Mánudagur 01.03.2010 - 21:29 - 31 ummæli

Breytingar í sjávarútvegi

Mín tilfinning er að flestir sem setja inn athugasemdir við greinar mínar um sjávarútveg, nú eða greinar annarra þar sem reynt er að útskýra stöðu atvinnugreinarinnar og mikilvægi, haldi að sjávarútvegur hafi ekkert breyst á undanförnum árum. Ég varð vitni að heilum þætti í sjónvarpinu um daginn þar sem tveir þingmenn töluðu um sjávarútveginn og vitnuðu til gamalla tíma þegar allir voru að vinna í sjávarútvegi og nóg var fyrir alla að gera eins og þau orðuðu það.

Þau gleymdu reyndar að við erum að veiða rétt um 1/3 af því sem veitt var á þeirra viðmiðunartíma. Þetta er algengt í umræðunni og líka að fólk virðist ekki gera sér grein fyrir tækniundrunum í sjávarútvegi, bæði veiðum og vinnslu sem hafa orðið til þess að fækka störfum umtalsvert. Á löngu tímabili virtist ekki veita af því erfitt reyndist að fá fólk til starfa nema erlendis frá. Aðalástæðan er hins vegar sú að tækninýjungar gera okkur samkeppnishæfari. Okkar sjávarútvegur er að keppa við ríkisstyrktan sjávarútveg og þarf að standa sig á mörkuðum erlendis og um leið að standa undir lífsgæðum íslensku þjóðarinnar.

Á fundi Viðskiptaráðs um daginn var Þorsteinn Pálsson fv. ritstjóri með meiru spurður um afstöðu til fyrningar aflaheimilda í sjávarútvegi, svokallaðari fyrningarleið, og svaraði Þorsteinn Pálsson „Þar er verið að hverfa frá markaðslausnum í stjórn sjávarútvegs yfir í félagslegar lausnir“. Þetta þýðir minni framleiðni fyrir eigendur auðlindarinnar og þarf því almenningur að greiða fyrir það með hærri sköttum. 

Svo mörg voru þau orð. Ég hef heyrt að þarna hafi Þorsteinn verið að tala um útgerðarmenn sem eigendur auðlindarinnar. Það held ég að geti ekki verið vegna þess að eigandi auðlindarinnar er íslenska þjóðin og það veit Þorsteinn Pálsson jafnvel og við hin. Margir sem athugasemdirnar færa á hinum ýmsu bloggsíðum halda því fram að útgerðarmenn segist eiga auðlindina. Ekki hef ég heyrt þá segja það heldur að þeir hafi lagt í mikinn kostnað til að fá afnotarétt af auðlindinni. Rentuna fær þjóðin svo í formi atvinnu við sjávarútveginn, vegna tengdra þjónustugreina, ýmiss konar afleiddra starfa og í formi skatta.

Ekki veit ég hvort það þýðir eitthvað að skrifa um þetta á þeim nótum sem ég geri. Áfram skal þó reynt vegna þess að ég hef miklar áhyggjur af áformum ríkisstjórnarinnar um fyrningarleiðina. Við hér fyrir vestan höfum orðið fyrir barðinu á kerfisbreytingum í sjávarútvegi áður. Forverar núverandi stjórnarflokka settu t.d. framsalið á í kringum 1990 og nú ætla þeir að stað með enn eina kerfisbreytinguna. Það mun að mínu mati vinna gegn okkar hagsmunum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (31)

 • Þetta er náttúrulega kjarni málsins en andstæðingar núverandi kerfins, eins og hún Ólína, kollegi þinn að vestan, hafa bitið það í sig að eina leiðin til umbóta sé fyrningarleiðin. Þetta fólk virðist ekki hlusta á nein rök, og raunar er það svo að um leið og einhver reynir að verja kerfið er alltaf samstundis farið að tala um „grátkór LÍÚ“. Þetta er auðvitað óþolandi aðstæður til að búa við en það þýðir ekkert að missa móðinn þó svo að fyrningarleiðarmenn haldi áfram að þráast við og berja höfðinu við steininn.

 • Jóhannes Laxdal

  Er það þjóðhagslega hagkvæmt að láta flakafrystitogara veiða hér á landgrunninu verðmætasta fiskinn og hirða bara 35% af innvigtuðum afla? Þetta er nefnilega aðalástæða þess að landvinnslan er á hröðu undanhaldi og verkþekking sem tengist útgerð og verkun fisks af minni bátum er að glatast víða útum land.

 • Staðan í íslenskum sjávarútvegi er nú ekki alltof góð, ég held að það sé nú óhætt að vera sammála um það.
  Mörg félög íhópi stærstu sjávarútvegsfélaga hér á landi eru gríðarlega skuldsett en á sama tíma sjá stjórnendur þeirra Cash flow sem ekki hefur sést áður.
  Skuldsetningin auk óuppgerðra gjaldmiðlasamninga og mikils bókfærðs taps gerir það að verkum að stór hluti þessarra félaga mun ekki greiða skatta árum saman.
  Þá er ég kominn að kjarna málsins sem er sá hvort að þjóðin er ánægð með það að tekjur hennar af helstu auðlind þjóðarinnar verði af manninum á saltskóflunni í salthúsi félaganna?
  Ætlum við þjóðinni ekki meiri tekjur af auðlindinni?

  Ég skil það sem svo að þetta séu þín orð Halldór, „Rentuna fær þjóðin svo í formi atvinnu við sjávarútveginn, vegna tengdra þjónustugreina, ýmiss konar afleiddra starfa og í formi skatta.“

  Ef þetta er þín orð þá verð ég nú að leyfa mér að spyrja hvort að þú teljir það að ef eigendur yfirskuldsettra félaga verði ekki lengur í eigendahópnum þá verð tæplega veiddur og unninn fiskur hér á landi framar?
  Miðað við þessa setningu þína þá virðistu gleyma að veiðar og vinnsla eru partur af virðiskeðju sem ekki verður sterkari en veikasti hlekkur hennar.

  Í dag fær þjóðin tekjur í formi tekjuskatta einstaklinga thats it
  Fiskur verður ekki veiddur og unninn án þess að virðiskeðjan sé óbrostin og tekjur þjóðarinnar af öðrum þáttum virðiskeðjunnar verða til hvort sem að eigendur yfirskuldsettra sjávarútvegsfélaga verð áfram í eigendahópi félaganna eða ekki.

 • Tómas Þór

  Langaði aðeins að koma inn á það sem Páll er að segja hér fyrir ofan. Þú heldur því fram að sjávarútvegsfyrirtækin mun ekki borga skatt á komandi misserum. Hvað með skatt af launum þess starfsfólks sem það er með í vinnu. Laun sjómanna hafa hækkað mikið enda eru þau tengd þeim gjaldeyrir sem tekjurnar eru í.
  Annað sem þú kemur inn á með eigendahópinn. Tel mjög líklegt að eitthvað af fyrirtækjum muna fara í gjaldþrot eða skipta um eigendur í gegnum bankanna þar sem fyrirtækin geta ekki staðið við sínar skuldbindingar. Tökum sem dæmi bankann sem er 81% í eigu ríksins og ríkið hefur lagt inn í c.a. 120 milljarða. þeir eru með útlán til sjávarútvegs í nýja Landsbankanum upp á c.a. 170 milljarða. (þetta eru hrein útlán sem væntanlega er búið að afskrifa af hærri tölu á milli gamla og nýja bankans) Samkvæmt kynningu Ásmunds bankastjóra þá er 73% sjávarútvegsfyrirtækja hjá Nýja Landsbankanum í lagi og mun borga sína skuldir. Þessi þá 27% þurfa væntanlega að skipta um eigendur eða núverandi eigendur þurfa að koma með nýtt hlutafé inn til að greiða niður skuldir.
  Aðilar inn í sjávarútvegnum hafa ekki verið að segja að ef eigandaskipti á fyrirtækjunum verður þá mun enginn veiða fiskinn. Heldur muna núverandi fyrirtæki fara öll í þrot samkvæmt útreikningi Deloitte. Ef tekinn er í burtu tekjustofn fyrirtækis þá fara fyrirtæki í þrot og geta ekki staðið við sínar skuldbindingar. Hvaða áhrif hefði það á landsbyggðina, fyrirtæki sem þjónusta sjávarútvegsfyrirtækin, starfsmenn, bankanna, þjóðina, sölustarfið og orðsporið gagnvart erlendum ríkjum.
  Þessi fyrningarleið er vanhugsuð leið sem barin var í gegn á flokksþingi hjá Samfylkingunni án þess að hugsa hana til enda.

 • Halldór Halldórsson

  Ég þakka umræðuna. Tómas Þór útskýrði þetta það vel að ég hef nánast engu við þetta að bæta. Hann segir líka réttilega að fyrningarleiðin hafi verið barin í gegn á flokksþingi/aðalfundi Samfylkingarinnar án þess að hún hafi verið hugsuð til enda. Það kemur skýrt fram í myndbandi frá þessum aðalfundi að það stóð ekki til að ræða þetta mál á landsfundinum en einhverjir fulltrúar skrifuðu tillögu á munnþurku inni í auðlindanefnd sem var að fjalla um aðra hluti en sjávarútveginn.

  Það kemur auðvitað betur út fyrir þjóðina að fyrirtækin lifi og greiði sínar skuldir og skatta en að þau verði kyrkt með fyrningarleið. Skuldirnar hverfa ekkert við það. Óhagkvæmnin eykst bara.

 • Páll virðist sneiða framhjá því að tala um þann kostnað sem óhjákvæmilega fylgir þessari uppstokkun sem ríkisstjórnin boðar. Fyrningarleiðin mun leiða til þess að fleiri skip verða dregin á flot með auknu viðhald og olíukostnaði, fjárfestingarnar verða vannýttar því ekki verður veiðin aukin, ríkið ætlar að draga til sín allt fjármagn úr greininni sem leiðir til þess að greinin staðnar og missir samkeppnisforskot sitt og hnignar. Þar fara gríðarleg verðmæti forgörðum í óhagkvæmni.

  Þessir kallar sem hve mest berjast fyrir fyrningaleiðinni eru enn staddir á árabilinu 1984-1994. Það hentar ekki þeirra málflutningi að tala um útgerðina síðan 2000, nema ef þeir vilja tala um skuldastöðuna.. en þá er hún aldrei borin saman við aðrar atvinnugreinar á sama tíma eða talað um alla þá úreldingu sem greinin hefur þurft að taka á sig til að hagræða.

 • margir talsmenn fyrningarleiðarinnar vilja fjölga störfum í sjávarútvegi. það er gott og blessað. en mun einhver vilja vinna við þessi störf? fleiri störf með núverandi aflamagn þýðir að þau verða verr borguð. áhuginn á störfum í sjávarútvegi hefur ekki verið það mikill að við meigum við því að gera sjómennsku að meðallauna eða jafnvel láglaunastarfi.

  og svona í tengslum við þetta. ef við eigum að hverfa frá tæknivæðingu í sjávarútvegi yfir í að handbeita allt og helst nota sem minnsta tækni, afhverju þá ekki að hætta að nota vinnuvélar? hversu margir gætu fengið vinnu við að moka skurð ef við hættum að nota gröfur? þetta er alveg jafn gáfulegt.

 • Sæll Halldór

  Þú segir:

  „Margir sem athugasemdirnar færa á hinum ýmsu bloggsíðum halda því fram að útgerðarmenn segist eiga auðlindina. Ekki hef ég heyrt þá segja það heldur að þeir hafi lagt í mikinn kostnað til að fá afnotarétt af auðlindinni.“

  Ef sett eru orðinn „LÍÚ og eignarréttur“ í google leitarvélina kemur fyrst fram álitsgerð unninn af Dr.Guðrúnu Gauksdóttur hjá Rannsóknarstofnun í Auðlindarrétti. álitsgerðin kallast „Eru aflaheimildir “eign” í skilningi 72. gr. stjskr.?“

  Það stutt frá því að segja að niðurstaða hennar er JÁ. Þar skiptir dómur ríkisins á móti Hrönn hf. á Ísafirði miklu máli. En þar var niðurstaðan að aflaheimildir skulu færðar til eignar en ekki teljast til rekstrarfjármuna.

  Verkefnið núna er snúa við þessum dómi.

 • Ég vil benda Sigurði, Tómasi og Halldóri pistlahöfundi á það að ég nefndi hvergi fyrningarleiðina og að ég væri fylgjandi henni eins og þið túlkið það. Mér er hulin ráðgáta hvernig þið fáið það út að ég hafi verið að fjalla um fyrningarleið.
  Ykkur til upplýsinga þá er ég alfarið á móti fyrningarleiðinni þar sem að hún mun þurrka út eignahluta efnahagsreiknings margra félaga en skilja skuldir eftir inni. Það sér það nú hver heilvita maður að það gengur ekki upp.

  Það sem ég setti fram hér að ofan er auðskilið og erfitt að tengja það við að ég mæli fyrningarleið bót.

  Tómas ég er að tala um skatta fyrirtækjanna ekki skatt einstaklinganna, renta þjóðarinnar verður að vera meiri en tekjuskattar einstaklinga að mínu mati. Það er það sem ég var að segja.

  Eftir stendur að það er ekki eðlilegt að sjávarútvegsfyrirtæki greiði ekki skatta sjálf vegna ofurskuldsetningar.
  Ef ég man rétt þá voru 50% lánasafns Landsbankans sem eru með veði í aflaheimildum lánuð til fjárfestinga í óskyldum geirum. Telja menn það eðlilegt? Eru menn sáttir við að slík skuldsetning verði til þess að rentur okkar af okkar stærstu auðlind séu af tekjuskatti fiskvinnslukonunnar.

 • Magnús, af hverju er það verkefnið?

  Útgerðarmenn hafa talað um að þeir ættu nýtingarrétt og atvinnuréttindi. Dr.Guðrún kemst þarna að annarri niðurstöðu. Ekki veit ég til þess að hún geri út. Án þess að ég ætli að fella minn dóm um hvort sé réttara þá hníga að því öll rök og lög að þeir sem hafa veiðiheimildirnar hafa ríkan rétt.

  Þeir sem nú gera út hafa lagt fjármuni sína, tíma sinn og metnað í að gera sem mest verðmæti úr þessum rétti. Rétti sem alþingi skóp, sömu flokkar og nú vilja spóla öllu til baka. Ríkisstjórnin leggur nú metnað sinn í að hafa þessi réttindi af fólki í nafni réttlætis og án þess að neitt komi í staðin. Það er skrítið réttlæti.

  En ef við viljum réttlæti… viljum við þá ekki fullt réttlæti. Viljum við þá ekki að allir þeir sem selt hafa veiðiheimildir skili andvirðinu til baka, vinda ofan af sölu aflaheimilda til þess dags sem leyfilegt var að framselja þær.

  …ég á bágt með að einhver sé tilbúinn í það því það fólk sem hve mest hefur sig í frammi um uppstokkun hefur þegar selt kvótann sinn.

  Ég tel engan veginn réttlætanlegt að þeir sem síðast keyptu veiðiheimildirnar séu látnir borga öllum hinum sem seldu en beri einir tjónið. Alþingi skóp þessi lög ekki útgerðarmenn og að gera það að vandamáli útgerðarmanna er bara pólitískur populismi.

 • Páll, það er gleðilegt að þú sjáir glapræðið í fyrningarleiðinni.

  Skuldsetning útgerðarinnar er 54% vegna kaupa á skipum og kvóta, 3% vegna yfirtöku, afleiður 15% og hlutabréf 28%.

  Þarna eru afleiður og hlutabréf 43%. Líklegast hafa menn námundað 43% upp í 50% og ákveðið að þetta séu allt fjárfestingar utan við greinina.

  Ekki kemur fram hve stór hluti af afleiðum séu til að tryggja útgerðina gegn sveiflum í gengi eða hve stór hluti hlutabréfa séu utan við greinina. Að segja að segja að þetta sé allt utan við greinina og námunda það upp í 50% er langsótt.

  Að auki má nefna að auðlindargjald er lagt á útgerðarfyrirtæki, 9,5% af framlegð. Ég held að engin önnur atvinnugrein borgi slíkt gjald. (Hagfræðistofnun HÍ hefur reyndar bent á að auðlindargjald lækkar í raun skatttekjur ríkisins af greininni).

  En ríkinu er í sjálfsvald sett að setja lög um rekstur fyrirtækja í landinu. Eina sem útgerðarmenn vilja er að slíkt sé látið yfir alla ganga í stað þess að sjávarútvegur sé alltaf dregin út fyrir sviga eins og gjarnan vill verða.

 • Tómas Þór

  Fínt að fá ábendingu en ég held hvergi fram að þú sért að tala um fyrningarleið. Heldur er ég að tala um hana og afleiðingar hennar.
  Annað fínt að þú leiðréttir þig enda sagðir þú hér fyrir ofan að þessi fyrirtæki muna ekki greiða skatta árum saman. (orðrétt). Þar tókstu ekki fram hvaða skatta en hefur leiðrétt það hér með. Enda eru þessi fyrirtæki að borga háar fjárhæðir í skatta tengdum launum starfsmanna sem þau veita atvinnu. Einnig hafa þau verið að greiða auðlindarskatt eða um 9,5% af framlegð fyrirtækja sem er mjög há um þessar mundir en miðað við framlegð þá er ekki tekið tilit til afskriftir, skuldir og fjárfestingar. Afhverju minnist þú ekki á þennan skatt?
  Skipting skuldsetningar er þannig 54% er vegna kvóta, 28% vegna hlutabréfa, 15% vegna afleiða og 3% er vegna skuldsetra yfirtaka. Þó verður að minnka þessar tölur talsvert þar sem þarna er verið að miðað við skuldir sem eru c.a. 275. milljarða ef skuldsetning sjávarútvegsfyrirtækja er í dag um 550 milljarða enda er c.a helmingur skulda fyrirtækjanna vegna fall íslensku krónunnar.
  Þó að bæði vegna fall krónunnar og fjárfestinga í óskyldum og skyldum rekstri er til staðar þá mun samkvæmt landsbankanum 73% fyrirtækjanna borga sínar skuldir að fullu! Það er alveg klárt að einhverri fóru offari í fjárfestingum. Annað hvort borga þeir það til baka eða missa fyrirtækin sín.
  Einnig er væntanlegur arður af eign ríkisins í nýja Landsbankanum vegna þess að þessi fyrirtæki eru að greiða lán sín á fullu en þau voru færð á milli á mun lægri verðum þannig mun Nýji landsbankinn væntanlega hagnast á þessum lánum sem skilar sér til hluthafa.

 • Ha ha ha.. held menn séu að notast við sömu heimildir hérna.

 • Hvernig er hægt að færa náttúruauðlindir úr bókahldi fyrirtækja með sem minnstu tjóni? Hvernig er hægt að halda bókhaldsjöfnuni í jafnvægi við skipulagsbreytingu?

  Í reiknishaldi þá er fyrningu (depletion) beitt til að færa náttúruauðlindir úr bókhaldi með skipulegum hætti. Þetta er því eðlileg leið eftir hlutarins eðli.

  Þegar hlutur sem er skilgreindur í lögum sem sameign þjóðarinnar er orðin að máli erfðarétti, þrætumáli í hjónaskilnaði, leigjutekjur braskara osfrv. Þá þarf að bregðast við.

  Einnig veðsetning óáþreifanlegra eigna ásamt því að eignir skulu metnar samkvæmt markaðsverði. Er einn höfuðsök þess vanda sem við finnum okkur í, í dag.

  Uppruni þessa vanda liggur í sjávarútvegi og hvernig hann þróaðist. En það er ekki einfalt mál að skipta takmörkuðum gæðum með sangjörnum hætti. Þess vegna verða að vera skýrar reglur.

 • bori-gor

  Óvenju málefnaleg umræða um sjávarútvegsmál hér í athugasemdum.

  Margir muna ekki eftir umræðinu um auðlindaskatt af sjávarútvegi fyrir ca. tíu árum.

  Niðurstaðan var sú að reyna ná sátt um sjávarútveginn (sem hugsanlega ekki hægt vegna hagsmuna). Nokkrar leiðir voru þar reifaðar m.a. fyrningarleið sem er ekkert annað en ákveðið form af auðlindaskatti. Galinn við þá leið að fyrirtækin væru þá skattheimt fyrir rekstur einnig er umtalsverður kostnaður við uppboð á aflaheimildum.

  Ákveðið var að fara að horfa frekar á framleg fyrirtækjana og skattleggja hann sérstaklega. Útvegsmenn (LÍÚ) voru eðlilega ekki sáttir með þennan aukaskatt sbr. http://www.liu.is/frettir/nr/93/ en féllust engu að síður á þennan skatt ef það myndi skapa sátt í samfélaginu.

  Þess ber einnig að geta að sjávarútvegur greiðir einnig ákveðið fast veiðigjald sem miðast við úthlutaðar aflaheimildir ásamt því að greiða aflagjald til sveitarfélaga sem verður til við löndum á sjávarafla.

  Þannig að það er ekki rétt að sjávarútvegurinn sé ekki að greiða neina skatta til samfélagsins. Eftir því sem framlegð og verð sjávarafurða (gæði) aukast þá aukast skattar þessarar atvinnugreinar til samfélagsins.

  Þegar frjálshyggjan stóð sem hæst þá var einnig umræða meðal ákveða útgerðarmanna að þetta væri einkaréttur. Það var m.a. rökstutt með lögfræðilegum álitsgerðum. Ég held hinsvegar að menn tali frekar um nýtingarrétt í dag. Þjóðinn á fiskinn en útgerðarmennirnir hafa nýtingarréttinn. Um þetta atriði er sátt um í dag meðal útgerðarmanna, að minnsta kosti eru raddir frjálshyggju-útgerðarmannana þagnaðar í bili.

 • Jónas Bjarnason

  Ég vil þakka þér skrifin, Halldór. Mér finnst þú vera á réttu róli og tilskrif Þorsteins Pálssonar: “ „Þar er verið að hverfa frá markaðslausnum í stjórn sjávarútvegs yfir í félagslegar lausnir“. Þetta þýðir minni framleiðni fyrir eigendur auðlindarinnar og þarf því almenningur að greiða fyrir það með hærri sköttum“, eru á margan hátt alveg kolröng. Ég er alveg hissa á honum Þorsteini. Aðalmáli í þessu sambandi er, að það verður að ríkja jafnrétti um öflun aflaheimilda á Íslandi og Þorsteinn á ekki að komast hjá því að virða það. Það er alveg óviðsættanlegt gagnvart íslenskri þjóðarvitund, að virða það ekki með jafnrétti. Heldur hann kannski, að það séu bara kjánar í Mannréttindadómstóli SÞ? – Og að það sé verið að hverfa frá markaðslausnum með fyrningarleiðinni. Alveg af og frá. Heldur Þorsteinn, að það sé markaðslausn að hafa misrétti um aflaheimildir? Eða kannski, að ESB muni nokkurn tímann taka í mál, að svo sé? Nei, það er einn af grunnpóstum ESB að jafnrétti sé og ég skil ekkert í þessu. Þorsteinn verður að vinna heimavinnuna sína til að verða ekki til skammar fyrir Ísland í viðræðum komandi. – Og þetta: – yfir í félagslegar lausnir. Af og frá. Það eru félagslegar lausnir nú með kvótanum, LÍÚ-legar eða forneskjulegar forréttinda-félagslegar lausnir. – Auðvitað verður erfitt að halda aftur af of miklum eða enn frekar röngum veiðum ef kvótaskömmtunin fer af, en það er auðveldara að gera það en að viðhalda kvótanum og reyna að berja hausnum við steininn og sannfæra fólkið í landinu, að gömlu leiðirnar í sjávarútvegi séu enn gildar.

  Ég er hneykslaður á þessari umræðu svona og ég sé, að t.d. Sigurður Gunn er enn á ferðinni og ræðir um, að það sé verið að taka réttindi af fólki. – Það er fyrir neðan virðingu sannra Íslendinga að tala svona. Það er verið að minnka forréttindi og auka réttinda annarra en forréttindahafa. Þetta er kannski of flókið fyrir Sigurð Gunn, en það verður bara að hafa það.

 • Tómas Þór. Hvernig færðu út að sjávarútvegsfyrirtækin greiði auðlindagjald sem nemur 9,5% af framlegð?

 • bori-gor

  Sæll Jónas Bjarnason

  Venjulega þegar fer á stað umræða um sjávarútvegsmál þá mætir þú á svæðið á fullri ferð með öxina reidda.

  Þú ræðir um jafnréttindi til veiða. Nú er svo að atvinnutæki (bátar ofl) eru í dýrari kantinum, þannig að þetta er ekki alveg eins og að stjórna rjúpnaveiðum.

  Mig langar að beina eftirfarandi spurningum til þín.

  1. Er fiskurinn í sjónum takmörkuð eða ótakmörkuð auðlind ? (Ef þú telur hana ótakmarkaða þá fellur öll frekari rökræða niður)

  2. Ef þú telur fiskinn í sjónum takmarkaða auðlind, hvernig eigum við (íslenska þjóðinn) að útdeila henni ? (Er það hægt með góðum hætti án þess að skapa ,,einokun“)

 • bori-gor

  Sæll Einar

  Um veiðileyfagjaldið var fjallað um að í skýrslu auðlindanefndar sjá http://www.sjavarutvegsraduneyti.is/utgefid-efni/sjreldra/nr/599

  Sjá bls 52.

  Ég er ekki svo viss um að þessi leið hafi verið nógu róttæk. Það hefði verið nær að beita þessu á hvert fyrirtæki fyrir sig en ekki greinarinnar í heild ? en þá erum við komnir í ákveðna umræðu, hvort eigi að refsa mönnum fyrir að reka sín fyrirtæki vel og umbuna þeim sem reka sín fyrirtæki illa.

  Þetta er alvega eftirá skattur sem tekur mið á gengi greinarinar, annað en fyrning sem tekur ekki tillit til ástands greinarinnar.

 • Jónas Bjarnason

  Þú bori-gor þorir ekki að rita undir nafni. Af hverju? Svaraðu því svo þú sért trúverðugur.

  1. Fiskurinn er takmörkuð auðlind.

  2. Fyrst of fremst með veiðarfærakröfum og veiðarfæranotkun ásamt svæðaákvæðum sem og sóknartakmörkunum (sóknarstýringu). – Svo með breytilegu auðlindagjaldi, en þegar ásókn stefnir í öf mikla sókn, þá verði beitt samblandi af uppboðum og veiðireynsluákvæðum.

 • Tækniundur í íslenzkri útgerð segir Halldór !

  Hvaða tækniundur eru það ?

  Skip Gunnvarar hf, sem eru að meðaltali 32,5 ára ?

  Eða ertu að tala um skítfiskaranna sem koma með upp í 2500 tonn af grútar-drullu í einni veiðiferð ?

  Eða ertu að tala um færiböndin sem fundin voru upp fyrir 120 árum og íslenskir snillingar kalla flæðilínur ?

  Eða ertu kanski að tala um gámadraslið sem notað er undir óunna fiskinn sem fluttur er til Bretlands og Þýskalands í tug þúsunda tonna tali ?

  Já og svo eru þessir brotajárns-gámar þeim eiginleikum gæddir að fiskurinn sem í þá er látinn skiptir um tegund á leið yfir hafið !

  Þetta kallar maður sko stökkbreytingu í sjávarútvegi.

  Að ég nú ekki tali um 70% minni veiði úr flestum tegundum vegna frábærs árangurs við fiskveiðistjórnun undangengina 26 ára.

  Það hlýtur að vera heimsmet í fiskveiðistjórnun !

  Já einmitt þetta eru svo miklar framfarir að manni svimar við tilhugsunina.

  Og svo vitnaru í ekki ómerkari mann en sjálfan Þorstein Pálson fyrrum sjávarútvegsráðherra sem varð heimsfrægur fyrir ótrúlegan drullusokkshátt.

  Ráðherrann sem stjórnaði með daglegu aðgerðarleysi og var þungt haldinn af ákvarðatökunarfælni.

  Halldór ! Láttu nú staðar numið í þrælsóttanum við LÍÚ.

 • Halldór Halldórsson

  Ég er að hugsa um að bregðast við þessari síðustu athugasemd.

  Í fyrsta lagi skil ég ekki þessa tengingu við LÍÚ. Trúlega eru fæstir á mínu svæði í þeim samtökum. Af hverju ætti einhver að vera hræddur við LÍÚ? Skil það ekki alveg. Ég er t.d. miklu hræddari við ríkisstjórnina í þessu máli en LÍÚ.

  Skipin eldast hjá okkur Íslendingum ekki síst vegna þess að Alþingi ákvað með því að lögfesta framsalið að útgerðin ætti sjálf að hagræða.

  Tækniundrin eru um allt í skipum og vinnslum. Ég hélt að það þekktu allir sem eitthvað vita um sjávarútveg. Sem dæmi þá framleiðir 3X Technology hér á Ísafirði vörur fyrir sjávarútveginn til að auðvelda störfin, bæta meðhöndlun aflans bæði um borð og í vinnslum, og fækka störfum og auka þannig hagkvæmni.

  3X, Marel, Skaginn o.fl. eru alla daga að finna upp nýjungar á þessu sviði. Verst hvað lítið er að gera hjá þeim núna vegna þess að enginn þorir að fjárfesta af viti með fyrningarleiðin vofir yfir.

 • Jónas Bjarnason

  Halldór. Ég trúi varla, að þú sért með réttu ráði þegar þú skrifar: – „Verst hvað lítið er að gera hjá þeim núna vegna þess að enginn þorir að fjárfesta af viti með fyrningarleiðin vofir yfir.“ – Ef menn þora ekki, þá er lítil forsenda til fjárfestingar í tæknibreytingum. Í það minnsta jafn mikið af fiski mun veiðast eftir að 5% af kvóta eru tekin af og miðluð öðru vísi – allt eins til sömu aðila að marki. Af hverju eru menn svona hræddir? Hafið þið látið LÍÚ terrorisera ykkur eða það sem verra er, heilaþvegið ykkur?

 • Halldór.

  Það hafa engin tækniundur átt sér stað í sjávarútvegi þó svo færibanda og kúlulegufyrirtækin 3X, Marel, Skaginn o.fl. séu að dunda sér við að finna út hvernig sé best að telja rækjur og þess háttar í poka og líma fyrir.

  Aðeins hægfara eðlileg þróun hefur átt sér stað í sjávarútvegi í ýmsum búnaði, veiðafærum og tækjum líkt og í öllum öðrum atvinnugreinum.

  En sjómenn eru enn með sama blóðgunarhnífinn og sama brýnið og fyrir 100 árum um borð í bátunum aðeins hefur verið skipt um skaptið sem þeir halda um þegar þeir blóðga og kútta fiskinn.

  Sjómenn eru enn að handbeita línu með sama hætti og forfeður okkar gerðu í aldir.

  Fækkun starfa í sjávarútvegi skýrast fyrst og fremst af gríðarlegum samdrætti í aflaheimildum vegna óheyrilegrar sóunnar í aflamarkskerfinu.

 • Heiðar Hrafn

  Ég tók þetta úr http://www.sjavarutvegsraduneyti.is/utgefid-efni/sjreldra/nr/599

  „Miðað við að framlegð sjávarútvegs í heild geti orðið svipuð og hjá sjávarútvegs-fyrirtækjum á Verðbréfaþingi Íslands á fyrri hluta þessa árs og að velta greinarinnar verði um 100 milljarðar yrði afkomutengt veiðigjald að loknum aðlögunartíma rúmlega 500 milljónir króna og veiðigjald í heild rúmir 2 milljarðar. Ekki er óraunhæft að ætla að sjávarútvegurinn nái 25-30% framlegð á aðlögunartímanum ef greinin fær aukið svigrúm og frelsi til að hagræða í rekstri sínum og ef árangur næst í uppbyggingu fiskstofna. Tekjur af veiðigjaldi verða þá um og yfir 2 milljarðar króna á ári.“

  Þannig ef að sjávarútvegur fær að vera í friði þá mun hann skila töluverðu í auðlindagjald.
  Ég held að menn verði að hafa í huga að til hægt sé að reka fyrirætki þá þarftu að hafa framtíðarsýn. Ef að fyrningarleið er farin og menn sjá ekki fram á að geta veitt ákveðið magn ár eftir ár þá mun fjárfesting miðast við að greiðast upp á einu ári. Flotinn okkar verður flottur þá, skammtíma gróða sjónarmið munu ráða ferðinni, og það munu ekki vera stjórnendur stærstu útgerðafélagana sem stjórna, þeir munu ekki vera í stakk búnir að taka þátt í kaupum þar sem skuldir þeirra vegna kvótakaupa verða ennþá á félögunum.
  Til að auðlindahagfræði virkar þarf veiðiréttur að vera fyrirsjáanlegur og framseljanlegur. Þannig næst mesta hagræðin í greininni. Þá er ég ekki að tala um að hægt sé að selja til að fara í golf heldur skipta einni tegund fyrir aðra til að hægt sé að vera með focus.

 • Sigurvin Guðmundsson

  Ég sem ungur maður, var ekki nema 5 ára gamall þegar kvótakerfið í núverandi mynd var sett á laggirnar, skil ekki kvótakerfið. Hvort sem það heitir framsal, nýtingaréttur, tegundabreytingar, veðsettur kvóti og svo framvegis.

  *Afhverju eru útgerðirnar í landinu svona skuldsettar?

  *Hvað fengu útgerðirnar mikið verð fyrir veðsettan kvóta, fyrir hvert kíló?

  *Hvað er gert við bátana og skipin sem enginn vill kaupa þegar búið er að kaupa kvótann sem fylgdu þeim?

  *Er einhver leið fyrir ungan mann eins og mig að komast inn í greinina?

  *Gæti ég keypt 10 tonn af þorskvóta, fengið svo lán hjá bankanum mínum og sett kvótann sem veð fyrir láninu?

  * Má breyta 1 tonni af skötusel í 1 tonn af þorski?

  * Afhverju vældu menn á Ísafirði þegar Guðbjörgin var selt til Akureyrar, fyrst að kvótakerfið er svona unaðslegt?

  * Væri það ekki áhyggjuefni ef unga fólkið í landinu sýni sjávarútvegnum engan áhuga, hver er framtíðarsýn íslensks sjávarútvegs?

  * Hvernig virkar leigukvóti?

  Ef einhver myndi nenna að svara þessum spurningum fyrir mig, þá væri það frábært. Mér þætti gaman að fræðast um kvótakerfið.

  Takk fyrir

 • bori-gor

  Sæll Jónas og takk fyrir að svara við spurningunum.

  Ég vill halda nafnleynd. Hef meiri trú á því að maður sé trúverðugur í umræðunni sé maður málefnalegur í stað þess að skrifa undir nafni. Ég get samt fullvissað þig að ég þekki þig ekki neitt frekar en þú mig.

  Þú mælir með að tekin verði upp sóknarstýring. Það hefur verið gert víðvegar um heiminn og var meðal annars stundað hér af smábátum á handfærum. Yfirleitt leiðir slík fiskveiðistjórnun til sóunar á gæðum. Menn kappkosta við að fjárfesta í bátum til að geta aukið sóknina á tímaeiningu. Þetta þekkjum við úr smábátunum, þegar þeir þróuðust úr hæggengum trillum yfir í hraðfiskibáta. Til að takamarka magnið er svo sóknardagarnir skornir niður, að lokum erum við standir með of stórann og dýrann flota sem er að sækja fisk úr sjó yfir takmarkaðan tíma. Frægasta dæmið um í sögunni var lúðuveiðinn við Alaska/Kanada þegar menn máttu bara orðið sækja kvótann á örfáum dögum. Heilbrigð skynsemi segir okkur að einbeita okkur að gæðum en ekki magni. Norðmenn hafa t.d. yfirleitt einblínt meira á veiðanleikan (magnið) heldur en gæðinn og hafa ekki verið að fá sama verð á mörkuðum og við íslendingar. Sú staðreynd er óumdeildanleg, þó hægt sé að tína til einhver einstök tilfelli um hið gagnstæða.

  Ef rannsóknir leiða í ljós að það sé umhverfisvæna að veiða t.d. þorsk og ýsu á línu þá er sjálfsagt að skoða ákveðnar veiðarfærastýringar t.d. með ívílnum. Við höfum dæmi hér um línuívílnum, hinsvegar dregur það úr trúverðurleikanum á þeirri framkvæmd að línan verður að vera handbeitt. Ég get ekki séð að það sé umhverfisvæna en vélbeitt lína. Við verðum hinsvegar að sætta okkur við þá staðreynd að sumar tegundir náum við ekki að sækja með öðru en trolli t.d. karfa. Varðandi rekstur á línubát og togara, þá hef ég ekki ennþá fengið neinar uppl. hvort sé hagkvæmara í rekstri, alvega eru menn að sækja sjóinn bæði með línu og trolli. Alvega er vel hægt að viðhafa ákveðanar veiðarfærastýringar í okkar aflamarkskerfi.

  Þú talar um að hafa breytilegt auðlindagjald með samblandi af uppboðum og veiðireynslu ákvæðum. Væntanlega ertu að hugsa um að hækka auðlindagjaldið verið sóknin of mikill. Vandamálið með svona tillögur er útfærslan á þeim. Hvernig ætlarðu að útfæra þetta á praktískan hátt og eins aukast líkur á skammtímasjónarmiðum í greininni á kostnað langtíma. Ef menn vita ekki að hverju þeir geta gengið ár frá ári þá festum við í skammtímasjónarmiðum t.d. frestun á fjárfestingum ofl.

 • Jónas Bjarnason

  Bori-gor. Þú segir ekki skýrt, af hverju þú þorir ekki að nota nafn þitt. Ertu hræddur?
  En þú segir m.a.: – „Það hefur verið gert víðvegar um heiminn og var meðal annars stundað hér af smábátum á handfærum. Yfirleitt leiðir slík fiskveiðistjórnun til sóunar á gæðum.“ – Þú þekkir þetta ekki nógu vel, það skín í gegn. Sóknarstýring er notuð mjög víða og líka í bland með öðrum ráðstöfunum. Færeyingar nota eingöngu sóknarstýringu. – Og rökstuðningur þinn um vankanta á sóknarstýringu eru bara gamlar lummur. Þú getur tínt til alla vankanta í sambandi við allar stjórnunaraðferðir. Kvótastýring hefur í för með sér upgrading (menn henda verri afla til að auka hlutfall af betri afla), brottkast og illa meðferð bæði á afla og vistkerfi. Brottkastið er augljóst og þarf eiginlega ekki að rökstyðja. Það viðgengst alls staðar og enginn mótmælir því. Slæm meðferð á vistkerfi er staðreynd, menn nota allt of mikinn togarakost í stað léttari veiðarfæra. – Dæmið um lúðuveiðar við Alaska og vesturströnd Kanada og BNA er svo gamalt og lummulegt, og allt of oft notað, og öfgafullt, að það er þér ekki til framdráttar né málefnastuðnings. Gleymdu þessu atriði.
  – Svo segir þú: – „Við verðum hinsvegar að sætta okkur við þá staðreynd að sumar tegundir náum við ekki að sækja með öðru en trolli t.d. karfa.“ – Þú gleymir grálúðu. Þetta er augljóst og vel þekkt. Það stefni sennilega enginn að því að banna trollið alfarið, en það á að vísa því burt af íslenska landgrunninu, en karfinn er utar og grálúðan. Þetta er enginn vandi.
  Það hefur enginn getað vitað alveg að hverju hann gengur í sjávarútvegi, en svipull er sjávar afli, segir þar. Þetta er ekki sterkt sjónarmið gegn því sem ég hef skrifað, en menn verða bara að ganga út frá því, að þeir þurfi að vera vakandi gagnvart öllu og ekki stunda bara dívanasjósókn og þjást af kvótagreindarskorti.

 • bori-gor

  Sæll Jónas

  Stundum verða menn að vera sammála um að vera ósammála. Ég aðhyllist aflamarkskerfi og þú aðhyllist sóknarstýringu. Við höfum báðir tínt til rök í því samhengi. Ég held hinsvegar að brottkast fari minnkandi allavega hefur svokallaður V/S afli (hafró kvóti) ekki verið fullnýttur undanfarin ár. Ef við fækkum sófa-útgerðarmönnum og eingöngu leigukvóta-útgerðarmönnum þá verður brottkast hverfandi. Þú veist líka að það er brottkast í sóknarstýringu. Það tekur tíma að ganga frá verðminni fiski og hann tekur pláss, í því samhengi getum við nefnt smuguveiðar okkar íslendinga áður en um þær var samið.

  Mig langar samt að endingu að benda þér á eftirfarnandi vefsíðu um alaskaufsa sem er eins og þú veist stærsti matfisk-stofn í heimi. Síðan 1979 hefur verið farið nær algjörlega eftir tillögum fiskifræðinga hvað varðar heildarafla úr stofninum. Fyrir 1998 þá tók það 2x 6 vikur að ná öllum aflanum. Nú er öldin önnur. Sjá hér að neðan.

  Fishing Cooperatives
  Instead of the historical “race for the fish” used in many fisheries,the Alaska pollock fishery has been operated on a quota system since 1999. All participants in the fishery are granted a percentage of the total catch and are allowed to harvest it at their own rate. This allows the fishery to operate more safely, produce better quality and better utilize the fish they catch.

  Increased Utilization
  Since the advent of the quota system, processors have been able to utilize a higher percentage of the Alaska pollock they catch. Improved recovery of edible meat, sales of pollock roe to specialty markets, and the conversion of inedible portions of the fish into fish meal all contribute to better use of the Alaska pollock resource.

  tekið af http://www.alaskapollock.org/sustainabilityMan.html

 • Jónas Bjarnason

  Sæll bori-gor. Alaska ufsi er alveg sér á báti og næstum allt, sem viðkemur honum, er öðru vísi en fyrir botnfisk annars staðar. Já, hann er 7 milljón tonn að stærð og menn veiða bara 15% á ári. Það er alveg sama hvaða fiskveiðistjórnarkerfi er notað þegar svona lítið er tekið eða kannski 1.2 milljón tonn á ári. Svo sérðu orðið Cooperatives, en þeir karlar þar hafa ákveðna samvinnu um málin þannig, að veiðarnar eru ekki hreint kvótakerfi, en þeir bera sameiginlega ábyrgð. – Svo er ufsinn á lágu verði yfirleitt og menn hafa umgengist hann illa áður, en nú betur. Já, já, það gengur þokkalega, en er engin sérstök rós í hnappagati kvótaveiða eða LÍÚ kokkabókafræðum.

 • Atli Hermannsson

  Sæll bori-gor. Þú segir á einum stað „Þú veist líka (Jónas) að það er brottkast í sóknarstýringu. Það tekur tíma að ganga frá verðminni fiski og hann tekur pláss, í því samhengi getum við nefnt smuguveiðar okkar íslendinga áður en um þær var samið.“

  Við skulum hafa það alveg á hreinu að veiðar okkar í Smugunni á sínum tíma eiga ekkert sameiginlegt með sóknarstýringu eða dagakerfi eins og Færeyingar nota. Smuguveiðarnar stjórnuðust ekki af neinu nema taumlausri græðgi, það sem menn mokuðu þorskinum upp með flottrollum sem alls staðar er bannað.

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur