Haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða, Coastal and Marine Management at the University Centre of the Westfjords.
Nei þetta er ekki þátturinn Silfur Egils ótextaður á nokkrum tungumálum. Hér er ég að skrifa um stórmerkilega starfsemi Háskólaseturs Vestfjarða sem á nokkrum árum hefur sannað mikilvægi sitt undir styrkri stjórn Peters Weiss. Ég er virkilega stoltur af því að hafa lengi barist fyrir stofnun og síðar tilvist Háskólaseturs Vestfjarða. Alltof margir höfðu ekki trú á slíku og vildu eitthvað annað, án þess að útskýra hvað það ætti að vera, en það er frábært að sjá Háskólasetrið styrkjast með hverju verkefninu.
Í dag var ég ásamt mörgum öðrum viðstaddur kynningu útskriftarnemans Gísla H. Halldórssonar á meistaraprófsverkefni sínu. Glærurnar voru á ensku en kynningin á íslensku (svolítið eins og Silfur Egils) en námið fer allt fram á ensku við Háskólasetur Vestfjarða enda koma flestir nemarnir erlendis frá.
Þetta var áhugaverð kynning en Gísli fjallar um strandveiðarnar sl. sumar í verkefni sínu. Um ágæti þeirra veiða eru vitanlega skiptar skoðanir en það er mikilvægt að geta fjallað um það með þeim hætti sem gert var á kynningu hans í dag.
Umfjöllunin í dag voru rökræður og vangaveltur. Ég sjálfur er ekki sammála nálægt því öllu sem þar kom fram en hafði ákaflega gaman af kynningunni og umræðunum. Þetta voru nefnilega málefnalegar umræður sem hljóta alltaf að skila okkur fram á við – öfugt við skítkast sem því miður tíðkast alltof oft og færir okkur aftur á bak. (En þetta hef ég svo sem sagt áður)
Rita ummæli
Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.