Sunnudagur 25.09.2011 - 22:02 - 2 ummæli

Hjúkrunarheimili

Það er fagnaðarefni að fleiri hjúkrunarheimili verði byggð á næstu misserum hér á landi. Víða hefur verið barist fyrir bættri aðstöðu þeirra sem þurfa að dvelja á hjúkrunarheimili. Sveitarfélög hafa lagt fram áætlanir og beiðnir um fjármagn frá ríkinu til byggingar hjúkrunarheimila og til rekstrar þeirra. Þetta er verkefni sem ríkið á skv. lögum að sinna þó sveitarfélögin eigi að koma að því í litlum mæli. Þrátt fyrir að þetta sé verkefni ríkisins eru mörg dæmi þekkt um að sveitarfélög hafi orðið að taka á sig stærri hluta rekstrar en reiknað er með vegna þess að ríkið heldur sig við fastar og fyrirfram ákveðnar fjárhæðir en sveitarfélögin klára svo málið þrátt fyrir að í raun sé það ekki þeirra hlutverk.

Um þessar mundir er umræða um þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að heimila nokkrum sveitarfélögum að byggja hjúkrunarheimili. Þetta er ánægjuleg ákvörðun og ekki að heyra annað en að flestir ef ekki allir séu ánægðir með að bæta eigi aðstöðu á þessum stöðum. Hins vegar hefur verið umræða um aðferð ríkisins við fjármögnun þessara hjúkrunarheimila. Ég talaði sjálfur um þetta í viðtali í sjónvarpinu þann 17. september sl.

Tilefni þessarar umræðu er sú staðreynd að ríkið er að fara sömu leið og sum sveitarfélög fóru fyrir nokkrum árum og var mjög gagnrýnd. Þ.e. að láta annan byggja og skuldsetja sig en greiða framkvæmdina til baka á ákveðnum árafjölda. Nokkur sveitarfélög gerðu þetta með samningum við fyrirtækið Fasteign sem þau áttu jafnframt hlut í og greiddu leigu til þess fyrirtækis en áttu ekki eignirnar. Þessi sveitarfélög sýndu skuldbindingu ekki með öðrum hætti í ársreikningi en með athugasemdum. Þessu var svo breytt hjá sveitarfélögunum og gert skylt að birta skuldbindinguna með öðrum skuldum í efnahagsreikningi.

Hins vegar er ríkið ekki að gera þetta og það hefur verið gagnrýnt. Ég kalla þetta tvískinnung í viðtalinu 17. september. Þó aðferðin sé gagnrýnd og bent á þennan tvískinnung, þ.e. að annars vegar voru sveitarfélögin gagnrýnd og reglum breytt en sömu aðferð og gagnrýnt var að sveitarfélögin notuðu er svo beitt ríkismegin. Ég get ekki merkt í þessari gagnrýni að nokkur vilji vinna gegn því að hjúkrunarheimili verð byggð eins og t.d. Björn Valur alþingismaður er að tala um í nýlegum skrifum sínum. Það er einungis verið að tala um aðferðina við fjármögnun og hvernig ríkið færir skuldbindinguna í sínum reikningum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (2)

  • Heldurðu að Steingrímur hafi þegið ráð um fjármögnunina frá stjórnarformanni Fasteignar, Árna Sigfússyni?

  • Halldór Halldórsson

    Nei ég reikna ekki með því. Hann hefði þá væntanlega fengið þá ráðleggingu að sýna skuldina í ríkisreikningi eins og gert er í reikningum sveitarfélaga. Það var hins vegar ekki gert hjá sveitarfélögum, það hefur verið lagað og óþarfi hjá ríkinu að nýta sér ekki þá reynslu.

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur