Miðvikudagur 12.10.2011 - 13:41 - Rita ummæli

Fjármálaráðstefna 13. og 14. okt.

Á morgun, 13. október kl. 10:00 verður árleg fjármálaráðstefna sveitarfélaganna sett. Fulltrúar sveitarfélaganna hringinn í kringum landið koma til tveggja daga ráðstefnu til að fjalla um stöðu sveitarfélaganna, stöðu ríkissjóðs, fjárlög, fjárhagsáætlanir og framtíðarhorfur. Það er áhugavert fyrir fjölmiðlafólk að fylgjast vel með fjármálaráðstefnunni og þeim upplýsandi erindum sem þar verða flutt. Oft er fjallað um rekstrarstöðu sveitarfélaga í fjölmiðlum og þarna gefst upplagt tækifæri til að fá mikið af upplýsingum á tiltölulega stuttum tíma.

Að öllu jöfnu hafa sveitarstjórnarmenn verið ánægðir með fjármálaráðstefnur, telja að þær skili miklum upplýsingum og leggi þannig inn í þá miklu vinnu sem nú stendur yfir í sveitarfélögunum við fjárhagsáætlun ársins 2012.

Hefð er fyrir því að fjármálaráðherra ávarpi fjármálaráðstefnu og taki þátt í umræðum. Af og til kemur forsætisráðherra líka með ávarp og það mun forsætisráðherra okkar gera á morgun.

Mörg áhugaverð erindi verða flutt, m.a. um stöðu sveitarfélaganna í dag og getu þeirra til að ná skuldum niður fyrir 150% markið á næstu 10 árum eins og skylt verður skv. nýsamþykktum sveitarstjórnarlögum. Staða sveitarfélaganna er mjög misjöfn og því er sérlega áhugavert að fylgjast með erindi á borð við þetta þar sem tölulegar staðreyndir eru bornar á borð. Þær sýna að staða íslenskra sveitarfélaga er vel viðráðanleg þegar á heildina er litið.

Ýmis fyrirtæki og einstaklingar hafa fengið ákveðna lagfæringu mála sinna vegna erlendra lána en það hefur ekki átt við um sveitarfélögin sem eru að takast á við þau mál eftir bestu getu. Þegar hrunið verður er ríkissjóður því sem næst skuldlaus en því miður voru sveitarsjóðir margir hverjir mjög skuldsettir eftir mikla uppbyggingu og fjárfestingu í þeim sveitarfélögum. Fyrir hrun kölluðum við það vaxtarsveitarfélög. Þegar þetta er haft í huga er ekki óeðlilegt að við þurfum að gefa okkur tíma til að ná fyrri stöðu með niðurgreiðslu skulda og verulega aðhaldi í rekstri.

Aukinn hagvöxtur myndi hjálpa sveitarfélögum og þjóðfélaginu öllu við að komast hraðar út úr núverandi ástandi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur