Þriðjudagur 18.10.2011 - 08:02 - 1 ummæli

Pólitískt vandamál

Nú sit ég sveitarstjórnarþing Evrópuráðsins í Strasbourg. Þau eru haldin tvisvar á ári. Ísland á þrjú sæti í þessum hluta Evrópuráðsins (The Congress of Local and Regional Authorities of the Council of Europe). Mér finnst umræðan mjög oft merkilega lík því sem við þekkjum á Íslandi um mörg mál. Í morgun hefur staðið yfir umræða um samskipti ríkis og sveitarstjórnarstigs. Hver ræðumaðurinn á fætur öðrum, frá ótal löndum í Evrópu, hefur staðið hér upp og lýst yfir vandamálum vegna kreppunnar og um leið vandamálum í samskiptum við ríkisvaldið.

Og hver eru þessi vandamál í samskiptum við ríkisvaldið. Jú því er lýst með svipuðum hætti og ég lýsti í setningarræðu minni á Fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í síðustu viku. Það snýst mikið um vald ríkisins og skort á samráð um fjölmörg mál. Það snýst um viðhorf og skort á virðingu fyrir kjörnum fulltrúum á sveitarstjórnarstiginu.

Sumt af því sem hér hefur verið sagt gæti ég tekið undir en sem betur fer eru gleðilegar undantekningar varðandi þessi samskipti. Ég tel að nýsamþykkt sveitarstjórnarlög muni hjálpa okkur í því sambandi. Þar skiptir t.d. miklu máli að nú er lagaskylda að meta afleiðingar laga og reglugerða á fjárhag sveitarfélaga.

Sumir sem tóku til máls hér í morgun sögðu að samskipti ríkis og sveitarfélaga væru pólitískt vandamál og vandamál hugarfarsins. Ég vona að við séum á réttri leið á Íslandi með þessi samskipti eins og ég sagði á Fjármálaráðstefnunni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (1)

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur