Fimmtudagur 26.09.2013 - 20:28 - Rita ummæli

Náttúruverndarlög úr gildi?

Umræðan um náttúruverndarlög nr. 60/2013 sem taka eiga gildi 1. apríl 2014 hefur verið mikil síðan umhverfisráðherra boðaði upptöku þeirra á þingi. Einhverjir vildu skilja ráðherra þannig að hann væri að boða einvaldsákvörðun um upptöku laga en flestir vita nú væntanlega að slíkt er ekki hægt. Alþingi eitt getur breytt lögum eða sett ný en ekki ráðherrar. Í umræðunni hefur verið fullyrt að lítil sem engin rök séu fyrir því að breyta lögunum. Mig langar í þessari grein að nefna nokkur rök sem snúa að sveitarfélögunum fyrir því að breyta lögunum. Ef þörf reynist er hægt að týna til enn fleiri rök en rúmast í grein sem þessari.

Það er mat okkar hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga að taka megi ákveðna þætti laganna til endurskoðunar og vonumst við til að það verði gert í góðu samstarfi við sveitarstjórnarstigið þar sem það á við. Að okkar mati munu ákveðin ákvæði laganna skerða skipulagsvald sveitarfélaganna. Við vorum reyndar mjög ánægð með samstarfið við umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis á lokastigum frumvarpsins sem varð að þessum lögum. Okkur þótti þáverandi varaformaður, Mörður Árnason, leggja sig fram um að finna lausnir en þá var ferlið á lokstigum. Betra hefði verið að sambandið hefði átt aðkomu að gerð frumvarpsins strax í upphafi enda var óskað eftir því af okkar hálfu enda varða lögin sveitarfélögin á margvíslegan hátt, ekki síst samspil þeirra við hlutverk sveitarfélaga á sviði skipulagsmála. Sveitarfélögin áttu ekki aðkomu að málinu fyrr en í umsagnarferli í september 2012, þ.e. rúmu hálfu ári áður en lögin tóku gildi.

Það er þó mat okkar að heilt á litið hafi frumvarpið lagast mikið í meðförum þingsins, en álit sambandsins var þó að nauðsynlegt væri að nefndin fjallaði aftur um málið á milli 2. og 3. umræðu. Viðbótarumsögn sambandsins var þess vegna send Alþingi 8. mars 2013. Þar eru enn gerðar verulegar athugasemdir við nokkur atriði. Þar vega þyngst athugasemdir við 57. gr., um sérstök verndarsvæði, sem að áliti sambandsins geta falið í sér alvarlega skerðingu á skipulagsvaldi sveitarfélaga. Sambandið hefur raunar ítrekað lagst gegn breytingum á þeirri grein (37. gr. eldri laga) en sjónarmið þess hafa ekki mætt skilningi.

Í viðbótarumsögninni segir um þessa grein:
„3. mgr. 57. gr. Skýringar í nefndaráliti á orðalaginu „brýn nauðsyn“ eru til ákveðinna bóta en samt alls ekki nægjanlegar. Sambandið ítrekar því óánægju með orðalagið „Óheimilt er að raska….nema brýna nauðsyn beri til.“ Eðlilegt væri að lagatextinn endurspegli þá hugsun sem fram kemur í nefndaráliti, þannig að ljóst sé að heimilt er að leyfa framkvæmdir sem eru eðlilegur þáttur í nýtingu landeigenda, svo sem heimarafstöðvar og viðlíka framkvæmdir.
Sambandið leggur sérstaka áherslu á að orðalag greinarinnar verði ekki til þess að nánast allar ákvarðanir sveitarfélaga um leyfisveitingar verði kærðar á þeim grundvelli að framkvæmd þyki ekki nauðsynleg. Í þessu sambandi vill sambandið minna á að meginreglur II. kafla frumvarpsins fela að mörgu leyti í sér sömu reglu. Einnig eru breytingar fyrirhugaðar á lögum um mat á umhverfisáhrifum sem ættu að leiða til þess að áhrif fyrirhugaðra framkvæmda á svæði sem njóta sérstakrar verndar liggi ljósar fyrir áður en kemur að leyfisveitingarferlinu. Afstaða sambandsins er því sú að sú breyting sem felst í 3. mgr. 57. gr. sé með öllu óþörf.
6. mgr. 57. gr. Orðalagsbreyting nefndarinnar er alls ekki til bóta. Er ástæða til að benda á að umsagnir eru alls ekki alltaf svo skýrar að hægt sé að tala um „niðurstöðu“ umsagnaraðila. Verður raunar að telja það orðalag einstaklega óheppilegt m.t.t. hlutverks umsagnaraðila almennt, þar sem álit þeirra er almennt aðeins leiðbeinandi fyrir það stjórnvald sem ákvörðun tekur í hverju máli. Betra orðalag væri: „….fari hún gegn áliti eða tillögum umsagnaraðila.“
Sömuleiðis taldi sambandið mikilvægt að útfæra nánar 37. gr. laganna, sem heimilar ráðherra að banna tímabundið framkvæmdir eða nýtingu svæða. Í viðbótarumsögn segir um þessa grein:
„Að áliti sambandsins eru breytingar sem gerðar hafa verið á greininni til bóta en ákvæðið þyrfti samt að vinna betur. Í greininni er t.d. ekkert tekið fram um hvaða vinna þurfi að fara fram á þeim þrem mánuðum sem bráðabirgðabann er í gildi. Ekki er heldur nefnt hvaða samráðsferli þurfi að fara í gang áður en ákvörðun er tekin um ítrekun banns. Sambandið telur brýnt að tryggja aðkomu sveitarfélaga sem málið varðar að slíkum ákvörðunum.“
Í viðbótarumsögninni eru gerðar ábendingar við fleiri greinar og hefur sambandið m.a. kallað eftir viðræðum um hlutverk náttúruverndarnefnda, sem sveitarstjórnir skipa.
Einnig er það álit sambandsins að veigamikil ákvæði eins og 42. gr., sem fjallar um rétt til skaðabóta, hefðu þurft að fá frekari umræðu áður en frumvarpið varð að lögum. Sama á við um ýmsar skilgreiningar og fleiri útfærsluatriði í lögunum.

Hér eru nefnd örfá dæmi til að benda á að réttlætanlegt er að mati Sambands íslenskra sveitarfélaga að taka lögin til endurskoðunar. Til þess gefst tími enda eiga þau ekki að taka gildi fyrr en á fjórða mánuði næsta árs. Við endurskoðunina leggjum við áherslu á mikilvægi þess að ráðuneyti og Alþingi eigi gott samstarf við sveitarstjórnarstigið í landinu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur