Fimmtudagur 17.02.2011 - 22:28 - 12 ummæli

Undirskriftarlistar

Það er merkilegt hvað fólk getur haft ólíkar skoðanir á undirskriftarlistum eftir því hver leggur þá fram. Nú á undirskriftarlisti, þar sem fjölmargir Íslendingar hafa ritað nafn sitt í þeim tilgangi að fá forseta Íslands til staðfesta ekki lög um Icesave, að vera ómögulegur. Ég hef lesið mótbárur nokkurra gegn listanum og heyrði ótrúlegt viðtal við Teit nokkurn í Svíþjóð í Kastljósinu áðan. Þegar hann var eiginlega orðinn rökþrota gagnvart Frosta Sigurjónssyni sem er einn aðstandenda þessa undirskriftarlista fór hann að tala um persónur tengdar þessu átaki. Þær væru ómögulegar og hann treysti þeim ekki fyrir horn. Sérstakur málflutningur svo ekki sé meira sagt.

Það eru vankantar á öllum undirskriftarlistum. Sama hvort þeir eru á netinu eða liggja frammi á opinberum stöðum. Það skrifa alltaf einhverjir í gríni inn á slíka lista en við yfirferð er slíkt leiðrétt. Það er engin ástæða til að ætla annað um þennan undirskriftarlista og reyndar útskýrði Frosti það ágætlega í Kastljósinu í kvöld.

Það er önnur umræða um þetta undirskriftarátak en t.d. undirskriftarátak Bjarkar Guðmundsdóttur um daginn. Voru engir vankantar á því? Eða var það svona undirskriftarátak sem lagðist betur í þá sem nú eru á móti svona undirskriftarbrölti? Þó var undirskriftarlisti Bjarkar söngkonu á móti sölu á auðlindum sem þegar nánar er að gáð röng fullyrðing. Það var engin sala á auðlindum en samt skrifuðu þúsundir Íslendinga undir það.

Nú er þó undirskriftarlisti í gangi gegn mjög umdeildu máli. Staðfestingu á skuld Íslendinga upp á a.m.k. 47 milljarða króna og jafnvel miklu meira. Margir telja að við eigum ekki að borga þetta vegna þess að um skuld einkafyrirtækis sé að ræða og það eigi ekki að ríkisvæða skuldir einkafyrirtækis. Mér finnst það mjög veigamikil rök og algjörlega viðeigandi að Íslendingar skrifi undir lista þar sem forseti Íslands er hvattur til að staðfesta ekki slík lög.

Þar sem forseti Íslands er kominn í ágæta æfingu við að staðfesta ekki lög frá Alþingi finnst mér að hann ætti að leyfa okkur að kjósa um þessi lög. Viðbrögðin sem ég hef heyrt við umræddum undirskriftarlista hafa frekar styrkt mig í þeirri trú.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (12)

 • Sama hvernig þetta fer þá þarf að fara að byrja að ná til baka eigum af Björgólfi Thor, Sigurjóni Árnasyni, Halldóri J. Krístjáns, Kjartani Gunnars o.fl.Landsbankamönnum upp í skuldina. Bæði Björgólfur og Kjartan eiga talsvert af eigum sem á umsvifalaust að taka af þeim og gera þá landlausa menn um leið vegna IceSave.

  Og já, hversvegna eruð þið Sjálfstæðismenn ekki búnir að reka Kjratan og félaga úr flokknum? Það er frekar einkennilegt á sama tíma og þið eruð að velta ykkur upp úr IceSave-skuldinni að þið skulið hýsa slíka menn sem hafa valdið íslensku þjóðinni slíkum hörmungum.

 • Hannes Hólmdvergur

  Já, einmitt.
  Hvers vegna fá þessir kónar eins og Kjartan, Bjöggarnir og fleiri svartir sauðir að veifa flokksskírteininu eins og ekkert sé sjálfsagðara?

 • Bjarni Ragnar Long Guðmundsson

  Eigum við ekki að vona að það sé verið að vinna í þessum málum varðandi þessa menn, sem steyptu þjóðinni í þessar hörmungar.
  Ég ætlast til þess og verð að treysta þeim mönnum sem voru ráðnir til þessara verka.

 • Það þarf sértækar aðgerðir gegn þessum aðilum, allsherjar eignarupptöku og gera þá útlæga um aldur og ævi frá Íslandi, að landlausum mönnum án heimalands, minna eiga þeir ekki skilið.

  Svo má benda á að Björgólfur THor á t.d. enn hér Nova, Acatavis, Verne Holding, CCP o.fl. og KJartan Gunnarsson liggur á landareignum og öðru slíku sem gæti runnið til þjóðarinnar upp í IceSave-skuldina. Sigurjón og Halldór eru vel múraðir enn og það sama er hægt að segja um marga aðra af þeim sem komu nálægt IceSave.

 • Kristján Kristinsson

  Það er ekkert að undirskriftarsöfnun. Hún þarf að vera þannig úr garði gerð að hún sé hafin yfir allan vafa, ég tala ekki um í máli sem þessu.

  Umræðan snýst ekki um grínundirskriftir sem eru svo síaðar frá áður en listinn er afhentur (samkeyrður þjóðskrá). Það er verið að kvarta yfir því að það er hægt að dæla inn í kerfið löglegum kennitölum einstaklinga að þeim forspurðum. Það er a.m.k. alveg absúrd að geta ekki athugað hvort ég sé á þessum lista að mér forspurðum. Fáránlegt. Undirskriftasöfnun, könnun, og kosning sem býður upp á svindl eru ómarktækar. Var ekki Hæstiréttur að dæma í slíku máli nýlega og ógilda heila kosningu?

  Það þurfa að koma til reglur um framkvæmd á svona undirskriftasöfnunum sem snúa að mikilvægum þjóðfélagsmálum. Og það þarf að hafa í huga hver sér um svona framkvæmd. Hún þarf að vera hafin yfir allan vafa svo áreiðanleiki hennar sé óumdeildur.

  Og að lokum, hvað á að gera ef þetta fer í þjóðaratkvæði og þjóðin hafnar þessum lögum? Gufar málið bara upp kannski? Ég er a.m.k. ósammála þér í því að þetta mál eigi erindi í þjóðaratkvæði.

  Og ekki vera að gera lítið úr Teiti Atlasyni þó þú sért ekki sammála honum (kallar hann Teit nokkurn).

 • Þú verður samt að viðurkenna að þetta er eina og fyrsta undirskriftasöfnunin sem er leynileg. Undirskriftarsafnanir eiga vera undir nafni. Þetta er statement, eins og Teitur segir. Ef þessi undirskriftarsöfnun verður tekin gild, þá getur hver sem er búið til undirskriftarsöfnun með tugþúsundum nafna sem hafa engan sannleika á bak við sig. Er það það sem þú vilt?

 • Kristján segir að svona undirskriftarsöfnun þurfi að vera hafin yfir allan vafa. Slík söfnun er ekki til. T.d. gætu allir gagnrýnt þessa á þeirri forsendu að ekki væri vitað um hvað Icesave samningurinn snýst, þess vegna væri ekki ljóst hvers vegna lögin ættu að vera tæk i þjóðaratkvæði. Einnig mætti efast um að öllum hafi verið gefið tækifæri á að taka þátt sem það vildu o.s.frv. Nánast ekkert sem gert er, er hafið yfir allan vafa.

  Valur, hvað er að eitthvað sé leynilegt? Að það sé alls ekki hægt að komast að því hverjir skrifuðu undir eða að það sé nokkurn veginn óframkvæmanlegt að komast að því? Varið land undirskriftarsöfnunin á sínum tíma var í sjálfu sér ekki leynileg, en í reynd var hún það þar sem það var óframkvæmanlegt fyrir nokkurn mann að komast að því hverjir skrifuðu undir. Sama átti við um undirskriftarsöfnun Indefence síðast. Ekki var nokkur leið að sannreyna nákvæmlega hverjir skráðu til á listann. Hægt var að pikka út nokkur fræg og einstök nöfn, en í langflestum tilfellum eiga Íslendingar sér nafna og þó Jón Bjarnason finnist á listanum eða Jóhanna Sigurðardóttir, þá vitum við ekki hvaða einstaklingur það var nema kennitala fylgi. Leynd er því afstæð.

  Kristján, hafi einhver haft fyrir því að dæla inn tilbúnum, en löglegum kennitölum, þá er eitthvað galið við þann einstakling. Ekkert kerfi er það sterkt að klikkaður einstaklingur með einbeittan brotavilja geti ekki komið höggi á það. Ég myndi frekar hafa áhyggjur af geðheilsu viðkomandi en því að það kasti rýrð á söfnunina.

 • Marinó, ef þú hefur ekki orðið var við að geðheilsa margra er tæp þessa stundina hefurðu ekki lesið bloggin undanfarið.

  Leynileg undirskrift er ekki undirskrift. Ég get ekki skrifað leynilega undir neitt sem á að taka mark á. Undirskriftarsöfnun er andstæða leynilegra kosninga en hér er reynt að rugla þessu tvennu saman.

  Ef ég skrifa undir að ég sé á móti einhverju geri ég það heilshugar og vitandi vits. Það mega líka allir sjá að ég hafi gert það og með hverjum ég stend.

  Leynileg undirskriftarsöfnun er ágætis leið til kennitölusöfnunar á rafrænu formi. Hvað verður síðan gert við gögnin veit ég ekki
  og allra síst þeir sem skrifuðu sig á netlistana.

 • Stefán Stefánsson

  Takk fyrir þetta innlegg – sem er vel þegið nún þegar Karl Th er búinn að þagga niður í Eyjublogginu meðan Icesave gengur yfir. Mér finnst þetta aðför að lýðræðinu þvi svo stórt hlutverk hefur eyjan haft í þessari umræðu.

  Það er fullkomlega óeðlilegt að Eyju-vefurinn skuli liggja niðri svooona lengi – og einmitt þessa daga meðan verið er að troða Iceslave oní hálsinn á forsetanum og þjóðinni.
  Baklandinu er kippt í burt.
  Menn taka inn hræðsluáróðurinn og stilla forsetanum uppvið vegg. Skömm forsetans verður ævarandi ef hann verður ósamkvæmur sjálfum sér og leggur þetta ekki fyrir þjóðina. Það væri bæði stílbrot og svik.

 • Leifur Björnsson

  Leynileg undirskriftasöfnun er algjörlega ómarktæk og það á við um þessa undirskriftasöfnun.
  Aðalsökudólgarnir í Icesave voru allir Sjálfstæðissmenn.Ástæðan fyrir því að Noregur og Liechenstein eiga ekki í Icesave deilu er sú að þar er enginn Sjálfstæðissflokkur.
  Tek undir með Agnari að trúverðugleiki Sjálfstæðissflokksins er enginn á meðan Davíð ,Kjartan og aðrir aðalsökudólgar Icesave eru ekki reknir úr flokknum.
  Réttlætið í Icesave felst í því að flokksbundið Sjálfstæðissflokksfólk borgi Icesave þeirra er ábyrgðin.

 • Engin spurning þóðin á að kjósa um þetta
  ömurlega mál.
  42gr. stjórnarskrárinnar leyfir ekki að óútfylltur víxill sé settur gjaldamegin í fjárlagafrumvarp, allar upphæðir í fjárlagafrumvarpi, hvers árs skulu fastákveðnar.Annað er brot á stjórnarskránni 42.gr.

 • Anna Ólafsdóttir

  Það hefur verið sorglegt að fylgjast með umræðunni um undirskriftalistann. Langflestir fylgjendur þess að málið fari í þjóðaratkvæði og þá sérstaklega andstæðingar samningsins virðast tilbúnir að gefa afslátt af kröfum um vönduð vinnubrögð og áreiðanleika undirskriftalistans vegna þess hversu sterkt það trúir á málstaðinn. Gagnrýnin hugsun virðist fokin út í veður og vind. Allir gallar eru afgreiddir sem léttvægir og fólk sem bendir á þá er ýmist úthrópað sem markleysingjar eða skemmdarvargar.
  Ég ætla samt að leyfa mér að benda á það sem komið hefur fram og gerir það að verkum að ég véfengi áreiðanleika þessa lista.
  1. Nöfn eru ekki sýnileg og það er ekki fræðilegur möguleiki að ég kaupi þau rök að undirskriftalisti eigi að vera leynilegur. Hann er hvorki skoðanakönnun né kosning, hann er statement eins og Teitur Atlason benti réttilega á.
  2. Ekki er hægt að fletta sér upp á síðunni til að athuga hvort nafnið manns hafi verið notað að manni forspurðum. Það hafa komið fram í umræðunni margvíslegar ábendingar um að fólk hafi skráð fleiri en sjálft sig og það án þess að spyrja. Það er ekki hægt að afgreiða slíkt sem sögusagnir og taka ekki mark á því. Það þarf að vera hægt að athuga hvort það reynist rétt og það er ekki hægt vegna leyndarinnar.
  3. Það er afar sérkennilegt og býður upp á alls kyns vangaveltur um hvort hægt sé að treysta aðstandendum þessarar undirskriftasöfnunar ef það er rétt sem kemur fram á bloggsíðu Teits að þeir sem settu upp könnunina hafi meðvitað ekki nýtt möguleikann sem kerfið bauð upp á að þeir sem undirrituðu gæfu upp netfang og fengju staðfestingarpóst og enn tortryggilegra ef það er rétt að þeir hafi líka gert óvirka vörn (eitthvað sem kallað er Captcha) gegn því að hægt sé að láta forrit sjá um að setja inn undirskriftir.
  Það væri hægt að nefna fleira eins og óeðlilega mikla umferð á síðunni á tímum þegar þorri landsmanna er sofandi. Það hefur líka verið fundið að þessari máttlausu tilraun til að hringja út í fólk til að tékka hvort það hafi skrifað undir. Svanur Kristjáns, prófessor í stjórnmálafræði bendir á að það sé svo langt frá því að geta kallast marktækt að hringja í hundrað manns.
  Ég hef verulegar áhyggjur af því fordæmi sem svona óvönduð og vafasöm vinnubrögð gefa og enn meiri áhyggjur hef ég ef staðan er orðin sú að heit trú fólks á það að málstaðurinn sé göfugur og mikilvægur dugar því til að horfa framhjá alvarlegum göllum á verkfæri sem nota á sem rök fyrir synjun forseta á lögum sem Alþingi hefur sett.

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur