Föstudagur 01.11.2013 - 16:46 - Rita ummæli

Hagkvæmni stærðarinnar nýtist ekki

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu í dag 1. nóvember.

Sjálfstæðisfólk í Reykjavík hefur úr 20 manna fjölbreyttum og hæfileikaríkum hópi að velja í prófkjöri þann 16. nóvember nk. Frambjóðendur eru með ólíkar áherslur og þar af leiðandi er munur á því hvernig þeir vilja nálgast viðfangsefnin. Stefnumál Sjálfstæðisflokksins sameina hópinn.

Ég býð mig fram til fyrsta sætis í prófkjörinu en ég hef langa reynslu af sveitarstjórnarmálum, jafnt á vettvangi Ísafjarðarbæjar sem og á landsvísu hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Ég kom til starfa sem bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar vorið 1998 og var þá sjötti bæjarstjórinn á sjö árum. Því starfi sinnti ég í þrjú kjörtímabil eða í 12 ár uns ég tók þá ákvörðun að bjóða mig ekki fram að nýju. Ég hef aldrei litið á sveitarstjórnarmálin sem stökkpall inn í landsmálin heldur þvert á móti þykir mér þau svo áhugaverður málaflokkur að við þau vil ég starfa.
Þótt mörgum finnist fjármál sveitarfélaga kannski ekki mjög áhugaverð þá er ábyrgur rekstur engu að síður grunnurinn að möguleikanum til að veita góða þjónustu og geta um leið lækkað útgjöld íbúa. Í dag er staðan hins vegar þannig í Reykjavík að borgin virðist vera töluvert langt frá því að nýta sér þá stærðarhagkvæmni í rekstri sem ég tel að svo stórt sveitarfélag eigi að geta nýtt sér. Borgin er yfir landsmeðaltali í launakostnaði og undir landsmeðaltali í afgangi af rekstri (veltufé). Sé hægt að breyta þessu fylgja því ný tækifæri fyrir borgarbúa. En til að breyta þarf að fylgja pólitískri stefnu eftir af ákveðni og hafa hugfast að hlutverk borgarfulltrúa að maður tali nú ekki um borgarstjóra er að sjá til að það sé gert.

Halldór Halldórsson

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur