Þriðjudagur 15.04.2014 - 15:02 - 1 ummæli

Húsnæðismál í ógöngum

Eitt stærsta kosningamálið hér í borginni í vor eru húsnæðismálin. Það vantar fleiri þúsund íbúðir inn á markaðinn. Fólk býr lengur heima eða í ósamþykktu húsnæði í iðnaðarhúsnæði. Meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins hefur haft heilt kjörtímabil til að bregðast við en ennþá er verið að setja upp nefndir og starfshópa til að koma með hugmyndir. En það er ljóst hver grunnhugmyndin er. Það er að borgin gerist stærri leigusali en hún er í dag. Það er vond stefna því sagan segir okkur frá misheppnuðum tilraunum sveitarfélaga við að reka húsnæði. Með því er borgin komin inn á samkeppnismarkað þar sem hún verður ávallt undir í samkeppninni við sveigjanlega aðila á markaði. Til að standast samkeppnina þarf því að niðurgreiða leigu og handvelja leigjendur. Það getur svo sem verið draumur einhverra stjórnmálamanna en það nýtist ekki hinum almenna leigjanda.

Leið okkar í Sjálfstæðisflokknum gengur út á að borgin geri það betur sem hún á að gera. Það er að tryggja nægt framboð af lóðum en það hefur ekki verið gert. Með því fjölgar íbúðum á markaði sem leiðir af sér meiri samkeppni og lægra verð til neytenda.

Okkar leið er líka sú að bjóða út lóðir fyrir leiguíbúðir til aðila sem vilja hasla sér völl á leigumarkaði. Lægstbjóðendur í leiguverð fá þá samning við Reykjavíkurborg um að greiða niður lóðaverð á 25 árum gegn því að leiguverð verði sanngjarnt á tímabilinu. Með því tryggjum við framboð á langtíma leiguhúsnæði í Reykjavík án þess að nýta skattfé til að niðurgreiða leigu fyrir suma.

Með þessari aðferð koma margir að byggingu húsnæðis bæði til kaups og leigu. Stúdentar, húsnæðisfélög, einkaaðilar og aðrir sem hafa beina tengingu við markaðinn og búa yfir þeim sveigjanleika og hraða sem þarf einmitt núna til að bæta ástandið á húsnæðismarkaðnum.

Það er heillavænlegra að nota aðferðir okkar í Sjálfstæðisflokknum en það sem núverandi meirihluti segist ætla að gera núna en hefur samt ekki nýtt heilt kjörtímabil til að gera.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (1)

  • Einar Steingrímsson

    Áttu við, Halldór, að þeir sem vilja kaupa lóðir til að byggja leiguhúsnæði ákveði fyrirfram hver leigan verði fyrir húsnæðið, aldarfjórðung fram í tímann? Hver getur gert vitræna áætlun um það?:

    „Lægstbjóðendur í leiguverð fá þá samning við Reykjavíkurborg um að greiða niður lóðaverð á 25 árum gegn því að leiguverð verði sanngjarnt á tímabilinu.“

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur