Föstudagur 28.05.2010 - 15:56 - 4 ummæli

Jákvæðni og framtíðarsýn virka

Á morgun ganga kjósendur að kjörborðinu eftir stutta kosningabaráttu á flestum stöðum. Stutta en snarpa víðast hvar.

Margt hefur gerst, víða eru ný framboð að undirstrika að lýðræðið virkar þrátt fyrir allt á landinu bláa. Kjósendur munu svo ákveða hverjum þeir treysta best til að stjórna sínu sveitarfélagi. Þetta snýst jú um það. Hverjir eru hæfastir til að nýta tekjur sveitarfélagsins á sem skynsamastan hátt.  Kjósendur hafa ekki verið eins meðvitaðir um rekstrarþáttinn í mjög langan tíma enda hefur árferði verið erfitt og sums staðar hafa sveitarfélög lent í vandræðum. Kröfurnar hafa verið dempaðar niður. Það mátti alveg.

Í mínu sveitarfélagi, Ísafjarðarbæ, hefur verið kosningabarátta undanfarna daga. Til viðbótar við framboð D-lista, B-lista og Í-lista Samfylkingar, Vinstri grænna og Frjálslyndra kom glaðbeitt framboð Kammónista en þar er ungt og jákvætt fólk að beita sér.

Mér finnst D-listinn og reyndar B-listinn líka hafa ásamt Kammónistum verið með jákvæða kosningabaráttu með áherslu á málefni. Kannski er ekkert óeðlilegt hjá þeim sem hafa verið í meirihluta að telja sig þurfa að svara rangfærslum og slíku. Mér finnst það nauðsynlegt svo kjósendur hafi réttar upplýsingar.

Mitt fólk á D-listanum hefur farið um allan bæ, Ísafjörð, Hnífsdal, Suðureyri, Flateyri, Þingeyri. Alls staðar er gengið í hús, haldnir fundir, kíkt á vinnustaði, farið um borð í báta og skip alveg niður í vélarrúm þurfi þess. Þau hafa verið með jákvæðni og framtíðarsýn í farteskinu og eru að mínu mati mjög flottur hópur reynslumikilla einstaklinga sem munu standa sig vel við stjórnvölinn hjá Ísafjarðarbæ.

Hvernig sem fer er ávallt ástæða til að gleðjast yfir kosningum og þeim heilaga rétti sem hverju og einu okkar er færður til að hafa áhrif á okkar umhverfi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (4)

 • sigurður j hafberg

  Þykist þú vera laus við rangfærslur. Ég var á fundi á Suðureyri þar sem þú tókst undir það að fólk á ílistanum hefði verið á móti háskólasetri.Hálfur sannleikur er lýgi. Hvernig stendur á því að það er ekki hægt að fá að sjá hugmyndir að gámasvæði sem þú segir að kosti 30 milljónir? Það er vegna þess að það eru engar hugmyndir til. Það hefur aldrei staðið til hjá þér að lagfæra gámasvæðin.
  og svo mætti lengi telja.
  kv sig haf

 • Grétar Örn Eiríksson

  Ég var á framboðsfundi á Flateyri í síðustu viku, þar kom skýrt fram hjá Sigurði Péturssyni ,bæjarstjóraefni Í-listans, að sá peningur sem myndi sparast af lækkun bæjarstjóralaunana myndi fara í það að malbika eða setja bundið slitlag á þá spotta sem ennþá eru malarvegir í byggð. Allt gott um það að segja nema það veit hver heilvita maður að 3 miljónir á ári duga skammt í svona framkvæmdir, en viljann höfðu þau allavegana að vopni virtist vera og bæjarbúar gátu séð fram á það að það ætti að henda einhverjum pening í þessar framkvæmdir. Ég fer svo á annan framboðsfund á Ísafirði með þessu sama fólki, þá kemur í ljós að sá peningur sem sparast af þessum blessuðu launum eigi að fara óskiptur til íbúasamtakanna. Allt í einu eru þau loforð sem gefin voru á framboðsfundunum í litlu byggðakjörnunum orðin að engu. Þessi vinnubrögð ættu að vera næg til að sjá að þau loforð sem Í-listinn er að gefa eru einungis orðin en ekki einu sinni viljinn til að efna þau. Ómerkileg vinnubrögð svo ekki sé meira sagt og munu dæma sig sjálf svo mikið er víst.

 • Halldór Halldórsson

  Komdu sæll Sigurður Hafberg, þakka þér athugasemdina hér á vefnum.

  Ég tók undir að Samfylkingin hefði verið á móti Háskólasetri. Ekki Í-listinn, ég heyrði það ekki sagt á fundinum.

  Lestu grein Önnu Kristínar Gunnarsdóttur alþingismanns Samfylkingarinnar frá 11. mars 2005 vegna stofnfundar Háskólaseturs Vestfjarða. Þar lýsir hún því yfir að hún geti ekki mætt og þó hún gæti það hefði hún ekki áhuga á því.

  Hugmyndir að gámasvæðum eru til með kostnaðaráætlun.

  En ekki meira um það. Bestu kveðjur til þín Sigurður.

 • Sig. Pétur

  Það er mjög jákvætt að kjósa alls ekki Sjálfstæðisflokkinn.

  Hann bjó til hrunið með öfgafullri frjálshyggju sinni. Honum á að refsa.

  Alla aðra má kjósa (nema fíflaframboð Jóns Gnerris).

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur