Miðvikudagur 27.05.2009 - 15:59 - 4 ummæli

Ekki er mjallinn á

Það er eflaust að bera í bakkafullan lækinn að ætla sér að skrifa um sjávarútvegsmál enn eina ferðina. Það virðist sama hvað maður skrifar um þennan undirstöðuatvinnuveg okkar, alltaf finnast einhverjir sem eru til í að gera manni upp skoðanir og hvatir sem eiga ekkert skylt við umræðu sem leiða á okkur sem þjóð fram á við en ekki aftur á bak.

Mér fannst eftirtektarvert að lesa færslu Marðar Árnasonar í gær um að ekki væru allir sveitarstjórar og sveitarstjórnarmenn undir hælnum á LÍÚ eða útgerðareigendum. Hann tiltók tvo sem ekki væru undir þeim hælnum.

Með þessu er verið að setja sveitarstjórnarfólk um allt land, í öllum stjórnmálaflokkum, í þann flokk að þeim sé ekki sjálfrátt. Að þau hafi ekki sjálfstæðar skoðanir og láti ráðast af ótta, eymd og hótunum. Að LÍÚ (sem ég efast um að margir útgerðarmenn í mínu sveitarfélagi tilheyri) ráði yfir þeirra skoðunum og skyldu til að standa vörð um byggðina. Ég er ekki sáttur við svona alhæfingu.

Undirritaður hefur skrifað um fyrirhugaða fyrningarleið stjórnarflokkanna og varað við henni. Á þeim forsendum að ég hef séð okkar fyrirtæki og einstaklinga vera að byggja sig upp hér fyrir vestan með ansi góðum árangri á undanförnum árum. Árin á undan var mikil eftirgjöf. Mín varnaðarorð eru vegna þess að ég vil ekki að mitt samfélag lendi aftur í þessari miklu eftirgjöf. Mér finnst ekki verjandi fyrir tóman ríkissjóð að bæta á sig einhverjum hundruðum milljarða í skuldir vegna fyrningar aflaheimilda. Mér finnst að útgerðin eigi að sjá um sínar skuldir sjálf og eigi að geta starfað í eins stöðugu rekstarumhverfi og mögulegt er af hálfu löggjafans. Nóg er að berjast við náttúruna og duttlunga hennar þó ekki bætist við duttlungar löggjafans.

Þess sama löggjafa og setti þau lög sem útgerðin starfar eftir í dag.

Ég er hlynntur endurskoðun á þessu kerfi, ég vil finna leið til að tryggja betur hag byggðanna við sölu á aflaheimildum. En að taka aflaheimildir 5% á ári þannig að aflaheimildir fyrnist á 20 árum alveg, tel ég ekki vera leið sem tryggir hag byggðanna. Það er óþarfi að taka aflaheimildir af þeim sem eru ekki að selja þær frá sér heldur eru að sinna útgerð og fiskvinnslu.

Umræðan í þessum málum snýst nefnilega svo mikið um þá sem hafa selt og eru komnir út úr kerfinu en yfirfærslan yfir því ranglæti færist á þá sem keyptu og eru starfandi í greininni í dag.

Mörður segir gott að sjá að sums staðar úti á landi séu menn með öllum mjalla. Hann á þá væntanlega við þá tvo sem að hans mati eru ekki undir hæl LÍÚ. Aðrir eru þá ekki með öllum mjalla. Ég hef skilið það orðatiltæki þannig að þýddi að viðkomandi væri ekki í lagi, væri með minni skynsemi en aðrir.

Ég ætla að leyfa mér að segja að ekki sé mjallinn á hugmyndum um fyrningarleiðina.

Dæmi svo hver fyrir sig.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (4)

 • Um málið var kosið í kosningum og nú er valið svo á milli þess hvort þið viljið taka þátt í framkvæmdinni eða verða undir henni.

 • lydur arnason

  Sæll, Halldór. Þú nefnir að innkalla ekki aflaheimildir hjá þeim sem ekki hyggjast selja. Ekki svo galið en spurning þá hvort nokkur selji. Þá kæmi kannski til að auka veiðiskyldu þannig að menn séu ekki að hanga á kvótum sem þeir ekki nýta sjálfir. Hrósa þér fyrir þessar pælingar og hlakka til næstu vakningar.
  Kveðja, LÁ

 • Magnús Bjarnason

  Lykil atriðið í þessu máli er að ekki myndist erfðaréttur á veiðiheimildir. Það er mikil hætta á lávarðakerfi í sjávarútvegi og það má ekki gerast.

  Að tilvera heilu byggðarlaga stendur og fellur eftir duttlungum einar fjölskyldu (þá helst barnabörnunum), það er ekki heilladrjúgt og saga vestfjarða sannar það.

  Framferði síðustu ára hefur skapað mikla gremju í garð núverandi kerfis og margra útvegsmanna. Gremju margir útvegsmenn eiga eflaust ekki skilið. En hættan við varanlegt eignarhald er einfaldlega of mikil til að geta leyft hana, sporin hrella.

 • Rétt hjá þér Halldór.
  Mjallinn er ekki sérstaklega gott viðmið hjá Merði. Ef til vill þekkir hann ekki samsetningu Mjallans. Hann þekkir hins vegar líklega til útgerðar og vinnslu í sveitarfélagi Gríms, Dalabyggð. Hann veit líklega að fyrir 180M sem Ómar í Súðavík og hans fólk setti í Frosta, fékk hann 400M. Hvað gerði hann og Súðvíkingar við þær?

  Langflestir sem eru í sjávarútvegi í dag, hvort sem er á Vestfjörðum eða annarsstaðar á landinu hafa keypt sínar veiðiheimildir, og þá til þess að veiða og vinna fiskinn. Og það hafa þeir gert, og ætla sér að gera það áfram. Ég veit ekki til þess að framboð sé á kvótum núna. Það er sjálfsagt mál að tengja kvótann við byggðir með forkaupsrétti sem virkar.

  Illmælgi þeirra sem eru hlyntir fyrningu aflaheimilda um þá sem eru í útgerð og vinnslu er með ólíkindum, og keppast þeir við að vera hver öðrum verri. Fólk í sjávarútvegi, sem vel að merkja er um 90% á landsbyggðinni, á þetta engan veginn skilið. Þetta fólk vinnur af heiðarleika, styður sín byggðarlög, tekur þátt í lífinu þar, og ætlar að gera það áfram.
  Hver er glæpurinn?

  bestu kveðjur vestur
  ET

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur