Föstudagur 17.06.2011 - 20:00 - 1 ummæli

Útskrift 17. júní á Hrafnseyri

Áður en hátíðardagskrá 17. júní og sérstök afmælisdagskrá vegna 200 ára ártíðar Jóns Sigurðssonar hófst á Hrafnseyri í dag, var útskrift á vegum Háskólaseturs Vestfjarða.

Annað árið í röð útskrifast mastersnemar úr Haf- og strandsvæðastjórnun sem kennd er á Ísafirði við Háskólasetur Vestfjarða. Námið er alþjóðlegt og allt kennt á ensku (e. Coastal and Marine Management). Að þessu sinni útskrifuðust 13 nemar af 20 sem voru í náminu í vetur. Í fyrra voru 10 nemar en það var fyrsti árgangurinn í mastersnámi við Háskólasetur Vestfjarða.

Útskriftin var hátíðleg og einkar ánægjuleg. Útskrift á Hrafnseyri þann 17. júní er einkar heppilegur vettvangur að mínu mati.

Þá undirstrikar útskriftin mikilvægi þess að byggja upp menntastofnun á borð við Háskólasetur Vestfjarða hér fyrir vestan. Mikilvægt er að vel takist til við að byggja áfram upp í tengslum við mastersnámið. Á borðum stjórnar Háskólaseturs Vestfjarða eru klárar tillögur um næstu skref í þeim málum.

Forsætisráðherra tilkynnti í ræðu sinni á Hrafnseyri í dag um prófessorsstöðu við Háskóla Íslands sem verður tileinkuð Jóni Sigurðssyni. Ætlunin er að staðan verði á Ísafirði eða nágrenni við Fræðasetur Háskóla Íslands. Hvernig sem það verður útfært er þetta ánægjuleg ákvörðun og vonandi munu Háskólasetur Vestfjarða sem er kennslustofnun og Fræðasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum eiga gott samstarf um þessi mál sem og önnur.

Gleðilegan þjóðhátíðardag.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (1)

  • Snorri Sturluson

    Mikil bólga hefur hlaupið í orðskrípið ,,stjórnun.“

    Um leið og óstjórn færist í vöxt á öllum sviðum.

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur