Í upphafi vil ég óska öllum gleðilegs og gæfuríks árs.
Eðlilega hefur verið töluverð umræða um samgöngumál og orkumál eftir óveðrið sem geisaði á Vestfjörðum og víðar undanfarna daga. Rétt viðbrögð hjá almenningi er að halda sig heima. Reikna má með að einhvern tíma taki að opna vegi eftir slík veður, sérstaklega þar sem vegur um varhugaverðar hlíðar á borð við Súðavíkurhlíð er hluti þjóðvegarins. Það er komin allnokkur ár síðan Fjórðungsþing Vestfirðinga samþykkti ályktun um Súðavíkurgöng sem skyldu koma á eftir Dýrafjarðargöngum. Til þess þarf fjármagn sem er af skornum skammti hjá ríkinu.
Mesta umræðan hefur verið um orkumálin því varaflið klikkaði hjá Orkubúi Vestfjarða og kom það flestum á óvart. Hörkuduglegir starfsmenn Orkubúsins hafa lagt sig fram um að leysa málin við erfiðar aðstæður og alls staðar komið rafmagn þó margt eigi enn eftir að leysa.
Það þarf að taka varaaflsmálin miklu fastari tökum heldur en gert hefur verið. Margoft hefur verið kallað eftir því en málið tekið vettlingatökum þrátt fyrir miklar yfirlýsingar ráðherra og þingmanna. Ég minni t.d. á ummæli Össurar Skarphéðinssonar frá því að hann var iðnaðarráðherra þar sem hann sagði þessi mál í forgangi og ávítaði nánast bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar fyrir að vera með nöldur yfir þessum málum.
Þessi ályktun er ein margra sem komið hafa frá Vestfirðingum um þessi mál og snýr að virkjun Hvalár í Ófeigsfirði en með því að virkja þar næðist hringtenging rafmagns um Vestfirði og almennilegt varaafl með tengingu yfir Djúp til Ísafjarðar:
Áskorun til ríkisstjórnar Íslands varðandi virkjun Hvalár í Ófeigsfirði.
Undirritaðir beina þeim eindregnu tilmælum til ríkisstjórnar Íslands að hún beiti sér fyrir að tengigjöld Hvalárvirkjunar verði greidd úr sameiginlegum sjóði allra landsmanna, ríkissjóði.
Forsenda þess að Hvalárvirkjun verði að veruleika á allra næstu árum er sú að virkjunaraðilar þurfi ekki að bera tengikostnað virkjunarinnar við raforkuflutningskerfi Landsnets.
Virkjun Hvalár mun skipta sköpum fyrir atvinnuuppbyggingu og mannlíf á Vestfjörðum og má m.a. benda á eftirfarandi þætti.
1. Fjöldi nýrra starfa á byggingartíma virkjunarinnar.
2. Að lokinni byggingu virkjunarinnar og tengingu hennar við raforkuflutningskerfi Landsnets á Ísafirði verður afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum orðið ásættanlegt.
3. Með auknu framboði á tryggri raforku opnast nýir möguleikar í atvinnuuppbyggingu á Vestfjörðum og má í því sambandi benda á gagnaver, en staðsetning þeirra á svæðum þar sem lítil hætta er á jarðskjálftum er eftirsóknarverð.
Ísafirði 21. apríl 2009
Með von um skjót viðbrögð
f.h. Ísafjarðarbæjar
Halldór Halldórsson, bæjarstjóri
f.h. Fjórðungssambands Vestfirðinga
Aðalsteinn Óskarsson, framkvæmdastjóri
f.h. Orkubús Vestfjarða
Kristján Haraldsson, Orkubússtjóri
Allt í góðu með virkjuninuna, En: „verður afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum orðið ásættanlegt“. Er rangt. Þessi virkjun hefur ekkert með „afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum“ að gera.
Það er ekki orkuvandi á Vestfjörðum, -Þar er hinsvegar afhendingaröryggi afar lélegt og órökrétt að ráðast að afhendingarvandanum með aukinni orkugetu.
Vestfirðingar fá megnið af sinni raforku um langan veg um línu um Barðaströnd sem liggur að Mjólká og áfram það til Bolungarvíkur. Þetta eru allt loftlínur sem liggja um veðrasamt fjallendi. Þessar línur eru að meðaltali bilaðar allt að viku á hverjum vetri.
Hvað á að gera við orkuna úr Hvalá aðra daga en þessa viku? -jú það má flytja hana eftir þessum sömu línum að Byggðarlínu -en er e-h kaupandi þar sem greiðir ásættanlegt verð?
Nærtækara og ódýrara er að skipta út bilanagjarnasta hluta núverandi raflína með jarðstreng (sem í dag ber 15% vörugjald en loftlínuefni er gjaldfrjálst) og koma upp nútímalegri díselstöð á Bolungarvík sem ræsir sig sjálfvirkt þegar línur bila. Olíukaup í viku hvern vetur eru smámunir miðað við kostnaðinn af þeirri framkvæmd sem nefnd er hér að framan og óskað er eftir ölmusu fyrir.
Talandi um olíukaup, -forstjóri OV sem undir þetta skrifar ætti að sjá sóma sinn í því að hafa olíu á dísilvélunum þegar spáð er ofsaviðri.
Góðar stundir.
Ótrúlega fávísleg áskorun frá mönnum sem eiga að vita betur. Virkjunin sem slík gengur tæknilega upp.
Tengikostnaðurinn við netið er hinsvegar yfirgengilegur. Háspennulína yfir hálent veðravíti og sæstrengur til Ísafjarðar gerir þetta óraunhæft.
Það er ábyggilega hægt að styðja við atvinnulíf á Vestfjörðum af meiri visku en þarna er borin fram.
Finst þettað skrítið þettað með 15% vorugjöldinn. En mætti ekki setja þettað inni jarðgönginn sem eru sumstaðar er það mikill krókur.Gét ekki séð að ný virkjun bæti nokkru um afhendíngaröryggi nema ef vera skildi að selja rafmagn út fyrir svæðið til að fjármagna nýja línu.
P.S. Vonandi geingur þettað vel með að flitja vörurna á sjó einsog hugmindin erað gera það mun auka atvinumöguleika svæðisins.