Ný sveitarstjórnarlög hafa verið í vinnslu í u.þ.b. tvö ár. Samvinna var milli ríkis og sveitarfélaga við vinnslu frumvarpsins og höfðu sveitarstjórnarmenn tækifæri til þess á fleiri en einu landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga að gera tillögur að breytingum og koma á framfæri athugasemdum. Nýttu sveitarstjórnarmenn sér þetta vel sem og athugasemdaferlið eftir að málið var komið til Alþingis.
Þó Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi vissulega beitt sér gagnvart ríkisstjórninni gagnvart skuldum almennt, þ.á.m. skuldum sveitarfélaga þá var öllum ljóst að skuldir yrðu að lækka hjá mjög mörgum sveitarfélögum. Til þess þurfti ekki heilt efnahagshrun og AGS. Sem dæmi má nefna að í mars 2007 undirrituðu Samband íslenskra sveitarfélaga og fjármálaráðuneytið yfirlýsingu um aðgerðir til að lækka skuldir sveitarfélaga og að þau myndu setja sér strangari fjármálareglur en eru í núgildandi sveitarstjórnarlögum. Þetta var í mars 2007 eða einu og hálfu ári fyrir hrun, ríkissjóður nánast orðinn skuldlaus en skuldir sveitarfélaga höfðu farið vaxandi vegna mikilla framkvæmda og vaxtar í mörgum þeirra en í öðrum vegna erfiðleika og fólksfækkunar.
Það er ekki annað að heyra en að sveitarstjórnarfólk vítt og breitt um landið sé tiltölulega sátt við að setja þrengri ramma um fjármál sveitarfélaga og margir hafa kallað eftir því lengi vel. Jafnframt gerum við okkur öll grein fyrir því að það tekur tíma að ná skuldum í þetta jafnvægi, frumvarpið var með sex ára aðlögunartíma en sérstök nefnd sem vann tillögur um fjármálareglur talaði um 10 ár. Ég tel 10 ár vera lágmarkstíma til að ná þessu fram og tel að í sumum tilfellum þurfi jafnvel lengri tíma en það.
Rita ummæli
Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.