heyrt að það væri voðin vís ef það kæmi vinstristjórn og því þyrfti að kjósa sjálfstæðisflokkinn til að hagsmunum þjóðarinnar væri borgið????????
Það er kannski þess vegna sem sjálfstæðisflokkurinn fær svona harða útreið, því hefur eiginlega verið lofað að undir hans stjórn væru hagsmunum okkar best borgið og skellurinn því stór og sjokkið mikið. Undir stjórn hverra er okkur þá best borgið? Það skiptir þá kannski ekki máli þetta fer hvort sem er allt eftir því hvað gerist út í heimi en ekki hvað gerist innanlands.