Miðvikudagur 16.02.2011 - 11:20 - Rita ummæli

Samræmdar aðgerðir í skólamálum hefðu verið betri

Það er að vonum mikil umræða um skólamálin þessa dagana. Sveitarfélögin hafa þurft að draga saman í rekstri vegna tekjulækkunar.

Þess misskilnings hefur gætt og hefur sést í greinaskrifum að sveitarstjórnarfólk hafi ekki byrjað á öðrum aðgerðum en þeim að hagræða í skólakerfinu. Staðreyndin er sú að strax við hrun haustið 2008 brugðust sveitarfélögin mjög hratt við og hófu að lækka rekstrarkostnað þar sem því varð við komið. Laun stjórnenda voru lækkuð, fjárfestingar voru stöðvaðar eða dregið mikið úr þeim, viðhaldskostnaður var lækkaður og þannig mætti lengi telja. Það hefur verið skorið miklu meira niður á öðrum sviðum en í félagsþjónustu og skólamálum. Vandamál sveitarfélaga er auðvitað að það lætur nærri að 80% verkefna sveitarfélaga geti kallast grunnþjónusta.

Samband íslenskra sveitarfélaga óskaði eftir samstarfi við menntamálaráðherra um breytingar á lögum og reglugerðum til að geta farið í tímabundnar hagræðingaraðgerðir. Þær gætu skv. tillögum sambandsins verið fólgnar í fækkun kennslustunda eða styttingu skólaársins. Aðeins væri verið að tala um tímabundnar aðgerðir eða þar til samfélagið færi að færast upp úr öldalnum sem kreppan skellti okkur niður í. Þá væri verið að tala um að fara til baka um nokkur ár varðandi tímafjölda eða lengd skólaársins. Við skulum ekki gleyma því að á síðustu 16 árum jafngildir fjölgun kennslustunda og lenging skólaársins tæplega tveggja ára lengingu grunnskólanámsins.

Ef samstarf sveitarfélaga og ríkisins hefði náðst væri verið að verja skólastarfið, verja grunnþjónustuna og tryggja samræmdar aðgerðir þannig að skólabörn vítt og breitt um landið væru í sambærilegri stöðu. Þannig væri jafnrétti til náms best tryggt.

Því miður náðist ekki árangur í þessum viðræðum við menntamálaráðherra. Kennaraforystan leggst gegn þeim breytingum sem sambandið hefur lagt til og telur þær til skaða fyrir grunnskólanemendur. Tilgangur sambandsins er auðvitað ekki sá að skaða skóalstarf heldur að verja eins og hægt er það mikilvæga starf.

Við hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga höfum margoft lýst þeim áhyggjum okkar að ef ekki næðist samstarf við ríkið um samræmdar aðgerðir í lækkun rekstrarkostnaðar myndu sveitarfélögin neyðast til að fara þær leiðir sem væru færar í hverju sveitarfélagi. Það er að gerast núna.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur