Laugardagur 11.12.2010 - 18:28 - 2 ummæli

Þröskuldar Vegagerðarinnar

Þessi grein var birt á bb.is og strandir.is fyrir nokkru síðan. Nafngift Vegagerðarinnar á þessari nýju leið okkar sem ökum mikið til og frá Ísafirði hefur ekki enn náð sátt við mig a.m.k.

Alltof oft finnst mér að Vegagerðin taki upp nöfn á vegi eða leiðir sem ekki eru í takt við almenna vitund, staðarþekkingu heimamanna, hefð eða almenna umræðu.

Á sínum tíma fannst mér t.d. undarlegt að ákveða að hætta að tala um Hestakleif sem leiðina milli Ísafjarðar og Mjóafjarðar og fara að tala um Eyrarfjall. Hestakleifin fannst mér hljóma vel, nafnið hafði verið notað lengi en Vegagerðin gerði sitt til að breyta því. Í dag skiptir þetta ekki öllu máli því sem betur fer höfum við fengið betri veg í stað leiðarinnar sem kölluð var Hestakleif en Vegagerðin vildi endilega kalla Eyrarfjall.

Ég man eftir tilraunum Vegagerðarinnar til að hætta að tala um Bröttubrekku og nota eitthvað allt annað heiti. Komið var í veg fyrir það sem betur fer en ég man að það kostaði töluverð átök og blaðaskrif.

Nú ætlar Vegagerðin sér að breyta heitinu á leiðinni um Arnkötludal og Gautsdal. Og það þarf endilega að kalla leiðina Þröskulda eftir örnefni hæst á leiðinni. Undirstrika að þetta sé leið um þröskulda sem í huga fólks þýðir fyrirstaða. Margir muna eftir slagorðinu: ,,Þjóðfélag án þröskulda.“ Það var sett fram til að undirstrika þörf fyrir bætt aðgengi. Fjarlægja þröskuldana, þá batnar aðgengið. En Vegagerðin vill endilega hafa þröskuldana.

Undirritaður sendi línu á starfsmann Vegagerðarinnar og lýsti óánægju með þessa nafngift. Sá góði maður svaraði því til að þetta væri ekki ákveðið, fólk þyrfti að venjast ólíkum hugmyndum um nöfn o.s.frv. En þegar maður fer inn á síðu Vegagerðarinnar þá er nafnið Þröskuldar þar. Það er ekkert verið að gefa okkur færi á að venjast nafninu, það er búið að ákveða þetta.

Með þessu er valtað yfir samhljóða samþykktir sveitarstjórna Reykhólahrepps og Strandabyggðar og virt að vettugi nafnið sem fékk lögbundna kynningu í matsskýrslu um umhverfisáhrif Arnkötludalsvegar.

Ég legg til að Vegagerðin hlusti á heimamenn og noti Arnkötludalsnafnið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (2)

 • Arnkötludalur er áfangastaður þegar niður er komið — og gefur kannski rétta mynd af leiðarlokum — nema að menn aka í gegnum Arnkötludal.

  Með Þröskuldum þá erum nær leiðinn en áfangastaði í nafngiftinni

  Ef við heimfærum nafngiftina á t.d. Hellisheiði þá ætti súleið að heita Lögbrekka þar sem maður kemur niður af heiðinni — en hvorki Lögbrekka né Arnkötludalur eru venjulega leiðarlok.

  Þess vegna er staðarheitið sjálft, þ.e. Þröskuldar og Hellisheiðin leiðin sjálf — en ekki það sem bíður mans eftir að niður er komið.

  Leiðin sjálf og nafngiftin sem kennd er við hana er því fullkomlega eðileg nafngift — við erum nú á Þröskuldum á leið niður Arnkötludal á ferð okkar vestur á Ísafjörð.

 • Sauradraugur

  Fólk á ekki að gagnrýna Vegagerðina. Verkfræðingar hennar kunna bæði að leggja vegi en það kann almenningur ekki, og svo vita þeir ævinlega betur um örnefni en einhverjir kverúlantar.

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur