Ég eins og aðrir hef fylgst með hinu svokallaða lekamáli og furðað mig á því hversu margþvælt það mál er orðið. Það nýjasta í málinu er aðkoma umboðsmanns Alþingis sem spurt hefur spurninga um samtöl innanríkisráðherra við Stefán Eiríksson þáverandi lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, hefur nú svarað umboðsmanni Alþings. Í svarinu bendir hún réttilega á að þessi tiltekni undirmaður hennar stýrði ekki rannsókn lekamálsins. Stjórn þeirrar rannsóknar var í höndum ríkissaksóknara. Eftir sem áður er látið í veðri vaka að þessi samtöl hafi verið óeðlileg. Því hefur verið hafnað og bent á að lögreglustjóri fylgdist ekki einu sinni með rannsókninni frá degi til dags enda var henni stýrt af ríkissaksóknara.
Eins og Hanna Birna hefur margoft sagt þá ræddi hún við Stefán Eiríksson á þeim tíma sem rannsókn stóð yfir. Það gerði hún á þeim forsendum að hann fór ekki með forræði yfir rannsókninni. Ekkert sem hún segði hefði þar áhrif á. Samtölin voru fyrst og fremst til að bera undir Stefán hvað væru eðlilegir hættir í slíkum rannsóknum og hvernig öryggi rannsóknargagna væru almennt tryggð. Samtölin tóku að sjálfsögðu mið af því að Stefán fór ekki með stjórn rannsóknarinnar. Það er ljóst í mínum huga.
Þegar bréf Hönnu Birnu til umboðsmanns er lesið er áberandi að upplifun hennar af samtölum við Stefán Eiríksson þáverandi lögreglustjóra var afar ólík þeirri mynd sem umboðsmaður alþingis dró upp í bréfi sínu. Þótt ótrúlegt sé telur ráðherra sig einnig þurfa að minna umboðsmann á að Stefán Eiríksson hefur sagt að honum þóttu samtölin á engan hátt óviðeigandi eða óþægileg eða til þess fallin að hamla störfum hans.
Ég hef þekkt Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í fjöldamörg ár og starfað með henni. Aldrei hefur borið skugga á okkar samstarf enda einstaklega gott að vinna með henni. Hanna Birna er heiðarlegur stjórnmálamaður og einstaklega hreinskiptin. Það þekki ég. Það þekkir sjálfstæðisfólk almennt og það þekkja þeir sem fylgst hafa með störfum hennar í gegnum tíðina. Hvað sem sagt hefur verið um þetta lekamál og hversu svo sem reynt er að útmála hana sem óheiðarlega þá hefur þessi trú mín á henni ekki breyst.
Rétt eins og samstarfsfólk Hönnu Birnu í ríkisstjórn og þingflokki hef ég fulla trú á heiðarleika hennar. En ég er hugsi yfir því hversu mikið hefur verið hamast á henni sem ráðherra í þessu máli og velti því fyrir mér hvort staða hennar sem konu í stjórnmálum, sterkrar konu í stjórnmálum sé erfiðari en ef hún væri karlmaður. Ég kemst ekki hjá því að velta þessu fyrir mér þegar ég hugsa til fleiri sterkra kvenna í stjórnmálum sem hafa vikið af sviðinu eftir gríðarlega gagnrýni á þær. Oft með mjög persónulegum og óvægnum hætti. Getur það verið að við styðjum síður við konur í stjórnmálum og gerum ríkari kröfur til þeirra en karla? Það er því miður mín tilfinning þegar ég rifja upp málefni fleiri stjórnmálakvenna sem höfðu erindi í stjórnmálin en tóku ákvörðun um að yfirgefa þau eftir mikinn þrýsting.
Rita ummæli
Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.