Föstudagur 17.04.2009 - 18:54 - 8 ummæli

Stjórnarskráin

Stjórnarskrármálið verður tekið af dagskrá og að ekkert verður af breytingum á stjórnarskránni í bili. Í tengslum við það er Sjálfstæðisflokknum kennt um allt saman. Þær ásakanir eru ekki réttmætar því áherslur þingmanna Sjálfstæðisflokksins sneru fyrst og fremst að því að ekki yrðu gerðar breytingar á grundvallarlögum lýðveldisins að vanhugsuðu máli. Hefðin er sú að viðamiklar breytingar á stjórnarskránni þarf að undirbúa vel og ná um þær samstöðu. Stjórnarskráin er grundvallarlög sem okkar lýðræði byggir á.

Höfum í huga að ríkisstjórnin féll frá stjórnarskrármálinu en samþykkti ekki tillögu Sjálfstæðisflokksins um að sett yrði inn auðlindaákvæði. Ekki heldur að sú breyting yrði gerð að einfaldara yrði að breyta stjórnarskránni. Þá þyrfti ekki að rjúfa þing og kjósa að nýju.

Fyrst að vilji var til að gera breytingar er skrýtið að ekki hafi verið fallist á þetta af hálfu ríkisstjórnarflokkanna né heldur að kjósa 25 manna nefnd til að endurskoða stjórnarskrána.

Af u.þ.b. 30 umsagnaraðilum sem komu fyrir sérnefnd um stjórnarskrármál til þess að gefa álit sitt á málinu voru aðeins 2-3 umsagnaraðilar sem studdu breytingarnar heilshugar, allir aðrir höfðu ýmist efnislegar athugasemdir eða athugasemdir við orðalagið.

Í moldviðrinu sem nú er í íslenskum stjórnmálum er því þyrlað upp til viðbótar að Sjálfstæðisflokkurinn hafi skemmt fyrir mikilvægum breytingum.

Staðreyndin er sú að Sjálfstæðisflokkurinn stóð vörð um lýðræðið í landinu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (8)

  • Þetta verður Sjálfstæðisflokknum til ævarandi skammar. Mun verra en ofurstyrkirnir og múturnar, sem þó voru skandall.

    Stjórnarskrármálið og andstaða við umsókn að ESB verður til þess að þið fáið ekki mitt atkvæði aftur.

    Sjálfstæðisflokkurinn er á miklum villigötum. Eina leiðin til að leiða hann til betri vegar er að refsa honum kyrfilega í þessum kosningum. Það er skylda okkar allra.

  • Af annars bráðgáfuðum manni er leiðinlegt að sjá eins fyrirsjáanlega flokkspólitíska skýringu á hlutunum.

  • sigurður j hafberg

    Hvenær ætlar þú að birta skýrslu nefndar um skólamál á Flateyri.
    kv sig haf

  • Jóhannes

    Það þarf fremur stíflað pólitískt nef til að hreykja sér af andstöðunni við stjórnarskrárbreytingarnar í lok þings. Vegna þvælugangs komst ekki í gegn að Sjálfstæðisflokkurinn væri sammþykkur því sem mikilvægast var fyrir amk Samkfylkinguna, þ.e breytingin á 79 greininni.

    Sem gamall (fyrrverandi og einlægur) stuðningsmaður Sjálfstæðisflokksins tel ég að hann þurfi að vera til hlés næstu misseri og ná vopnum sínum aftur – í mikilvægari málum en stjórnarskrármálinu.

  • Björgvin Þór

    Dapurlegt að lesa: „Höfum í huga að ríkisstjórnin féll frá stjórnarskrármálinu en samþykkti ekki tillögu Sjálfstæðisflokksins um að sett yrði inn auðlindaákvæði.“
    Ríkisstjórnin gafst upp á að koma málinu í gegn vegna hótana sjálfstæðismanna um endalaust málþóf. Þetta veistu, Halldór. Og lögðust sjálfstæðismenn ekki þvert á móti gegn auðlindaákvæðinu í frumvarpinu?

  • Bjarki Guðlaugsson

    Mér finnst þetta dapurleg röksemdafærsla að það þurfi að nást samstaða um málið til að hægt sé að gera breytingar á stjórnarskránni þegar augljóst er að Sjálfstæðismenn hafa engan áhuga á að ná samstöðu um málið. Vaknið Sjálfstæðismenn!!! við erum búin að koma upp um ykkur, spillinguna sem hefur viðgengist innan ykkar raða og héðan í frá komist þið ekki upp með neitt rugl og smjörklípur.

  • Bjarni Hallsson

    Staðreyndin er sú að Sjálfstæðisflokkurinn nýðist á lýðræðinu í landinu.
    Helvítans kvótagreifar,Bankaræningjar og bensínokrara.

  • Sjáfstæðisflokkurinn var 18 ár við völd. Samfó var 18 MÁNUÐI í þeim vafasama félagskap. Þetta er stærðfræði 101. 2+2= 4

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur