Þriðjudagur 03.09.2013 - 14:55 - Rita ummæli

Kannanir um launamun kynjanna

Fyrir þá sem lesa bara fyrirsagnir eða hluta greina: ,,Greinarhöfundur er alfarið á móti því að kynjum sé gert mishátt undir höfði í launum. Slíkt á ekki að líðast. Þessi grein fjallar um vandann sem fylgir launakönnunum og mikilvægi þess að unnar verði betri kannanir sem byggi á gögnum hjá hverju og einu sveitarfélagi.“

Í dag er fjallað um nýja launakönnun BSRB sem dregur enn og aftur fram launamun kynjanna. Þessi könnun sýnir fram á að hjá sveitarfélögum sé meiri launamunur en hjá ríkinu. Síðasta könnun BSRB sem er varla ársgömul sýndi fram á að launamunurinn væri meiri hjá ríkinu en sveitarfélögum. Hvað hefur breyst? Varla hafa sveitarfélögin sem eru 74 talsins náð því á tæpu ári að breyta þessum hlutföllum svona mikið, eða hvað? Ný kjarakönnun BHM sem kynnt var 26. ágúst sl. segir að minni launamunur kynjanna sé hjá sveitarfélögum en hjá ríki. Þarna ber glænýjum könnunum ekki saman.

Vandamálið við aðferðafræðina er að þetta er könnun en ekki skoðun á gögnum. Ekki er verið að segja með því að niðurstaðan sé með öllu ómarktæk heldur er hér bent á að það eru frávik í könnunum. T.d. hefur oft verið bent á að konur eru nákvæmari í slíkum könnunum en karlar sem eigi það til að slá á sínar launagreiðslur út frá minni frekar en konur.

Undirritaður hefur lagt áherslu á að sveitarfélög þurfi að vinna launaúttekt frá grunni þar sem farið sé í öll gögn og allar greiðslur til að bera saman laun kynjanna. Reykjanesbær hefur gert þetta og niðurstaðan var sú að ekki fannst marktækur launamunur kynjanna enda á slíkt ekki að líðast nokkurs staðar að fólk fái ekki sömu laun að uppfylltum sambærilegum skilyrðum. Það er fáránlegt árið 2013 ef launamunur er til staðar vegna þess að fólk er ekki af sama kyni.

Sveitarfélögin nota starfsmat við ákvörðun launa. Það kerfi er algjörlega blint á kyn fólks og ætti umfram önnur kerfi að stuðla að auknum launajöfnuði. Þó ekki væri nema vegna þess telur undirritaður meiri líkur til þess að launamunur kynjanna sé minni hjá sveitarfélögum en ríki, rétt eins og þarsíðasta launakönnun BSRB leiddi í ljós. Og sem glæný könnun BHM sýndi fram á fyrir nokkrum dögum.

Ég hvet sveitarfélög til þess að skoða þessi mál ofan í kjölinn hjá sér. Fara í gegnum öll gögn, allar launagreiðslur og ef launamunur kynjanna er einhvers staðar að leiðrétta slíkan ósóma strax.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur