Sunnudagur 09.12.2012 - 18:17 - Rita ummæli

Sveitarfélögin og stjórnarskráin

Þann 16. nóvember síðastliðinn lagði meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis fram frumvarp til stjórnskipunarlaga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Frumvarpið er að stærstum hluta byggt á tillögum Stjórnlagaráðs en við gerð þess var höfð hliðsjón af niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu sem fram fór í október og tillögum sérfræðinganefndar sem yfirfór tillögur Stjórnlagaráðs. Ljóst er að hér er um að ræða mál sem getur snert sveitarfélögin á margvíslegan hátt og er því vart við öðru að búast en að sveitarfélögin vilji fá tækifæri til að tjá sig um efni frumvarpsins.

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur reynt eftir mætti að fylgjast með framvindu þessa máls undanfarin ár en hins vegar hefur sambandið aldrei átt beina aðkomu að málinu, t.d. var því ekki boðið að tilnefna fulltrúa í stjórnlaganefnd. Sambandið hefur hins vegar eftir megni reynt að koma á framfæri sjónarmiðum um tiltekna þætti málsins, m.a. á fundi með fulltrúum í stjórnlagaráði í júní 2011 og á fundi með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í nóvember sama ár.
Út úr því samráði kom ýmislegt jákvætt og er sá kafli frumvarpsins sem fjallar um sveitarfélögin til þess fallinn að styrkja stjórnskipulega stöðu sveitarstjórnarstigsins umtalsvert. Má í því sambandi sérstaklega vísa til nýrra ákvæða um nálægðarreglu í 106. gr. og samráðsskyldu við undirbúning lagafrumvarpa sem varða sveitarfélögin með beinum hætti í 108. gr.

Það er samt í raun fyrst núna, þegar frumvarp til stjórnskipunarlaga er lagt fram á Alþingi, sem talist getur tímabært að vinna heildstæða umsögn um þær tillögur sem felast í frumvarpinu. Þetta er ekki einfalt verkefni og í frumvarpinu eru fjölmörg umdeild ákvæði. Til að vinna vandaða umsögn þarf að fara yfir sjálft frumvarpið, skýringar við það og önnur gögn sem liggja til grundvallar frumvarpinu, þar á meðal álit sérfræðinganefndar sem falið var að yfirfara frumvarpstillögur Stjórnlagaráðs.
Vegna umfangs og mikilvægis málsins er hér ekki um að ræða verkefni sem hægt er að vinna á örfáum dögum, allra síst í því mikla annríki sem jafnan er í nóvember og desember vegna þingmála og lagafrumvarpa sem unnið er að í ráðuneytum. Nægir til áréttingar að benda á að frumvarpið ásamt skýringum við það er 252 blaðsíður.
Raunar hlýtur sama staða að vera uppi hjá þeim þingnefndum sem óskað er eftir að veiti umsögn um málið og hjá opinberum stofnunum og öðrum hagsmunaaðilum sem hljóta að þurfa að fjalla um málið. Að áliti sambandsins er raunhæfur umsagnarfrestur um svo viðamikið mál 6-8 vikur, jafnvel þótt verkefnið verði sett í forgang, en ljóst er að starfsmenn sambandsins eða einstakra sveitarfélaga geta ekki lagt öll önnur verkefni til hliðar á meðan málið er til umsagnar. Þannig eru fjölmörg mikilvæg frumvörp til umfjöllunar á Alþingi eða í lokaundirbúningi í ráðuneytum, svo sem frumvörp til laga um almenningssamgöngur, persónukjör í sveitarstjórnum og meðhöndlun úrgangs. Allt eru þetta mál sem skipta sveitarfélögin verulegu máli.

Einnig er ástæða til að benda á að þar sem frumvarpið er lagt fram af meirihluta þingnefndar fylgir því ekki umsögn um möguleg fjárhagsleg áhrif á sveitarfélögin, sbr. 129. gr. sveitarstjórnarlaga, þar sem kveðið er á um að umsögn skuli fylgja öllum stjórnarfrumvörpum sem geta haft fjárhagsleg áhrif á sveitarfélögin. Sambandið telur þó afar mikilvægt að slík umsögn verði unnin enda er augljóst að áhrif einstakra ákvæða stjórnskipunarlaga, t.d. um framfærslurétt, fræðslumál og fleiri atriði geta haft gríðarleg fjárhagsleg áhrif fyrir sveitarfélögin.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða hefur Samband íslenskra sveitarfélaga óskað eftir því við stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis að rúmur umsagnarfrestur verði veittur sveitarfélögum og samtökum þeirra til að fjalla um frumvarpið. Svar hefur ekki ennþá borist við þessari beiðni sambandsins. Það er hins vegar alveg ljóst að sambandið mun ekki skila endanlegri umsögn sinni um frumvarpið fyrir 13. desember, eins og þingnefndin hefur óskað eftir. Það er einfaldlega eindregin afstaða af hálfu sambandsins að sýna verði því verkefni sem heildarendurskoðun stjórnarskrár íslenska lýðveldisins er, meiri virðingu en svo að gefa þeim, sem um málið þurfa að fjalla aðeins tveggja vikna umsagnarfrest.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur