Þessi fréttatilkynning var send út frá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík eftir umræður á borgarstjórnarfundi.
Gleymum ekki atvinnulífinu
Húsnæðisuppbygging Reykjavíkurborgar var tekin til umræðu á borgarstjórnarfundi í dag. Halldór Halldórsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnir að ekki sé meira tillit tekið til atvinnulífsins og að meirihlutinn sé að gleyma atvinnulífinu, eingöngu sé einblínt á lóðir fyrir íbúðarhúsnæði en skortur er á lóðum fyrir atvinnulífið. Það er eingöngu einblínt á lóðir fyrir íbúðarhúsnæði sem er mikilvægt en það þarf að sinna atvinnulífinu líka því atvinnulífið er grunnurinn að búsetu og lífsgæðum í borginni.
Hann talaði einnig um að stærri hópur vildi eiga sitt húsnæði og það væri mjög mikilvægt að stuðla að því að fólk geti keypt húsnæði á sómasamlegu verði. Fólk verði að hafa alvöru val í húsnæðismálum.
Þörf er á aukinni samkeppni á leigumarkaði
Halldór talaði einnig um að það þyrfti meiri samkeppni á leigumarkaði. Við getum ekki aukið samkeppni á leigumarkaði með því að handvelja samstarfsaðila. Reykjavíkurborg ætti frekar að bjóða út lóðir gegn því að lóðarhafar gangi að ákveðnum skilyrðum sem fallin eru til þess að fjölga leiguíbúðum. Þannig má stuðla að því að húsnæðisfélögum fjölgi og hafi langtímasjónarmið að leiðarljósi. Þá gagnrýndu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins meirihlutann fyrir að upplýsa ekki um útfærslu svokallaðra Reykjavíkurhúsa þrátt fyrir að búið sé að setja þau á dagskrá.
Hildur Sverrisdóttir, varaborgarfulltrúi, tók í sama streng. „Fikt hins opinbera í markaðnum þrýstir alltaf upp verði á endanum og borgin á ekki að taka áhættu með því að taka beinan þátt í samstarfi við bygginga- og leigufélög á almennum markaði fyrir almenna borgarbúa sem þurfa ekki félagslega aðstoð. Fyrir utan að íhlutun hins opinbera gagnvart hópum sem þurfa ekki á skilgreindum stuðningi að halda er ólögleg þar sem engin undanþága frá ESA út af reglum um bann við að borgin íhlutist um slíka opinbera niðurgreiðslu hefur verið veitt“, sagði Hildur í ræðu sinni.
Umræður um húsnæðisuppbyggingu Reykjavíkurborgar náðu vel yfir þriðju klukkustund og tóku allir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þátt í umræðunum.
Í lok umræðunnar var þessi bókun lögð fram af hálfu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á eðlilega samkeppni á leigumarkaði og telur að ekki eigi að handvelja samstarfsaðila eins og nú virðist raunin. Reykjavíkurborg ætti frekar að bjóða út lóðir gegn því að lóðarhafar gangi að ákveðnum skilyrðum sem fallin eru til þess að fjölga leiguíbúðum. Aðalmarkmið borgarinnar á að vera að skapa ramma sem auðveldar einkaaðilum að byggja og leigja út ódýrari íbúðir.
Rita ummæli
Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.