Það er ótrúlegt og hreinlega til skammar að ritverk Hallgríms Helgasonar, Konan við 1000 gráður skuli tilnefnd til Norrænu bókmenntaverðlaunanna.
Eins og Guðrún Jónsdóttir bendir á í grein sinni í Fréttablaðinu og á visir.is þá er ævi móður hennar Brynhildar Björnsson notuð og skrumskæld. Höfundurinn hefur ítrekað að þetta sé skáldsaga. Við sem þekktum Brynhildi vitum að þetta er skáldsaga og vitum hvað er raunverulegt og hvað ekki. En hvað með fólk sem þekkti hana ekki? Hvernig eiga þeir lesendur að gera mun á raunveruleika og skáldskap? Í þessari sögu eru raunveruleg nöfn notuð. Það kemur fram að þetta sé byggt á ævi Brynhildar þó hún sé kölluð Herborg og svo eru nöfn margra ættingja hennar notuð óbreytt. Samt er þetta sögð skáldsaga. Það er ömurlegt að lesa þessa bók og sjá hvernig höfundurinn afskræmir ævi Brynhildar.
Það er til skammar að þetta sé framlag Íslands til bókmenntaverðlauna.
Maður þarf ekki að hafa upplifað margt á mjög mörgum árum – hvað þá að hafa lesið ógrynnin öll af skáldskap – til að átta sig á því að skáldskapur styðst við raunveruleikann og þ.á.m. við raunverulegar persónur. Ef þú telur að skáldskapurinn eigi annað hvort að styðjast við staðreyndir (og þá erum við lentir í þversögn) eða að hann megi eingöngu lýsa því fagra í okkar fari, þá ertu að gerast sekur um skort á bókmenntalegum skilningi, þröngsýni og (án þess að ég vilji ýja að því sérstaklega) listrænum þroska.
Þess vegna verð ég að mótmæla því að það sé „ótrúlegt og hreinlega til skammar“ að skáldsaga sem er byggð á raunverulegum persónum sé tilnefnd til verðlauna nema þú getir með bókmenntalegum rökum rökstutt þá skoðun frekar.
Á hinn bóginn held ég að þín gagnrýni hafi lítið sem ekkert með skáldskap að gera. Og þar finna til samúðar með þér.
Það vill svo til að ég er nýbúin að lesa umrædda bók og burtséð frá því hvort hún er sannsöguleg eða ekki þá er hún afar vel skrifuð og áhrifamikil. Ég þekki ekki svo vel til að ég viti hversu nákvæmlega ævi Brynhildar Björnsson er lýst í bókinni en giskaði á við lesturinn að margt væri annarsstaðar frá. Engu að síður efast ég ekki um að atburðir eins og þeir sem sagt er frá hafi átt sér stað þó að ekki séu þeir úr hennar lífi, svo að þannig séð eru þeir sannsögulegir og raunverulegir. Mér fannst mikið til um það hvernig þrautseigju og ótrúlegum krafti aðalpersónunnar í þessari bók var lýst og ég get vel skilið að þessi bók hafi fengið tilnefningu til verðlauna.
Mér finnst bókin aftur á móti skemmtileg og vel skrifuð og á hún verðlaunin alveg skilið. En þú spyrð hvernig lesandi skynjar þetta sem ekki þekkti til ævi hennar.
Ég tók þá afstöðu að þetta væri allt skáldskapur byggður að einhverju leiti á raunveruleikanum, eins og mörg önnur skáldverk. Það skiptir mig ekki máli hvað gerðist í raunveruleikanum og hvað ekki. Ég geng út frá því að ævi Brynhildar og persóna séu grunnur sem höfundur byggir á og gerir það vel Aðalpersónan finnst mér mögnuð, sterkur karakter með glöggt auga fyrir því fólki og samfélögum sem hún kynnist. Aftur skiptir það mig ekki máli hvort Brynhildur var þannig eða ekki því þetta er skáldsaga, . Þetta er ekki alls ekki hefðbundin ævisaga og þess vegna segir höfundur ekki frá ævi hennar eins og hún var.
Að gera greinarmun á skáldskap og raunveruleika þegar kemur að skáldsögum skiptir mig ekki máli því ég lít á allan skáldskap sem raunverulegan upp að einhverju marki.
Viltu einnig athuga að fleiri en Hallgrímur hafa byggt persónur á raunverulegu fólki. T.d. Halldór Laxness, Einar Kárason, Einar Már og fjöldi annara íslenskra og erlendra höfunda er Hallgrímur alls ekki að finna upp hjólið þegar kemur að því
Þetta er mín upplifun sem lesandi sem þekkir ekkert til hinnar raunverulegu Brynhildar.