Þriðjudagur 27.09.2011 - 14:08 - Rita ummæli

Sveitarfélögin og stjórnarskrá

Neðanritað er leiðari sem ég skrifaði í síðasta tbl. Sveitarstjórnarmála.

Í lok júlí afhenti stjórnlagaráð forseta Alþingis frumvarp til stjórnskipunarlaga. Rétt eins og skoðanir hafa verið skiptar um skipan stjórnlagaráðs verður án efa hart deilt um ýmsar þeirra tillagna sem settar eru fram í skjalinu, t.d. um náttúruauðlindir og um hlutverk forseta Íslands.

Þó skoðanir séu skiptar innan stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga um þörf þess að endurskoða stjórnarskrána og niðurstöðu stjórnlagaráðs þá var að sjálfsögðu fylgst með störfum þess og þá einkum mótun ákvæða um sveitarfélögin.  Fulltrúar sambandsins og stjórnlagaráðs funduðu sérstaklega um þau ákvæði og var það tækifæri nýtt til þess að kynna þær áherslur á sjálfsstjórnarrétt sveitarfélaga sem fram koma í Evrópusáttmála um sjálfsstjórn sveitarfélaga. Einnig var rætt um megináherslur í frumvarpi til nýrra sveitarstjórnarlaga, sem nú liggur fyrir Alþingi.

Í sjöunda kafla frumvarps að nýrri stjórnarskrá er að finna mun ítarlegri ákvæði um sveitarfélögin en í gildandi stjórnarskrá. Sveitarfélögin fá því umtalsvert meira vægi og sterkari stöðu gagnvart ríkisstjórn og Alþingi í stjórnarskránni ef tillögur stjórnlagaráðs ná fram að ganga. Nýmæli koma fram í 106. og 108. gr. frumvarpsins. Í fyrrnefnda ákvæðinu er kveðið á um svonefnda nálægðarreglu og hljóðar greinin svo: Á hendi sveitarfélaga, eða samtaka í umboði þeirra, eru þeir þættir opinberrar þjónustu sem best þykir fyrir komið í héraði svo sem nánar skal kveðið á um í lögum. Síðarnefnda greinin fjallar um samráðsskyldu ríkisins við sveitarfélögin og hljóðar hún svo: Samráð skal haft við sveitarstjórnir og samtök þeirra við undirbúning lagasetningar sem varðar málefni sveitarfélaga.

Það sem einkum vantar upp á að evrópusáttmálinn geti talist að fullu innleiddur hér á landi er að sveitarfélög geta ekki borið undir dómstóla meint brot gegn sjálfsstjórnarréttinum, sbr. 11. gr. sáttmálans. Á þetta atriði var sérstaklega bent í erindi sambandsins til stjórnlagaráðs en stjórnlagaráð virðist ekki hafa gert sér grein fyrir mikilvægi þessa og leggur ekki fram tillögur að breytingum í frumvarpinu.

Það hlýtur að vera sameiginlegt markmið sveitarstjórna um land allt að sjálfsstjórnarrétturinn verði viðurkenndur á sem gleggstan hátt í nýrri stjórnarskrá, þótt jafnframt verði að virða þá skoðun sem fjölmargir hafa lýst, að stjórnskráin sé ágæt eins og hún er. Sambandið mun því væntanlega árétta framangreind tvö atriði í umsögn sinni til Alþingis og fylgja þeim sjónarmiðum eftir við þau tækifæri sem gefast á komandi mánuðum og misserum. Svo er að sjá hvernig Alþingi vinnur úr framkomnum hugmyndum stjórnlagaráðs. Þar og síðan hjá þjóðinni liggur valdið til breytinga á stjórnarskrá, stjórnlagaráð hefur einungis stöðu ráðgefandi nefndar í stjórnarskrármálinu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur