Ég var að hugsa um að hafa fyrirsögnina: ,,Ef þú ert ekki með þá ertu á móti.“ Eða: ,,Ef þú hefur aðra skoðun en ég þá er hún byggð á annarlegum forsendum.“ (Þetta skýrist hér í lok færslunnar).
En færslan á að fjalla um sjávarútveg eða öllu heldur afstöðu til mála.
Afstaða mín til sjávarútvegs markast af því að ég bý í samfélagi þar sem sjávarútvegur er undirstaðan. Ég og við öll búum reyndar í þannig landi. Ég hef mótað mína afstöðu til sjávarútvegs út frá þeirri reynslu sem ég hef síðan ég starfaði í fiskvinnslu og á sjó og núna síðustu 12 árin sem bæjarstjóri í sjávarútvegsbæ.
Sú afstaða er byggð á þeirri reynslu að mitt svæði og Vestfirðir reyndar allir hafa farið illa út úr breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu en hafa á undanförnum árum náð vopnum sínum að nýju. Hér eru fyrirtæki að styrkja sig í sessi. Langflest þessara fyrirtækja eru nýliðar í sjávarútvegi, byrjuðu eftir að kvótakerfið var sett á.
Þess vegna er ég ekki hlynntur fyrningarleið í sjávarútvegi. Ég tel hana rangláta gagnvart atvinnugreininni. Ég tel hana veikja fyrirtækin í sjávarútvegi og fara alveg sérstaklega illa með okkar svæði sem hefur liðið fyrir allar breytingar.
Nú er það svo að þó kvótakerfið hafi aldrei náð vinsældum hér vestra þá er það staðreynd að það er ekki bara vegna kvótakerfis og sölu aflaheimilda sem okkar svæði tapaði umfram flest önnur. Nei hér var þorskur meginuppistaðan í aflanum og þorskafli hefur stórlega verið minnkaður. Úr 450 þús. tonnum á ári niður í 150 þús. tonn á ári á þessu fiskveiðiári. Það segir til sín um allt land en sérstaklega þar sem þorskur er meginuppistaðan.
En eins og fyrr segir þá erum við að ná vopnum okkar í þessu kerfi sem Alþingi setti á með lögum. Þess vegna tel ég varhugavert af Alþingi að breyta því enn eina ferðina.
Þá kemur að því sem ég skrifaði hér í byrjun:
Af því að ég hef lýst þessum skoðunum mínum margoft þá halda margir af þeim sem eru ósammála mér og vilja fara fyrningarleiðina eða bara einhverjar aðrar leiðir, að ég haldi þessum skoðunum fram af annarlegum ástæðum. Þá er sagt að ég sé talsmaður útgerðarinnar, talsmaður LÍÚ o.s.frv.
Þetta er ekki rétt. Ég hef engra persónulegra hagsmuna að gæta. Mín afstaða byggist á því að ég tel að samfélagið okkar muni bera af því skaða ef fyrningarleiðin verður farin. Mín skylda skv. samfélaginu er að standa vörð um hagsmuni þess og það geri ég vitanlega í þessu risastóra máli eins og öllum öðrum.
Mér finnst að þeir sem taka þátt í umræðu almennt verði að bera virðingu fyrir skoðunum hvers annars og taka þátt í umræðunni án þess að persónugera einstaklinga í slíkri umræðu. Það er umræðulist og færir okkur fram á við. Hitt er skítkast og færir okkur aftur á bak.
Það hörmulegasta sem gæti komið fyrir Vestfirði er ef hætt verður við fyrningarleiðina og ýmsar aðrar breytingar á kvótakerfinu sem stjórnarflokkarnir hafa boðað.
Halldór.
Ég er mjög undrandi á hvað þú ert illa upp lýstur um málefni sjávarútvegsins.
Þú virðist ekki gera þér grein fyrir stöðu mála er varðar þróun byggðar og nýliðun í sjávarútveginum.
Þú virðist heldur ekki gera þér grein fyrir hrikalegum innbyggðum göllum kerfisins sem felast meðal annars í brottkasti, kvótasvindli, tegundasvindli og fölsuðum sölunótum erlendis frá við uppgjör á sölu afurða.
Varla þarf að segja þér af mannfjandsamlegri mismunun og kúgun sem sjómenn þurfa að þola og brýtur öll grundvallar mannréttindi.
Varla þarf að biðja þig um að virða tölulegar staðreyndir um þróun byggða á Vestfjörðum og þann gríðarlega fólksflótta sem átt hefur sér stað með tilvist kvótakerfisins.
Ég átti svo sem ekki von á miklum skilningi frá þér og úr þínum sauðahúsum.
En þú kanski sérð þetta betur þegar þú flytur á malbikið fyrir sunnan í vor og horfir úr fjarska á hörmungarnar sem dunið hafa á byggðunum okkar.
Halldór.
Þú ert ekki að gæta hagsmuna íbúa þíns sveitarfélags heldur þvert á móti ertu að ráðast á frum réttindi og mannréttindi hvers einasta einstaklings í Ísafjarðarbæ einungis með hagsmuni klíkubræðra þinna í LÍÚ að leiðarljósi.
Sæll Níels,
Værir þú sammála því að aflaheimildir sem við keyptum af þér yrðu gerðar upptækar og þú fengir þær aftur?
Eiríkur minn gamli kamerat.
Þú keyptir engar aflaheimildir af mér þú stalst þeim með fulltingi LÍÚ, Landsbankans og Sjálfstæðisflokksins.
Þessi þjófnaður kom til vegna brottkastmynda sem ég sýndi í sjónvarpinu og teknar voru um borð í skipi mínu Bjarma BA-326.
Ég er með ársreikning Þorbjarnar hf, undir höndum og miðað við skuldir þínar við íslenzka þjóð (og erlendar)þá get ég ómögulega séð að kvótakerfið hafi verið að virka í höndunum á þér.
Mér virðist þú skulda 25% meira en allar skuldir íslenzks sjávarútvegs voru 1991 þegar frjálsa framsalið var lögfest.
Það er með ólíkindum hvað menn þurfa að vera heiftugir í umræðunni útí þá sem vilja halda því kerfi sem við höfum við stjórn fiskveiða. Er þetta vegna skorts á rökum?
Það er ekkert að því að ræða þetta mál, og hafa hver sína skoðun. En umræða þarf að vera með rökum og hófstillt.
Undanfari kvótakerfisins var skrapdagakerfi sem reyndist algerlega ónothæft. Þá var aflanum mokað á land og lítið hugsað um vinnslu og sölu afurða. Á þeim tíma var ítrekað farið í aðgerðir til að halda sjávarútveginum gangandi. Við sem höfum verið lengi í sjávarútveginum munum eftir sjóðum sem voru kallaðir Steingrímssjóðirnir, þ.e. Atvinnutryggingasjóður Útflutningsgreina og Hlutafjársjóður. Einnig voru til Gengismunarsjóður, aflatryggingasjóður o.s.frv.
Sem betur fer var þetta allt lagt niður, og kemur vonandi aldrei aftur.
Þegar ríkisstjórn Steingríms, sem samanstóð af Framsókn, Alþýðuflokki, og Alþýðubandalagi setti kvótakerfið á í núverandi mynd fyrir um 20 árum, þá var það strax umdeilt. Það var sett á með lögum frá Alþingi, og við sem störfum í sjávarútvegi urðum að vinna eftir því. Það var ætlast til að við sæum sjálfir um hagræðinguna, keyptum veiðiheimildir af þeim sem vildu selja, og sjá þannig um fækkun skipa, þannig að aukin arðsemi yrði í þessari atvinnugrein.
Það hefur komið í ljós að kvótakerfið hefur breytt áherslum í sjávarútvegsfyrirtækjum frá því að leggja mesta áherslu á veiðar í það að leggja aðaláherslu á samspil markaðar, vinnslu og veiða. Þar sem markaðsstarf er aðalmarkmiðið.
Við hefðum aldrei komist í gegnum þann mikla niðurskurð í þorskveiðum sem orðin er, þ.e. úr 450 þús tonnum árið 1981 í 130 þús tonn í fyrra, nema með framseljanlegum aflaheimildum. Þannig náðum við að halda arðsemi í sjávarútvegi, þrátt fyrir þennan gífurlega niðurskurð.
Markmið sáttanefndarinnar svokölluðu sem er nú við störf á að vera að ná sem víðtækastri sátt um fyrirkomulag fiskveiðistjórnunnar. Það er hægt að laga ýmislegt, en fyrningarleið er jafn ófær leið og sundið inn til Grindavíkur í SV stormi. Það fer það enginn óvitlaus maður í þannig aðstæðum.
Hver vill sjá sjávarútvegsfyrirtækin í sínum byggðarlögum verða eyðilögð með fyrningarleið?
Ég segi eins og Pétur í Vísi, ef það á að fyrna eitthvað, fyrnið þá hlutaféð í fyrirtækjunum en eyðileggið ekki vel uppbyggð sjávarútvegsfyrirtæki sem eru máttarstólpar byggða um allt land.
Niels,
ég ætla nú ekki að munnhöggvast við þig, en þessi framsetning þín er einmitt það sem ég var að tala um hér að ofan.
Komdu með rök, og annað, þá ráðum við vel við að borga af okkar skuldum. Það gerir hagræðingin og aukin arðsemi sem er afleiðing kvótakerfisins.
Hvað er orðið af mínum gamla félaga, sem gat setið tímunum saman hjá mér og spjallað um allt sem laut að sjávarútvegi?
Góður pistill Halldór. Það er með ólíkindum að menn á borð við Níels skuli ræða þessi mál með jafn lítilli þekkingu og raun ber vitni.
Heldur Níels að brottkast sé minna þar sem menn leigja kvótann, frekar en þeir sem eiga hann? Líklega ekki. Er ekki verið að tala um að ríkið þjóðnýti kvótann og leigi hann svo út aftur? Varla minnkar brottkastið við að leigja ALLAN kvótann út aftur vs. að hluti sé leigt en mest sé veitt af þeim sem hafa borgað fyrir nýtingarréttinn fullu verði?
Allt hitt sem Níels nefnir s.s. tegundasvindl, nótufals og slíkt getur alveg eins átt sér stað þó Jón Bjarnason og einhver „kvótasýslunefnd ríkisins“ fari með kvótann, í staðin fyrir að markaðurinn sjálfur sjái um þetta?
Vestfirðingar fengu mjög ríflega úthlutaðan kvóta í upphafi, það var einfaldlega vegna þess að á þeim viðmiðunarárum sem kvótanum var úthlutað, fiskaðist vel hjá vestfjarðarútgerðum, en minna hjá útgerðum á suðurnesjum og suðurlandi. Einnig fengu Vestfirðingar ríflega aðstoð frá Byggðastofnun á þessum árum. Engu að síður minnkaði kvóti í fjórðungnum. Ekki þarf að kenna kvótakerfinu þar um. Hugsanlega eru aðrar ástæður á bakvið þetta sem þyrfti að skoða nánar.
Brottkast, kvótaleiga í auðgunarskyni, svindl og fúsk á ekki heima í fiskveiðum og vinnslu við Íslandsstrendur. Líklega eru flestir sammála um það, og líklega haga flestir sér í samræmi við þetta. Kannski eru það fáir sem koma óorði á fjöldann.
Menn eins og þessi Níels er hins vegar ekkert annað en múgæsingamaður, sem þingmenn á borð við Ólínu Þorvarðardóttur og fleiri hafa reynt að gera út á. Þar er um pólitískt brottkast að ræða, sem æskilegt væri að losna við út af þingi hið fyrsta.
Lögin eru skýr. 1. gr. Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.
Hafa ekki allir unnið eftir þessum lögum. Hafa þessi lög skapað trausta atvinnu og byggð í landinu. Svo hljóta aðilar sem hafa verið í útgerð að hafa vitað að veiðiheimildir mynda ekki eignarrétt og því hljóti það hafa það verið ólöglegt að veðsetja aflaheimildir. En vonandi verður hægt að ná sátt en sáttinn kemur ekki ef útgerðarmenn telji sig eiga aflaheimildirnar.
Útgerðarmenn hljóta að hafa verðlagt nýtingarréttinn (aflaheimildirnar) sjálfir. Eina sáttinn sem ég sé er að útgerðarmenn viðurkenni að þetta sé nýtingarréttur og tilbúnir að skoða auðlindagjald. Þetta fyrirkomulag er úr sér gengið því miður. Það verður að breytta einhverju það hlýtur að vera hægt að breytta þessu kerfi alveg eins og hægt var að koma þessu kerfi á og öllum þeim breytingu sem hafa verið á kerfinu síðan 1983. Í dag eru það forréttindi að fá að veiða fisk.
Hörmulegt að sjá hvernig LÍÚ leggur málið upp. En kom í raun ekki á óvart. Hann hefur vondan málstað að verja og þá er þetta aðferðin „henda reyksprengjum og hafa hátt“. Enda láta viðbrögðin ekki á sér standa. fara umsvifalaust í einhvern svona „icesave stíl“ því miður. Það vita það allir sem vilja vita það. Það þarf, og mun verða tekið á þessu kerfi.
Kvótinn er eins og icesave, þjóðin er ósátt við hvorutveggja. Ósættið við kvótakerfið er vegna gegndarlauss útflæðis fjármuna úr greininni og óvissu byggðanna um atvinnuréttinn. Einnig er ömurlegt til þess að vita að veiðiréttur á Íslandsmiðum er undir uppboðshamri erlendra lánadrottna. Líka er illt fyrir þorpin að eiga allt sitt undir geðþóttákvörðunum eins eða örfárra sem hvenær sem er geta siglt með atvinnuréttinn í burtu. Firningarleiðin er hinsvegar illa útskýrð og birtist fólki aðallega sem viðleitni. Betra væri að kortleggja rekstrargrundvöll hverrar einustu útgerðar og afskrifa skuldir gegn innköllun kvóta en láta vel reknar útgerðir eiga sig. Samhliða banna kvótaframsal. Hatrömm umræðan hér að ofan kristallar ósættið og beinist ekki að grundvallaratriðum heldur fortíðardraugum.
LÁ
Sæll Halldór,
Við getum verið sammála um að kvótakerfið sem slíkt er ill nauðsyn. Vandinn við núverandi fyrirkomulag úthlutunar er hinsvegar þríþættur:
1. Óréttlæti
2. Skortur á nýliðun
3. Ósamræmi við úthlutunarreglur annara takmarkaðra gæða í eigu þjóðarinnar (orkunnar).
Til lengri tíma litið er mitt mat að þessu þarf að breyta. Spurningin er bara hvenær við höfum nægilega framsýna stjórnmálamenn til að gera það. Þegar því er lokið og þeir fá nýtingarheimildir sem mestu skila til samfélagsins þarf Ísafjörður ekki að örvænta. Virði skoðanir þínar en er mjög ósættóttur við það orðalag að fyrningarleiðin „óréttláta gagnvart atvinnugreininni“. Í því felst sú ályktun að atvinnugreinin samanstandi bara af núverandi kvótahöfum og engum öðrum. Fyrningarleiðin er réttlát gagnvart öllum þeim fjölda sjómanna sem hafa ekki haft sömu tækifæri og sjómenn forðum að hefja eigin útgerð á jafnréttisgrundvelli. Breytum því.
Lýður,
Það er einkennilegt að kenna þeim, sem hafa keypt veiðiheimildir, um útflæði fjármagns úr greininni.
Nær allar skuldir sjávarútvegsins eru við innlendar lánastofnanir, og því getur erlendur uppboðshamar ekki lent á sjávarútveginum, nema hafa viðkomu í íslensku bönkunum.
Íslensku bankarnir, orkufyrirtækin, og ríkið hafa hins vegar lengst af verið að mestu fjármögnuð erlendis.
Ég tek undir með þér að sátt verður að nást um fyrirkomulag fiskveiðistjórnunnar. Það er illmögulegt að búa endalaust við óöryggið sem fylgir hverjum kosningum, fyrir þá sem reka, og starfa hjá sjávarútvegsfyrirtækjunum. Það er staðreynd að kvótasala er alltaf langmest í aðdraganda kosninga.
1. Þú lagar ekki meint óréttlæti með meira óréttlæti. Er rétt að taka aflaheimildir af þeim sem keyptu þær og afhenda þær öðrum??? Það mun allt bóksstaflega loga verði þetta að veruleika
2. Nýliðun er ekki vandamál varðandi veiðar. Vandakvæðalaust hefur verið að ná þeim aflaheimmildum sem hafa verið úthlutað. Hún er hinsvegar vandamál í öðrum þáttum sjávarútvegs vegna þess að alltaf er verið að níða skóinn af þeim sem starfa í greininni. Þar tala ég af reynslu.
3. Hverjir eru að græða mest á orku Íslands? Ekki Íslendingar það get ég sagt ykkur umbúðalaust.
Það sem einkennir umræðuna um fiskveiðistjórnunarkerfið aka Kvótakerfið eru öfgarnar og víglínurnar sem þær skapa. Annar hópurinn vill leggja kerfið gjörsamlega niður og hinn hópurinn vill engar breytingar.
Þegar þú ritaðir þessa grein Halldór, varstu ekki einmitt að vonast eftir því að fá málefnanleg viðbrögð.. svona eins og frá Níels Ársælssyni
Níels, er það ekki frekar lélegur málstaður að verja að hafa verið nappaður fyrir brottkast og væna svo alla aðra um slíkt hið sama, selja svo kvótann og væna þá sem keyptu um allt misjafnt.
Halldór, rökræður eru af hinu góða. Það fer hins vegar ekki hjá því að þegar frekjudallar eins og Friðrik J. Arngrímsson fer að hóta þjóðinni þá fýkur verulega í mann. Ósjálfrátt verður maður óvgæinn á móti þessu. Ég tel Friðrik mjög óheppilegan talsmann útvegsmanna. Það er frekju- og mafíubragur á málflutningi þeirra og hafi útvegurinn haft samúð hverfur hann með öllu hjá þessum málsvara. Ég efast ekki um að Friðriki hafi verið skipað að skipta um stíl í þessu. Hann a.m.k. hélt svolítið aftur af frekjunni í Kastljósi á móti Ólínu Þorvarðardóttur.
Þó að þú sért ekki beinn hagsmunagæslumaður fyrir útvegsmenn og telur þig ekki hafa hag af neinu þarna þá gæti samt einhver stuðningur læðst í kosningasjóðinn þinn. Það eru orðnir fáir Sjálfstæðismenn í toppstöðum sem ekki fá styrki í kosningabaráttu. Þú mátt ef þú vilt sverja það af þér líka.
Kvótinn er þjóðareign, útvegsmenn segjast hafa keypt hann. Þeir keyptu ránsfeng og um þetta er deilt. Ég efast ekkert um það hvar kvótinn lendir fari málin fyrir dómstóla og/eða að stjórnvöld innkalli hann. Fyrirvarinn um þjóðareignina fór ekki í fyrstu greinina um fiskveiðistjórnarlögin til að gleymast svo mikið er víst.
Nýliðun í greininni er engin og tilflutningar fiskveiðiheimilda frá sumum byggðarlögum er grátlegur. Rótgróin sjávarpláss sem mega ekki veiða. Hvað er mikið sorglegra?
Ég er einn þeirra sem tel mástaðinn hjá LÍÚ vondan ekki síst í ljósi þess að kvótaveðsetningar hjá bönkum voru til að fara í útrás í óskyldum greinum. Það er líka stór hluti skulda sjávarútvegsfyrirtækja, þeirra eigin ævintýramennska í gróðahyggjunni. Magnús í Vestmannaeyjum er eitt vænt dæmi um það.
Spillingin á Íslandi er inn um allt og út um allt. Sóðarnir eru ganga ennþá lausir, kúlulánafólkið stýrir ennþá bönkunum að mestu og stjórnmálamennirnir, vinir þeirra, eru flestir í valdastöðum mikið til samábyrgir a.m.k. í fjórflokknum sem hefur stjórnað öllu síðustu ár.
Þarf ekki eitthvað að fara að taka til piltar?
Flest af því sem þú segir Haukur í þinni grein er ekki rétt. Útgerðarmenn, ekki frekar en aðrir, geta lesið það sem stendur í stjórnarskránni, að auðlindirnar séu sameign þjóðarinnar. Hins vegar hafa þeir sem hefur keypt sér aðgang að nýtingarrétti í sjávarútveginum getað treyst því að þeir geti stundað sína vinnu án þess að popúlistar á borð við Ólínu Þorvarðar og fleiri geti slegið sig til riddara með því að hræra og rugla í þessu kerfi.
Það er öllum til hagsbóta að veiðum, vinnslu og sölumálum sé hagað á eins skynsamlegan hátt og kostur er, þannig að arðsemi verði að veiðunum. Það er ekki hagur eins eða neins að veitt sé með tapi, líkt og þegar t.d. ríkið var að reka Bæjarútgerðir með stórtapi.
LÍÚ eru hagsmunasamtök fyrir útgerðamenn, ef Friðrik J. Arngrímsson væri ekki að gæta hagsmuna sinna manna, þá væri hann ekki að vinna sína vinnu. Ef t.d. samninganefndin vegna Icesave hefði staðið jafn þétt með málstað Íslendinga og Friðrik gerir með sínu fólki, þá væri hér öðruvísi umhorfs.
Ég ætla að bregðast aðeins við því sem Haukur Nikulásson skrifar. Bara til að ítreka það sem ég sagði í færslunni að ég hef enga persónulega hagsmuni heldur er að hugsa um hagsmuni samfélagsins.
Ég hef aldrei fengið krónu frá öðrum í kosningasjóð. Bara að það sé á hreinu.
Hitt varðar nýliðun. Það er misskilningur að það sé ekki nýliðun. Hún er nefnilega ótrúlega mikil sé miðað við hversu mikið hefur verið dregið úr veiðum.
Ég tek það einmitt fram í færslunni minni að mörg fyrirtæki hér á mínu svæði séu nýliðar. Hafi verið stofnuð eftir að kvótakerfið var sett á af Alþingi.
Eiríkur.
Ég bað þig um vinalegar samræður í haust og að ég fengi að koma með nokkra félaga mína með mér.
Það eru liðnir margir mánuðir síðan en þú hefur ekki svarað mér enn.
En nú eru allir komnir með spjótin og axinar á loft með ófyrirséðum afleiðingum.
Jói, þú kemur reyndar að kjarna málsins. Þeir sem keyptu kvóta, eða nýtingarrrétt eins og þú kallar það, máttu vita að þeir voru ekki að kaupa varanlegar eignir, það hefur alltaf verið vitað og mér er sama hversu brjálaðir menn vilja verða þegar þetta er tekið af þá breytir það ekki staðreyndinni. Það er verið að reyna telja þjóðinni trú um það að úthlutaður kvóti hafi breyst í varanlega eign af því að þessu hefur verið úthlutað ár er eftir ár.
Það er líka ljóst eins og hefur verið bent á að 450 þúsund tonna kvóti er orðinn 150 þúsund tonn. Af hverju höfða útvegsmenn ekki mál á hendur ríkinu fyrir að taka af þeim 2/3 hluta kvótans? Það er vegna þess að þeir vita nákvæmlega það að þetta er „úthlutun“ en ekki „eign“. Tvöfeldni útvegsmanna endurspeglast þarna. Þegar það hentar umræðunni er kvótinn ýmist „úthlutun“ eða „varanlegur nýtingarréttur“. Þetta er villandi umræða sem miðar að því að útvegsmenn eru að reyna að tala þjóðina í að samþykkja áróðurinn með því að segja þetta nógu oft. Við erum sum að sjá í gegnum þetta.
Halldór, ég hef engar sérstakar ástæður til að rengja þig eða gera persónu þína tortryggilega sérstaklega. Eins og þú veist þá hafa topparnir í pólitíkinni þegið tugmilljóna styrki í kosningasjóði og hafa þeir stærstu komið frá fyrirtækjum sem eru að kaupa sér velvild stjórnmálamanna. Því miður mun tortryggni kjósenda gagnvart stjórnmálamönnum vara um talsvert ókomna tíð sökum þeirrar spillingar sem vaðið hefur um allt.
Það virðist gleymast í umræðunni að þó að kvóti verði um síðir boðinn út (eins og eðlilegt er að gera) þá hafa þeir sem eiga atvinnutækin alltaf forskot, aðrir þurfa að kaupa eða leigja skip til veiða.
Ef við líkjum þessu saman við aðrar greinar að þá er þetta svipuð krafa og að Ístak og ÍAV ætti verktökukvóta sem ekki mætti taka af þeim, þeir hefðu unnið sér inni nýtingarrétt á stórum hluta verktöku í landinu. Úps! – Þetta eru fyrirtækin sem ég tel að þurfi að gera sérstaka rannsókn á vegna spillingarmála…
Vegna hrunsins þarf að taka til í þessu samfélaginu og hefði reyndar þurft löngu áður. Ég er ekki viss um að þetta verði að öllu leyti slæmir tímar sem fara í hönd þó að við séum rétt að byrja erfiðaleikatímabil. Ég er nefnilega að vona að þetta verði upphaf að betra almennu siðferði og samkennd meðal landsmanna. Til Þess að svo verði þarf að gera upp glæpamálin og það er ekki boðlegt að enginn sé kominn í grjótið einu og hálfu ári eftir að fjársóðasvikin urðu flestum ljós.
Ekki gleyma ástandinu á Íslandi á árunum 1980-1990, þegar um gríðarlega offjárfestingu var að ræða. Þetta var á þeim tíma þar sem „togara í hverja höfn“ slagorðið var mjög vinsælt.
Með því að bjóða út kvótann, er ekkert öruggt að fjárfestingin, sem er oft afskrifuð á 20-30 árum skili sér ef kvóti er boðinn út með reglulegu millibili, kannski 3-5 ára millibili. Það væri ekki mjög hagkvæmt að margir færu að fjárfesta í skipum, veiðarfærum og öðrum dýrum búnaði, sem þeir sætu síðan uppi með aðgerðalausir eftir að aðrir, hugsanlegir flokksgæðingar hafi fengið kvóta í forvali hjá ríkinu.
450 þús. tonna kvóti er ekki orðinn að 150 þús tonnum. Þú ættir heldur að tala í þorskígildum. Síðan við veiddum nær eingöngu bolfisk og 400 þús tonn, og yfir í það sem við gerum í dag, að veiða mikið af uppsjávarfisk og öðrum tegundum. Síðan þúrfa menn líka að spyrja sig um framleiðni, þ.e. hvað eru menn að ná miklum verðmætum út úr hverju veiddu tonni, líklega er framleiðnin af því sem við veiðum í dag mun meiri en það sem við veiddum fyrir nokkrum áratugum síðan, sem betur fer. Margir vilja þakka það kvótakerfinu.
Útgerðarmenn hafa þetta á hreinu, fiskurinn í sjónum, eins og aðrar auðlindir eru þjóðareign, en við höfum kosið að láta auðlindirnar í hendurnar á þeim sem eru best til þess fallnir að nýta auðlindirnar, með minnstum tilkostnaði og ná góðri framleiðni. Þetta á ekki bara við um útgerðarmenn. Bændur fá að nýta afrétti. Flugfélög og ferðaþjónustufyrirtæki fá tekjur fyrir að sína Gullfoss, Geysi og aðrar auðlindir sem náttúruperlur eru.
Það er svo önnur spurning, ef taka á kvótann og leiga hann út til hæstbjóðanda, hvort ríkið eigi ekki að setja hlið að gullfossi og geysi, og bjóða hæstbjóðanda að nýta þá auðlind? þá gætu kynnnisferðir og aðrir bara boðið í hvern farþega sem fer Gullfoss – Geysis hringinn. Það verður að fara vel yfir hvað séu auðlindir.
Líklega eru auðlindir ekki auðlindir fyrr en þær skila einhverjum auð? Er kolmunni syndandi í hafinu kringum landið einhver auðlind ef hann er ekki veiddur og unnin, heldur syndir bara og étur fæðu sem loðna eða síld hefði annars étið? Er þá ekki hægt að segja að útgerðin sé að losa okkur við plágu með því að losa okkur við kolmunna?
Bæjarútgerð Reykjavíkur veiddi gríðarlegt magn af fiski, en það þurfti að borga með þeim rekstri, varla telst það auðlind að borgarbúar borgi með einhverjum rekstri? Það er frekar byrði en auðlind?
Svona hlutum þurfa menn að velta fyrir sér, en að heyra þingmann á borð við Ólínu Þorvarardðottur í gær tala um að ef einhver geri þetta eða hitt, þá verði kvótinn bara tekinn af mönnum, það er nöturlegt að heyra. Minnir helst á alþingi þegar það setur lög á sjómenn hvert skipti sem þeir voga sér að fara í verkfall, þá eru þeir reknir eins og rakkar á haf út, ekki er Ólína Þorvarðardóttir og co á alþingi mikið að velta hag aðila í sjávarútvegi fyrir sér?
21. joi ritar:
15. janúar, 2010 kl 10:28
Þetta eru svo sem altílagi söguskýringar hjá þér en þú dregur kolrangar ályktanir út frá þeim.
Jói, ég get upplýst þig að kolmunni fær fljótlega mun mikilvægara hlutverk og verður þá okkur mun verðmætari. Sem betur fer eru rannsóknir í gangi sem munu færa okkur betri nýtingu sumra tegunda sem hingað til hafa verið forsmáðar í gúanó.
Jói, ég gleymdi að nefna að „nöturlegu“ hótanirnar byrjuðu hjá Friðriki. Ólína er bara svara með sama hætti og við hin sem urðum foxill við ummælin hans og frekjutón.