Föstudagur 19.09.2014 - 17:43 - Rita ummæli

Staða almannavarnamála í Reykjavík – fyrirspurn í borgarráði

Við Íslendingar búum víða við náttúruvá af ýmsum toga. Víða þarf að gera ráðstafanir vegna ofanflóða hvort sem það eru skriður eða snjóflóð. Þá má reikna með sjávarflóðum og svo eru það jarðskjálftarnir og eldgosin.

Lykilatriði gagnvart náttúruvá er undirbúningur, forvarnir, fræðsla, áætlanir og þjálfun sem allra flestra. Upplýsingar til almennings skipta sköpum um að viðbrögð við sérstakar aðstæður séu rétt af hendi sem flestra. Röng viðbrögð geta nefnilega breytt viðráðanlegu ástandi í óviðráðanlegt.

Jarðhræringar og eldgos sem nú eru norðan Vatnajökuls rifja upp þá staðreynd að við búum við náttúrvá víða um landið. Þá vakna spurningar hjá mörgum um viðbúnað og viðbrögð vegna náttúruvár á þéttbýlasta svæði landsins. Ég hef fengið fyrirspurnir frá íbúum um hvernig staðið verði að málum ef eitthvað kemur upp á. Til að fá sem nákvæmastar og bestar upplýsingar þótti mér eðlilegt að fá upplýsingar um stöðu almannavarnamála í Reykjavík, höfuðborgarsvæðinu og nágrenni. Við Júlíus Vífill borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðum þess vegna fram fyrirspurn í borgarráði 18. september til að fá upplýsingar um stöðu mála í dag. Sérstaklega óskuðum við eftir upplýsingum um hver staðan er varðandi greiningu á hættu af náttúruvá eins og eldgosum, jarðskjálftum og sjávarflóðum og hvaða áhrif slík vá getur haft á búsetusvæði sem og veitu- og samgöngumannvirki eins og vegi, götur og flugvöllinn í Reykjavík sem gegnir lykilhlutverki í almannavarnamálum.

Við óskuðum eftir að fenginn verði sérfræðingur frá Almannavörnum á fund borgarráðs til að upplýsa um áhættumat fyrir höfuðborgarsvæðið og samstarf sveitarfélaga og viðbragðsaðila í þeim málaflokki.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur