Föstudagur 26.02.2010 - 18:29 - 11 ummæli

ESB og sjávarútvegsmálin

Ég hef um langa hríð verið hlynntur því að íslenska þjóðin færi í aðildarviðræður við Evrópusambandið, þar væri látið reyna á það hvernig samning þjóðin gæti fengið og kosið svo um þá niðurstöðu. Um þetta hef ég skrifað greinar og það löngu fyrir bankahrunið. Hrunið hafði sem sagt ekki þau áhrif að ég væri hlynntur aðilarviðræðum um tíma, væri svo á móti þeim og svo aftur hlynntur þeim og svo aftur á móti þeim. (Eru sveiflurnar ekki einhvern veginn svona?)

Nei ég hef verið hlynntur aðildarviðræðum og hugsanlega inngöngu í ESB ef samningur um slíkt fellur að hagsmunum þjóðarinnar og það á hún sjálf að meta. Þar mun sjávarútvegurinn og landbúnaðurinn ráða mestu.

Sjávarútvegurinn er okkar stóri undirstöðuatvinnuvegur. Innan ESB er hann ákaflega lágt hlutfall af verðmætasköpun. Á þeim forsendum hafa margir haldið því fram að Ísland gæti haft töluverð áhrif á sjávarútvegsstefnu ESB. Ekki með atkvæðamagni því það verður ekki nema brot af heildaratkvæðum, heldur með vinnu að málum í undirbúningsferli áður en þau fara í atkvæðagreiðslu.

Utanríkisráðherra hefur sagt að ESB telji sjávarútveginum vel stjórnað á Íslandi. Það vel að til fyrirmyndar geti orðið í ESB.

Ef þetta er rétt hvers vegna stefnir ríkisstjórnin þá að því að gjörbreyta þessu íslenska sjávarútvegskerfi sem það segir úti í Brussel að sé til fyrirmyndar? Segir okkur hér heima að þau í Brussel segi kerfið til fyrirmyndar. En segja við okkur Íslendinga þegar ekki er talað um ESB í sömu andránni að þessu kerfi verði að breyta. Það verði að stokka upp frá A-Ö.

Ekki sannfærandi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (11)

 • Nei, Samfylkingin er hvorki sannfærandi í sjávarútvegsmálum né Evrópumálum. Ef Samfylkingin væri ,,sannur“ ESB-flokkur kæmi einhver hugsjónapólitískur rökstuðningur fyrir aðild. Ef Samfylkingin væri alvöru íslenskur stjórnmálaflokkur kæmi fram einhver framtíðarsýn um Ísland.
  Hvorugt er tilfellið.

 • Gunnar Tryggvason

  Þú getur verið viss um að ESB er ekki að hæla gjafakvótakerfinu – heldur aflamarkinu. Þeir reyndu það sjálfir gjafakvótakerfi í úthlutun losunarheimilda gróðurhúsalofttegunda og hafa nú horfið frá því (100% fyrning) af sömu ástæðu og við hyggjumst gera í fiskinum. Eins og þú veist vel stendur ekki til að hrófla við kvótakerfinu hér heldur aðeins úthlutuninni og láta hana vera á markaðslegum forsendum í framtíðinni – en eins og þú veist er markaðurinn mun hærari til að ákveða réttlát verð gæða en stjórnmálamenn. Það veit ESB og við líka.

  Ísland í ESB.

 • Sigurður Gunnarsson

  Einnig ber að benda á að í upphafi var sagt að ekki væri hægt að bera hvað sem er á borð fyrir okkur íslendinga (hér er eitt dæmi:http://eyjan.is/blog/2009/07/23/ossur-um-esb-vidraedur-islenska-thjodin-mun-reidast-ef-hun-faer-rotin-fiskveidisamning-myndband/)

  Myndbandið er svo hér:
  http://www.se2009.eu/sv/moten_nyheter/2009/7/23/en_resa_borjar_for_island_och_eu_23_juli

  En nú er ESB varla búið að opna á sér munnin þegar samfylkingin hleypur í fjölmiðla og lýsir yfir að nú þurfi að gerbylta íslenskum sjávarútvegi til að þóknast ESB (http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4498204/2010/02/25/4/). Þessi ríkisstjórn mun aldrei tala máli okkar íslendinga á alþjóðavettvangi. Það hefur hún margsannað. Hún reynir að lemja okkur íslendinga niður á hnén til að beygja okkur fyrir erlendu valdi. Samþykkir afarkosti, leynir gögnum og lýgur að þjóð sinni.

 • Jónas Bjarnason

  Sæll vertu Halldór. Ég er sammála Gunnari hér að ofan hvað varðar fyrstu setninguna. Þeir í ESB eru að hrósa stöðu fiskstofna eða bara fiskmagni, sem þeir sjá í tölum. Þeim finnst það harla gott, en þeir eru ekki að hrósa kvótakerfinu. Það hvílir nú á mismunun í úthlutun veiðiheimilda. Það ríkir misrétti hvað varðar aðgang að heimildunum og það munu þeir aldrei samþykkja. Þú veist, að Mannréttindanefnd SÞ hefur dæmt í málunum og hveðið upp úr með það, að misrétti og ósanngirni ríki í aðferðum okkar og mannréttindi séu brotin á íslenskum sjómönnum (þeim, sem eru ekki á kvótaskipum). Það er enginn vandi að búa svo um hnútana, að jafnrétti ríki meðal allra, sem hafa veiðileyfi. Á endanum verður alltaf takmörkun í aðgangi, en hann verður að gerast í jafnrétti. Það er einn af grunnpóstum ESB, að mannréttindi séu virt. Þetta sem Össur er að segja er bara einhver munnfroða.

 • MargrétJ

  Þó ESB telji sjávarútveginum vel stjórnað er ekki þar með sagt að það sé rétt. Það er EKKI allt rétt sem kemur frá útlöndum. Þeir hafa td., ekki grænan grun um hvernig fiskurinn var gefinn fáum útvöldum. Vissu þeir það kæmi nú annað hljóð í mannskapinn.

 • Halldór Halldórsson

  Fiskurinn gefinn fáum útvöldum? Ég hef heyrt þessa fullyrðingu áður en hún er ekki rétt. Veiðirétti var úthlutað miðað við veiðireynslu. Ég hef meira að segja séð nýlegar tillögur sem ganga út á að úthluta þannig aftur.

  Flestir sem starfa í sjávarútvegi, eins og margoft hefur verið sýnt fram á, hafa keypt aðgang að auðlindinni með því að kaupa veiðiheimildir.

 • Guðbjörn Guðbjörnsson

  Halldór Halldórsson:

  Það var gaman að sjá þennan pistil eftir þig, því ég vissi ekki að þú styddir aðildarviðræðum og þyrðir meira að segja að lýsa því yfir!

  Getur þú úskýrt fyrir mér hvað flokkurinn ætlar að gera ef hann kemst í ríkisstjórn? Ætlar hann að draga aðildarumsóknina til baka eða bíða niðurstöðu viðræðnanna? Hvað ætlar hann að gera ef samningurinn er góður – kúvenda?

  Með orðalagi síðustu ályktunar Sjálfstæðisflokksins í Evrópumálum kom flokkurinn sér í bannsetta klípu. Kúvending í þessu máli myndi gera formanninn og nær alla þingmenn flokksins afskaplega ótrúverðuga, þ.e.a.s. alla nema Ragnheiði Ríkharðsdóttur og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttir. Aðrir þingmenn geta ekki étið ofan í sig sínar stóru fullyrðingar!

 • Jóhannes

  Núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi hefur, þrátt fyrir alla sína galla, skilað afgerandi betri árangri en fiskvæðistjórnun ESB. Þetta á bæði við um verndun fiskistofna og einnig sjálfbærni og arðsemi í atvinnugreininni. Þetta vita embættismenn ESB vel eins og oft hefur komið fram.

  Hinsvegar er núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi ekki fullkomið. Mest er ósættið um upphaflegar úthlutunarreglur án endurgjalds, gjafakvótinn svonefndi, ekki síst de facto eignarréttur á úthlutaðri aflahlutdeild. Engar greiðslur hafa komið með beinum eða óbeinum hætti fyrir nýtingu auðlindarinnar sjálfrar í formi auðlindarentu eða með öðrum hætti. Fremur má segja að skattaafsláttur sjómanna hafi verið niðurgreiðslur til greinarinnar umfram aðrar atvinnugreinar og að því leyti „ESB bragur“ á stefnu stjórnvalda.

  Núverandi kerfi þarf að endurskoða, ekki síst til að sátt verði um afgjald þjóðarinnar af auðlindinni og að sjálfsögðu að kerfið sé sem réttlátast gagnvart öllum hagsmunaaðilum. Slík endurskoðun hlýtur að taka tillit til allra helstu styrkleika og kosta kerfisins, sem ESB hefur horft á sem fyrirmynd, en jafnframt ná sátt um að draga úr göllunum.

  Því miður er „fyrningaleið“ ríkisstjórnarinnar ekki sá faglegi farvegur sem endurskoðunin þarf að fara í. „Fyrningaleiðin“ er því miður algerlega óútfært lýðskrum sem stjórnmálamenn settu fram í kosningastefnum sínum og höfðu það að markmiði að laða að fylgi þeirra sem óánægðir eru með núverandi kerfi. Helsti málsvari leiðarinnar í fjölmiðlum hefur nú viðurkennt að ekki liggi fyrir neinir útreikningar eða útfærslur á þessari leið.

  Núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi þarf að endurskoða, óháð viðræðum við ESB. Hinsvegar myndi það geta styrkt verulega stöðu Íslands í viðræðunum ef endurskoðunin fer fram á faglegum grunni. Núverandi vinnubrögð veikja hinsvegar trúverðugleika Íslands í samningaviðræðunum.

 • Halldór Halldórsson

  Ég þakka fyrir umræðurnar hérna. Ég tjái mig reyndar ekki daglega um ESB málin en af og til þó. Mitt nafn var undir auglýsingu um stofnfund Sjálfstæðra Evrópumanna og ég er þar í stjórn. Þá á ég einnig sæti í einni af undirnefndunum vegna ESB samninganna. Það er nefndin sem fjallar um byggða- og sveitarstjórnarmálin.

  Mér finnst nefnilega mikilvægt að við Sjálfstæðismenn leggjum okkar lóð á vogarskálarnar í aðildarferlinu. Meðan á ferlinu stendur eigum við að gera allt sem við getum til að vanda til verka og koma með þær áherslur sem við teljum að verði að koma inn í viðræðurnar. Við eigum ekki að standa hjá og láta Samfylkinguna um þetta.

  Svo þegar fyrir liggur hvað kemur út úr viðræðunum, þegar við sjáum hvaða samning við getum fengið þá getum við tekið afstöðu til þess hvort við segjum já eða nei í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég er ekki tilbúinn að leggjast í einhverjar skotgrafir hvað það varðar fyrirfram.

  Ég get ekki sagt hvað flokkurinn gerir ef hann kemst í ríkisstjórn. Mér finnst að það eigi að klára það verkefni sem Alþingi samþykkti að fara í. Þ.e. aðildarviðræður. Þjóðin á rétt á því og mun ákveða niðurstöðuna að lokum.

  Það má ýmislegt segja um niðurstöðu síðasta landsfundar í Evrópumálunum. Það var samt lýðræðisleg niðurstaða og maður sættir sig auðvitað við hana. Ég var ánægður með að tillaga um að leggjast alfarið gegn aðildarviðræðum var felld.

 • Mér sýnist nú á öllu að sjálfstæðismenn séu búnir að mála sig úti í horni í umræðunni um gjafakvótakerfið og ESB. Amk afhennti Gunnar Þórðarson Samfylkingunni hin fullkomnu rök fyrir fyrnigarleiðinni með grein sinni í BB á föstudag. http://www.bb.is/Pages/82?NewsID=145074
  „Spánverjar munu hafa sama rétt og Grímseyingar til að bjóða í aflann. Spænski togarinn Monte Galineiro gæti því boðið í kvóta ríkisins, veitt aflann og landað honum í heimahöfn í Bilbao. Ekki ein króna skilaði sér til Íslensku þjóðarinnar.“
  Hið rétta er að með núverandi kerfi mun ekki ein króna skila sér í ríkiskassan, með þessari leigu til spánverjanna, en með úthlutun ríkisins gegn gjaldi mun þó alltaf skila sér inn leigugjaldið !!

 • Atli Hermannsson

  Sæll Halldór, ég hnaut um þessa setningu hjá þér.

  „Flestir sem starfa í sjávarútvegi, eins og margoft hefur verið sýnt fram á, hafa keypt aðgang að auðlindinni með því að kaupa veiðiheimildir.“

  Við þetta vil ég gera athugasemd sem mér finnst skipta gríðarlega miklu máli.
  En því er stöðugt haldið að fólki að yfir 80% af aflaheimildunum hafi skipt um hendur og núverandi handhafar hafi “keypt” kvótann. Því verði að bæta þeim með einhverjum hætti skerðinguna ef t.d. fyrning kæmi til eins og stjórnarflokkarnir boða. Ég vil hins vegar benda á; að á löngu árabili eftir að framsalskerfið kom til sögunnar árið 1990, afskrifuðu allar stærstu útgerðirnar kvótakaupin hjá sér um 20% á ári – afskrifuðu á fimm árum. Þá lækkaði sú tala í 15% árið 1995. Þannig afskrifaði stórútgerðin öll kvótakaup til ársins 2003 og kom sér þannig hjá því að borga skatta. Eftir 2003 var skattareglunum breytt og ekki lengur hægt að draga kvótakaupin frá skatti. Því má með réttu segja að stórútgerðin hafi í raun aldrei greitt eina einustu krónu fyrir eitt einasta tonn sem LÍÚ þrástaglast á að hafi skipt um hendur og keypt dýrum dómum.

  Haddi,er þetta ekki rétt hjá mér? Getur maður átt eitthvað sem maður er búinn að afskrifa?

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur