Í kringum og eftir sveitarstjórnarkosningarnar er umræða um persónukjör. Eins og fyrr tala margir kjósendur um að þeir vilji geta valið fólk en síður flokka. Mér finnst það skiljanlegt og hef lengi verið hlynntur því að breyta aðferðum okkar við val á fulltrúum.
Ríkisstjórnin lagði fram frumvarp um persónukjör á síðasta ári. Bæði kom það of seint fram og það var meingallað. Sveitarfélögin gátu ekki fallist á það og margir alþingismenn, trúlega meirihluti, voru á móti því.
Gallinn við frumvarpið var sá að samkvæmt því mátti bara raða fólki á þeim lista sem viðkomandi kaus. Prófkjör á kjördag eins og ég kallaði það. Mín skoðun var og er sú að nauðsynlegt hefði verið að opna þetta meira og heimila kjósendum að velja nafn eða nöfn til viðbótar af öðrum listum.
Þá var sú tillaga einnig sett fram af hálfu undirritaðs á stjórnarfundi í Sambandi ísl. sveitarfélaga og það kom fram í umsögn sambandsins að hugsanlega mætti auglýsa eftir tilraunasveitarfélögum til að gera tilraunir með persónukjör og í framhaldi af því ákveða hvaða leið væri vænlegust. Ekkert af þessu var gert heldur sett fram frumvarp sem ekki var samþykkt sökum tímaskorts og sökum skorts á þeirri framsýni sem þurfti, þ.e. að kjósendur hefðu meira val um fólk.
Þetta skrifaði ég í fyrra á þessa síðu í grein um persónukjör:
,,Þó þetta sé óútfært liggur fyrir vilji sveitarfélaganna til að láta reyna á persónukjör. Á okkar vettvangi hefur verið rætt um hvort gera eigi tilraun í nokkrum sveitarfélögum frekar en að byrja með þetta í öllum sveitarfélögum landsins á sama tíma. Ekki er verið að útiloka að breytt lög nái til allra sveitarfélaga en það er spurning með svona mikla breytingu hvort ekki eigi að gera tilraun fyrst hjá þeim sem gefa sig fram sem tilraunasveitarfélög.“
Þá skrifaði ég leiðari í Sveitarstjórnarmál í september 2009 um persónukjör. Þar kom m.a. þetta fram:
,,Það er mat undirritaðs að íbúar hafi á tilfinningunni að þeir hafi meiri áhrif á málefni sveitarfélaga en ríkisins. Þess vegna hefur umræðan um persónukjör og breyttar aðferðir við kosningar snúist enn frekar um val á fulltrúum á Alþingi heldur en til sveitarstjórna. Og með það í huga er frekar undarlegt að ekki hafi verið boðið upp á persónukjör í alþingiskosningunum í vor. En umræðan snýst líka um sveitarstjórnir og það er áhugi hjá sveitarstjórnarmönnum að stíga myndarleg skref til þess auka áhrif og völd íbúanna.
Að þessu sögðu veldur frumvarp til laga um kosningar til sveitarstjórna vonbrigðum. Þar er kynnt til sögunnar svokölluð forgangsröðunaraðferð þar sem vannýtt atkvæði eru færð milli frambjóðenda í samræmi við forgangsröðun kjósandans. En það er varla hægt að segja að kjósandinn fái að taka þátt í persónukjöri skv. frumvarpinu. Ástæðan er sú að frumvarpið gerir ráð fyrir því að kjósandi fái einungis að raða frambjóðendum á þeim lista sem hann kýs. Ekki er gert ráð fyrir því að kjósandi fái að velja frambjóðendur af öðrum listum. Það er í huga undirritaðs persónukjör. Frumvarpið er í rauninni listakjör með heimild til að raða listanum sem kjósandi velur. Prófkjör á kjördag.
Það er sjálfsagt og eðlilegt að reyna nýjar leiðir í kosningum. Kjósendur vilja það og við sem einhver áhrif höfum á það eigum að vinna að því að betrumbæta kosningakerfið og auka lýðræðið og lýðræðisvitundina. Þetta frumvarp gengur ekki nógu langt í því auk þess sem það verður í fyrsta lagi að lögum þegar nokkuð er liðið á haustið eða veturinn en þá eru kosningaundirbúningur kominn á fullt hjá framboðum í sveitarfélögunum.“
Rita ummæli
Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.