Með undirritun heildarsamkomulags milli ríkis og sveitarfélaga um flutning á málefnum fatlaðra er framundan metnaðarfullur og mikilvægur flutningur á stóru þjónustuverkefni sem varðar fatlaða einstaklinga í þessu landi og starfsfólk sem vinnur við málaflokkinn. Sveitarstjórnarfólk og starfsfólk sveitarfélaga nálgast nýtt viðfangsefni af auðmýkt og metnaði og býður fatlaða velkomna í þjónustu sveitarfélaganna og starfsfólk velkomið til starfa frá og með 1. janúar 2011 gangi nauðsynlegar lagabreytingar eftir á Alþingi Íslendinga.
Í langan tíma hefur staðið til að flytja heildarþjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga. Ástæðan er sú að flestir telja að sveitarfélögin geti gert enn betur en ríkið í þjónustunni enda sinna sveitarfélögin nærþjónustu við íbúana. Með því að hafa þjónustuna á einni hendi, í þessu tilfelli hjá sveitarfélögunum, er dregið úr hættu á því að hin svokölluðu gráu svæði séu til staðar en þau verða alltof oft til þar sem ríki annars vegar og sveitarfélög hins vegar vísa hvort á annað varðandi þjónustu. Viðræður um yfirfærslu höfðu staðið lengi yfir þegar upp úr viðræðum slitnaði árið 2001 vegna þess að ekki náðist samkomulag um endurskoðun samninga.
Á Landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldið var á Akureyri árið 2006 var málið tekið upp að nýju og viðræður við ríkið hófust í byrjun ársins 2007.
Þann 23. nóvember 2010 var skrifað undir heildarsamkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um yfirfærsluna. Er þar með lokið löngu samningsferli sem hófst snemma árs 2007 í sérstakri verkefnisstjórn með fulltrúum ríkis og sveitarfélaga og á síðari stigum fulltrúum hagsmunasamtaka fatlaðra. Óhætt er að fullyrða að mikil og vönduð vinna hefur átt sér stað varðandi yfirfærslu á þessum mikilvæga þjónustuþætti. Mikil vinna hefur verið unnin í verkefnisstjórninni og út um allt land þar sem þjónustusvæði hafa verið samþykkt en gert er ráð fyrir því að ekkert þjónustusvæði við fatlaða sé með færri íbúa en 8000.
Nú er málið í höndum Alþingis sem eðli málsins samkvæmt hefur síðasta orðið varðandi nauðsynlegar lagabreytingar til að gera yfirfærsluna mögulega. Þó tíminn sé stuttur hefur málið verið unnið í mjög nánu samstarfi ríkis og sveitarfélaga allan tímann.
Markmiðið með yfirfærslunni er eftirfarandi:
a. bæta þjónustu og auka möguleika til að laga hana að þörfum notenda með hliðsjón af ólíkum aðstæðum
b. stuðla að samþættingu nærþjónustu við íbúa sveitarfélaga,
c. tryggja að eitt stjórnsýslustig beri ábyrgð á stærstum hluta almennrar félagsþjónustu, bæta samhæfingu og draga úr skörun ábyrgðarsviða stjórnsýslustiga,
d. tryggja góða nýtingu fjármuna,
e. styrkja sveitarstjórnarstigið,
f. einfalda verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.
Á vef sambandsins er búið að opna sérstakan þjónustuvef vegna málefna fatlaðs fólks. Notendur þjónustunnar munu án efa geta nýtt sér upplýsingavefinn til að glöggva sig á ýmsu sem varðar yfirfærsluna en sambandið mun einnig byggja upp síður með upplýsingum sem einkum snúa að notendum. Málið brennur á mörgum og er fólk hvatt til að kynna sér málið á vefnum.
Það verður að hafa þann mikilvæga fyrirvara á þeim upplýsingum sem hér birtast, að þær miða við að lagarammi verkefnisins og fjárhagsrammi þess verði í samræmi við tillögur sem ráðherrar munu flytja á Alþingi. Eðli málsins samkvæmt er það hins vegar þingið sem á lokaorðið um þessa þætti. Skammur tími er til stefnu og mikil þörf á því að ekki verði frekari dráttur á að starfsmenn og sveitarfélög fái tilteknar upplýsingar. Af þeirri ástæðu var sú ákvörðun tekin, í samráði við ráðuneyti, að birta sem mest af tiltækum upplýsingum, en með þeim fyrirvara sem að ofan greinir.
Sambandið mun fylgjast með framvindu málsins á Alþingi og kappkosta að uppfæra upplýsingarnar þegar og ef breyting verður á málum í meðförum þingsins. Af þeirri ástæðu eru dagsetningar víða settar inn í upplýsingar til þess að undirstrika að útfærsla er háð því að tillaga nái fram að ganga. Jafnframt eru notendur hvattir til þess að kynna sér stöðu þingmála á Alþingisvefnum.
Sveitarstjórnarfólk nálgast þetta nýja þjónustuverkefni sveitarfélaganna af miklum metnaði og fagnar því að þjónusta við fatlaða einstaklinga skuli framvegis verða verkefni sveitarfélaganna.
Rita ummæli
Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.