Sunnudagur 10.11.2013 - 20:22 - 1 ummæli

Einkarekstur á vel heima innan opinberrar þjónustu

Stundum er ágætt að einfalda hlutina og velta fyrir sér rekstri sveitarfélags eins og heimilis. Þó heimilisfólk langi til að smíða sér sumarbústað þarf það ekki að kaupa sér trésmíðaverkstæði. Það þarf ekki heldur að kaupa sér smurstöð til að láta smyrja bílinn sinn eða matvöruverslun til að hafa aðgang að matvælum. Það kaupir þessa þjónustu af öðrum. Sama getur gilt oft um þá þjónustu sem sveitarfélag þarfnast. Hana má kaupa af öðrum.

Í rekstri borgarinnar þarf að velta við hverjum steini til að leita hagræðingar. Stundum notum við kerfi sem einu sinni var gott og við höldum að sé það ennþá. Þess vegna þarf að rýna í það sem við gerum með gagnrýnum hætti reglulega og spyrja spurninga um hvort ekki séu til aðrar og hagkvæmari leiðir.

Sveitarfélög á Íslandi nýta sér einkarekstur við sorphirðu, snjómokstur, slátt og aðra umhirðu í mun ríkari mæli en sjálf höfuðborgin. Þetta gera þau vegna þess að það er hagstætt að þeirra mati. Það á ekki að flytja verkefni yfir í einkarekstur af því bara heldur þegar það er hægt að sýna fram á góða, jafnvel betri þjónustu fyrir lægra verð. Borgin er að reka ýmislegt sem mér finnst að skoða þurfi hvort ekki mega hætta með eða breyta og færa yfir í einkarekstur. Þá getur borgin keypt þá þjónustu sem þarf og leitað hagræðingar. Ef ekki er sýnt fram á hagræðingu er einkareksturinn ekki samkeppnisfær en reynslan sýnir að hann er það mjög oft án þess að þjónustan versni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (1)

  • Einar Steingrímsson

    Þú segir: „Ef ekki er sýnt fram á hagræðingu er einkareksturinn ekki samkeppnisfær en reynslan sýnir að hann er það mjög oft án þess að þjónustan versni.“

    Hvaða reynsla er þetta sem þú ert að vísa til, Halldór?

    Hvað er það sem þú telur helst að ætti að setja í einkarekstur eða athuga hvort sé hagkvæmt að setja í einkarekstur í Reykjavík?

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur