Miðvikudagur 25.11.2009 - 18:21 - 3 ummæli

Grunnþjónusta og hagræðing

Sveitarfélög landsins vinna nú að gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2010. Öllum hefur verið það ljóst að draga þyrfti áfram úr útgjöldum vegna mikils samdráttar tekna í kjölfar hrunsins í fyrra.

Frá hruni höfum við sveitarstjórnarfólk sagst leggja áherslu á að verja grunnþjónustuna. Sem er meira en að segja það þegar mjög stór hluti verkefna sveitarfélaga er grunnþjónusta.

10. október 2008 skrifaði ég sem formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kristján Möller sveitarstjórnarráðherra undir þessa yfirlýsingu:
,,Tryggja verður að grunnþjónusta hins opinbera skerðist ekki, þrátt fyrir tekjusamdrátt og kostnaðarhækkanir. Sveitarfélögin gegna afar mikilvægu hlutverki í velferðarþjónustunni á sviði fræðslu- og félagsþjónustu sem á tímum sem þessum er nauðsynlegt að njóti forgangs.“

Í framhaldi af þessu voru samdar viðmiðanir um grunnþjónustu fyrir sveitarfélögin. Þessar viðmiðanir má vinna á www.samband.is t.d. ef slegið er inn leitarorðið grunnþjónusta. Ljóst er að sitt sýnist hverjum um það hvort tónlistarskólar og íþróttastarfsemi séu hluti af grunnþjónustu eða ekki. Enda er þetta viðmið sem haft er til hliðsjónar.

Það sem sveitarfélögin reyna að gera við þessar aðstæður er að draga úr rekstrarkostnaði á öllum sviðum. M.a. með því að fækka kennslustundum í grunnskólum, draga úr yfirvinnu, lækka laun stjórnenda, draga úr innkaupum og þannig má lengi telja. Starfsfólk hefur staðið vel að þessum málum og lagt mikið á sig enda vinnst þetta ekki með öðrum hætti.

Þjónustan breytist, hún minnkar jafnvel en alls staðar er reynt að halda í grunnþjónstuna þannig að öll sú þjónusta sé til staðar og hún sé ekki skert þannig að íbúar hafi ekki aðgang að henni eða geti ekki nýtt sér hana. Þetta hefur tekist og það er markmið sveitarstjórnarfólks að það takist alls staðar þó víða sé erfitt.

Okkur er sagt af stjórnvöldum að vandinn sé ekki stærri en svo að við séum að spóla til baka um nokkur ár. Sumir hafa sagt til ársins 2000 eða 2002. Ég veit ekki hvað er rétt í því en það er ljóst að aðgerðir sveitarfélaganna snúa að því. Það er verið að vinda ofan af þeirri viðbót sem kom á þjónustu sveitarfélaganna á góðæristímabilinu.

Við verðum að gera þetta svona og því fyrr sem það er gert því fyrr eigum við möguleika á að ná okkur upp úr lægðinni sem við erum í. Sveitarfélögin leggja sig fram við það.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Efnisorð:

«
»

Ummæli (3)

  • Ein brennandi spurning: Er kennsla í grunnskóla ekki „grunnþjónusta“ ?

  • Halldór Halldórsson

    Starfsemi grunnskóla er grunnþjónusta, þar af leiðir að kennslan er grunnþjónusta. Þar með er ekki sagt að ekki sé hægt að hagræða í þeim þætti eins og öðrum. Þó dregið sé úr kennslu er grunnþjónustan áfram til staðar.

  • Ég hef annað hvort ekki verið nægjanlega skýr í spurningu minni eða þú kýst að snúa út úr jafn alvarlegu máli, Halldór. Í yfirlýsingu þinni (SIS) og ráðherra sveitarstj. mála er skýrt kveðið á um að -,,Tryggja verður að grunnþjónusta hins opinbera skerðist ekki, þrátt fyrir tekjusamdrátt og kostnaðarhækkanir. Sveitarfélögin gegna afar mikilvægu hlutverki í velferðarþjónustunni á sviði fræðslu- og félagsþjónustu sem á tímum sem þessum er nauðsynlegt að njóti forgangs.”
    Viðmiðunarstundarskrá líkt og aðalnámskrá hefur lagagildi. Sveitarfélög geta ekki einhliða skorið niður 12-15% kennslustunda án þess að löggjafinn breyti því. Það samsvarar rúmu skólaári af 10 ára grunnskóla. Ég mun að sjálfsögðu vekja athygli ráðherra á þessum vangaveltum og árétta að þessi yfirlýsing haldi. Mér er ekki kunnugt um að þingmeirihluti sé fyrir slíkri skerðingu kennslustunda á Alþingi. Þá vantar faglegan rökstuðning SÍS fyrir þessari skerðingu sem reyndar ráðherra menntamála hefur kallað eftir. Væri ekki ráð að hnippa í Kennarasambandið þar sem fagmennskan liggur. Eða eru menn að taka upp samskiptin frá 1999 eða 2004?

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur