Miðvikudagur 15.04.2009 - 16:48 - Rita ummæli

Kom af fjöllum

Nei þessi færsla er ekki um íslensk stjórnmál þó fyrirsögnin geti alveg átt við um stöðu íslenskra kjósenda og margra frambjóðenda.

Það er sífellt fleirum að verða ljóst hversu mikil náttúruparadís Vestfirðirnir eru og mér finnst líklegt að Íslendingum muni fjölga mjög sem gestum hér í sumar. En það þarf ekki endilega að koma hingað að sumri. Hingað er flogið tvisvar á dag og stundum oftar allan ársins hring og það þarf mikið að vera að veðri ef ekki er fært hingað eftir vegunum sem hafa batnað mikið undanfarin ár. Það er t.d. mjög gott að vera hér fyrir vestan á páskum og njóta alls sem boðið er upp á.

Ég kom af fjöllum annan í páskum eftir að hafa farið frá Bolungarvík og yfir að Galtarvita. Vitinn stendur við Keflavík sem er milli Súgandafjarðar og Skálavíkur. Þar var Óskar Aðalsteins rithöfundur vitavörður í ein 24 ár. Í dag býr enginn á staðnum, vitinn sjálfvirkur og jörðin með íbúðarhúsum og því sem eftir er af útihúsum komin í einkaeigu. Þarna er aðstaða fyrir listamenn og hefur hún eitthvað verið nýtt.

Staðurinn er einstakur og þarna er gott að koma, setjast á brekkubrún og horfa út yfir óendanlegt hafið í átt til Grænlands.

Dagana á undan höfðum við notið útiverunnar á svigskíðum og framundan er tímabil sem nýtist gönguskíðafólki vel upp um fjöll og firnindi. Framundan er Fossavatnsgangan 2. maí en sú ganga er elsta almenningsganga á Íslandi – síðan 1935.

Í faðmi fjalla blárra.

Flokkar: Óflokkað · Lífstíll
Efnisorð: ,

«
»

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur